Borgarráð - Fundur nr. 5378

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2015, fimmtudaginn 15. október, var haldinn 5378. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.00. Viðstödd voru, S. Björn Blöndal, Sóley Tómasdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Halldór Halldórsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Hrólfur Jónsson, Anna Margrét Jóhannesdóttir, Ebba Schram, Pétur Krogh Ólafsson og Úlfhildur Jóna Þórarinsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lagðar fram fundargerðir bílastæðanefndar frá 2. og 9. október 2015. R15010029

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 8. október 2015. R15010014

3. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 24. ágúst 2015. R15010025

4. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. október 2015. R15010021

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

- Kl. 9.05 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum. 

5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 12 mál. R15090158

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera athugasemd við að bréf Knattspyrnufélagsins Fram, dags. 29. september sl. og móttekið af skjalasafni Ráðhúss 30. september, hafi verið sett í embættisafgreiðslu skrifstofu borgarstjórnar. Eðlilegt hefði verið að leggja bréfið fyrir borgarráð án tafar með formlegum hætti enda um að ræða mikilvægt og aðkallandi mál varðandi uppbyggingu íþróttaaðstöðu í Grafarholti-Úlfarsárdal. Sjónarmið Fram vegna flutnings félagsins og uppbyggingar á nýju félagssvæði þess eru réttmæt. Borgarstjórn ber að standa við þau fyrirheit um íbúafjölda, sem gefin voru þegar framkvæmdir hófust við íþróttasvæði Fram í Grafarholti-Úlfarsárdal árið 2008. Félagið hefur ásamt íbúum þessara hverfa sýnt borginni ríkulegan samstarfsvilja og biðlund vegna seinkunar, sem varð á uppbyggingu vegna efnahagsáfalla í þjóðfélaginu á sínum tíma. Ljóst er að frekari metnaðarfull uppbygging í Úlfarsárdal mun leiða til þéttingar byggðar sem er jákvætt í sjálfu sér. Sú ákvörðun vinstri meirihlutans í borgastjórn að draga verulega úr íbúabyggð í Úlfarsárdal frá því sem áður var ákveðið, rýrir mjög möguleika rekstraraðila á því að veita öfluga þjónustu í hverfinu og á það ekki síst við um íþrótta- og æskulýðsstarf. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja því enn og aftur til að skipulag í Úlfarsárdal verði endurskoðað og íbúum fjölgað með það að markmiði að þar skapist góð skilyrði til að reka blómlegt íþrótta- og félagsstarf.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Þegar eru komnar fram tillögur um að fjölga íbúðum og auka uppbyggingu í Úlfarsárdal, en þó ekki til þess sem upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Ljóst er að upphaflegar áætlanir um uppbyggingu í Úlfarsárdal munu ekki koma til framkvæmda fyrir 2030, enda byggjast skipulagsáætlanir borgarinnar á markmiðum um sjálfbæra þróun og hagkvæma uppbyggingu borgarinnar. Í öllum viðræðum við forsvarsmenn íþróttafélagsins Fram hefur þessu verið haldið til haga. Ljóst er að ekki er vilji fyrir því að breyta forsendum aðalskipulags til þess að koma til móts við óskir forsvarsmanna Fram um íbúafjölda í Úlfarsárdal, enda stendur stærð hverfisins miðað við núverandi áætlanir fyllilega undir því að geta haldið uppi öflugu íþrótta- og tómstundastarfi fyrir börn og ungmenni.

6. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir 6 umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R15100002

- Kl. 9.07 taka Halldór Auðar Svansson og Helga Björg Ragnarsdóttir sæti á fundinum. 

7. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu, dags. 24. september 2015, sbr. samþykkt mannréttindaráðs frá 22. september 2015 á aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í jafnréttismálum 2015-2019. Jafnframt eru lögð fram drög að aðgerðaáætlun, dags. 18. september 2015. R15060075

Vísað til borgarstjórnar.

Anna Kristinsdóttir, Halldóra Gunnarsdóttir og Líf Magneudóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir hefðu viljað sjá endurskoðaða mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar liggja fyrir áður en aðgerðaáætlun í jafnréttismálum er samþykkt, þar sem jafnréttisáætlunin byggir að stórum hluta á henni, en hún er ítarlegri og gengur mun lengra en jafnréttislög nr. 10/2008 og Evrópusáttamáli um jafna stöðu karla og kvenna. Aðgerðaáætlun í jafnréttismálum er lögbundin skv. lögum nr. 10/2008 en sú sem hér er lögð fyrir tekur á fleiri þáttum en aðeins þeim lögbundnu, því teljum við að eðlilegra hefði verið að fjalla um aðgerðaáætlunina í borgarstjórn samhliða umfjöllun um endurskoðun mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, en vinna við hana er á lokametrunum.

8. Fram fer kynning á áfangamati Rannsóknarstofnunar í jafnréttisfræðum á samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um átak gegn heimilisofbeldi, dags. 12. október 2015.

Rannveig Sigurvinsdóttir, Erla Hlín Hjálmarsdóttir, Kristín Pálsdóttir, Anna Kristinsdóttir, Halldóra Gunnarsdóttir og Líf Magneudóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R14100262

- Kl. 10.15 tekur Ólöf Örvarsdóttir sæti á fundinum. 

9. Fram fer kynning umhverfis- og skipulagssviðs á mælikvörðum og innleiðingaráætlun aðalskipulags og umhverfis- og auðlindastefnu Reykjavíkurborgar. 

Haraldur Sigurðsson og Hrönn Hrafnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R15100094

10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. október 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. október 2015 á lýsingu vegna deiliskipulags Miklubrautar. R15100082

Samþykkt.

11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. október 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. október 2015 um að bílastæði verði bönnuð við hægri kant Holtavegar frá innkeyrslu að Langholtsskóla að Langholtsvegi. R15100084

Samþykkt með fyrirvara um endanlega afgreiðslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

12. Lagt fram bréf skipulagsfulltrúa, dags. 8. október 2015, sbr. samþykkt af embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa frá 7. október 2015 um að hraði á Elliðabraut verði 30 km/klst. frá bílastæði við Björnslund að hringtorgi. R15100085

Samþykkt með fyrirvara um endanlega afgreiðslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. október 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs s.d. á auglýsingu um tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna Barónsreits. R11060102

Samþykkt. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. október 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs s.d. á auglýsingu um tillögu að breytingu á deiliskipulagi staðgreinireits 1.154.3, Barónsreits. R15070077

Samþykkt. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

15. Lagt fram bréf Otto B. Arnar ehf., dags. 14. september 2015, vegna dagsekta á Skipholt 17. Jafnframt er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs frá 29. september 2015. R15010212

16. Lagt fram bréf borgarlögmanns til forsætisráðuneytisins, dags. 9. október 2015, með athugasemdum Reykjavíkurborgar vegna tillögu Minjastofnunar Íslands að friðlýsingu hafnargarðs á lóðinni Austurbakki 2 í Reykjavík. R15060216

17. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. október 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs s.d. á umsögn sviðsins, dags. 2. október 2015, um frumvarp til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru- og menningarsögulegum minjum, 133. mál. Jafnframt lagðar fram umsagnir Höfuðborgarstofu, dags. 2. október 2015, og Borgarsögusafns, dags. 29. september 2015, um frumvarpið. R15090142

Samþykkt. 

Snorri Sigurðson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

18. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. október 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs s.d. á umsögn sviðsins um frumvarp til laga um náttúruvernd (varúðarregla, almannaréttur, sérstök vernd, framandi tegundir o.fl.), 140. mál. R15090145

Samþykkt. 

Snorri Sigurðson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

19. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 13. október 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um fjölgun félagslegra leiguíbúða 2014, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. ágúst 2015. R15080034

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir telja framkomnar skýringar í takt við alltof mörg svör sem okkur hafa borist vegna fyrirspurna um aukningu á félagslega húsnæði á vegum Félagsbústaða, það er alltaf öðrum að kenna.

20. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 12. október 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina vegna ársreiknings Reykjavíkurborgar 2014, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. ágúst 2015. R15030149

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir átelja að það hafi tekið Dag B. Eggertsson borgarstjóra tæplega tvo mánuði að svara ákalli Framsóknar og flugvallarvina frá 27. ágúst 2015, til hvaða aðgerða hann hyggðist grípa til að bregðast við rekstrarvanda borgarinnar, en ársreikningur borgarinnar fyrir árið 2014 hefur legið fyrir frá 9. apríl 2015, þar sem rekstrarvandinn er staðfestur og öll viðvörunarljós í rekstri voru kveikt. Í þessu sambandi vekur athygli að borgarstjóri lagði ekki fram aðgerðaáætlun fyrr en borgarráð hafði, með aðkomu flokka í hvort tveggja meiri- og minnihluta, komið fram með tillögur um „fyrstu skref“. Það sinnuleysi sem borgarstjóri sýnir fjármálum borgarinnar með þessu verklagi er hrópandi.

21. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 12. október 2015, vegna tillögu borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um endurskoðun á skipulagi Úlfarsárdals, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. ágúst 2015. Jafnframt er lögð fram umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. október 2015. Lagt er til að borgarráð samþykki svohljóðandi breytingatillögu: 

Lagt er til að deiliskipulag Úlfarsárdals verði endurskoðað í samræmi við forsendur aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 um fjölgun íbúða og uppbyggingu og stækkun Úlfarsárdalshverfis og í samræmi við skipulagslýsingu fyrir breytingu á deiliskipulagi svæðisins.

Greinargerð fylgir breytingatillögunni. R15080058

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir telja það mjög jákvætt að meirihlutinn í borgarstjórn samþykki í raun tillögu okkar um endurskoðun á skipulagi í Úlfarsárdal og samþykki með því og sýni því skilning að í Reykjavíkurborg vanti litlar, ódýrar íbúðir fyrir ákveðna hópa, t.d. ungt fólk sem á lítið eða ekki eigið fé, kemst ekki í gegnum greiðslumat og leigir langt umfram greiðslugetu, einnig eldra fólk sem er sá hópur sem fjölgar hraðast á vanskilaskrá og hafa margir misst húsnæði sitt þrátt fyrir að ævistarfi sé að ljúka. Þetta eru hópar sem eru algerlega hornreka í húsnæðisstefnu borgarinnar og biðlund þeirra eftir ódýru húsnæði í miðborginni, sem fyllist óðum af ferðamannaíbúðum og hótelrýmum, er komin að þolmörkum. Mikilvægt er að þessari vinnu verði hraðað því allar forsendur eru fyrir því að lóðirnar og íbúðirnar verði fljótt tekjugefandi í formi fasteignagjalda og byggingarleyfisgjalda og ekki veitir af. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja endurskoðun á stærð hverfisins í Úlfarsárdal. Sú stækkun er í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn sem ítrekað hefur bent á þörfina fyrir stærra Úlfarsárdalshverfi. Núverandi íbúar hverfisins gerðu ráð fyrir stærra hverfi þegar þeir fjárfestu í húsnæði. Stærra hverfi styður við öflugra íþróttafélag, meiri möguleika á allri þjónustu og það kemur til móts við mikla þörf fyrir ódýrara íbúðarhúsnæði í borginni. Stækkun hverfisins er því mikilvægur þáttur í því að gera ungu fólki auðveldara fyrir að koma sér þaki yfir höfuðið.

22. Lagt fram bréf borgarstjóra til Faxaflóahafna sf., dags. 5. október 2015, varðandi tillögu fulltrúa Skorradalshrepps um áheyrnarfulltrúa til setu á fundum hafnarstjóra Faxaflóahafna sf. R14090170

Samþykkt.

23. Lagt fram bréf bæjarstjóra Seltjarnarness, dags. 5. október 2015, varðandi mögulegt samtarf um byggingu fimleikahúss á Seltjarnarnesi. R15020193

Frestað.

24. Lögð fram drög að tímasetningum á kynningum í borgarráði 29., 30. og 31. október 2015 á frumvarpi að fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun 2015-2020. R15010253

25. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 12. október 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að falla frá forkaupsrétti á íbúð í Hólabergi 84, merkt 01-03-15, fastanúmer 232-5759. Jafnframt er lagt fram kauptilboð, dags. 8. september 2015. R15100076

Samþykkt.

26. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 12. október 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að falla frá forkaupsrétti á íbúð að Vesturgötu 7, merkt 01-04-05, fastanúmer 200-1749. Jafnframt er lagt fram kauptilboð, dags. 5. október 2015 og umboð, dags. 30. september 2015. R15100083

Samþykkt.

Fundi slitið kl. 12.25

S. Björn Blöndal

Halldór Auðar Svansson Halldór Halldórsson

Heiða Björg Hilmisdóttir Kjartan Magnússon

Sóley Tómasdóttir Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir