Borgarráð - Fundur nr. 5376

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2015, fimmtudaginn 1. október, var haldinn 5376. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.01. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, S. Björn Blöndal, Sóley Tómasdóttir, Halldór Auðar Svansson, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Heiða Björg Hilmisdóttir og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Birgir Björn Sigurjónsson, Ólöf Örvarsdóttir, Helga Björg Ragnarsdóttir, Hallur Símonarson, Hrólfur Jónsson, Pétur Krogh Ólafsson og Linda Sif Sigurðardóttir

Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Fram fer kynninga á starfsemi Minjastofnunar.

Kristín Hrund Sigurðardóttir, Pétur Ármannsson, Agnes Stefánsdóttir og Gunnþóra Guðmundsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Jónu Björgu Sætran, Guðfinnu J. Guðmundsdóttur og Þórgný Thoroddsen. R15080047

2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. september 2015, ásamt hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2015-2020.

Þorsteinn Hermannsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Jónu Björgu Sætran, Guðfinnu J. Guðmundsdóttur og Þórgný Thoroddsen. R15040074

Vísað til borgarstjórnar.

3. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Árbæjar frá 1. og 24. september 2015. R15010005

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 24. september 2015. R15010013

5. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 25. september 2015. R15010015

6. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 24. september 2015. R15010023

7. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 28. ágúst og 10. september 2015. R15010027

8. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 30. september 2015. R15010021

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 8 mál. R15090158

10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. september 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 23. september, varðandi breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 varðandi Kirkjusand miðsvæði M6b vegna fjölda íbúða og magn atvinnuhúsnæðis. Jafnframt er lögð fram verklýsing umhverfis- og skipulagssviðs, dags. í september 2015. R11060102

Samþykkt að staðfesta afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs á að kynna verklýsingu umhverfis- og skipulagssviðs, dags. í september 2015, vegna breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur.

Páll Gunnlaugsson og Borghildur Sturludóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. september 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 23. september 2015 á breytingu á deiliskipulagi Kirkjusands vegna lóðarinnar nr. 2 við Kirkjusand. Jafnframt er lögð fram tillaga Ask arkitekta, dags. 20. febrúar 2015, og minnisblað, dags. 16. september 2015, varðandi skólamál. R15090162

Páll Gunnlaugsson og Borghildur Sturludóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. september 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 23. september 2015 á auglýsingu um breytingu á deiliskipulagi Austurhafnar vegna lóðarinnar nr. 2 við Austurbakka. R15090160

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. september 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 23. september 2015, varðandi tillögu að deiliskipulagi lóðarinnar nr. 103-105 við Hraunbæ. Jafnframt eru lagðar fram innsendar athugasemdir og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 18. september 2015. R15030283

Samþykkt.

14. Lagt fram ódags. bréf Solstice Productions þar sem óskað er eftir leyfi til 5 ára til að halda Secret Solstice hátíðina. Jafnframt er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. september 2015. R15080084

Samþykkt. 

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins og leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir telja alls óeðlilegt að gera 5 ára samning þegar aðeins tveggja ára rekstrarsaga liggur til grundvallar svo umdeildri hátíð, eðlilegt sé að tónleikahaldarar sýni lengri samfellu í tónleikahaldi á svæðinu áður en að gerður verður langtímasamningur, en tveggja ára rekstrarsaga er mjög stuttur tími. Samningur til eins árs í senn er eðlilegt á þessum tímapunkti. Það vekur áhyggjur að byrjað er að auglýsa hátíðina áður en samningar hafa náðst við Reykjavíkurborg. Sjónarmið sem koma fram í umsögn USK eru málefnaleg og tökum við undir þau og leggjum til að þau verði ekki aðeins höfð að leiðarljósi í samningi við þessa aðila, heldur við alla aðila sem leyfð verði notkun af borgarlandi.

15. Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. september 2015, um tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu 2015-2026, 101. mál. R15090129

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Í landsskipulagsstefnu stendur: „Þar til samkomulag ríkis og Reykjavíkurborgar liggur fyrir um annað miðast landsskipulagsstefna við núverandi staðsetningu Reykjavíkurflugvallar.“ Ekki er ástæða til þess að gera athugasemd við stefnuna að þessu leyti enda einfaldlega raunsætt mat.

16. Lagt fram að nýju bréf mannréttindaskrifstofu, dags. 21. september 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki meðfylgjandi drög að samningi milli Útlendingastofnunar og Reykjavíkurborgar um þjónustu við hælisleitendur. Jafnframt lögð fram umsögn velferðarsviðs og fjármálaskrifstofu, dags. 29. september 2015. R11060051

Samþykkt.

Anna Kristinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

Bókun borgarráðs:

Borgarráð telur mikilvægt að samningar hafi náðst milli Útlendingastofnunar og Reykjavíkurborgar um þjónustu við hælisleitendur. Samningur þessi nær hins vegar ekki til þeirra einstaklinga sem síðar fá stöðu sem flóttamenn skv. j-lið 12. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, fá dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar við flóttamann skv. 4. mgr. 46. gr sömu laga og fá dvalarleyfi á grundvelli ríkra mannúðarsjónarmiða skv. f-lið 12. gr. sömu laga sem og þeir sem fá svonefnda viðbótarvernd. Mikilvægt er að þessir einstaklingar njóti sambærilegrar þjónustu og svonefndir kvótaflóttamenn sem hingað til lands koma í boði ríkisstjórnarinnar. Borgarráð óskar því eftir viðræðum við velferðarráðuneytið um málefni þessa hóps ekki síst í ljósi umræðu undanfarið um móttöku flóttafólks og ummæla forsætisráðherra um jöfnun aðstöðu flóttafólks.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir telja að eðlilegra hefði verið að viðauki II, sem er vegna þjónustu við börn, hefði haft sama gildistíma og samningurinn í heild sinni, þrátt fyrir að mat á fjárhæðum og kostnaði væri bundið við 1. mars 2016. Þá teljum við miður að ekki hafi verið lagt fram mat skv. 11. gr. samnings sem rann út 31. des. 2014, en slíkt hefði gert borgarfulltrúum auðveldara fyrir að meta áhættu og styrki þess samnings sem nú hefur verið samþykktur. Við tökum undir athugasemdir fjármálaskrifstofu og velferðarráðs sem lagðar eru fram í dag með samningnum þar sem segir: „Bent er á að með auknum fjölda hælisleitenda má áætla að fjöldi þeirra sem fá samþykkt dvalarleyfi á Íslandi aukist. Þessir einstaklingar þurfa oft á tíðum áframhaldandi aðstoð og stuðning til að koma undir sig fótum í nýju samfélagi.“

17. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 10. september 2015, varðandi skýrslu starfshóps um fjárhag skóla- og frístundasviðs. Jafnframt er lögð fram skýrsla starfshóps, dags. í ágúst 2015, og minnisblað sviðsstjóra, dags. 7. september 2015.

Skúli Helgason og Helgi Grímsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. R14100259

18. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 29. september 2015, þar sem lagt er til að meðfylgjandi skýrslu starfshóps um fjárhagslega rýningu á skóla- og frístundasviðs, dags. 21. ágúst 2015, verði vísað til frekari meðferðar skóla- og frístundasviðs, fjármálaskrifstofu, skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og til vinnu við undirbúning fjárhagsáætlunar. R14100259

Skúli Helgason, Helgi Grímsson og Halldóra Káradóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

19. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 21. september 2015, varðandi erindi frá skólastjórum grunnskóla Reykjavíkur um færslu fjárheimilda milli ára. Jafnframt er lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 29. september 2015. R15090115

Skúli Helgason, Helgi Grímsson og Halldóra Káradóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

20. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 24. september 2015, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 23. september 2015, á tillögu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um að gerður verði þjónustusamningur við sjálfstætt rekna grunnskóla í Reykjavík auk eins grunnskóla utan Reykjavíkur, ásamt fylgigögnum. R15060176

Samþykkt.

Skúli Helgason, Helgi Grímsson, Halldóra Káradóttir og Guðrún Sigtryggsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Við samþykkjum fyrirliggjandi samninga í trausti þess að sjálfstætt reknir skólar í Reykjavík geti áfram þróast með eðlilegum hætti og vaxið í samræmi við eftirspurn borgarbúa eftir þjónustu þeirra.

21. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 21. september 2015, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 17. september 2015 á tillögu, dags. 14. september 2015, um viðbótar fjármagn vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Jafnframt er lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 28. september 2015. R15020056

Samþykkt.

Stefán Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

22. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um að felld verði úr gildi greinargerð með tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata um að draga tilbaka samþykkt borgarstjórnar frá 15. september 2015 um undirbúning og útfærslu á sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. september 2015. R15090093

Tillagan felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata.

23. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 29. september 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um grunnlaun hjá Reykjavíkurborg, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. maí sl. R15050088

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir þakka greinargóð svör. Alls eru 1006 starfsmenn borgarinnar undir viðmiðum um 300.000 um lágmarkslaun. Ljóst er að markmiðið um að Reykjavíkurborg muni ná að greiða lágmarkslaun að fjárhæð kr. 300.000.- fram til 2018 eins og svarið segir, mun vega þungt í útgjöldum borgarinnar þar sem róðurinn er nú þegar þungur. Af þessum 1006 starfsmönnum eru konur 685 og er það viðvarandi áhyggjuefni hversu „kvennastörf“ eru ætíð minna metin fjárhagslega. Eru þær áhyggjur þó ekki bundnar við Reykjavíkurborg eina.

24. Lagt fram bréf eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, dags. 14. september 2015, þar sem óskað er skýringa á neikvæðri rekstrarniðurstöðu A-hluta í ársreikningi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2014. R15030149

25. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 29. september 2015:

Lagt er til að borgarráð samþykki að skipa þriggja manna nefnd til að rýna ráðningar á vegum sviða og starfsstaða Reykjavíkurborgar. Nefndin fundi vikulega og afgreiði umsóknir um ráðningar frá starfsmannastjórum sviða og miðlægra skrifstofa. Nefndin gefi út leiðbeiningar sem stuðli að gagnsærri og skilvirkri framkvæmd. Menningar- og ferðamálasvið og umhverfis- og skipulagssvið eru undanþegin ráðningarýninni þar sem ekki er um fjölgun stöðugilda að ræða á þeim sviðum.

Greinargerð fylgir tillögunni. R15090074

Samþykkt.

26. Kynnt er fyrirhuguð ferð formanns borgarráðs til Jóhannesarborgar dagana 6.-11. október nk. Formaðurinn fer sem staðgengill borgarstjóra til að taka þátt í viðburði á vegum ICLEI – Alþjóðasamtaka sveitarfélaga um sjálfbærni og loftslagsmál. R15090161

27. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 25. september 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að úthluta Viðskiptaviti ehf. lóð og byggingarrétti að Sjafnarbrunni 11-19. R15090083

Samþykkt.

28. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 25. september 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að úthluta Viðskiptaviti ehf. lóð og byggingarrétti að Sjafnarbrunni 5-9. R15090084

Samþykkt.

29. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 28. september 2015, þar sem óskað er eftir að leigusamningur við skátafélagið Garðbúa, vegna Hólmgarðs 34, verði samþykktur. Jafnframt er lagður fram leigusamningur, dags. 21. september 2015, erindi skóla- og frístundaráðs, dags. 18. september 2015 og bréf skólastjóra Breiðagerðisskóla, dags. 12. september 2015. R15090157

Samþykkt.

Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarráð samþykkir að fela borgarritara að endurskoða verkferla þegar kemur að húsnæðismálum frístundaheimila í samráði við skóla- og frístundasvið. Brýnt er að ákvarðanir um breytingar á húsnæði frístundaheimilanna séu teknar á vettvangi skóla- og frístundaráðs áður en afstaða er tekin til mála í umhverfis- og skipulagsráði og borgarráði.

30. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 29. september 2015: 

Borgarráð samþykkir að veita skóla- og frístundasviði heimild til að greiða tónlistarskólum í Reykjavík framlag vegna grunnáms og miðnáms á hljóðfæri og grunnnáms í söng þann 1. október 2015 í samræmi við fyrri samning sem nú er útrunninn. Skólarnir eru án samnings við Reykjavíkurborg. Unnið er að útreikningum vegna uppgjörs samningsins 2012-2015 og stefnt er á að ljúka þeim fyrir 20. október næstkomandi. 

Greinargerð fylgir tillögunni. R15090175

Samþykkt.

31. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi tillögu:

Mikillar óánægju gætir hjá foreldrum ungra barna fæddum í mars 2014, sem bíða eftir leikskólaplássi hjá Reykjavíkurborg. Samkvæmt svari frá SFS við fyrirspurn Framsóknar og flugvallarvina, kemur fram að 60 laus pláss væru á leikskólum Reykjavíkur en að ekki sé til fjármagn til að taka inn þennan hóp leikskólabarna á þessu ári, en kostnaðurinn við að taka 60 börn sem fædd eru í mars 2014 yrði um 42 m.kr. á ársgrundvelli en 55 milljónir ef öll börnin 78 sem fædd eru í mars 2014 og eru á biðlista. Í ljósi þess að kr. 100.000.000.- voru settar inn í fjárhagsáætlun síðasta árs (2015) til að lækka námsgjöld í grunnskólum til að uppfylla kosningaloforð eins samstarfsflokksins í meirihlutanum, þá leggjum við fram þá tillögu að fyrir fjárhagsáætlun næsta árs (2016) verði ekki settir meiri peningar til að lækka leikskólagjöldin (námskostnað), heldur verði sömu fjárhæð ráðstafað til að koma til móts við fleiri börn og nýta plássin sem til staðar eru á leikskólum borgarinnar. Nauðsynlegt er að nýta öll leikskólapláss sem eru laus hverju sinni. R15100008

Frestað.

32. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Framsókn og flugvallarvinir óska eftir því að lagt verði fyrir borgarráð skriflegt mat á árangri samnings Útlendingastofnunar og Reykjavíkurborgar um þjónustu við hælisleitendur sem getið er um í 11. gr. samningsins sem rann út þann 31. desember 2014, en slíkt virðist vera hluti af þeirri ákvörðun hvort samið verði um framhald þjónustunnar, sem nú hefur verið gert. Óskað er eftir gögnum sem lágu að baki matinu sem og hvenær og á hvaða tímabili það var unnið.

 R11060051

33. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir upplýsingum um hvað svörum líður við fyrirspurn Íbúasamtakanna í Úlfarsárdal frá 19. júní sl. Í þeirri fyrirspurn er óskað eftir upplýsingum um frágang byggingarlóða í hverfinu. R13040076

34. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir upplýsingum um hvernig innleiðing kennslumats og skilgreining vinnutíma gengur í grunnskólum Reykjavíkur. R15100009

35. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sendir vikulegan pistil á netföng borgarstarfsmanna. Slík upplýsingagjöf er vandmeðfarin. Sérstaklega verður ekki við það unað að í fjölpósti sem þessum sé veist að kjörnum fulltrúum eða öðrum sem engan kost eiga á því að svara á sama vettvangi enda öðrum ekki boðið að koma sjónarmiðum sínum að. Í tölvupósti til starfsmanna 25. september sl. er farið háðslegum orðum um atvinnurekanda hér í borg og tekin upp gamalkunn pólitísk umræða þar sem farið er frjálslega með staðreyndir. Slík misnotkun borgarstjóra á aðstöðu sinni myndi ekki líðast öðru starfsfólki borgarinnar. Borgarráð beini skýrum skilaboðum til borgarstjóra að honum sé óheimilt að nýta aðgang sinn að tölvupóstföngum starfsmanna með þessum hætti. R15100010

Frestað.

Fundi slitið kl. 13.13

S. Björn Blöndal

Halldór Auðar Svansson Halldór Halldórsson

Heiða Björg Hilmisdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson

Sóley Tómasdóttir Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir