Borgarráð - Fundur nr. 5367

Borgarráð

 B O R G A R R Á Ð

Ár 2015, fimmtudaginn 16. júlí, var haldinn 5367. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.09. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, S. Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Sóley Tómasdóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Helga Benediktsdóttir, Guðlaug Sigurðardóttir, Ólöf Örvarsdóttir, Hallur Símonarson, Kristbjörg Stephensen, Ágústa Sveinbjörnsdóttir, Pétur Krogh Ólafsson og Linda Sif Sigurðardóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 9. júlí 2015. R15010003

2. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa frá 14. júlí 2015. R15010021

Samþykkt.

3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 12 mál. R15060222

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókanir: 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að sem fyrst verði skoðaðar hugmyndir íþróttafélagsins Leiknis um uppsetningu á áhorfendaaðstöðu á svæði félagsins, sem rúmar um 300 manns, svo möguleiki sé á að ráðast í hana í tengslum við aðrar framkvæmdir á svæðinu sem standa nú yfir.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að sem fyrst verði ráðist í aðgerðir í því skyni að varðveita menningarminjar við Grímsstaðavör þar sem þær liggja undir skemmdum. Mikilvægt er að verja þann skúr gegn frekara tjóni, sem er að hruni kominn og hætta getur stafað af, verði ekki gripið til aðgerða. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að sem fyrst verði gripið til virkari aðgerða gegn mávum og öðrum vargfugli í borginni en gert hefur verið að undanförnu.

4. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir 4 umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R15070001

5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. júlí 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. júlí 2015, varðandi breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna lóðarinnar nr. 19 við Hafnarstræti ásamt fylgigögnum.  R15040221

Samþykkt.

6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. júlí 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. júlí 2015, um auglýsingu varðandi breytingu á deiliskipulagi reits 1.244.2, Egilsborgarreits, vegna lóðarinnar nr. 1-3 við Háteigsveg, ásamt fylgigögnum. R15070067

Samþykkt.

7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. júlí 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. júlí 2015, á auglýsingu varðandi breytingu á deiliskipulagi Bólstaðarhlíðar vegna lóðarinnar nr. 70 við Skipholt, ásamt fylgigögnum. R15070068

Samþykkt.

8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. júlí 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. júlí 2015, varðandi óverulega breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna Barónsreits. R11060102

Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðsluna.

9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. júlí 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs þann 8. júlí 2015 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.154.3, Barónsreits, ásamt fylgigögnum. Einnig eru lögð fram lagfærð skipulagsgögn, uppdráttur og skýringarmyndir mótt. 15. júlí 2015. R15070077

Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata að auglýsa tillöguna. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðsluna.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Gildandi deiliskipulag á Barónsreit gerir ráð fyrir stórfelldu niðurrifi gamalla timburhúsa við Laugaveg, Hverfisgötu og Vitastíg. Það heimilar einnig niðurrif Skúlagötu 28 þar sem Kex Hostel er starfrækt. Deiliskipulagið gerir jafnframt ráð fyrir þremur 15 hæða turnum við Skúlagötu og háum tengibyggingum milli þeirra. Nýja skipulagstillagan gerir ráð fyrir að flest gömlu timburhúsin haldi sér og einnig er lögð sérstök áhersla á að styrkja timburhúsaþyrpingu við Vitastíg og tengja hana með nýjum stíg við Laugaveg, Hverfisgötu og Bjarnaborg.  Einnig heldur Skúlagata 28 sér og gert er ráð fyrir einum turni við Skúlagötu í stað þriggja. Í viðaukasamningi sem lagður er fram í borgarráði er gert ráð fyrir að turninn verði ekki hærri en 60 m yfir sjó og ekki fleiri en 16 hæðir. Við teljum að nýja skipulagstillagan og viðaukasamningurinn séu mun betri en gildandi deiliskipulag og að lengra verði ekki komist innan ásættanlegrar fjárhagslegrar áhættu fyrir borgarsjóð. Tekið er undir margítrekaðar ábendingar og kröfur umhverfis- og skipulagsráðs um endurskoðun skipulagslaga og skilgreiningu fyrningarákvæða um byggingarheimildir, líkt og gildir í öllum nágrannalöndum Íslands. Alþingi og umhverfisráðuneyti hafa hingað til ekki fallist á þessar beiðnir og ástæða er til að ítreka þær. Sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs ásamt borgarstjóra er falið að fylgja þeirri ítrekun eftir.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Einsdæmi er að umhverfis- og skipulagsráð (og áður skipulagsráð) sendi deiliskipulagstillögu í kynningarferli með þeim orðum að allir fulltrúar í ráðinu séu ósáttir við tillöguna í mikilvægum atriðum eins og sameiginleg bókun ráðsins ber með sér. Í bókun með afgreiðslunni lýsir ráðið því yfir að það sé ósátt við byggingarmagn við Skúlagötu og til eru tekin önnur atriði sem þarf að lagfæra. Tillagan er samkvæmt þessu ekki tilbúin til auglýsingar og kynningar og hefði átt að vinna betur og leggja fyrir ráðið að nýju.

10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. júlí 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. júlí 2015, um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi reits 1.174.0, Landsbankareits, sem afmarkast af Vitastíg, Hverfisgötu, Barónsstíg og Laugavegi, ásamt fylgigögnum. Einnig eru lögð fram lagfærð skipulagsgögn, uppdráttur og skýringarmyndir mótt. 15. júlí 2015. R15070069

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja að senda tillöguna í auglýsingu með öllum hefðbundnum fyrirvörum um endanlega afstöðu að loknu auglýsingaferli.

- Kl. 10.30 víkur Ágústa Sveinbjörnsdóttir af fundi.

11. Lagt fram samkomulag milli Reykjavíkurborgar og Rauðsvíkur, dags. 14. júlí 2015, um gerð nýs deiliskipulags og uppbyggingu á Laugavegsreit (staðgreinireit 1.174.1) og Barónsreit (staðgreinireit 1.154.3). R15060092

12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. júlí 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. júlí 2015, um auglýsingu varðandi breytingu á deiliskipulagi reits 1.172.0, Brynjureits, ásamt fylgigögnum. R15060143

Samþykkt.

13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. júlí 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. júlí 2015, um auglýsingu varðandi breytingu á deiliskipulagi lóðanna nr. 8 og 10 við Suðurlandsbraut, ásamt fylgigögnum. R15070071

Samþykkt.

- Kl. 10.35 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundi.

14. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 13. júlí 2015, ásamt skýrslu starfshóps um þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar, dags. 30. júní 2015. R15010279

Samþykkt að vísa skýrslunni til umsagnar íþrótta- og tómstundaráðs, mannréttindaráðs, menningar- og ferðamálaráðs, skóla- og frístundaráðs, umhverfis- og skipulagsráðs og velferðarráðs auk hverfisráða. Að umsögnum fengnum verður stjórnkerfis- og lýðræðisráði falin úrvinnsla skýrslu og umsagna.

Óskar Sandholt, Halldór Lárusson, Þór Steinarsson, Joanna Marcinkowska og Kristín Pálsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

15. Lagt fram endurrit Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu E-4284/2011: Ragnar Arnarsson og Hólmfríður Pétursdóttir gegn Reykjavíkurborg. Málið er fellt niður samkvæmt c-lið 1. mgr. og 3. mgr. 105. gr. l. nr. 91/1991 R11110060

16. Lagt fram bréf borgarlögmanns, dags. 14. júlí 2015, þar sem mælt er með að borgarráð samþykki erindi Garðars G. Gíslasonar hdl., f.h. Valsmanna hf., dags. 10. júlí 2015, þar sem óskað er eftir breytingu á greiðsluskilmálum og afléttingu veðtryggingar á 2. veðrétti á lóðinni Hlíðarendi 1-7.  R14010193

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Á grundvelli yfirlýsinga borgarlögmanns um að veðréttur nr. 2 á umræddri lóð tryggi í raun ekki neina fjárhagslega hagsmuni borgarinnar, sjáum við ekki ástæðu til þess að setja okkur á móti afléttingu veðréttarins.

17. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 16. júní 2015, sbr. samþykkt stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 15. júní 2015 á tillögu um að innri endurskoðun verði falið að vinna úttekt á þjónustumiðstöðvum sem vísað var til borgarráðs, ásamt greinargerð. R15060136

Samþykkt að vísa tillögunni til innri endurskoðunar en borgarráð óskar eftir að unnin verði framkvæmda- og kostnaðaráætlun og lögð fyrir borgarráð. 

18. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 14. júlí 2015, varðandi tillögu og greinargerð borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um að glæða borgargarða nýju lífi, sem vísað var til meðferðar borgarráðs á fundi borgarstjórnar þann 17. mars sl. Jafnframt eru lagðar fram umsagnir umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. maí 2015, menningar- og ferðamálasviðs, dags. 27. apríl 2015, og íþrótta- og tómstundaráðs, dags. 24. apríl 2015, ásamt lista umhverfis- og skipulagssviðs yfir leyfisveitingar. R15030186

Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata að vísa tillögunni til vinnslu við tillögugerð umhverfis- og skipulagssviðs, íþrótta- og tómstundasviðs og menningar- og ferðamálasviðs fyrir sumarið 2016. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um að glæða borgargarða nýju lífi var flutt í borgarstjórn um miðjan marsmánuð. Hún er nú loksins tekin til afgreiðslu í borgarráði en í stað þess að samþykkja tillöguna eða fella er hún send inn í borgarkerfið og stungið ofan í skúffu. Þessi afgreiðsla er í takt við þær starfsaðferðir sem teknar hafa verið upp á þessu kjörtímabili en þær felast í því að nýta aldrei, og samþykkja aldrei, tillögur frá minnihlutanum hversu góðar sem þær eru. Jafnvel tillaga sem sett er fram í þeim tilgangi að auka litríki borgarinnar og nýta sköpunarkrafta ungs fólks til þess að kalla borgarbúa og ferðamenn inn í garðana. Margar borgir hafa markvisst dreift álagi vegna ferðamanna með því að nýta gamla lystigarða á nýjan hátt. Við það eykst fjölbreytileiki borgarlífsins og upplifun ferðamannsins verður meiri og ekki einvörðungu bundin við gönguferðir um hina sögulegu miðborg. Reykjavík býr svo vel að eiga slíka lystigarða í göngufjarlægð frá miðborginni og óhætt að fullyrða að í nýtingu þeirra liggi margvísleg ónýtt tækifæri til framtíðar. Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks gekk út á nýta garðana með skapandi hætti og mjög sérstakt að taka slíkri tillögu ekki með jákvæðum hætti.

19. Lagt fram bréf borgarstjóra til innanríkisráðuneytisins, dags. 7. júlí 2015, vegna lokunar NA/SV flugbrautarinnar (braut 06/24) á Reykjavíkurflugvelli og endurskoðun skipulagsreglna fyrir Reykjavíkurflugvöll til samræmis við lokun flugbrautarinnar, ásamt minnispunktum frá fundum borgarstjóra og innanríkisráðherra frá 11. júlí og 12. ágúst 2014 og 2. febrúar 2015. R15010037

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Einkennilegt er að borgarstjóri sem sat í stýrihópnum vilji nú ganga í berhögg við tillögu stýrihópsins um að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar verði tryggt meðan flugvallarskilyrði í Hvassahrauni verði fullkönnuð. Það er grundvallaratriði að flugvellinum verði ekki breytt meðan endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin um hvort flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri. Skýrt kemur fram á bls. 16 í skýrslunni afstaða nefndarinnar um að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri verði tryggt. Að öðru leyti vísum við til bókunar undir lið 20 að því er varðar tilvísanir í áhættumatið í bréfi borgarstjóra. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við það að borgarstjóri svari bréfi innanríkisráðherra frá 17. apríl 2015 án þess að leggja drög að svari fyrst fyrir borgarráð til umfjöllunar og afgreiðslu. Svarið varðar flugöryggi, samgöngur við höfuðborgina og eru mjög skiptar skoðanir um það eins og alþjóð veit. Að auki eru mörg lögfræðileg atriði til umfjöllunar í svarbréfi borgarstjóra sem vafi ríkir um.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Í bréfi borgarstjóra kemur skýrt fram að óskað er eftir viðræðum við innanríkisráðuneytið á grundvelli gagna og tillagna svokallaðrar Rögnunefndar. Ekki kemur á óvart að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar er tryggt án þriðju flugbrautarinnar enda hefur á umliðnum árum verið gert ráð fyrir að á henni yrði reist samgöngumiðstöð og samningar ríkis og Reykjavíkurborgar kveða skýrt á um að henni verði lokað. Nauðsynlegt er að Reykjavíkurborg kalli eftir því að samningsskuldbindingar ríkisins í málinu séu efndar, enda gæti andvaraleysi í því efni skapað borginni skaðabótaskyldu, þó um vanefndir ríkisins sé að ræða.

20. Lagt fram bréf Isavia til innanríkisráðuneytisins, dags. 4. júní 2015, varðandi áhættumat vegna lokunar flugbrautar 06/24 á Reykjavíkurflugvelli, ásamt áhættumatsskýrslu, dags. 22. maí 2015.

Borgarráð óskar eftir kynningu frá Isavia og Eflu á áhættumatinu á fundi sínum 13. ágúst. R15070066

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks vekja athygli á eftirfarandi texta á bls. 3 í áhættumatsskýrslu Isavia: „Þetta áhættumat tekur ekki á áhrifum á flugvallakerfið í landinu, neyðarskipulagi almannavarna, sjúkraflutningum, umhverfisþáttum s.s. veðurfræðilegum áhrifum frá væntanlegum byggingum í nágrenni flugvallarins, né fjárhagslegum þáttum flugrekstrar.“ Að öðru leyti munu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks fjalla um skýrsluna þegar hún hefur verið kynnt af höfundum hennar í borgarráði.   

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir telja að við gerð áhættumatsins hafi ekki verið fylgt öllum þeim kröfum sem alþjóðareglur kveða á um og þurfi Samgöngustofa að rökstyðja hvers vegna þessum kröfum sé ekki fylgt, enda er það í samræmi við almennar kröfur um gagnsæi og fagleg vinnubrögð við ákvarðanatöku í svo mikilvægi máli sem snertir alla landsmenn. Í niðurstöðu Samgöngustofu kemur fram að áhættumat Isavia nái hvorki til áhrifa á flugvallarkerfi landsins í heild sinni, neyðarskipulags Almannavarna, áhrifa á sjúkraflutninga né fjárhagslegra áhrifa á flugrekstur. Þá kemur fram að Samgöngustofa minnir á að gera þurfi sérstakt áhættumat um framkvæmd breytingarinnar komi til þess að ákveðið verði að loka flugbraut 06/24. Í áhættumati Isavia er notuð skýrsla Eflu um „Mat á nothæfisstuðli Reykjavíkurflugvallar samkvæmt viðmiði ICAO“. Í skýrslunni er nothæfisstuðullinn reiknaður miðað við 13 hnúta hliðarvindshámark en hefði einnig átt að vera reiknaður miðað við 10 hnúta hámarks hliðarvindsstuðul til að tekið væri tillit til allra þeirra gerða flugvéla sem flugvöllurinn þjónar þ.á.m. sjúkraflugvéla sem útreikningurinn tekur ekki til. Þá er nothæfisstuðullinn í skýrslunni ekki er reiknaður út frá vindhviðum, ókyrrð og bremsuskilyrðum þó svo að slíkt eigi að gera. Rök fyrir því eru algerlega ófullnægjandi enda liggur fyrir flugtæknisskýrsla frá 2006 um hið gagnstæða. Alþjóðaflugmálastofnunin hefur samþykkt og gefið út 18 viðauka, sem allir hafa lagagildi hér á landi. Við gerð áhættumatsins hefur þeim kröfum ekki verið fylgt að öllu leyti þar sem í skýrslu Eflu, sem er hluti áhættumatsins, er nothæfisstuðull Reykjavíkurflugvallar ekki reiknaður fyrir alla flokka flugvéla sem flugvöllurinn þjónar. Telja Framsókn og flugvallarvinir að Samgöngustofa þurfi að rökstyðja hvers vegna þessum kröfum var ekki fylgt. Þá nær áhættumatið ekki til neyðarskipulags Almannavarna, ekki áhrifa á sjúkraflutninga né heldur til fjárhagslegra áhrifa á flugrekstur. Að þessu virtu teljum við ótækt að teknar séu ákvarðanir af innanríkisráðuneytinu um lokun neyðarbrautarinnar á grundvelli þessa áhættumats sem hér er lagt fram, sem og teljum við ábyrgðarleysi af borgarstjóra að leggja þvílíka áheyrslu á lokun brautarinnar eins og hann gerir í bréfi frá 7. júlí 2015.

21. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 13. júlí 2015, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að ganga til samninga við S8 ehf. um lóð sem merkt er H á Hlíðarendasvæði. Jafnframt er lagt fram verðmat Eignamiðlunar, dags. 29. júní  2015 og verðmat Kjöreignar ehf., dags. 27. júní 2015. R15070065

Samþykkt.

22. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 13. júlí 2015, varðandi samning um landsmót hestamanna 2018 á milli hestamannafélagsins Fáks og Landssambands hestamanna, ásamt samningsdrögum. R14120157

23. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 13. júlí 2015, varðandi samning við íbúasamtök Bryggjuhverfis um rekstur og starfsemi í Bryggjuhverfishöfn, ásamt samningi, dags. 1. júlí 2015. R13090027

Frestað.

24. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 6. júlí 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili að hluti af fasteign borgarinnar að Nauthólsvegi 100 verði gerður upp og leigður Háskólanum í Reykjavík. Jafnframt eru lagðar fram frumhugmyndir endurbóta, dags. 4. maí 2015, og kostnaðaráætlun Eflu verkfræðistofu, dags. í júlí 2015. R15040190

Samþykkt.

25. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. júlí 2015:

Lagt er til að samþykkt verði beiðni Söngskólans í Reykjavík um þátttöku Reykjavíkurborgar í kostnaði skólans vegna veikinda tveggja kennara skólans á vormisseri 2015, alls kr. 1.697.237. Hlutaðeigandi kennarar kenndu að mestu nemendum sem fjármagnaðir eru af framlögum Jöfnunarsjóðs og hefur þegar verið óskað eftir endurgreiðslu sjóðsins. Þessi útgjöld verði færð á kostnaðarstað M3010 og fjármögnuð af kostnaðarstað 09205, ófyrirséð. 

Greinargerð fylgir tillögunni. R15050134

Samþykkt.

26. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. júlí 2015:

Lagt er til að samþykkt verði beiðni Tónlistarskólans í Reykjavík um þátttöku Reykjavíkurborgar í kostnaði skólans vegna veikinda kennara við skólann á vormisseri 2015, alls kr. 1.171.946. Hlutaðeigandi kennari kenndi nemendum sem fjármagnaðir eru af framlögum Jöfnunarsjóðs og hefur þegar verið óskað eftir endurgreiðslu sjóðsins. Þessi útgjöld verði færð á kostnaðarstað M3010 og fjármögnuð af kostnaðarstað 09205, ófyrirséð. 

Greinargerð fylgir tillögunni. R15050134

Samþykkt.

27. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. júlí 2015:

Lagt er til að samþykkt verði beiðni Tónlistarskólans í Grafarvogi um fyrirframgreiðslu á sem nemur einum mánuði af framlagi Reykjavíkurborgar skv. samningi við skólann, sem er í dag kr. 5.554.396,-.

Greinargerð fylgir tillögunni. R15050134

Samþykkt.

- Kl. 12.18 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundi.

28. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

Sveitarstjórnir eru fjölskipað stjórnvald. Í því felst að skylda meirihluta í hverri sveitarstjórn að veita öllum kjörnum fulltrúum aðgang að upplýsingum er rík og lögbundin. Upplýsingagjöf vegna undirbúnings og aðdraganda samkomulags um innanlandsflug sem undirritað var 25. október 2013 var ábótavant. Eðlilegt er að ferill þessa máls verði upplýstur þótt seint sé. Óskað er eftir upplýsingum um fundi og samskipti sem formaður borgarráðs og borgarstjóri áttu við innanríkisráðherra eða fulltrúa hans varðandi Reykjavíkurflugvöll, framtíð hans og lokun brauta í aðdraganda þess samkomulags sem undirritað var 25. október 2013. Lagðir verði fram í borgarráði minnispunktar, samningsdrög og önnur samskipti sem ofangreindir aðilar áttu vegna þessa. R15070088

29. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

Lagt er til að minnispunktar og aðrar upplýsingar vegna funda sem borgarstjóri og formaður borgarráðs eiga við ráðuneyti og opinberar stofnanir verði lagðar fram í borgarráði á fyrsta mögulega fundi ráðsins. Með sama hætti verði sambærilegar upplýsingar lagðar fram í fagráðum þar sem formenn og sviðsstjórar hafa fundað með opinberum aðilum. R15070089

Frestað.

30. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

Vegna vaxandi vanda samþykkir borgarráð að útbúin verði aðstaða í ónotuðu húsnæði borgarinnar á Víðinesi til að taka á móti heimilislausu fólki og hýsa það. Leitað verði eftir samstarfi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um verkefnið. R14070064

Frestað.

Fundi slitið kl. 12.48

Sigurður Björn Blöndal

Sóley Tómasdóttir Halldór Auðar Svansson

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir Kjartan Magnússon

Júlíus Vífill Ingvarsson