No translated content text
Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2015, föstudaginn 17. júlí, var haldinn 5368. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 15.40. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, S. Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Sóley Tómasdóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Einnig sátu fundinn Ragnhildur Ísaksdóttir, Pétur Krogh Ólafsson og Linda Sif Sigurðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 16. júlí 2015, þar sem lagt er til að Helgi Grímsson, skólastjóri, verði ráðinn í starf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Jafnframt er lögð fram umsögn valnefndar vegna ráðningar í starf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. júlí 2015. R15070082
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að Þorsteinn Sæberg Sigurðsson, kt. 110460-3849, verði ráðinn í starf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar (fræðslustjóra).
Tillaga borgarstjóra um ráðningu Helga Grímssonar er samþykkt með 5 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Framsóknar og flugvallarvina, Vinstri grænna og Pírata. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins kemur ekki til atkvæðagreiðslu.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Af öllum umsækjendum þótti valnefnd að Helgi Grímsson skólastjóri Sjálandsskóla væri hæfastur til að gegna starfi sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Helgi hefur fjölbreytta reynslu úr skólasamfélaginu og hefur um árabil starfað sem skólastjóri, skólaráðgjafi, aðstoðarskólastjóri og forstöðumaður frístundamiðstöðvar. Í umsögn segir að Helgi búi yfir góðum leiðtoga- og samskiptahæfileikum, hann hafi sýnt metnað í brautryðjendastarfi og hafi sterka sýn í skólamálum. Helgi hefur störf 1. október nk. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata vilja nota tækifærið og óska honum velfarnaðar í starfi.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Á grundvelli faglegrar ráðleggingar frá starfsmannastjóra Reykjavíkurborgar og þar sem valnefnd hefur einnig mælt með ráðningu viðkomandi aðila þá samþykkja Framsókn og flugvallarvinir ráðninguna, án þess að draga úr með nokkrum hætti hæfni annarra umsækjenda sem komu til álita.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Gerð er alvarleg athugasemd við óviðunandi vinnubrögð borgarstjóra og formanns borgarráðs við ráðningu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, stærsta fagsviðs borgarinnar. Þá mótmælum við harðlega þeirri málsmeðferð meirihlutans að taka ekki til afgreiðslu tillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um ráðninguna. Ætlun fulltrúa meirihlutans var að gengið yrði frá ráðningunni á fundi borgarráðs í gær þrátt fyrir að málið væri ekki á útsendri dagskrá með fundarboði og án þess að borgarráðsfulltrúar hefðu fengið tækifæri til að kynna sér gögn málsins. Síðdegis á miðvikudag féllust fulltrúar Sjálfstæðisflokksins á að málinu yrði bætt við á dagskrána. Þeim voru þó ekki afhent nein gögn um málið fyrir fundinn og hafa þó allar umsóknir ásamt greinargerðum umsækjenda legið fyrir síðan 24. júní þegar umsóknarfestur um starfið rann út. Borgarstjóri hafði því rúmar þrjár vikur til að fara yfir gögn málsins en ætlaðist til þess að borgarráðsfulltrúar samþykktu tillögu hans án þess að þeir fengju tækifæri til að kynna sér þau. Rétt er að benda borgarstjóra og formanni borgarráðs á að í 15. grein sveitarstjórnarlaga segir að fundarboði skuli fylgja dagskrá fundarins og þau gögn, sem nauðsynleg eru til að sveitarstjórnarmenn geti tekið upplýsta afstöðu til mála sem þar eru tilgreind. Til að mótmæla ónógri upplýsingagjöf og flausturslegum vinnubrögðum lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram bókun á fundi borgarráðs í gær. Formaður borgarráðs greip þá til þess ráðs að neita að taka við bókuninni og taka málið síðan af dagskrá þrátt fyrir að það hefði þá verið drjúgan tíma til umræðu á fundinum. Er slíkum vinnubrögðum mótmælt. Þurftu fulltrúar minnihlutans að óska sérstaklega eftir frestun málsins og að fá gögn þessa viðamikla máls afhent enda var slíkt forsenda þess að þeir gætu tekið upplýsta ákvörðun. Var afgreiðslu málsins þá frestað um sólarhring svo fulltrúar minnihlutans gætu kynnt sér gögnin. Ljóst er að í þessu mikilvæga máli hugðist borgarstjóri ganga gegn þeirri reglu að borgarráðsmenn fengju tíma til að kynna sér umfangsmikil gögn málsins. Slíkt sýnir að borgarstjóri lítur ekki á borgarráð sem stjórnvald er tekur sjálfstæðar ákvarðanir, heldur stimpil sem hafi það hlutverk að staðfesta ákvarðanir sem hann hefur þegar tekið. Við mótmælum harðlega flausturslegum og gerræðislegum vinnubrögðum borgarstjóra og formanns borgarráðs í málinu. Jafnframt óskum við eftir því að betur verði staðið að upplýsingagjöf í sambærilegum málum í framtíðinni svo borgarráðsfulltrúar geti sinnt því lögbundna hlutverki sínu að kynna sér gögn mála áður en þeir taka afstöðu til fyrirliggjandi tillagna. Nýjum sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs er óskað velfarnaðar í starfi.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir taka undir bókun sjálfstæðismanna að því leyti sem rætt er um minnihluta í borgarráði og vekja athygli á því að aldrei var haft, né hefur verið haft, samband við oddvita Framsóknar og flugvallarvina í aðdraganda þessa máls.
Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:
Ráðning sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs hefur verið í vinnslu hjá sérstakri valnefnd sem skipuð var vegna ráðningarinnar. Nefndin skilaði borgarstjóra umsögn, dags. 15. júlí 2015, og var málinu bætt inn á dagskrá borgarráðs um leið og ljóst þótti að unnt væri að ljúka málinu fyrir sumarfrí borgarráðs. Á fundi borgarráðs þann16. júlí 2015 voru framlögð gögn kynnt og kom þá fram ósk um frestun til að borgarráðsmenn gætu kynnt sér gögnin. Var umsvifalaust fallist á þá ósk og boðað til þess aukafundar sem nú hefur afgreitt málið.
2. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram og bókuð í trúnaðarbók borgarráðs á fundi ráðsins 16. júlí sl.:
Það segir ákveðna sögu um vinnubrögð borgarstjóra og formanns borgarráðs og viðhorf þeirra til ráðsins sem og umsækjenda að þeir ætluðust til þess að hér á fundinum yrði ráðið í eina mikilvægustu stöðu innan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar og gert upp á milli fjórtán einstaklinga án þess að málið hefði verið á útsendri dagskrá fundarins með fundarboði og án þess að borgarráðsfulltrúar hefðu fengið tækifæri til að kynna sér gögn málsins. Þau gögn hafa legið fyrir síðan 24. júní þegar umsóknarfestur um stöðu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, stærsta fagsviðs borgarinnar, rann út. Borgarstjóri hefur því haft rúmar þrjár vikur til að fara yfir gögn málsins en ætlaðist til þess fyrr á fundinum að borgarráðsfulltrúar samþykktu umsögn hans ólesna og án þess að hafa fengið tækifæri til að kynna sér gögn málsins. Rétt er að benda borgarstjóra og formanni borgarráðs á að í 15. gr. sveitarstjórnarlaga segir að fundarboði skuli fylgja dagskrá fundarins og þau gögn, sem nauðsynleg eru til að sveitarstjórnarmenn geti tekið upplýsta afstöðu til mála sem þar eru tilgreind. Um leið og flausturslegum og gerræðislegum vinnubrögðum borgarstjóra er mótmælt er óskað eftir því að borgarráðsmenn fái afhent öll gögn málsins, þ. á m. upplýsingar um menntun og fyrri störf umsækjenda. R15070099
Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:
Ráðning sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs hefur verið í vinnslu hjá sérstakri valnefnd sem skipuð var vegna ráðningarinnar. Nefndin skilaði borgarstjóra umsögn, dags. 15. júlí 2015, og var málinu bætt inn á dagskrá borgarráðs um leið og ljóst þótti að unnt væri að ljúka málinu fyrir sumarfrí borgarráðs. Á fundi borgarráðs þann 16. júlí 2015 voru framlögð gögn kynnt og kom þá fram ósk um frestun til að borgarráðsmenn gætu kynnt sér gögnin. Var umsvifalaust fallist á þá ósk og boðað til þess aukafundar sem nú hefur afgreitt málið.
3. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Á fundi borgarráðs í gær, 16. júlí 2015, var lagt fyrir mál nr. 21 SEA - Hlíðarendi lóð H, R15070065. Í útsendum gögnum fyrir fundinn lá fyrir bréf frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar. Kynning var haldin á fundinum en efni hennar eða glærur lágu ekki fyrir í útsendri dagskrá. Eftir fundinn vöknuðu grunsemdir hjá borgarráðsfulltrúum um að umrædd lóð H við Hlíðarenda væri í aðflugslínu eða á svokölluðu öryggissvæði fyrir braut 06/24 á Reykjavíkurflugvelli. Ekki var upplýst um það á fundinum, hvorki í útsendum gögnum né í kynningunni. Þess er því óskað að lagðar verði fram rökstuddar skýringar og upplýsingar um hvort að umrædd lóð sé í aðflugslínu eða á öryggissvæði er teppa kunni aðflug að braut 06/24 á Reykjavíkurflugvelli, þar sem það liggur alveg ljóst fyrir að borgarráðsfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og sjálfstæðismanna hefðu ekki greitt atkvæði sitt með því máli sem til samþykktar var í gær ef upplýsingar um þetta hefðu legið fyrir. R15070065
4. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráðsfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og sjálfstæðismanna leggja fram þá tillögu að fyrir fundi borgarráðs verði alltaf sendar út þær kynningar og gögn sem lagðar eru fyrir borgarráð a.m.k. sólarhring fyrir fund. Á borgarráðsfundi í gær voru til afgreiðslu mál frá skrifstofu eigna og atvinnaþróunar þar sem kynningar lágu ekki fyrir sólarhring fyrir fund. Þá var afhending gagna, sem rætt er um í bókun Sjálfstæðismanna undir lið 1 á þessum fundi, dreift á fundinum sjálfum. Fjöldi mála á dagskrá borgarráðs geta verið allt að 50 mál á hverjum fundi og vandasamt er fyrir kjörna fulltrúa að kynna sér öll þau mál sem á dagskrá eru, á meðan að á fundi stendur, ef þau eru að berast á fundinum sjálfum. Með slíkum vinnubrögðum skapast áhætta að mál og afgreiðslur af hálfu þeirra sem ekki sitja undirbúningsfundi borgarráðs verði ekki eins vandaðar og eðlilegt er að gera kröfur um. R15070100
Fundi slitið kl. 16.32
S. Björn Blöndal
Sóley Tómasdóttir Halldór Auðar Svansson
Kristín Soffía Jónsdóttir Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir
Kjartan Magnússon Marta Guðjónsdóttir