Borgarráð - Fundur nr. 5386

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2015, fimmtudaginn 19. nóvember, var haldinn 5386. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Laugardalslaug og hófst kl. 9.09. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, S. Björn Blöndal, Sóley Tómasdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Halldór Halldórsson og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Helga Björg Ragnarsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Hrólfur Jónsson, Ebba Schram, Hallur Símonarson, Ólöf Örvarsdóttir, Pétur Ólafsson og Linda Sif Sigurðardóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Kynnt er staða í gerð kjarasamninga Reykjavíkurborgar.

Atli Atlason og Ragnhildur Ísaksdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R15020134

- Kl. 9.10 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum.

- Kl. 9.19 tekur Halldór Auðar Svansson sæti á fundinum.

2. Lagðar fram fundargerðir fjölmenningarráðs frá 2. september og 5. nóvember 2015. R15030011

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 20. október 2015. R15010006

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 12. nóvember 2015. R15010010

5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 12. nóvember 2015. R15010014

6. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 13. nóvember 2015. R15010015

7. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 13. nóvember 2015. R15010023

8. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 6. nóvember 2015. R15010027

9. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. nóvember 2015. R15010021

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 16 mál. R15110020

11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. nóvember 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. nóvember 2015 varðandi breytingu á deiliskipulagi reits 1.118.0 MR vegna lóðarinnar nr. 16 við Þingholtsstræti. Jafnframt er lagður fram uppdráttur, dags. 16. september 2015. R15110152

Samþykkt.

12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. nóvember 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. nóvember 2015 um afmörkun tveggja lóða í landi Hofs á Kjalarnesi. Jafnframt er lögð fram umsókn ásamt bréfi Minjastofnunar Íslands, dags. 3. nóvember 2015. R15110148

Samþykkt.

13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. nóvember 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. nóvember 2015 varðandi breytingu á deiliskipulagi Landakots. Jafnframt er lagður fram uppdráttur, dags. 9. nóvember 2015. R15110149

Samþykkt.

14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. nóvember 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. nóvember 2015 varðandi breytingu á skilmálum deiliskipulags lóðarinnar nr. 17-25 við Fossháls og 18-26 við Dragháls. Jafnframt er lögð fram tillaga Mansard teiknistofu ehf., dags. 15. október 2015. R15110151

Samþykkt.

15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. nóvember 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. nóvember 2015 á auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna lóðarinnar nr. 11 við Lindargötu. Jafnframt er lagður fram uppdráttur Ark Studio ehf., dags. 5. nóvember 2015, og bréf Minjastofnunar, dags. 22. október 2015. R15110150

Samþykkt.

16. Lagt fram að nýju bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. nóvember 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs s.d. á breyttu fyrirkomulagi á göngugötum í miðborginni. R15110097

Frestað.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að tillagan að umræddum göngugötum verði lokað til frambúðar í fimm mánuði frá 1. maí til 1. október verði send til umsagnar hverfisráðsins, íbúasamtakanna, Miðborgarinnar okkar, Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg, eigenda, íbúa og rekstraraðila á þeim svæðum sem lokað verður fyrir umferð. Þá er lagt til að kosið verði um málið á Betri Reykjavík.

Frestað.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun: 

Lokun gatna í miðborg Reykjavíkur að sumarlagi hefur að mörgu leyti gengið vel. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði með lokun sumargatna á þessu ári enda áhugavert fyrir borgina að prófa sig áfram á þessu sviði eins og margar aðrar borgir í Evrópu hafa gert. Við frekari útfærslu á lokun gatna er sjálfsagt að taka upp samtal og samráð við íbúa, rekstraraðila veitingahúsa og hótela, kaupmenn og aðra þá sem vinna og búa við umræddar götur. Tími til samráðs er rúmur og eðlilegt að nýta hann vel. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa einnig bent á að lokun gatna á aðventunni eigi með sama hætti að ákveða að höfðu samráði sömu aðila. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja mikilvægt að við götur sem lokanir taka til blómstri fjölbreytt miðborgarstarfsemi. Til að svo megi verða þarf að hlusta.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Undanfarin fimm ár hefur Laugavegur verið tekinn frá fyrir gangandi umferð til reynslu á sumrin. Reynslan af því hefur verið vonum framar fyrir notendur götunnar og flesta verslunaraðila. Athugasemdir sl. vor um skamman frest frá ákvörðun um opnun göngugatna til framkvæmdar urðu til þess að ákvörðun var frestað um tvær vikur enda þótti sanngjarnt að gefa ríflegan fyrirvara líkt og fram kemur í bókun meirihluta borgarráðs 30. apríl 2015. Þá hefur legið fyrir síðan síðasta vor að til standi að bæði útvíkka og formgera verkefnið með meira afgerandi hætti. Nú er mál að festa í sessi það sem vel hefur gengið og gera með skýrum hætti grein fyrir þeim fyrirætlunum meirihluta umhverfis- og skipulagsráðs að opna göngugötu á Laugavegi til frambúðar á sumrin enda er fullt tilefni til þess þar sem íbúar og ferðamenn fylla gangstéttar í miðborginni. Mikil ánægja hefur verið með sumargötur meðal borgarbúa og rekstraraðila. Samkvæmt nýlegri þjónustukönnun Gallup voru 76% borgarbúa jákvæðir gagnvart sumargötum í miðborginni en aðeins 9% neikvæðir. Þá voru tæplega 60% rekstraraðila jákvæðir gagnvart verkefninu. Ekki verður annað sagt en að fimm ára tilraun sé góður aðdragandi að því að festa ákvörðun sem þessa í sessi enda hefur hún gefið góða raun. Nú hefst nýr kafli í samráði við borgarbúa þar sem leitað verður skoðunar á því hvort auka beri við það svæði sem gert er aðgengilegra gangandi og hvort opna beri götur fyrir gangandi á öðrum tímum en þegar hefur verið reynt.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Ljóst er að þótt ánægja með göngugötur í miðborginni hafi aukist ár frá ári þá verður ekki ráðið af þeim skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið að fólk sé almennt tilbúið til þess að loka götum í fimm mánuði á ári. Svo virðist nefnilega að ánægja með göngugötur á sumrin annars vegar og lokun gatna í fimm mánuði á ári hins vegar ekki vera alveg það sama í hugum fólks eins og bersýnilega kom í ljós í skoðanakönnuninni sem Gallup gerði fyrir Miðborgina okkar í apríl síðastliðnum en samkvæmt henni eru 58,3% hlynntir sumargötum en 59,8% eru andvígir því að lengja tímabilið í fimm mánuði. Við teljum að nægur tími sé fram á næsta sumar til að kanna vilja fólks.

17. Lagt fram svarbréf innanríkisráðuneytisins til Reykjavíkurborgar, dags. 3. nóvember 2015, vegna bréfa, dags. 7. júlí og 30. október 2015, vegna lokunar NA/SV flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli og endurskoðun skipulagsreglna fyrir Reykjavíkurflugvöll. R15010037

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svo hljóðandi bókun:

Með samningum dags. 19. apríl 2013 og 25. október 2013 skuldbatt ríkið sig til að loka norðaustur/suðvestur flugbraut (braut 06/24) á Reykjavíkurflugvelli og breyta skipulagsreglum fyrir Reykjavíkurflugvöll til samræmis við lokun flugbrautarinnar. Með framlögðu bréfi innanríkisráðherra, dags. 3. nóvember 2015, hafnar ráðherrann að skylt sé að tilkynna um lokun brautarinnar og gera breytingar á skipulagsreglum fyrir Reykjavíkurflugvöll. Með vísan til þeirrar afstöðu sem birtist í bréfi innanríkisráðherra, dags. 3. nóvember sl., er borgarlögmanni falið að höfða mál á hendur ríkinu til viðurkenningar eða staðfestingar á framangreindum skuldbindingum ríkisins.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir fagna því að málsmeðferð vegna Reykjavíkurflugvallar sé nú loks komin í faglegt ferli. Innanríkisráðherra hefur yfirumsjón með flugmálum og ber ábyrgð á því að fyllsta flugöryggis sé gætt meðal annars á grundvelli alþjóðlegra reglna. Til að unnt sé að taka ákvörðun um lokun flugbrautar er ekki nóg að taka flugbraut út af skipulagi eins og meirihlutinn gerði heldur verður það að liggja fyrir að lokun flugbrautarinnar komi ekki niður á öryggi flugvallarins og að viðhalda megi fullnægjandi þjónustustigi fyrir alla landsmenn. Slíkt lá hvorki fyrir þegar meirihlutinn ákvað að taka flugbrautina út af skipulagi né liggur það nú fyrir. Ekki liggja fyrir nauðsynleg gögn til að taka afstöðu til lokunar flugbrautarinnar en í niðurstöðu Samgöngustofu frá því í sumar um áhættumatið kemur fram að áhættumat Isavia nái hvorki til áhrifa á flugvallarkerfi landsins í heild sinni, neyðarskipulags Almannavarna, áhrifa á sjúkraflutninga né fjárhagslegra áhrifa á flugrekstur og þurfi að gera sérstakt áhættumat um framkvæmd breytingarinnar komi til þess að ákveðið verði að loka flugbraut 06/24.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagst gegn því að lóðum yrði úthlutað og framkvæmdir almennt heimilaðar vegna þess að NA/SV flugbrautin er til staðar og því óábyrgt af Reykjavíkurborg að taka ákvarðanir sem skapa kostnað hjá þriðja aðila. Slíkur kostnaður getur fallið á skattgreiðendur í Reykjavíkurborg ef illa fer. Innanríkisráðherra áréttar í bréfi sínu, dags. 3. nóv. sl., það sem einnig kom fram í bréfi frá ráðherra 17. apríl sl. að Reykjavíkurborg sé það fullkunnugt að leyfi fyrir framkvæmdum og öðrum ráðstöfunum á Hlíðarendasvæðinu séu undanfari byggingaframkvæmda sem ekki geti orðið af að óbreyttum skipulagsreglum fyrir flugvöllinn. Ráðherra áréttar að útgáfa byggingarleyfa á Hlíðarendasvæðinu sé alfarið á ábyrgð og áhættu Reykjavíkurborgar. Um leið ítrekar ráðherra mikilvægi þess að ríki og Reykjavíkurborg vinni áfram að samkomulagi um framtíð Reykjavíkurflugvallar í samráði við þá sem hagsmuni eiga að gæta. Þetta verður ekki skýrara að mati borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem ítreka fyrri afstöðu sína um að meirihlutinn í Reykjavíkurborg láti af því að gefa út leyfi og gera aðrar ráðstafanir á Hlíðarendasvæðinu því það varðar öryggismál í flugi og tengingu höfuðborgarinnar við landið í heild og það skapar mikla fjárhagslega áhættu fyrir Reykvíkinga að vinna með þeim hætti sem meirihlutinn gerir. Nær er af hálfu meirihlutans að vinna að lausn varðandi framtíð flugvallarins í samstarfi við innanríkisráðherra.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa samþykkt báða samninga Reykjavíkurborgar við ríkið um lokun þriðju brautarinnar, kaup á landi ríkisins í Skerjafirði og alla samninga við Valsmenn um uppbygginguna á Hlíðarenda.

- Kl. 10.28 víkur Halldór Halldórsson af fundi og Kjartan Magnússon tekur þar sæti.

18. Lagt fram minnisblað starfshóps um þéttingu byggðar, dags. 23. júní 2015.

Helgi Grímsson og Hildur Björk Svavarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R13030072

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að mikilvægt er að huga vel að innviðum þeirra hverfa þar sem frekari þétting byggðar stendur fyrir dyrum og meta getu stofnana Reykjavíkurborgar til að þjóna auknum íbúafjölda, sem leiðir af einstökum þéttingarverkefnum. Sérstaklega þarf að huga að getu leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila, félagsmiðstöðva og sundlauga í þessu sambandi. Þá er einnig mikilvægt að tryggja að nægileg íþróttaaðstaða sé fyrir hendi til að íþróttafélögum í viðkomandi hverfum sé gert kleift að svara aukinni spurn eftir íþróttaiðkun vegna þéttingar byggðar.

19. Lögð fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 12. nóvember 2015, og menningar- og ferðamálsviðs, dags. 9. nóvember 2015, þar sem lagt er til að barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs og Dimmalimm, íslensku myndskreytiverðlaunin, verði sameinuð undir heitinu barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar. Jafnframt er lögð fram greinargerð með tillögu og fundargerð 88. fundar skóla- og frístundaráðs. R15110123

Samþykkt.

Svanhildur Konráðsdóttir og Helgi Grímsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

- Kl. 10.55 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundi.

20. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálsviðs, dags. 17. nóvember 2015, þar sem er óskað eftir afstöðu borgarráðs til kauptilboðs Landsbréfa - Icelandic Tourism Fund I hf. í hlut Reykjavíkurborgar í Þríhnúkum ehf. Jafnframt er lagt fram tilboð ITF I ehf. og samþykktir og ársreikningar fyrir Þríhnúka ehf. 2014. Einnig er lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 17. nóvember 2015. R15090127

Samþykkt að ganga að framlögðu tilboði Landsbréfa - Icelandic Tourism Fund I hf. Einnig er samþykkt að falla frá forkaupsrétti í samræmi við grein 2.7 í samþykktum Þríhnúka ehf. Sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs er falin frekari vinnsla málsins.

Svanhildur Konráðsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

21. Lagður fram dómur héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. nóvember 2015, mál E-683/2015: Jóhanna H. Marteinsdóttir gegn Reykjavíkurborg. R15020226

22. Lagður fram dómur héraðsdóms Reykjavíkur frá 13. nóvember 2015, mál nr. E1033/2015: Tónlistarskólinn í Reykjavík gegn Reykjavíkurborg. R15030092

23. Fram fer kynning á fyrirkomulagi loftslagsgöngunnar 29. nóvember kl. 14.00. Borgarráð hvetur Reykvíkinga til að taka þátt í göngunni. R15110100

24. Lagt fram bréf frá skólastjórnendum, kennurum, leikskólakennurum, menntaskólanemum og foreldrum barna í Hlíðahverfi, dags. 11. nóvember 2015, varðandi öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda yfir Miklubraut milli Kringlumýrarbrautar og Lönguhlíðar. Jafnframt er lagður fram undirskriftalisti. R15110155

Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs.

25. Lagt fram bréf innanríkisráðuneytisins, dags. 10. nóvember 2015, þar sem fram kemur að ráðuneytið hefur staðfest samþykkt um breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/203. Jafnframt er lagt fram staðfest frumrit samþykktar um breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R13060019

26. Lagt fram erindi samráðsfulltrúa leikskólastjóra, áheyrnarfulltrúa fyrir leikskólastjóra í skóla- og frístundaráði og aðalmanna í samráði Reykjavíkurdeildar FSL varðandi gildistöku reglna um færslu afgangs og halla milli ára, dags. 26. október 2015. Jafnframt er lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 16. nóvember 2015. R15010253

27. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 16. nóvember 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að heimila skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að staðfesta leigusamning við ríkið um leigu á þremur lóðum í Esjuhlíðum með þeim fyrirvörum að rekstraraðili taki yfir samningsskuldbindingar Reykjavíkurborgar, að samþykktar verði breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi svæðisins og að umhverfismat framkvæmdarinnar verði jákvætt. Einnig er óskað eftir heimild borgarráðs til að leita eftir aðila til að reka farþegaferju í Esjuhlíðum, þegar og ef liggur fyrir að slíkur rekstur sé fýsilegur.

Greinargerð fylgir málinu og lóðarleigusamningsdrög um landspildur í Esjuhlíðum undir farþegaferju. R13060116

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fallist er á að heimila staðfestingu leigusamnings við ríkið um þrjár lóðir í Esjuhlíðum en hnykkt er á fyrirvörum borgarráðs m.a. um jákvæða niðurstöðu umhverfismats og breytingar á skipulagsáætlunum. Einnig er farið fram á að skrifstofa eigna og atvinnuþróunar leggi tillögu að auglýsingu eftir rekstaraðila fram til samþykktar borgarráðs þegar málið er komið á það stig.

28. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 19. nóvember 2015, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að auglýsa eftir hugmyndum að náttúrusýningu í Perlunni. R14010066

Samþykkt.

- Kl. 11.40 víkur Helga Björg Ragnarsdóttir af fundi.

29. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 16. nóvember 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að lóðarhafi við Lindargötu 34-36 með fastanr. 200-3230 leigi afnotarétt af stæði fyrir hreyfihamlaða á borgarlandi. Jafnframt er lagt fram samkomulag, dags. 16. nóvember 2015, og afstöðumynd af stæði. R15110146

Samþykkt.

30. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. nóvember 2015, ásamt fylgiskjölum:

Lagt er til að borgarráð samþykki að fela skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að ganga til viðræðna við RVK Studios ehf. um sölu á hluta af byggingum sem áður tilheyrðu Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi á grundvelli fyrirliggjandi verðmats. Jafnframt er lagt til að borgarráð samþykki að fela skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að ganga til viðræðna við Íslenska gámafélagið um flutning fyrirtækisins af svæðinu í Gufunesi í samræmi við ákvæði leigusamnings, dags. 14. október 2005, ásamt viðaukum.

Greinargerð fylgir tillögunni. R15090089

Samþykkt.

31. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Óskað er eftir upplýsingum um það hvenær og hvaða 10 lóðir það eru sem borgin úthlutaði síðast/seldi byggingarrétt á undir fjölbýlishús með fleiri en 5 íbúðum og þá hversu mörgum íbúðum. R15110177

32. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Óskað er eftir yfirliti yfir þær lóðir sem borgin hefur nú til sölu byggingarrétt á fyrir fjölbýlishús með fleiri en fjórum íbúðum. R15110177

33. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Óskað er eftir greinargerð um hvernig bygging fyrirhugaðrar mosku í Reykjavík verður fjármögnuð. Þar komi m.a. fram upplýsingar um áætlaðan heildarkostnað og hlutdeild hugsanlegra styrktaraðila. Í mars sl. var haft eftir borgarstjóra í fréttum Ríkisútvarpsins að borgaryfirvöld myndu afla upplýsinga um fjármögnun erlendra aðila og fordæmi nágrannaþjóða í þessum efnum og önnur atriði sem geti skipt máli. Óskað er eftir upplýsingum um hvernig sú vinna stendur og að lagðar verði fram þær upplýsingar sem þegar hefur verið aflað í þessu sambandi. R13080019

Fundi slitið kl. 12.11