Borgarráð - Fundur nr. 5396

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2016, fimmtudaginn 11. febrúar, var haldinn 5396. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.06. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Sigurður Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Sóley Tómasdóttir, Halldór Halldórsson og Júlíus Vífill Ingvarsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Hallur Símonarson, Hrólfur Jónsson, Helga Björg Ragnarsdóttir, Pétur Ólafsson og Linda Sif Sigurðardóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 19. janúar 2016. R16010006

2. Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 1. febrúar 2016. R16010036

3. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 29. janúar 2016. R16010027

4. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. febrúar 2016. R16010021

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 4 mál. R16020008

6. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs ásamt fylgigögnum, dags. í dag. R16010042

Samþykkt að veita Kóder.is styrk að fjárhæð kr. 400.000.- vegna forritunarnámskeiðs fyrir börn á aldrinum 9-16 ára. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og vísa til bókunar sinnar á fundi borgarráðs 19. júní 2014.

- Kl. 9.10 taka Hjálmar Sveinsson og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir sæti á fundinum.

7. Kynnt tillaga fjármálastjóra og fjárstýringarhóps þar sem lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að fjárhæð 240 m.kr. að nafnvirði, á ávöxtunarkröfunni 3,00%, í skuldabréfaflokk borgarráðs, RVK 53 1. Jafnframt er lagt til að öllum tilboðum í RVKN 35 1 verði hafnað. R16010156

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. febrúar 2016: 

Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi drög að erindisbréfi áhættustýringarhóps Reykjavíkurborgar vegna fjármálalegrar áhættu, sbr. greinargerð með drögum að erindisbréfi. R16010075

Samþykkt.

- Kl. 9.15 víkur Birgir Björn Sigurjónsson af fundinum.

9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. febrúar 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. febrúar 2016 á verklýsingu vegna breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, sem felst í starfsemi við götuhliðar í miðborg, markmið um virkar götuhliðar, skilgreiningu landnotkunar og sérákvæði um starfsemi, göngugötur og torg og almenn markmið um miðborgina. R11060102

Samþykkt.

10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. febrúar 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. febrúar 2016 á auglýsingu varðandi breytingu á deiliskipulagi reits 1.172.2 vegna lóðanna nr. 32B og 34B við Laugaveg. R16020055

Samþykkt.

- Kl. 9.25 tekur Kristbjörg Stephensen sæti á fundinum.

11. Lagt fram að nýju bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. janúar 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 27. janúar 2016 á lokun Laugavegar fyrir umferð frá gatnamótum Vatnsstígs að gatnamótum Þingholtstrætis og Bankastrætis dagana 10.-13. mars nk. Einnig er lagt fram tölvubréf framkvæmdastjóra Miðborgarinnar okkar, dags. 9. febrúar 2016. R16020010

Samþykkt með þeirri breytingu að lokun er heimiluð frá kl. 15.00 á fimmtudeginum 10. mars og föstudeginum 11. mars. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Niðurstaða og tillaga stjórnar Miðborgarinnar okkar er að götum í miðborginni verði lokað vegna HönnunarMars frá kl. 17.00 fimmtudag og föstudag og síðan verði þeim aftur lokað frá morgni laugardags og sunnudags. Mikilvægt er að hafa gott samráð við þá sem starfa og reka fyrirtæki í miðborginni.

12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. febrúar 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. febrúar 2016 á auglýsingu á afnotum af borgarlandi fyrir lengri viðvarandi viðburði í borgarlandi með stórskjám, sviði og annarri meðfylgjandi umgjörð sumarið 2016. R16020054

Samþykkt.

13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júní 2015, sbr. synjun umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. júní 2015 á breytingu á deiliskipulagi Borgartúnsreits vegna lóðarinnar nr. 1 við Guðrúnartún. R15060145

Synjað með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata með vísan til niðurstöðu umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. júní sl. og umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 5. júní 2015, gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Málið fer til fullnaðarafgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48 gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkur og fundarskapa borgarstjórnar.

14. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um endurbætur á gervigrasvöllum sem eru með dekkjakurl á yfirborði, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. október 2015. Jafnframt lögð fram umsögn íþrótta- og tómstundaráðs, dags. 13. nóvember 2015. Einnig er lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 13. nóvember 2015, sbr. samþykkt íþrótta- og tómstundaráðs s.d. á tillögu um gervigrasvelli sem vísað var til borgarráðs. Jafnframt er lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarstjóra, dags. 9. febrúar 2016, ásamt fylgiskjölum:

Óskað er eftir að borgarráð heimili framkvæmdir á endurnýjun gervigrasvallar Víkings samkvæmt áætlun um endurnýjun gervigrasvalla Reykjavíkurborgar. Jafnframt er gert ráð fyrir að vellir KR og Fylkis verði endurnýjaðir árið 2017. R15100319

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í íþrótta- og tómstundaráði hafa flutt tillögur um að ráðist verði í endurbætur á þeim gervigrasvöllum í borginni sem eru með dekkjakurl á yfirborði. Sambærilegar tillögur hafa verið fluttar í borgarstjórn. Um er að ræða gervigrasvelli á svæðum hverfisíþróttafélaga og sparkvelli með gervigrasi á skólalóðum Reykjavíkurborgar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja þetta forgangsmál enda gríðarlega mikilvægt lýðheilsumál.

15. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 1. febrúar 2016, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 27. janúar 2016, á úthlutun almennra styrkja skóla- og frístundaráðs 2016. R16020042

16. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 2. febrúar 2016, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 27. janúar 2016, á úthlutun þróunarstyrkja skóla- og frístundaráðs 2016. R16020041

17. Lagðar fram umsagnir umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. febrúar 2016, og Höfuðborgarstofu, dags. 9. febrúar 2016, um frumvarp til laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald (heimagisting, veitingastaðir án áfengisveitinga, ótímabundin rekstrarleyfi) – 457. mál. R16010265

Samþykkt.

18. Lagðar fram umsagnir umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. febrúar 2016, og velferðarsviðs, dags. 3. febrúar 2016, um frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak o.fl. (smásala áfengis) – 13. mál. R16010272

Umsögn velferðarsviðs er samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúanna Sigurðar Björns Blöndals, Sóleyjar Tómasdóttur, Hjálmars Sveinssonar og Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur. Borgarráðsfulltrúarnir Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson og Halldór Auðar Svansson sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Umsögn umhverfis- og skipulagssviðs samþykkt.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar Framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja áherslu á að núverandi fyrirkomulag smásölu áfengis styður ekki nægilega vel við markmið í Aðalskipulagi Reykjavíkur um að efla verslun og þjónustu innan íbúðahverfanna, líkt og bent er á í umsögn umhverfis- og skipulagssviðs. Breytt fyrirkomulag gæti ýtt undir markvissari staðsetningu verslana með áfengi en það gæti orðið hvort sem er með afnámi einkaleyfis ríkisins á sölu áfengis eða breyttu fyrirkomulagi á staðsetningu vínbúða ÁTVR. Hagsmunir Reykjavíkurborgar hér felast fyrst og fremst í því að fá aukin úrræði til að tryggja að staðsetning verslana með áfengi falli að markmiðum Aðalskipulags sem og annarri stefnumótun sinni. Enn fremur er rétt að hafa í huga umsögn velferðarsviðs sem varar eindregið við samþykkt frumvarpsins í óbreyttri mynd.

19. Fram fer umræða um starfsemi kampavínsklúbba í Reykjavík. 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

Lögð fram umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um frumvarp til laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald (heimagisting, veitingastaðir án áfengisveitinga, ótímabundin rekstrarleyfi) - 457. mál. R16010228

Borgarráð tekur undir umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu varðandi nauðsyn þess að bæta inn í frumvarpið viðurlagaákvæði vegna brota á banni laganna við nektarsýningum og nekt starfsmanna og hvetur til þess að frumvarpið verði bætt að þessu leyti.

20. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks að Reykjavíkurborg kaupi íbúakönnun Gallup, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. febrúar sl. Jafnframt lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarstjóra, dags. 8. febrúar 2016: 

Borgarráð samþykkir að fela skrifstofu borgarstjóra og borgarritara í samráði við fagsvið Reykjavíkurborgar að útfæra þjónustukönnun meðal borgarbúa með áherslu á notendur þjónustu og þjónustu í hverfum borgarinnar. R16010269

Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 2 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir situr hjá við afgreiðslu málsins. 

Málið fer til fullnaðarafgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48 gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkur og fundarskapa borgarstjórnar.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir furðu á tillögu borgarstjóra um að gera sérstaka könnun fyrir Reykjavíkurborg. Könnun Gallup nær til 19 stærstu sveitarfélaga landsins og er einstakt tækifæri til að bera þjónustu þeirra saman og gera betur í þeim þáttum sem mælast lágt. Meirihluti Pírata, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna vill ekki nýta sér slíka könnun. Það er væntanlega í samræmi við ákvæði málefnasamnings þessara fjögurra flokka sem halda um stjórnartaumana í Reykjavíkurborg þar sem segir: „Við hlustum á alls konar raddir og sköpum þeim vettvang. Með opnari stjórnsýslu verður samræðan upplýstari, ákvarðanatakan skilvirkari og sáttin meiri.“ En þetta eru einungis orð á blaði og eftir því sem líður á kjörtímabilið verður sífellt skýrara að ekkert á að gera með þau. Ef þjónustukönnun kemur ekki nógu vel út fyrir borgina er hún ekki keypt og þar með reynt að koma í veg fyrir að borgarbúar fái upplýsingar um hvernig mat þeirra á þjónustu borgarinnar kemur út. Og til að bíta höfuðið af skömminni hyggst meirihlutinn láta vinna sérstaka könnun fyrir sig, væntanlega í þeim tilgangi að stýra upplýsingagjöfinni til borgarbúa og fá könnun sem lítur betur út en samanburðarkönnun 19 stærstu sveitarfélaga landsins. Í stað þess að þessi vinnubrögð meirihlutans séu í anda upplýsingar og sáttar eru þessi vinnubrögð dæmi um lokaða stjórnsýslu og minni upplýsingagjöf, jafnvel falsaða upplýsingagjöf svo borgarbúar átti sig síður á hversu illa þessi fjögurra flokka meirihluti heldur um stjórnartaumana í Reykjavíkurborg.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er mjög dapurt að meirihluti borgarstjórnar vilji ekki taka þátt í þjónustukönnun 19 stærstu sveitarfélaga landsins og horfast í augu við niðurstöður slíkrar könnunar og sjá hvernig borgin kemur út í samanburði við önnur sveitarfélög. Ekki verður séð að slík afneitun sé í anda yfirlýstrar stefnu meirihlutans að hlusta á alls konar raddir. 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata ítreka að skrifstofu borgarstjóra og borgarritara hefur verið falið að útfæra þjónustukönnun meðal borgarbúa í samráði við fagsvið Reykjavíkurborgar. Ótímabært er að leggja fyrirfram dóm á hvernig slík könnun verður unnin og hverjar niðurstöður hennar verða.

21. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 9. febrúar 2016, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks varðandi íbúakönnun Gallup, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. janúar 2016. R16010269

22. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 10. febrúar 2016, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um fundi með innanríksráðherra varðandi Reykjavíkurflugvöll, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. júlí 2015. R15070088

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Algjör leyndarhyggja ríkti um samskipti ríkis og borgar vegna samkomulags sem undirritað var 25. október 2013 um Rögnunefndina og framtíð Reykjavíkurflugvallar. Svar við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins staðfestir að engar fundargerðir voru skrifaðar um fundi borgarstjóra eða formanns borgarráðs annars vegar og innanríkisráðherra hins vegar í aðdraganda samkomulagsins. Engin minnisblöð hafa varðveist. Ekkert virðist hafa verið gert til að fullnægja lágmarkskröfum um eðlilega stjórnsýslu. Ekki er einu sinni hægt að upplýsa hversu margir fundir voru haldnir vegna þessa og ljóst af því að farið var með þetta mál eins og hvert annað einkamál. Vinnubrögð af þessu tagi eru ekki boðleg. Af þessu má sjá að rík ástæða er til þess að setja ákveðnar og skýrar reglur um upplýsingagjöf til borgarráðs af fundum sem borgarstjóri og formaður borgarráðs eiga við ráðuneyti og opinberar stofnanir. Slík upplýsingagjöf á að vera öllum borgarbúum aðgengileg.

23. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 9. febrúar 2016, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um fjölda á biðlista eftir félagslegum leiguíbúðum í lok árs 2015, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. janúar sl. R16010102

24. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 9. febrúar 2016, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um fjölda þjónustuíbúða aldraðra og íbúða vegna sértækra búsetuúrræða í eigu Félagsbústaða 2015, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. janúar sl. R16010103

25. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 9. febrúar 2016, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um fjölda á biðlista eftir stuðningsþjónustu í árslok 2015, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. janúar sl. R16010105

26. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 9. febrúar 2016, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um fjölda barna á biðlista eftir greiningu hjá þjónustumiðstöðvum í árslok 2015, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. janúar sl. R16010106

27. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 9. febrúar 2016, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um fjölda lausra leikskólaplássa í árslok 2015, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. janúar sl. R16010104

28. Fram fer umræða um samkomulag ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms. 

Guðjón Bragason tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R15050134

29. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 9. febrúar 2016, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um yfirlit yfir sölu á lóðum fyrir íbúðarhúsnæði 2015, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. janúar sl. R16010107

30. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 9. febrúar 2016, varðandi samgöngur við fangelsið á Hólmsheiði, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki að landsbyggðarvagnar sem keyra Suðurlandsveg stoppi við afleggjarann við Hafravatnsveg og að þar verði komið fyrir stoppistöð. R15070029

Samþykkt.

31. Lögð fram tillaga Sambands íslenskra myndlistarmanna að samningi um framlag listamanna til sýninga, ásamt greinargerð, dags. í nóvember 2015. Jafnframt lögð fram umsögn menningar- og ferðamálasviðs, dags. 22. janúar 2016.

Svanhildur Konráðsdóttir og Ólöf Kristín Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

- Kl. 11.30 víkur Sóley Tómasdóttir af fundinum. R15110204

Borgarráð felur menningar- og ferðamálasviði að halda áfram viðræðum við Samband íslenskra myndlistarmanna og finna raunhæfan grundvöll fyrir greiðslur til myndlistarmanna.

32. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 25. janúar 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili framkvæmd á endurgerð frystikerfis skautahallarinnar. R16010232

Samþykkt.

33. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 8. febrúar 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki kauptilboð upp á 30 m.kr. í Árskóga 8, íbúð 102, með fastanr. 205-3934. R15090110

Samþykkt.

34. Lögð fram umsókn Sóltúns 1 ehf., dags. 7. desember 2015, um niðurfellingu/lækkun á gatnagerðargjaldi. Jafnframt lögð fram umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 8. febrúar 2016.  R15120028

Ekki er fallist á niðurfellingu gatnagerðargjalds með vísan til umsagnar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar.

35. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi tillögu: 

Lagt er til að upplýsingar um stöðu biðlista hjá borginni svo sem eftir félagslegum leiguíbúðum, þjónustuíbúðum fyrir aldraða, sértækum húsnæðisúrræðum, stuðningsþjónustu og sérfræðiþjónustu skóla, séu settir inn á heimasíðu Reykjavíkurborgar og að biðlistarnir séu uppfærðir á heimasíðunni á 6 mánaða fresti, þ.e. í ársbyrjun og um mitt ár. R16020090

Frestað.

Fundi slitið kl. 11.55

Sigurður Björn Blöndal

Dagur B. Eggertsson Hjálmar Sveinsson

Halldór Auðar Svansson Halldór Halldórsson

Júlíus Vífill Ingvarsson Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir