Borgarráð - Fundur nr. 5374

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2015, fimmtudaginn 17. september, var haldinn 5374. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.01. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, S. Björn Blöndal, Sóley Tómasdóttir, Halldór Auðar Svansson, Halldór Halldórsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Helga Björg Ragnarsdóttir, Hrólfur Jónsson, Ebba Schram, Birgir Björn Sigurjónsson, Pétur Krogh Ólafsson, Anna Margrét Jóhannesdóttir og Úlfhildur Jóna Þórarinsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Fram fer kynning á stöðu aðgerðaáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015, varðandi kynbundinn launamun. Einnig er lögð fram greining Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um greiningu á kynbundnum launamun hjá Reykjavíkurborg árin 2013 og 2014, dags. í september 2015.

Ragnhildur Ísaksdóttir, Atli Atlason, Þórhildur Halldórsdóttir, Elín Valgerður Margrétardóttir og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Líf Magneudóttir, Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur og Jónu Björgu Sætran. 

- Kl. 9.04 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum. 

- Kl. 9.06 tekur Júlíus Vífill Ingvarsson sæti á fundinum. R15090073

Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun: 

Greining á kynbundnum launamun hjá Reykjavíkurborg milli áranna 2013 og 2014 leiðir í ljós að breytingar hafa að mestu verið jákvæðar. Líklegt má telja að endurskoðun starfsmats og aðrar aðgerðir sem gripið hefur verið til á undanförnu ári muni draga enn frekar úr óútskýrðum launamun kynjanna hjá borginni. Borgarráð fagnar þeim árangri sem náðst hefur og einsetur sér að grípa til frekari aðgerða til að leiðrétta þann mun sem enn mælist. Borgarráð áréttar að kynbundinn launamunur er ein af mörgum birtingarmyndum kynbundins misréttis í samfélaginu og nauðsynlegt er að bregðast við á öllum sviðum, eigi árangur að nást.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir þakka góða og vel unna kynningu um launamun kynjanna. Í framhaldi af því ítrekum við samþykkta tillögu frá borgarstjórn frá 17. mars 2015 sem var svohljóðandi: Í tilefni þess að í ár er fagnað 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna á Íslandi, samþykkir borgarstjórn að gerð verði jafnlaunaúttekt hjá Reykjavíkurborg sem staðfest verður með jafnlaunavottun á afmælisárinu. 

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

Í þeirri ágætu kynningu sem fór fram undir lið 1, kom fram að fastir samningar um yfirvinnu séu gerðir jafnvel þó að starfsfólk sé ráðið í hlutstarf, jafnvel 30% starf. Óskað er eftir upplýsingum um hvernig og með hvaða hætti, þannig að sé innan ramma laga og kjarasamninga, hægt sé að hætta að gera þessháttar samninga, enda eru þeir ekki til þess fallnir að auka gagnsæi og traust í starfsmannaráðningum borgarinnar. Einnig er óskað eftir upplýsingum um hversu hár launakostnaður Reykjavíkurborgar sé vegna yfirvinnu, hvort sem um er að ræða unna eða óunna og það sundurliðað eftir sviðum, þar sem starfsmenn eru í starfsmatskerfinu. Nánar viljum við fá upplýsingar um fjárhæðir í krónutölum, fjölda starfsmanna, sundurliðað eftir sviðum borgarinnar. Þá viljum við fá upplýsingar um hvort einhver svið borgarinnar, og þá hver, haldi utan um unna yfirvinnu og hvernig utanumhaldi og eftirliti með þeirri vinnu sé háttað.

2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 16. september 2015, þar sem fram kemur að borgarstjórn hafi samþykkt á fundi sínum 15. september 2015 að Heiða Björg Hilmisdóttir taki sæti Bjarkar Vilhelmsdóttur í borgarráði. R15060178

- Kl. 10.13 víkur Sóley Tómasdóttir af fundi og Líf Magneudóttir tekur þar sæti.

3. Lögð fram fundargerð bílastæðanefndar frá 11. september 2015. R15010029

4. Lagðar fram fundargerðir heilbrigðisnefndar frá 11. ágúst og 8. september 2015. R15010004

5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 10. september 2015. R15010014

6. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 11. september 2015. R15010015

7. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 16. september 2015. R15010021

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

8. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 3. september 2015. R15030096

9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 4 mál. R15080080

10. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs ásamt fylgigögnum, dags. í dag. R15010088

Samþykkt að veita Söngfuglum, kór aldraðra styrk að upphæð 100 þ.kr. fyrir starfsemi kórsins. 

Öðrum styrkumsóknum er hafnað.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins.

- Kl. 10.15 tekur Ólöf Örvarsdóttir sæti á fundinum.

11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. september 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 2. september 2015 á breytingu á deiliskipulagi Suður Mjóddar sem afmarkast af Reykjanesbraut til vesturs, Breiðholtsbraut til norðurs, Skógarseli til austurs og jaðri íbúabyggðar við Þverársel og bæjarmörkum að Kópavogi til suðurs. R15040129

Samþykkt.

12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. september 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 2. september 2015 á verklýsingu vegna breytingar á deiliskipulagi lóðanna nr. 1 við Keilugranda, Fjörugranda og sléttra talna við Boðagranda. R15090053

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

Í síðastliðnum desembermánuði samþykkti íþrótta- og tómstundaráð samhljóða áskorun til borgarráðs og umhverfis- og skipulagsráðs að sjá til þess að lóðin Keilugrandi 1 verði skilgreind sem íþrótta- og útivistarsvæði og að hún verði öll nýtt í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfsemi í Vesturbænum í samvinnu við Knattspyrnufélag Reykjavíkur. Einnig bókaði ráðið hvatningu til borgarráðs að taka tillit til hagsmuna KR í fyrirliggjandi skipulagi á lóðinni við Keilugranda og að mikilvægt væri að þrengja ekki svo að félaginu að það geti ekki annað eftirspurn á komandi árum og áratugum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gerðu svæði KR að umfjöllunarefni í borgarstjórn í sama mánuði og lögðu þunga áherslu á að að lóðin Keilugrandi 1 verði skilgreind sem íþrótta- og útivistarsvæði og nýtt í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfsemi í Vesturbænum í samvinnu við KR. Jafnframt er það mat fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að Reykjavíkurborg hafi ekki heimild til þess að úthluta lóðum án greiðslna fyrir byggingarrétt og án undangenginnar auglýsingar eða opins útboðs eins og gert var með lóðina á Keilugranda. Húsnæðissamvinnufélög starfa á íbúðamarkaði og eiga þar í samkeppni við sjálfstæða aðila, hlutafélög og önnur húsnæðissamvinnufélög. Húsnæðissamvinnufélög starfa sem sagt á samkeppnisgrundvelli enda er búseturéttur ekki félagslegt úrræði. Þá er rétt að benda á að önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu veita húsnæðissamvinnufélögum ekki sérstaka fyrirgreiðslu í formi lóðaúthlutana.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Mikilvægt er að fjölga íbúðum í eigu félaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða en jafnframt er mikilvægt að tryggja að aðstaða sé í hverfum fyrir íþróttastarf. Því er mikilvægt að KR komi að mótun svokallaðrar „lýðheilsubrautar“ í gegnum reitinn eins og félagið hefur óskað eftir.

13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. september 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 2. september 2015 á auglýsingu um tillögu að deiliskipulagi lóðarinnar nr. 3-11 við Stangarholt. R15090054

Samþykkt.

14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. september 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs 16. september á staðsetningu hluta af Berlínarmúrnum. Jafnframt lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 15. september 2015, sbr. samþykkt menningar- og ferðamálaráðs frá 14. september 2015 á tillögu að staðsetningu hluta Berlínarmúrsins. R15070135

Samþykkt.

15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. september 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 2. september 2015 á tímabundinni lokun Bankastrætis fyrir bílaumferð vegna opnunarviðburða samgönguviku 16. september 2015. R15090055

16. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. september 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við endurgerð Smiðjustígs milli Hverfisgötu og Laugavegar. Kostnaðaráætlun 2 er 80 m.kr. R15090077

Samþykkt.

Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

17. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. september 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við gerð göngu- og hjólastígs í Elliðaárdal milli Reykjanesbrautar og Rafstöðvarvegar ásamt tilheyrandi brúm yfir Elliðaár. Kostnaðaráætlun 2 er 120 m.kr. R15040074

Samþykkt. 

Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

18. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. september 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við gerð göngu- og hjólastígs við Stekkjarbakka. Kostnaðaráætlun 2 er 50 m.kr. R15040074

Samþykkt. 

Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

19. Lögð fram umsögn Aðgengi ehf. um aðgengi með tilliti til allra á Hverfisgötu í Reykjavík, dags. í júní 2014. R15080098

Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir yfirferð yfir skýrsluna. Niðurstaðan er áminning um að vanda enn betur til verka við undirbúning á endurgerð gatna og horfa til þarfa allra vegfarenda, ekki síst þeirra sem erfiðast eiga með að komast um.

- Kl. 10.35 víkur Ólaf Örvarsdóttir af fundinum.

20. Lagt fram svarbréf Reykjavíkurborgar til Minjastofnunar, dags. 14. september 2015, með beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun Minjastofnunar Íslands um skyndifriðun hafnargarðs á lóðinni Austurbakka 2 og tillögu stofnunarinnar um friðlýsingu hafnargarðsins. R15060216

21. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu, dags. 15. september 2015, með tillögum um þátttöku Reykjavíkurborgar í verkefninu Vertu næs. R15090034

Samþykkt. 

Halldóra Gunnarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

22. Lagt er til að Skúli Helgason taki sæti í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga í stað Bjarkar Vilhelmsdóttur. R14060127

Samþykkt.

- Kl. 11.04 víkur Halldór Halldórsson af fundi og Kjartan Magnússon tekur þar sæti.

23. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 10. september 2015, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 9. september 2015 á tillögu sviðsstjóra sviðsins um að hætt verði rekstri leikskólans Sjónarhóls frá og með áramótum 2015-2016. Jafnframt er lögð fram greinargerð sviðsstjóra, dags. 4. september 2015, og umsögn foreldraráðs Sjónarhóls um tillöguna. R15090080

Samþykkt. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera alvarlega athugasemd við vinnubrögð meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna vegna lokunar leikskólans Sjónarhóls í Grafarvogi. Eðlilegt hefði verið að kynna slíka ákvörðun vel og með góðum fyrirvara fyrir nemendum, foreldrum, nærsamfélagi og kjörnum fulltrúum. Til dæmis hefði verið rétt að skóla- og frístundaráð hefði fengið svigrúm til að meta húsnæðisþörf leikskólaþjónustu í eystri hluta borgarinnar á næstu árum, aldurssamsetningu biðlista o.s.frv. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka einnig undir gagnrýni foreldraráðs Sjónarhóls í Grafarvogi vegna þeirra vinnubragða sem viðhöfð hafa verið vegna lokunarinnar. Í umsögn foreldraráðs Sjónarhóls kemur skýrt fram að málið hafi verið unnið í óeðlilegum flýti og samráð við foreldra og starfsfólk hafi verið af mjög skornum skammti. Óeðlilegt er að svo stór ákvörðun skuli ekki hafa komið til umfjöllunar í skóla- og frístundaráði fyrr en raun bar vitni. Síðasti fundur ráðsins fyrir sumarleyfi var 24. júní en málið var fyrst kynnt á fundi þess 12. ágúst. Foreldrar voru hins vegar boðaðir til fundar í byrjun júlí með skömmum fyrirvara þrátt fyrir að ljóst væri að margir þeirra ættu erfitt með að sækja fundinn vegna sumarleyfa. Ljóst varð að ekki yrði aftur snúið þegar tillaga um lokun leikskólans var kynnt foreldrum á þessum fundi. Skóla- og frístundaráð stóð því í raun frammi fyrir orðnum hlut þegar þetta mál kom þar til umfjöllunar á fyrsta fundi eftir sumarleyfi, 12. ágúst. Seint ætlar vinstri meirihlutinn í borgarstjórn að læra að eiga eðlilegt samráð við foreldra og starfsfólk þegar kemur að stórum ákvörðunum varðandi skólahald í Grafarvogi.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Áréttað er að málefni leikskólans Sjónarhóls var unnið af fagmennsku og vandvirkni af hálfu starfsfólks skóla- og frístundasviðs þegar stjórnendur leikskólans viðruðu áhyggjur sínar af mikilli fækkun barna á leikskólanum. Ágætt samráð hefur verið haft við bæði foreldra og starfsfólk og lögð áhersla á að tryggja öllum börnum vist á öðrum leikskólum og aðstoða foreldra með aðlögun og að útvega starfsfólki eftir fremsta megni störf á öðrum vettvangi.

Hildur Skarphéðinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

24. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 15. september 2015, ásamt viðaukasamningi við Fjölsmiðjuna, dags. 7. september 2015. Einnig er lagður fram þjónustusamningur, dags. 3. febrúar 2014. R15060014

Samþykkt.

25. Lagt fram bréf stjórnkerfis- og lýðræðisráðs, dags. 8. september 2015, með tillögu að breytingu á framkvæmd Betri hverfa fyrir árið 2016, ásamt greinargerð. R15090038

Samþykkt.

26. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 15. september 2015, ásamt erindisbréfi starfshóps um gerð verklagsreglna um meðferð persónuupplýsinga og trúnaðargagna. R15090033

27. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 7. september 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að falla frá forkaupsrétti í fjöleignarhúsinu nr. 11 við Tryggvagötu í Reykjavík með fastanr. 225-0011, merkt 01-0201. R15090028

Samþykkt.

28. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 14. september 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir bílskúr á bílskúrslóð við Laugarásveg 37, við enda Kleifarvegar. R15070078

Samþykkt.

29. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 14. september 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að hækka söluverð á Urðarbrunni 62 úr kr. 11.100.000,- í kr. 11.500.000. R14010261

Samþykkt. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

30. Fram fer umræða um helstu atriði fjárlagafrumvarps ársins 2016. Einnig er lagt fram minnisblað Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 14. september 2015, vegna vinnslu fjárhagsáætlana vegna áranna 2016-2019. R15010253

Fundi slitið kl. 11.45

S. Björn Blöndal

Halldór Auðar Svansson Heiða Björg Hilmisdóttir

Júlíus Vífill Ingvarsson Kjartan Magnússon

Líf Magneudóttir Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir