Borgarráð - Fundur nr. 5387

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2015, fimmtudaginn 26. nóvember, var haldinn 5387. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, S. Björn Blöndal, Sóley Tómasdóttir, Þórgnýr Thoroddsen, Hjálmar Sveinsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Halldór Halldórsson og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Helga Björg Ragnarsdóttir, Óli Jón Hertervig, Hallur Símonarson, Örn Sigurðsson, Pétur Ólafsson og Úlfhildur Jóna Þórarinsdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð bílastæðanefndar frá 13. nóvember 2015. R15010029

2. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 10. nóvember 2015. R15010004

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 18. nóvember 2015. R15010007

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 17. nóvember 2015. R15010008

5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 16. nóvember 2015. R15010012

6. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 12. nóvember 2015. R15010011

7. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 20. nóvember 2015. R15010022

8. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 13. og 16. nóvember 2015. R15010027

9. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. nóvember 2015. R15010021

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. R15110020

11. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir 12 umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R15110003

12. Fram fer kynning á ferðamálastefnu ríkisins, Vegvísi í ferðaþjónustu, dags. í október 2015.

Valgerður Rún Benediktsdóttir og Helga Árnadóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Grétu Björgu Egilsdóttur. R15100091

- Kl. 9.30 tekur Birgir Björn Sigurjónsson sæti á fundinum.

- Kl. 9.45 tekur Kristbjörg Stephensen sæti á fundinum.

13. Fram fer kynning á endurmörkun Orkuveitu Reykjavíkur.

Bjarni Bjarnason, Inga Dóra Hrólfsdóttir og Eiríkur Hjálmarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Grétu Björgu Egilsdóttur. R15110206

14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra dags. 26. nóvember: 

Lagt er til að borgarráð skipi þverpólitískan stýrihóp sem verði falið það verkefni að gera tillögu um tímasett markmið og aðgerðaáætlun á grundvelli tillagna starfshóps um aðlögun vegna loftslagsbreytinga, samþykktrar stefnumörkunar og skuldbindinga borgarinnar (tillaga 3). Jafnframt skipi borgarstjóri þverfaglegt teymi loftslagsmála sem vinni drög að að ofangreindum áætlunum til úrvinnslu fyrir stýrihópinn (tillaga 4). Áfangaskil verði fyrir 1. júní 2016 í samræmi við loftslagsyfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Festu - miðstöðvar um samfélagsábyrgð, sbr. tillögu 3. Aðgerðaáætlun á grundvelli þátttöku borgarinnar í Compact of Mayors, sbr. tillögu 4, liggi fyrir eigi síðar en 1. júní 2017. Erindisbréf hópanna verði lögð fyrir borgarráð.

Greinargerð fylgir tillögunni. Einnig er lögð fram skýrsla starfshóps um aðlögun vegna loftslagsbreytinga, dags. 24. nóvember 2015. R15080093

Samþykkt. 

Hrönn Hrafnsdóttir, Helena Óladóttir, Hilmar Magnússon og Lilja Sigurbjörg Harðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

15. Lögð fram bréf Anne Hidalgo, borgarstjóra Parísar, og bréf Michael Bloomberg og Eduardo Paes, borgarstjóra Rio De Janeiro, dags. 16. nóvember 2015, vegna loftslagsráðstefnunnar í París. R15060153

16. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 24. nóvember 2015, um flóðavarnir fyrir Kvosina ásamt skýrslu Eflu, dags. í október 2015. R15110205

Samþykkt að vísa skýrslunni til meðferðar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og umhverfis- og skipulagssviðs, Faxaflóahafna og Veitna. 

Reynir Sævarsson og Anna Heiður Eydísardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Svanhildi Konráðsdóttur.

17. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. nóvember 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. nóvember 2015 á breyttu fyrirkomulagi á göngugötum í miðborginni á aðventunni 2015. R15110097

Samþykkt með þeim breytingum að göngugötur verði opnar og þar með lokað fyrir bílaumferð á tilgreindum götum 5.-6., 12.-13. og 19.-20. desember ásamt 23. desember frá kl. 15.00 til kl. 07.00 að morgni 24. desember 2015. 

Hildur Gunnlaugsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Við samþykkjum nýja tillögu um lokanir gatna á aðventunni þar sem tímasetningar lokana eru nú raunhæfari og meiri sátt um hana meðal þeirra sem starfa í miðborginni.

18. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um göngugötur, sbr. 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. nóvember sl. R15110097

Tillagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina. 

Hildur Gunnlaugsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Það er slæmt hvað meirihlutanum er illa við samráð. Því er lagt til  að borgarfulltrúar meirihlutans rifji reglulega upp eftirfarandi yfirlýsingar sínar í samstarfssáttmálanum: „Síðast en ekki síst viljum við að það sé ekki bara okkar vilji sem gildi. Við viljum efla lýðræðið svo að kraftar allra borgarbúa nýtist við stefnumörkun og ákvarðanatöku hins opinbera. Við hlustum á alls konar raddir og sköpum þeim vettvang. Með opnari stjórnsýslu verður samræðan upplýstari, ákvarðanatakan skilvirkari og sáttin meiri.“

Borgarráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Tilraunir með göngugötur hefur staðið yfir í 5 ár. Mikið samráð hefur farið fram um verkefnið á þeim tíma. Fjölmargar skoðanakannanir sýna að yfirgnæfandi meirihluti borgarbúa styður opnun göngugatna. Jafnframt er meirihluti rekstaraðila sama sinnis. Því er eðlilegt að festa það fyrirkomulag í sessi með ákveðnum hætti. Það er nú gert. 

19. Lagt fram að nýju bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. nóvember 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs s.d. á breyttu fyrirkomulagi á göngugötum í miðborginni, sbr. 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. nóvember og 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. nóvember sl. R15110097

Samþykkt. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Hildur Gunnlaugsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Undanfarin fimm ár hefur Laugavegur verið tekinn frá fyrir gangandi umferð til reynslu á sumrin. Reynslan af því hefur verið vonum framar fyrir notendur götunnar og flesta verslunaraðila. Athugasemdir sl. vor um skamman frest frá ákvörðun um opnun göngugatna til framkvæmdar urðu til þess að ákvörðun var frestað um tvær vikur enda þótti sanngjarnt að gefa ríflegan fyrirvara líkt og fram kemur í bókun meirihluta borgarráðs frá 30. apríl 2015. Þá hefur legið fyrir síðan síðasta vor að til standi að bæði útvíkka og formgera verkefnið með meira afgerandi hætti. Nú er mál að festa í sessi það sem vel hefur gengið og gera með skýrum hætti grein fyrir þeim fyrirætlunum meirihluta umhverfis- og skipulagsráðs að opna göngugötu á Laugavegi til frambúðar á sumrin enda er fullt tilefni til þess þar sem íbúar og ferðamenn fylla gangstéttar í miðborginni. Mikil ánægja hefur verið með sumargötur meðal borgarbúa og rekstraraðila. Samkvæmt nýlegri þjónustukönnun Gallup voru 76% borgarbúa jákvæðir gagnvart sumargötum í miðborginni en aðeins 9% neikvæðir. Þá voru tæplega 60% rekstraraðila jákvæðir gagnvart verkefninu. Ekki verður annað sagt en að fimm ára tilraun sé góður aðdragandi að því að festa ákvörðun sem þessa í sessi enda hefur hún gefið góða raun. Nú hefst nýr kafli í samráði við borgarbúa þar sem leitað verður skoðunar á því hvort auka beri við það svæði sem gert er aðgengilegra gangandi og hvort opna beri götur fyrir gangandi á öðrum tímum en þegar hefur verið reynt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Varla er til of mikils mælst að leitað sé umsagna og hugmynda hjá íbúum, verslunareigendum, rekstraraðilum veitingahúsa og öðrum sem hagsmuna eiga að gæta áður en lokun gatna í miðborginni er ákveðin. Hálft ár er til stefnu áður en til stendur að loka götum og því nægur tími að undirbúa og taka upp virkt samtal. 

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Ljóst er að þótt ánægja með göngugötur í miðborginni hafi aukist ár frá ári þá verður ekki ráðið af þeim skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið að fólk sé almennt tilbúið til þess að loka götum í 5 mánuði á ári. Svo virðist nefnilega ánægja með göngugötur á sumrin annars vegar og lokun gatna í 5 mánuði á ári hins vegar ekki vera alveg það sama í hugum fólks eins og bersýnilega kom í ljós í skoðanakönnunni sem Gallup gerði fyrir Miðborgina okkar í apríl síðastliðnum en samkvæmt henni eru 58,3% hlynntir sumargötum en 59,8% eru andvígir því að lengja tímabilið í 5 mánuði. Við teljum að nægur tími sé fram á næsta sumar til að kanna vilja fólks.

20. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. nóvember 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. nóvember sl. á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.197.2-3, Smáragötureits, vegna Laufásvegar 70, ásamt fylgiskjölum. R15060210

Samþykkt.

21. Lagt fram bréf borgarlögmanns, dags. 23. nóvember 2015, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki að greiða skaðabætur vegna sviptingu umráða yfir bifreiðinni PI-563. R15100236

Samþykkt.

22. Lagt fram bréf borgarlögmanns, dags. 23. nóvember 2015, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki að greiða skaðabætur vegna sviptingu umráða yfir bifreiðinni NK-053. R15110196

Samþykkt.

23. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 26. nóvember 2015, þar sem lögð er fram skýrsla um verslun og þjónustu í Reykjavík, skýrsla um gististaði í Reykjavík og úttekt á leyfisveitingum fyrir veitinga- og gististaði sem unnar voru fyrir stýrihóp um málefni miðborgarinnar.

Óli Örn Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R15110192

24. Lagt fram afrit af bréfi borgarstjóra til húsameistara ríkisins, dags. 29. október 2015, varðandi uppbyggingu á stjórnarráðsreit. R14020079

25. Lagt fram bréf borgarstjóra um hagræðingaraðgerðir Reykjavíkurborgar ásamt erindisbréfum hagræðingarhópa fagsviða og miðlægrar þjónustu. 

Ágúst Þorbjörnsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R15110199

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Grípa þarf til víðtækra aðgerða til að rétta við rekstur Reykjavíkurborgar. Niðurstöðutölur ársreikninga, árshlutareikninga og fjárhagsáætlana sýna óyggjandi að núverandi samstarfsflokkar valda ekki því grundvallarverkefni að stýra fjármálum borgarinnar. Það er köld staðreynd sem óumflýjanlegt er að horfast í augu við. Hagræðingahópur sem hefur það verkefni leggja til aðgerðir þarf að vera skipaður sérfræðingum sem eru sjálfstæðir í sínum störfum og með beinan aðgang að öllu borgarkerfinu. Tillaga um að borgarstjóri stýri hagræðingarhópnum sem á að endurmeta hans eigin fjármálastjórn er mjög umdeilanleg. Átak í aðhaldi og ráðdeild er bráðnauðsynlegt og þolir enga bið. Í samræmi við tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem samþykkt var í borgarstjórn vorið 2015 og vísað til borgarráðs munu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja sitt af mörkum í þeirri mikilvægu vinnu. 

26. Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarstjóra, dags. 24. nóvember 2015, vegna tillögu borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um að borgarráð fái aðstoð utanaðkomandi rekstrarsérfræðinga frá viðurkenndri endurskoðunarskrifstofu til að takast á við fjárhagsvanda borgarinnar, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. september 2015:

Borgarráð samþykkir að ganga til samninga við Ágúst Þorbjörnsson, rekstrarráðgjafa hjá Framsækni. Hann mun vera borgarstjóra, fagsviðum, miðlægri stjórnsýslu, stýrihópi Reykjavíkurborgar um hagræðingaraðgerðir og hagræðingarnefndum til ráðgjafar um mögulegar hagræðingarleiðir í rekstri A-hluta Reykjavíkurborgar. R15090023

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Við fögnum því að borgarráð hafi loks samþykkt að ráða rekstrarráðgjafa á grundvelli tillögu Framsóknar og flugvallarvina en gerum athugasemdir við að tillagan sé fyrst nú tæpum þremur mánuðum eftir að hún var lögð fram tekin til afgreiðslu. Slíkan ráðgjafa hefði átt að ráða fyrr til að aðstoða við gerð fjárhagsáætlunar, þ.e. hvernig hægt væri að hagræða í rekstri borgarinnar en ekki 5 dögum áður en seinni umræðan um fjárhagsáætlun 2016 fer fram. Hins vegar er fagnað að um varanlegt verkefni er að ræða.

27. Lagt fram bréf stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 6. nóvember 2015, varðandi arðgreiðsluskilyrði Orkuveitu Reykjavíkur. Einnig er lögð fram umsögn rýnihóps eigenda Orkuveitu Reykjavíkur þar sem lagt er til að borgarráð samþykki erindið, dags. 25. nóvember 2015, með þeim fyrirvörum sem fram koma í umsögninni. R14110126

Samþykkt með vísan til umsagnar rýnihóps.

28. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 24. nóvember 2015, varðandi frumvarp að fjárhagsáætlun: forsendur aðgerðaáætlunar. R15010253

Samþykkt. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

29. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra dags. 25. nóvember: 

Lagt er til að frumvarp að fjárhagsáætlun 2016 og fimm ára áætlun 2016-2020 A-hluta og samstæðu verði endurskoðað með tilliti til breyttra forsendna um verðlag, laun og gengi í nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands og þannig lagt fyrir fund borgarstjórnar hinn 1. desember nk. Fjármálaskrifstofu er falinn undirbúningur að þessari breytingu í samstarfi við fagsvið og skrifstofur í A-hluta og fyrirtæki í B-hluta samstæðu borgarinnar. Jafnframt er lagt til að forsendum rammaúthlutunar verði breytt og miðað við að þjónustutekjur málaflokka hækki um 3,2% í stað 4,9% og fagsviðum og fagráðum falið að undirbúa endurskoðun á tillögum um gjaldskrár fyrir árið 2016 í samræmi við þetta. Miðað er við að endurskoðaðar tillögur um gjaldskrár komi til afgreiðslu borgarstjórnar 18. desember 2015. 

Greinargerð fylgir tillögunni. R15010253

Samþykkt. 

Vísað til borgarstjórnar.

30. Lagður fram árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir janúar til september 2015, ásamt umsögn endurskoðunarnefndar Reykjavíkur, dags. 23. nóvember 2015. Jafnframt er lögð fram skýrsla fjármálaskrifstofu, dags. 26. nóvember 2015. 

Gísli Hlíðberg Guðmundsson og Einar Bjarki Gunnarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. R15110197

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2015 staðfestir enn og aftur í hversu miklum vandræðum meirihlutinn er með rekstur borgarinnar. Rekstrarniðurstaða A-hluta er neikvæð um 8,5 milljarða kr. fyrstu 9 mánuðina og stefnir í 14 milljarða halla allt árið 2015. Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu. Þessi mikli hallarekstur þýðir skuldaaukningu sem nemur um 30% síðustu tvö árin hjá A-hluta. Þannig er rekstrarvanda dagsins í dag velt yfir til næstu kynslóðar. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa enn og aftur furðu yfir því hversu illa tíminn hefur verið nýttur af hálfu meirihlutans til að taka þær ákvarðanir sem nauðsynlegar eru til að koma rekstrinum í lag. 

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Uppgjör fyrir rekstur borgarinnar fyrir fyrstu 9 mánuði ársins liggur fyrir og sýnir verulega slæma niðurstöðu. Afkoma samstæðu A- og B-hluta er 13,5 m.kr. verri í ár heldur en á sama tíma í fyrra og er rekstrarniðurstaða samstæðunnar 139% undir áætlun. 

Borgarráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Neikvæð niðurstaða árshlutareiknings samstæðunnar orsakast að stærstu leyti af gangvirðisbreytingum og gjaldfærslu lífeyrisskuldbindingar.

- Kl. 13.09 víkja Dagur B. Eggertsson og Pétur Ólafsson af fundinum.

31. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 23. nóvember 2015, varðandi viðauka við fjárhagsáætlun 2015. R15010072

Vísað til borgarstjórnar.

32. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 25. nóvember 2015, varðandi tillögu að endurskoðun reglna um gerð fjárhagsáætlunar, ásamt fylgiskjölum. R15010267

Vísað til borgarstjórnar.

33. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. nóvember 2015: 

Lagt er til að borgarráð samþykki eftirfarandi ráðstafanir vegna tónlistarskóla í Reykjavík sem kenna nemendum á miðstigi í söng, framhaldsnámi í söng og hljóðfæraleik auk viðbótarnáms (4. stigs): 1. Þar sem greiðslur hafa borist frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til ráðstöfunar vegna tónlistarskóla verði þeim varið í samræmi við dreifireglu Jöfnunarsjóðs á framlaginu og greiddar til skóla á grundvelli hlutfalls hvers skóla 2014-2015 í heildarkennslumagni í Reykjavík sem fallið hefur undir Jöfnunarsjóð, þ.e. miðnám í söng, framhaldsstig og viðbótarnám (4. stig). 2. Gert er ráð fyrir að fyrirframgreiðsla borgarsjóðs á framlögum Jöfnunarsjóðs til nokkurra tónlistarskóla komi til uppgjörs um næstu mánaðamót, þ.e. 1. desember nk. að því gefnu að viðbótarframlag borgarsjóðs samkvæmt 4. tl. komi einnig til framkvæmda á þeim tíma. 3. Uppgjör þjónustusamninga vegna grunnnáms er þegar hafið og er gert ráð fyrir að því verði lokið eigi síðar en 1. febrúar 2016. Í þeim tilvikum að ljóst er að ofgreiðsla til skóla samkvæmt þessum samningum nemur hærri fjárhæð en 10 m.kr. er gert ráð fyrir að það sem umfram er geti komið til skerðingar við ákvörðun greiðslu samkvæmt 4. tl. 4. Skipting á sérstöku viðbótarfjármagni borgarsjóðs, 30 m.kr., verður byggð á kennslumagni nemenda með lögheimili í Reykjavík í framhaldsnámi og miðnámi í söng (ekki viðbótarnám/4.stig) og greitt út samkvæmt því um næstu mánaðamót. Skólar sem notið hafa sérstakrar lánafyrirgreiðslu fá úthlutað þessu tiltekna viðbótarfé með sama hætti og aðrir skólar, enda hafi þeir áður staðfest skuldaviðurkenningar gagnvart borgarsjóði vegna lána sem veitt voru á árinu 2012 (Sjá þó 2. tl. um frádrátt vegna fyrirframgreiðslna um einn mánuð hjá fjórum skólum, alls 16,6. m.kr.) 

Greinargerð fylgir tillögunni. R15050134

Samþykkt.

34. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 23. nóvember 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki breytingu á fjárfestingaáætlun 2015, þannig að varið verði 30 m.kr. til breytinga á húsnæði Lindargötu 59. Breytingin rúmast innan kostnaðarstaðar í gildandi fjárfestingaáætlun, ásamt fylgiskjölum. R15110190

Samþykkt.

35. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 23. nóvember 2015, þar sem óskað er eftir heimild til að leigja almenningssalernisaðstöðu að Vesturgötu 7, samkvæmt meðfylgjandi erindi. R15110191

Samþykkt.

36. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 23. nóvember 2015, þar sem óskað er eftir heimild til að setja eignir sem taldar eru upp á meðfylgjandi lista í sölumeðferð. R15110194

Samþykkt.

- Kl. 13.35 víkja Hjálmar Sveinsson og Sóley Tómasdóttir af fundinum. 

37. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 23. nóvember 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun íbúðarhúsalóðar við Lambasel 38 fyrir byggingu einbýlishúss allt að 184 fermetrum. R15110065

Samþykkt.

38. Lagður fram undirskriftarlisti íbúa og aðstandenda íbúa í Fróðengi 1-11 vegna helgarlokunar matsalarins í Borgum. R15110223

39. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins minna á tillögu sína frá borgarráðsfundi 22. október sl. um endurbætur á gervigrasvöllum sem eru með dekkjakurl á yfirborði. Tillögunni var frestað og hefur ekki frést af henni síðan. R15100319

Fundi slitið kl. 13.50

S. Björn Blöndal

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir Halldór Halldórsson

Júlíus Vífill Ingvarsson Þórgnýr Thoroddsen