Borgarráð - Fundur nr. 5383

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2015, fimmtudaginn 5. nóvember, var haldinn 5383. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.05. Viðstödd voru S. Björn Blöndal, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Helga Björg Ragnarsdóttir, Ólöf Örvarsdóttir, Óli Jón Hertervig, Ebba Schram og Linda Sif Sigurðardóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð ferlinefndar fatlaðs fólks frá 29. október 2015.

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 21. október 2015.

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 22. október 2015.

4. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 4. nóvember 2015.

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál.

6. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs ásamt fylgigögnum, dags. í dag.

Samþykkt að hafna öllum styrkumsóknum.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vísa til bókunar sinnar í borgarráði 19. júní 2014.

- Kl. 9.12 tekur Hallur Símonarson sæti á fundinum. 

7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. október 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. október 2015 á breytingu á deiliskipulagi lóðanna nr. 38 og 40 við Sigtún, ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 15. október 2015 og öðrum fylgiskjölum. 

Samþykkt. 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Lóðir þeirra skóla sem þjóna svæðinu (Laugalækjar- og Laugarnesskóla) bjóða upp á möguleika á stækkun. Sýni nákvæm rýni á þróun nemendafjölda að auka þurfi við húsnæði skólanna verður sett af stað áætlun um það og þær framkvæmdir rúmaðar innan fjárfestingaramma borgarinnar.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Uppbyggingar á opnu svæðum við Sigtún 38-40 (Blómavalsreit) og Kirkjusandi 2 (Kirkjusandsreit) munu hafa veruleg áhrif á gamalgróið skólahverfi. Enn liggur ekki fyrir hvernig byggt verður á stórum þróunarreit við Köllunarklettsveg. Þétting í hverfi Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla er veruleg fram til 2020 eða 789 íbúðir á tímabilinu. Laugarnesskóli er þegar yfirfullur svo að viðbót á allra næstu árum mun valda erfiðleikum, ekki bara í kennslurými heldur einnig í mötuneyti skólans og í frístundaheimili. Leikskólarnir Hof og Laugasól eru báðir fullnýttir miðað við rekstrarleyfi. Það er því ljóst að fyrirhugaðar uppbyggingar á þróunarsvæðum kalla á fjárfestingar af hálfu borgarinnar. Mikilvægt er að þær fjölskyldur sem flytja munu í hverfið hafi fullvissu um að borgin muni standa við sínar skuldbindingar við börnin bæði á leik- og grunnskólaaldri. Fjárhagsáætlanir til fimm ára eiga að endurspegla það og best fyrir alla sem hlut eiga að máli að borgin lýsi því yfir strax á þessu stigi.

8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. október 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. október 2015 á breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.5 vegna lóðanna nr. 7 og 9 við Vegamótastíg, ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 18. október 2015, og öðrum fylgiskjölum.

Samþykkt með 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna gegn 2 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðsluna. 

Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Á horni Vegamótastígs og Grettisgötu stendur reisulegt timburhús sem er prýðilegur fulltrúi timburhúsa á svæðinu. Húsið setur mikinn svip á umhverfi sitt enda staðsetningin áberandi og iðulega sjást ferðamenn munda myndavélar sínar í nágrenni þess. Það kallast á við sambærileg hús frá svipuðu byggingarskeiði á mótum Klapparstígs og Grettisgötu. Ekki er fallist á deiliskipulag sem gerir ráð fyrir að umrætt hús víki. Miklu frekar ætti það að vera útgangspunkturinn í frekari þróun þeirra opnu svæða sem standa sitt hvoru megin við það og styrkja með þeim hætti tengingu við sögulega timburhúsabyggð hverfisins.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Í núgildandi deiliskipulagi er ekki gert ráð fyrir að umrætt bárujárnshús standi áfram á þeim stað sem það er nú heldur sé það fært ofan á þak nýbyggingar. Deiliskipulagið sem nú er verið að samþykkja er í samræmi við sitt nánasta umhverfi og er heldur til bóta frá núverandi skipulagi að mati meirihluta ráðsins. Búið er að finna umræddu bárujárnshúsi stað í nágrenninu komi til uppbyggingar samkvæmt skipulagstillögunni.

9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. október 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. október 2015, á því að staðfesta fyrri afgreiðslu skipulagsfulltrúa frá 2. október 2015 um að breyta jarðhæð hússins á lóð nr. 102b við Hraunbæ í íbúðarrými til útleigu eða fyrir gistiheimili.

Samþykkt. 

10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. október 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. október 2015 á lýsingu vegna deiliskipulagsbreytingar á lóðunum nr. 151 og 153 við Bústaðaveg, þróunarsvæði Þ59 í aðalskipulagi, ásamt fylgiskjölum.

Samþykkt. 

11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. október 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. október 2015 á auglýsingu um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar Vík á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum.

Samþykkt. 

12. Lögð fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. október 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. október 2015 á skipulags- og matslýsingum fyrir Hlíðar, hverfi 3.1. Háteigshverfi, 3.2. Hlíðahverfi og 3.3. Öskjuhlíðarhverfi, ásamt fylgiskjölum.

Samþykkt. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Eitt helsta hagsmunamál í hugum margra sem búa í Hlíðunum er að Miklabraut verði sett í stokk. Áhugi á þessari framkvæmd hefur ítrekað komið fram á íbúafundum. Stokkur myndi bæta loftgæði til muna og myndi auk þess tengja hverfið Klambratúni þar sem í stað Miklubrautar, með öllum sínum þunga, kæmi borgargata á 30 km svæði. Öryggi og lífsgæði myndu aukast. Í lýsingu að hverfisskipulagi Hlíða, Háteigs- og Öskjuhlíðarhverfis er ekki getið um stokk sem mætti þá skilja svo að þessi lausn sé ekki lengur á borðinu. Nánari útfærsla á stokknum ætti að vera hluti af hverfisskipulagi. Að lágmarki ætti að gera grein fyrir stöðu málsins og stefnu til framtíðar enda eru forsendur stokksins skilgreindar í greinargerð með aðalskipulagi Reykjavíkur. Á næstu árum mun umferð aukast verulega um hverfið vegna stækkunar Landspítala. Ekki er í lýsingu á hverfisskipulagi fjallað um mótvægisaðgerðir. Öðru nær er gert ráð fyrir því að mislæg gatnamót Snorrabrautar og Miklubrautar verði fjarlægð en á skipulagsuppdrætti er óskilgreint þróunarsvæði þar sem samgöngumannvirkið stendur nú. Ekki er sýnt fram á hvaða gatnaskipulag geti leyst mislægu gatnamótin af. 17.000 manna íbúðabyggð á flugvallarsvæðinu auk 100.000 m2 atvinnuhúsnæðis mun hafa gífurleg áhrif á lífsgæði Hlíða, Háteigs- og Öskjuhlíðarhverfis. Ekkert er fjallað um þetta í lýsingu að hverfisskipulagi.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Ekki hefur verið slegin út af borðinu sú áætlun að Miklabraut verði sett í stokk. Tekin verður afstaða til hennar og annarra umferðarmála í hverfinu í hverfisskipulagsgerðinni sjálfri en ekki í skipulags- og matslýsingu.

- Kl. 9.40 tekur Halldór Auðar Svansson sæti á fundinum. 

- Kl. 9.45 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundinum. 

13. Lagður fram dómur félagsdóms frá 28. október 2015 í máli nr. 16/2015: Þroskaþjálfafélag Íslands gegn Reykjavíkurborg.

14. Lagður fram dómur héraðsdóms frá 28. október 2015í máli E-2549/2014: Malbikunarstöðin Hlaðbær - Colas hf. gegn Reykjavíkurborg.

15. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks varðandi sendingar vikulegra pistla borgarstjóra til starfsmanna, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. október 2015. Jafnframt er lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 2. nóvember 2015.

Frestað. 

16. Lagt fram svar staðgengils borgarstjóra, dags. 4. nóvember 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um mat á árangri samnings Útlendingastofnunar og Reykjavíkurborgar, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. október 2015.

17. Lagt er til að Elín Oddný Sigurðardóttir og Stefán Eiríksson taki sæti í fulltrúaráði hjúkrunarheimilisins Skjóls í stað Þorleifs Gunnlaugssonar og Stellu Víðisdóttur.

Samþykkt. 

18. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. október 2015:

Lagt er til að Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og fulltrúi í velferðarráði, taki sæti Bjarkar Vilhelmsdóttur, fyrrv. formanns velferðarráðs, í stjórn samtakanna European Cities Against Drugs og innlendri verkefnastjórn forvarnarverkefnisins Youth in Europe þar sem Björk hefur gegnt formennsku. Gert er ráð fyrir að Heiða taki við því hlutverki en að verkefnisstjórnin skipti með sér öðrum verkum. Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs, situr jafnframt sem fulltrúi Reykjavíkurborgar í báðum ofangreindum stjórnum.

Samþykkt. 

19. Lögð fram svohljóðandi tillaga staðgengils borgarstjóra, dags. 4. nóvember 2015, ásamt fylgiskjölum: 

Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samningi Reykjavíkurborgar og Bandalags íslenskra listamanna (BÍL) um samvinnu á sviði menningarmála fyrir árin 2016-2018. Reykjavíkurborg og BÍL hafa gert þjónustusamning frá árinu 2007. Markmið samstarfsins er gagnkvæmur ávinningur á sviði menningarmála þar sem Reykjavíkurborg styrkir starf BÍL sem veitir Reykjavíkurborg ráðgjöf og aðstoð samkvæmt nánara samkomulagi.

Samþykkt.

20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 2. nóvember 2015, ásamt erindisbréfi:

Lagt er til að borgarráð samþykki að gerð verði eigendastefna fyrir Faxaflóahafnir sf. í samvinnu við aðra eigendur félagsins. Í þeim tilgangi verði eigendanefnd Faxaflóahafna skipuð sbr. hjálagt erindisbréf.

Samþykkt. 

21. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 2. nóvember 2015, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að leigja hitaveitutank í Perlunni í nóvember og desember 2015, ásamt fylgiskjölum.

Samþykkt. 

22. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 2. nóvember 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki meðfylgjandi leigusamning um beitiland í landi Fitja við Esjumela á Kjalarnesi. Jafnframt er lagður fram leigusamningur, dags. 29. október 2015.

Samþykkt. 

23. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 2. nóvember 2015, þar sem óskað er eftir samþykkt borgarráðs á meðfylgjandi leigusamningi um hluta skemmu í Víðinesi á Kjalarnesi. Jafnframt er lagður fram leigusamningur, dags. 29. október 2015.

Samþykkt. 

24. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 30. október 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar að Haukdælabraut 32.

Samþykkt. 

25. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 30. október 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar að Lofnarbrunni 30.

Frestað.

26. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

24. september sl. óskuðu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks eftir öllum upplýsingum um feril tillögu meirihlutaflokkanna í borgarstjórn um að sniðganga vörur frá Ísrael. Óskað er eftir fundargerðum, minnisblöðum, útreikningum, áhættumati, kynningaráætlunum ásamt áliti sem unnið var af innkaupasérfræðingum á skrifstofu borgarlögmanns. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks ítreka enn einu sinni þetta erindi. 

27. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er ákveðið að framtíðarstaðsetning olíutankanna í Örfirisey verði höfð í huga við heildarendurskoðun svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins. Með þessum hætti er gert að samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að finna tönkunum nýjan stað. Nágrannasveitarfélögin gerðu ekki athugasemdir við það vinnulag þegar tillaga að aðalskipulagi Reykjavíkur var kynnt fyrir þeim. Nú hefur svæðisskipulagið verið afgreitt án þess að eftir samstarfi hafi verið leitað við önnur sveitarfélög eða málið skoðað með öðrum hætti. Það er yfirsjón sem þarf að leiðrétta enda þótt seint sé. Lóðin sem olíutankarnir standa á er um 7 hektarar að stærð. Verði þeir fluttir annað munu nýtingarmöguleikar svæðisins gjörbreytast og Örfirisey mun taka á sig nýja mynd. Fyrir borgarbúa er það stórt umhverfismál að umferð olíutrukka um götur borgarinnar verði lágmörkuð. Borgarráð lýsir vilja sínum til þess að reynt verði að finna olíutönkunum í Örfirisey nýjan stað. Umhverfis- og skipulagssviði er falið að stilla upp öllum hugsanlegum kostum að fenginni þarfagreiningu lóðarhafa. Vilji borgarráðs verði kynntur á vettvangi svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins og kannaður verði áhugi annarra sveitarfélaga sem standa að svæðisskipulaginu til að taka þátt í leit að heppilegri framtíðarstaðsetningu olíubirgðastöðvar.

Frestað. 

- Kl. 10.30 er gert hlé á fundinum.

- Kl. 10.45 er fundurinn settur á ný í fundarsal forsætisráðuneytisins, Stjórnarráðshúsinu.

28. Fram fer kynning forsætisráðneytisins og Minjastofnunar Íslands á nýjum lögum um verndarsvæði í byggð. 

Sigurður Örn Guðleifsson og Pétur Ármannsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig taka sæti á fundinum Ólöf Örvarsdóttir, Örn Sigurðsson, Erna Hrönn Geirsdóttir, Björgvin Rafn Sigurðarson, Harri Ormarsson, Björn Axelsson, Nikulás Úlfar Másson, Kristbjörg Stephensen, Ebba Schram, Þórhildur Lilja Ólafsdóttir, Benedikt Hallgrímsson, Ívar Bragason, Jón Pétur Skúlason, Svanhildur Konráðsdóttir, Guðbrandur Benediktsson, María Karen Sigurðardóttir, Anna Lísa Guðmundsdóttir, Drífa Kristín Þrastardóttir og María Gísladóttir. 

Fundi slitið kl. 11.45

S. Björn Blöndal

Halldór Halldórsson Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir Halldór Auðar Svansson

Júlíus Vífill Ingvasson Líf Magneudóttir