Borgarráð - Fundur nr. 5370

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2015, fimmtudaginn 20. ágúst, var haldinn 5370. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.10. Viðstödd voru auk borgarstjóra; S. Björn Blöndal, Sóley Tómasdóttir, Halldór Auðar Svansson, Björk Vilhelmsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Hrólfur Jónsson, Ólöf Örvarsdóttir, Hallur Símonarson og Úlfhildur Jóna Þórarinsdóttir.

Fundarritari var Kristbjörg Stephensen.

Þetta gerðist:

1. Fram fer kynning á fornleifauppgreftri við Lækjargötu.

Lísabet Guðmundsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Jafnframt taka sæti undir þessum lið Kjartan Magnússon, Jóna Björg Sætran, Ilmur Kristjánsdóttir og Líf Magneudóttir. R15080047

2. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 14. ágúst 2015. R15010027

3. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. ágúst 2015. R15010021

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R15070117

5. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir 25 umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R15080001

6. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs ásamt fylgigögnum, dags. í dag. R15010088

Samþykkt með fimm atkvæðum að veita Höndinni, mannúðar- og mannræktarsamtökum, styrk að upphæð 150.000 kr. vegna afmælishátíðar og útgáfu rits. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá við afgreiðslu málsins og vísa til bókunar sinnar á fundi borgarráðs 19. júní 2014.

7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. ágúst 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. ágúst 2015, um tillögur fegrunarnefndar Reykjavíkur að tilnefningum til viðurkenninga fyrir árið 2015 vegna lóða fjölbýlishúsa og stofnana og vegna endurbóta á eldri húsum. R15080021

Samþykkt.

8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. ágúst 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs s.d., á verklýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna Barónsreits, ásamt fylgiskjölum. R11060102

Samþykkt með fjórum atkvæðum. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

9. Lögð fram skýrsla innri endurskoðunar, dags. 17. ágúst 2015, um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja frá 26. apríl 2011.

Ingunn Þórðardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R13070157

10. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, ásamt fylgiskjölum, dags. 13. ágúst 2015, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 12. ágúst 2015, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki að frá og með skólabyrjun haustið 2015 verði starfsemi frístundaklúbbsins Garðs og félagsmiðstöðvarinnar Öskju tímabundið í Safamýri 5 (gamla Safamýrarskólanum). Frístundamiðstöðin Kringlumýri mun bera ábyrgð á starfseminni í Öskju og Garði eftir sem áður. R15050153

Samþykkt.

Soffía Pálsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

11. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, ásamt fylgiskjölum, dags. 13. ágúst 2015, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 12. ágúst 2015, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki að frá og með skólabyrjun haustið 2015 verði starfsemi frístundaklúbbsins Hofs að Þorragötu 3. Frístundamiðstöðin Frostaskjól tekur við ábyrgð á rekstri frístundaklúbbsins Hofs af hendi Kringlumýrar. R15050153

Samþykkt með fimm atvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:

Áríðandi er að finna umræddri starfsemi hentugt húsnæði og margt bendir til að Þorragata henti vel. Mikilvægt er að gott samráð verði haft við íbúa Þorragötu 5-9 áður en ákvörðun er tekin um hvaða starfsemi fer fram í Þorraseli eftir að dagvist aldraðra var flæmd þaðan í burtu í mikilli andstöðu við íbúa.

Soffía Pálsdóttir situr fundinn undir þessum lið.

12. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um að við stjórnarskipti verði nýjar stjórnir upplýstar um ólokin verkefni, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. júní sl. Jafnframt er lögð fram umsögn innri endurskoðanda, dags. 5. ágúst 2015. R15060183

Samþykkt að vísa tillögunni til stjórna viðkomandi B-hluta fyrirtækja.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Eins og kemur fram í umsögn innri endurskoðanda er unnið að því að setja B-hluta fyrirtækjum innan samstæðu Reykjavíkurborgar eigendastefnur og hefur það þegar verið gert gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur, Strætó bs. og Sorpu bs. Með skýrri eigendastefnu skýra eigendur umboð stjórnar og framkvæmdastjóra og kröfur eigenda um stjórnunarhætti, innra eftirlit, endurskoðun og fyrirkomulag eftirlits eigenda. Í þeim eigendastefnum sem settar hafa verið eru ákvæði um að stjórnir setji sér starfsreglur sem staðfestar skulu á eigendafundi. Stjórnarhættir eiga að tryggja fagmennsku, hagkvæmni, ráðdeild, gegnsæi og ábyrgð í rekstrinum. Stjórnir fyrirtækjanna fara með málefni þeirra á milli eigendafunda og hafa eftirlit með að skipulag fyrirtækisins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi og í samræmi við stefnu eigenda. Með hliðsjón af því að það er hlutverk stjórnar á hverjum tíma að tryggja skilvirka ferla um innra eftirlit og innri endurskoðun er tillögu Framsóknar og flugvallarvina vísað til meðferðar í stjórnum viðkomandi B-hluta fyriritækja innan samstæðu Reykjavíkurborgar, ásamt umsögn innri endurskoðanda.

13. Lagt fram svar ferlinefndar fatlaðs fólks, dags. 24. júlí 2015, og svar íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 14. ágúst 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina um aðstöðu og aðbúnað fyrir fatlað fólk í sundlaugum borgarinnar, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. júlí 2015. R15070010

14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. ágúst 2015:

Lagt er til að borgarráð samþykki að borgarstjóri undirriti þjóðarsáttmála um læsi og hjálögð drög að samstarfssamningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Hjálagt fylgir bréf til bæjar- og sveitarstjóra frá mennta- og menningarmálaráðherra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambandi Íslands og Heimili og skóla með tillögu um að gerður verði þjóðarsáttmáli um læsi þess efnis að öll börn lesi sér til gagns við útskrift úr grunnskóla. Til að ná fram markmiðum um þjóðarsáttmála um læsi býður mennta- og menningarmálaráðherra öllum bæjar- og sveitarstjórum landsins að undirrita samning um þjóðaráttmálann þar sem aðilar samningsins, ríki og sveitarfélög, skuldbinda sig til að vinna að því að ná settu markmiði um læsi. Skóla- og frístundaráð hefur samþykkt metnaðarfullar tillögur fagráðs um eflingu málþroska og læsis leik- og grunnskólabarna sem innleiddar verða í áföngum á næstu misserum. Markmið tillagnanna er að sem flest börn hefji grunnskólagöngu sína með traustan grunn í undirstöðuþáttum læsis og jafna þannig tækifæri þeirra til náms og í lífinu öllu, að þau hljóti markvissa kennslu og þjálfun á sviði læsis í öllum árgöngum og sýni stöðugar framfarir út allan grunnskólann. R15070130

Samþykkt.

15. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. ágúst 2015: 

Lagt er til að samþykkt verði hjálögð tillaga skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar og sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 17. ágúst 2015, um nýjan viðaukasamning við Knatthöllina ehf. um leigu á fimleikahúsi við Egilshöll. R15020183

Samþykkt.

16. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 17. ágúst 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að úthluta Heimi ehf. 3.500 fermetra lóð við Lambhagaveg 13. R15080017

Samþykkt.

17. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 14. ágúst 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki kauptilboð vegna sölu á Skriðu, Kjalarnesi með fastanr. 222-5656. Jafnframt er lagður fram kaupsamningur, dags. 29. júlí 2015. R15010176

Samþykkt.

18. Lagt fram erindi formanns stjórnar Jörundar ehf. um sölu á fasteignum félagsins, dags. 19. ágúst 2015. R15060246

19. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi tillögu:

Eins og kunnugt er vantar litlar, ódýrar íbúðir fyrir ákveðinn hóp, t.d. ungt fólk sem á ekki eigið fé, kemst ekki í gegnum greiðslumat og leigir langt umfram greiðslugetu. Því þarf að finna leiðir til að fjölga slíkum íbúðum, t.d. leiguíbúðum og búseturéttaríbúðum, sem yrðu í eigu félaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Því er lagt til að skipulag Úlfarsársdals verði endurskoðað, þ. á m. þær lóðir sem nú er gert ráð fyrir einbýlishúsum eða parhúsum, með það fyrir augum að útbúa lóðir fyrir fjölbýlishús þar sem gert verður ráð fyrir litlum hagkvæmum búseturéttaríbúðum og leiguíbúðum fyrir félög sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða. Hluti af íbúðunum yrðu fyrir Félagsbústaði. Skoðað verði hvernig lækka megi byggingarkostnað við hönnun, útfærslu og byggingu húsanna. T.d. mætti skoða hvort hluti húsanna ætti að vera á tveimur hæðum með nokkrum íbúðum á hvorri hæð með tröppum utanhúss til að minnka sameign innan hússins og þar með stofn-, viðhalds- og rekstrarkostnað sameignar, þ. á m. kostnað við lyftu. Til að tryggja félagslega blöndun er t.d. hægt að líta til þekkingar og reynslu Búseta við útfærslu verkefnisins en félagið á og rekur bæði búseturéttaríbúðir og leiguíbúðir og í íbúðunum býr bæði fólk sem fellur undir og ekki undir eigna- og tekjumörk. R15080058

Frestað.

Fundi slitið kl. 10.58

S. Björn Blöndal

Björk Vilhelmsdóttir Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir

Halldór Auðar Svansson Halldór Halldórsson

Júlíus Vífill Ingvarsson Sóley Tómasdóttir