Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2015, fimmtudaginn 13. ágúst, var haldinn 5369. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09.04. Viðstödd voru S. Björn Blöndal, Sóley Tómasdóttir, Halldór Auðar Svansson, Björk Vilhelmsdóttir, Halldór Halldórsson Áslaug Friðriksdóttir og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Hrólfur Jónsson, Kristbjörg Stephensen, Ólöf Örvarsdóttir, Hallur Símonarson og Linda Sif Sigurðardóttir.
Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð ferlinefndar fatlaðs fólks frá 23. júlí 2015. R15010032
2. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 10. júlí 2015. R15010004
3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 16. júní 2015. R15010006
4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 15. maí 2015. R15010008
5. Lagðar fram fundargerðir innkauparáðs frá 17. júlí og 7. ágúst 2015. R15010015
6. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 26. júní 2015. R15010027
7. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. ágúst 2015. R15010021
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 12 mál. R15070117
9. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir 10 umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R15080001
10. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs ásamt fylgigögnum, dags. í dag. R15010088
Samþykkt að veita Félagi tónskálda og textahöfunda styrk að fjárhæð kr. 300.000.- vegna Norræna tónskáldaþingsins NPU.
Öðrum styrkumsóknum er hafnað.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vísa til bókunar sinnar frá 19. júní 2014.
11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. ágúst 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við viðbyggingu við Vesturbæjarskóla ásamt breytingum í eldra húsi, ásamt fylgiskjölum. R15080019
Samþykkt.
Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
12. Lagt fram bréf Knattspyrnufélagsins Fram, dags. 6. júlí 2015, varðandi uppbyggingu á nýju félagssvæði Fram í Úlfarsárdal. Jafnframt er lögð fram umsögn borgarlögmanns, sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs og skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar, dags. 11. ágúst 2015. R12060081
Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Undirbúningur að uppbyggingu skóla- og íþróttaaðstöðu í Úlfarsárdal hefur staðið yfir um margra missera skeið eða allt frá árinu 2013. Mikilvægt er fyrir íbúa í Úlfarsárdal að ekki ríki öllu lengur óvissa um framgang fyrirhugaðrar uppbyggingar. Borgarlögmanni, framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs og skrifstofustjóra skrifstofu eigna og atvinnuþróunar er falið að kalla eftir afstöðu Knattspyrnufélagsins Fram til áframhaldandi samstarfs og flutnings félagsins upp í Úlfarsárdal.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Forsendubrestur hefur orðið í samningi Fram við Reykjavíkurborg þar sem ein af forsendunum var að hverfið yrði15.000 manns en fallið hefur verið frá því. Sú ákvörðun hefur áhrif á upprunalegar hugmyndir Fram um starfsemi í hverfinu. Standa þarf við gerða samninga gagnvart félaginu og leysa málið í samstarfi borgarinnar og Fram því uppbygging skóla- og íþróttamannvirkja í Úlfarsárdal þolir ekki lengri bið. Á sama tíma og ákveðið er að minnka hverfið er húsnæðisskortur í Reykjavík með þeim áhrifum að bæði kaup- og leiguverð þrýstist óeðlilega hratt upp með slæmum afleiðingum fyrir fólk í húsnæðisleit. Liður í því að leysa úr því ástandi er aukið lóðaframboð til að takast á við mikla eftirspurn eftir húsnæði. Með því að fjölga lóðum og þar með íbúðum í Úlfarsársdal væri bæði hægt að takast á við vanda í húsnæðismálum og standa við gerða samninga við Knattspyrnufélagið Fram.
13. Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 17. júlí 2015, þar sem óskað er eftir að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu leggi fram tillögu að innleiðingu gildistöku svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins. R13060030
Samþykkt að vísa málinu til umhverfis- og skipulagssviðs.
14. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um úrbætur vegna varðveislu menningarminja við Grímsstaðavör, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. júlí 2015. Jafnframt er lögð fram umsögn menningar- og ferðamálasviðs, dags. 30. júlí 2015, ásamt fylgigögnum. R15070054
Samþykkt að vísa tillögunni til gerðar fjárhagsáætlunar.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Starfshópur á vegum menningar- og ferðamálasviðs var skipaður 12. janúar 2015, áætlun er í gangi um lágmarksframvæmdir til að forða tjóni á þessum minjum.
15. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um aðgerðir gegn vargfugli í Reykjavík, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. júlí 2015. Jafnframt er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. júlí 2015. R15070055
Tillagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 2 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við atkvæðagreiðsluna.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Sílamáfur hefur ekki verið til teljandi vandræða í Reykjavík í sumar. Það er ljóst að ef virkilega á að ráðast í aðgerðir til að skerða stofnstærð sílamáfsins hvort sem er með veiðum eða eggjatöku verða þær að vera mun víðtækari en innan Reykjavíkur og æskilegt væri að ríkið stýrði því ferli því líklega þyrftu aðgerðir að snúa að stærstu varplöndunum, m.a. á Miðnesheiði. Ekki er víst að sátt næðist um slíkar aðgerðir og ekki víst að þörf sé á en margt bendir til þess að stofninn á suðvesturhorni landsins sé að skreppa saman.
16. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lagfæringu á bílastæði fatlaðs fólks við Ráðhúsið, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. júlí 2015. Jafnframt er lögð fram umsögn ferlinefndar fatlaðs fólks, dags. 6. júlí 2015. R15070009
Samþykkt að vísa tillögunni frá þar sem verkinu lauk í júní 2015 og var framkvæmdin gerð í samræmi við leiðbeiningar frá ferlinefnd fatlaðs fólks.
17. Lagt fram svar staðgengils borgarstjóra, dags. 12. ágúst 2015, við fyrirspurn Framsóknar og flugvallarvina um veikindahlutfall starfsmanna 2014 og kostnað vegna veikinda, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. júní 2015. R15060123
18. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. ágúst 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina um viðbrögð við ábendingum Samgöngustofu vegna umferðar gangandi og hjólandi vegfarenda á blönduðum stígum, sbr. 50. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. júlí 2015. R15070011
19. Fram fer kynning Höfuðborgarstofu á helstu þáttum framkvæmdar menningarnætur 2015.
Einar Bárðarson og Karen María Jónsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R15080022
20. Lagt fram bréf staðgengils borgarstjóra, dags. 11. ágúst 2015, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki að framlengja rekstrarsamning á milli Reykjavíkurborgar og Leikfélags Reykjavíkur, dags. 31. janúar 2013, um rekstur Borgarleikhússins með óbreyttum ákvæðum til næstu þriggja ára frá og með næstu áramótum. Jafnframt er lagt fram bréf skrifstofustjóra menningarmála, dags. 11. ágúst 2015, og samningur um rekstur Borgarleikhússins, dags. 31. janúar 2013. R15080015
Samþykkt.
Svanhildur Konráðsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
21. Lagt fram bréf staðgengils borgarstjóra, dags. 6. ágúst 2015, þar sem lagt er til að borgarráð skori á Alþingi að staðfesta The Humanitarian Pledge og að borgarstjóri sendi forseta Alþingis bréf þess efnis. Jafnframt er lagt fram bréf Peace Boat Hibakusha Project, ódags. R14020160
Frestað.
22. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, ásamt fylgiskjölum, dags. 13. ágúst 2015, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að hefja viðræður við rekstraraðila Sjávarklasans um rekstur matarmarkaðs við Hlemm. Einnig er óskað heimildar borgarráðs til að hafa samband við þá hópa sem ekki verður haldið áfram viðræðum við vegna Hlemms að skoða verkefnið í Mjódd betur. Jafnframt er óskað eftir að borgarráð vísi til umhverfis- og skipulagsráðs beiðni um að hefja vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi við Hlemm. R15040172
Samþykkt.
Hildur Gunnlaugsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
23. Lagt fram bréf staðgengils borgarstjóra, dags. 10. ágúst 2015, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki að fela sviðsstjóra velferðarsviðs að taka, f.h. Reykjavíkurborgar, þátt í viðræðum stjórnenda Skógarbæjar við stofnaðila um áform um stækkun og breytingar á húsnæði heimilisins. Jafnframt er lagt fram bréf framkvæmdastjóra Skógarbæjar, dags. 2. júní 2015, og umsögn velferðarsviðs, dags. 3. júlí 2015. R15060081
Samþykkt.
24. Lagt fram til kynningar bréf borgarstjóra Reykjavíkur til heilbrigðisráðherra, dags. 29. júní 2015, um uppbyggingu hjúkrunarheimila í Reykjavík. R15060203
25. Lagt er til að Sigurður Eggertsson taki sæti Sverris Þórs Sverrissonar í hverfisráði Háaleitis og Bústaða. R14060119
Samþykkt.
26. Lagt er til að Halldór Auðar Svansson taki sæti Hauks Ísbjörns Jónssonar sem áheyrnarfulltrúi til vara í velferðarráði. R14060167
Samþykkt.
27. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 11. ágúst 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samning um afnot eigenda Hafnarstrætis 17-19 að samnýttum bílastæðum fyrir hreyfihamlaða sem nú þegar eru fyrir hendi í u.þ.b. 25 metra fjarlægð frá hóteli sem reisa á við Hafnarstræti 17-19. Jafnframt er lögð fram umsögn bílastæðanefndar, dags. 27. maí 2015, og samningur, ódags. R15030294
Samþykkt.
28. Lagt fram að nýju bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 13. júlí 2015, þar sem óskað er eftir heimild til að ganga frá rekstrarsamningi við íbúasamtök Bryggjuhverfis um rekstur og starfsemi í Bryggjuhverfishöfn, ásamt samningi, dags. 1. júlí 2015. R13090027
Samþykkt.
29. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 10. ágúst 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð feli umhverfis- og skipulagssviði að vinna nýtt deiliskipulag fyrir lóðina Bústaðaveg 151-153, ásamt fylgigögnum. R15080014
Samþykkt.
30. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 10. ágúst 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki framsal byggingarréttar og lóðarhafaskipti þannig að Vogaland ehf. verði lóðarhafi lóðarinnar Freyjubrunnur 23 í stað Húsabæjar ehf. Jafnframt er lagt fram kauptilboð, dags. 15. apríl 2015. R15070040
Samþykkt.
31. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 21. júlí 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að taka þátt í kostnaði vegna færslu spennistöðvar á lóðinni Pósthússtræti 1 með fjárhæð að hámarki kr. 3.400.000, auk virðisaukaskatts. Jafnframt er lagður fram samningur milli Suðurhúsa ehf. og Orkuveitu Reykjavíkur - Veitna og Reykjavíkurborgar. R15070076
Samþykkt.
32. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 10. ágúst 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina um Hlíðarenda, lóð H, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. júlí 2015. R15070065
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina og borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Halldór Halldórsson leggja fram svohljóðandi bókun:
Nú hefur verið upplýst að umrædd lóð er innan fluglínu flugbrautar 06/24 og er ítrekuð sú afstaða sem fram kemur í fyrirspurninni frá 17. júlí sl. að borgarráðsfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokks hefðu ekki greitt atkvæði með tillögunni frá 16. júlí sl. ef upplýsingarnar hefðu legið fyrir á fundinum.
33. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 10. ágúst 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að úthluta S8 ehf. 6.594 fermetra lóð við Hlíðarenda merkt H. R15070065
Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 2 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina og borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks Halldórs Halldórssonar. Borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Áslaug Friðriksdóttir situr hjá við atkvæðagreiðsluna.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina og borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokks Halldór Halldórsson leggja fram svohljóðandi bókun:
Þar sem umrædd lóð er í fluglínu flugbrautar 06/24 er tillagan ekki samþykkt af borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina og borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks Halldóri Halldórssyni.
34. Kynnt er fimm mánaða rekstraruppgjör A-hluta, janúar-maí 2015. R15010207
35. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í tilkynningu Félagsbústaða til Kauphallarinnar kemur fram að á árinu 2014 hafi félagið keypt 25 íbúðir og selt 5 íbúðir. Borgarstjórn samþykkti í desember 2013 að fjölga þeim um 30 á árinu 2014. Óskað er eftir upplýsingum um það hvers vegna félagslegum leiguíbúðum var ekki fjölgað um 30 á árinu 2014. R15080034
36. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir upplýsingum um það hvað Félagsbústaðir hafa keypt og selt margar leiguíbúðir á þessu ári og hvað margir séu á biðlista eftir félagslegum leiguíbúðum. R15080035
Fundi slitið kl. 12.08
Sigurður Björn Blöndal
Björk Vilhelmsdóttir Áslaug Friðriksdóttir
Sóley Tómasdóttir Halldór Auðar Svansson
Halldór Halldórsson Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir