Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2015, fimmtudaginn 18. júní, var haldinn 5364. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.10. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, S. Björn Blöndal, Líf Magneudóttir, Halldór Auðar Svansson, Hjálmar Sveinsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Halldór Halldórsson, og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Hrólfur Jónsson, Björn Axelsson, Örn Sigurðsson, Hallur Símonarson, Pétur Krogh Ólafsson og Úlfhildur Jóna Þórarinsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar sbr. samþykkt borgarstjórnar á fundi sínum 16. júní sl. að fella niður reglulega borgarstjórnarfundi í júlí og ágúst nk., skv. heimild í 4. mgr. 8. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013 en í sumarleyfi borgarstjórnar fer borgarráð með sömu heimildir og borgarstjórn hefur ella. R15060169
2. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 12. júní 2015. R15010023
3. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Strætó frá 29. maí og 12. júní 2015. R15010027
4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 10. júní 2015. R15010007
5. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 9. júní 2015. R15010004
6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. R15060003
7. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir 9 umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R15060002
8. Lagt er til að Viktor Stefánsson taki sæti varamanns í hverfisráði Hlíða í stað Stefáns Rafns Sigurbjörnssonar. R14060120
Samþykkt.
9. Lagt er til að Natan Kolbeinsson taki sæti varamanns í stjórnkerfis- og lýðræðisráði í stað Stefáns Rafns Sigurbjörnssonar. R14060144
Samþykkt.
10. Lagt er til að Sóley Tómasdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir og Halldór Halldórsson taki sæti sem aðalmenn í ofbeldisvarnarnefnd og að Magnús Már Guðmundsson, Líf Magneudóttir og Hildur Sverrisdóttir taki sæti sem varamenn í nefndinni. R15060157
Samþykkt.
Jafnframt samþykkir borgarráð að óska eftir tilnefningum frá Stígamótum, Samtökum um Kvennaathvarf, Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og Embætti landlæknis.
- Kl. 9.13 tekur Kristbjörg Stephensen sæti á fundinum.
11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. júní 2015, þar sem óskað er eftir staðfestingu borgarráðs á því að Nikulás Úlfar Másson verði ráðinn í embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík. R15060139
Samþykkt.
12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júní 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. júní 2015, um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi Háskóla Íslands, austurhluta háskólalóðar, vegna lóðarinnar nr. 35 við Eggertsgötu. R15060140
Samþykkt.
13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júní 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. júní 2015, um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi jarðarinnar Melavellir á Kjalarnesi. R15060142
Samþykkt.
14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júní 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. júní 2015 á auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 2 við Austurbakka. R15060152
Samþykkt.
15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júní 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. júní 2015, um breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.0 vegna lóðanna nr. 16 og 16A við Hverfisgötu. R15060144
Samþykkt.
16. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. júní 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs s.d., um tillögu að breytingu á framkvæmdaáætlun fyrir göngu- og hjólastíga R15040074
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa lagt til að umferðaröryggi verði aukið á Grensásvegi með öðrum hætti en að þrengja götuna eins og til stendur. Upprunalegar áætlanir gerðu ráð fyrir að þrengingin kostaði 160 milljónir en endurútreikningur sýnir 25% hækkun og að þrengingin muni kosta 200 milljónir króna. Nú hefur þessari framkvæmd verið frestað um eitt ár. Því er enn einu sinni beint til fulltrúa Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar að nýta tímann til umferðartalninga á Grensásvegi. Talningar þurfa að taka til allra ferðarmáta og þveranir gangandi og hjólandi. Mikilvægt er að gera einnig umferðarmódel þar sem mat er lagt á hvert umferð muni leita þegar gatan hefur verið þrengd og hvaða áhrif það mun hafa á umferðaröryggi í nærliggjandi íbúðahverfum þar sem meðal annars eru grunnskólar. Þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað er rétt að skoða næstu skref. Fjárhagsstaða borgarinnar er orðin grafalvarleg. Öll viðvörunarljós blikka og óumflýjanlegt að bregðast við af festu. Enn er haldið til streitu að fara út í dýra framkvæmd sem ekki hefur verið sýnt fram á að nauðsyn beri til að leggja í.
- Kl. 9.30 víkja Björn Axelsson og Örn Sigurðsson af fundinum.
17. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs ásamt fylgigögnum, dags. í dag.
Lagt er til að Töframáttur tónlistar fái styrk að fjárhæð kr. 100.000.- vegna tónleikaraðar fyrir félagslega einangrað fólk.
Lagt er til að Geðhjálp og Rauði Krossinn fái styrk að fjárhæð kr. 50.000.- vegna átaksverkefni gegn sjálfsvígum ungra karla.
Lagt er til að Hafið – Öndvegissetur fái styrk að fjárhæð kr. 250.000.- vegna almennrar starfsemi og uppbyggingar öndvegissetursins.
Lagt er til að Rótin fái styrk að fjárhæð kr. 500.000.- vegna ráðstefnunnar Konur, fíkn, áföll og meðferð.
Lagt er til að öðrum styrkumsóknum verði hafnað. R15010088
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vísa til bókunar sinnar í borgarráði 19. júní sl.
18. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um að skipaðir verði nýir stjórnarmenn í stjórn Strætó bs., sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. febrúar sl. R15020111
Tillagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Í skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um sameiginlega ferðaþjónustu fatlaðs fólks er rakið hvar ábyrgð á mótun og innleiðingu breytinganna á þjónustunni liggur og er ljóst af henni að hæpið er að færa ábyrgð á þeim misbrestum sem urðu í innleiðingunni á stjórn Strætó bs. í jafn ríkum mæli og gengið er út frá í tillögu Framsóknar og flugvallarvina um að hlutast verði til um að skipta út stjórnamönnum í fyrirtækinu. Í skýrslunni segir að stjórn Strætó hafi verið í þeirri einkennilegu stöðu að hafa ráðríkan framkvæmdastjóra sem virðist hafa farið sínu fram, en að því er virðist frekar veika stjórn þar sem skipt var reglulega um stjórnarformann. Í því ljósi segir innri endurskoðun nauðsynlegt að skýra til fulls hlutverk og umboð stjórnar Strætó bs. og skilgreina hlutverk fulltrúaráðs SSH í eigendastefnu. Sú stjórn sem nú situr í Strætó var skipuð þegar innleiðing breytinganna var að hefjast en ekki var ljóst hverjum var falið að bera heildarábyrgð á því verkefni. Eigendur bjuggust við að Strætó bæri ábyrgð á öllu sem því tengdist en Strætó taldi sig aðeins bera ábyrgð á tilteknum þáttum þess. Í því samhengi telur innri endurskoðun að eftirlit hjá sveitarfélögum og velferðaráðum þeirra hafi brugðist. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata geta í þessu ljósi ekki tekið undir tillögu þar sem skuld er skellt á stjórn Strætó bs. og fullyrt er að verkefni tengd Strætó bs. séu stjórninni almennt ofviða. Eðlilegra er að eigendur styðji við núverandi stjórn í sínum verkum eins og þarf og axli þannig sinn hluta ábyrgðarinnar á þeim mistökum sem gerð voru við innleiðingu á sameiginlegri ferðaþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Í svartri skýrslu innri endurskoðunar um ferðaþjónustu fatlaðs fólks er kastljósinu beint að þætti stjórnar Strætó bs. en fram kemur að stjórnin hafi verið veik og að hlutverk hennar hafi verið að veita samþykki við gjörðum framkvæmdastjórnar. Enn fremur segir að ekki verði annað séð en að eftirlit stjórnar með rekstri hafi brugðist varðandi verkefni er lutu að ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Reykjavíkurborg ber að axla ábyrgð á þessu sorglega máli. Það eiga önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að gera líka. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa áður bent á að stjórnarmenn hljóti að hugleiða stöðu sína.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir furða sig á tregðu meirihlutans til að axla stjórnunarlega, faglega og pólitíska ábyrgð á þeirri handvömm sem kjörin stjórn Strætó bs. hefur orðið uppvís að, m.a. öll þau atvik sem ollu því að þann 5. febrúar 2015 þurfti að taka ákveðin málefni frá stjórninni og færa til sérstakrar neyðarstjórnar, þar sem ljóst var að skipaðri stjórn var ofviða að standa að og klára innleiðingu ferðaþjónustu fatlaðra. Þá liggur fyrir skýrsla innri endurskoðanda þar sem kveðinn er upp áfellisdómur yfir stjórn Strætó bs. í þeim verkefnum sem snúa að ferðaþjónustu fatlaðra. Að öðru leyti vísum við til inngangsorða að tillögu okkur frá 12.02.2015 og ítrekum mat okkar að stjórn Strætó bs. hafi misst traust íbúa höfuðborgarsvæðisins og borgarbúa til áframhaldandi verka.
19. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um skipan fulltrúa í stjórnir dótturfélaga borgarinnar og byggðarsamlaga, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. maí sl. R15050132
Tillagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 1 atkvæði borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fyrirtæki og félög í eigu Reykjavíkurborgar og byggðasamlög sem Reykjavíkurborg á aðild að fara með fjölmörg verkefni Reykjavíkurborgar, ýmist lögbundin eða ólögbundin. Engin rök standa til þess að hæfiskröfur sem gerðar skulu til stjórnarmanna gangi jafn langt og tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina gerir ráð fyrir, sér í lagi þegar litið er til skilyrða laga fyrir því að einstaklingar teljist kjörgengir í sveitarstjórn. Þá gilda engin þau sjónarmið um starfsemi þessara félaga og byggðasamlaga sem sambærileg geta talist þeim sjónarmiðum sem að baki eru ströngum kröfum sem gerðar eru til stjórnamanna fjármálafyrirtækja. Hæfiskröfur til stjórnarmanna í einstökum félögum eða byggðasamlögum eiga að taka mið af þeirri starfsemi sem fyrirtækið rekur að teknu tilliti til þess að um stjórnarmenn í hlutafélögum gilda ákvæði laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Með hliðsjón af því er kveðið á um það í samþykktum fyrir Strætó bs. og Sorpu bs. að stjórnarmenn, bæði aðal- og varamenn, skuli vera aðalmenn í sveitarstjórn eða framkvæmdastjórar viðkomandi sveitarfélaga. Þá er í sameignarsamningi eigenda Orkuveitu Reykjavíkur að finna ákvæði um sérstök hæfisskilyrði stjórnarmanna.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir eru ítreka mikilvægi þess að hægt sé að gera sérhæfðar hæfiskröfur til þeirra aðila sem veljast í stjórnir félaga og byggðasamlaga á vegum Reykjavíkurborgar. Hlutverk tillögunnar var að hreyfa við núverandi stöðu, en svo virðist sem að meirihluti pólitískt kjörinna fulltrúa borgarinnar hræðist hæfniskröfur og haldlítið er að vísa aðeins til almennra kjörgengisskilyrða skv. lögum nr. 5/1998, þegar um er að ræða stærsta sveitafélag landsins. En kjörgengisskilyrðin eru einföld og segja „Kjörgengur í sveitarstjórn er hver sá sem á kosningarrétt í sveitarfélaginu skv. 2. gr., hefur ekki verið sviptur lögræði og hefur óflekkað mannorð. Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem er sekur eftir dómi um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti nema hann hafi fengið uppreist æru sinnar. Dómur fyrir refsivert brot hefur ekki flekkun mannorðs í för með sér nema sakborningur hafi verið fullra 18 ára að aldri er hann framdi brotið og refsing sé fjögurra mánaða fangelsi óskilorðsbundið hið minnsta eða öryggisgæsla sé dæmd.“ Ljóst er að rekstrarumhverfi borgarinnar, félaga hennar og samlaga verður sífellt viðameira og flóknara og því ætti það að vera krafa samfélagsins og útsvarsgreiðenda að gerðar séu ríkari hæfniskröfur til þeirra sem veljast til starfa öllum borgarbúum til heilla.
20. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks að viðbót við reglur um ferðaheimildir og greiðslu ferðakostnaðar, dags. 4. mars 2015, sbr. 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. mars sl. Jafnframt er lögð fram umsögn formanns starfshóps um endurskoðun reglna um ferðaheimildir og greiðslu ferðakostnaðar og lagt fram bréf borgarritara, dags. 12. júní 2015, þar sem fram kemur svohljóðandi breytingatillaga:
Í því skyni að auka gagnsæi og eftirlit við ráðstöfun almannafjár beinir borgarráð því til borgarritara að bæta eftirfarandi skrefum inn í verkferil vegna ferðaheimilda í ferðum á vegum Reykjavíkurborgar: Fjármálastjórar fagsviða skulu senda ársfjórðungslega lista yfir allar samþykktar ferðaheimildir sem lagður verður fram á fundi viðkomandi fagráðs. Fjármálastjóri Ráðhúss skal senda ársfjórðungslega lista yfir allar samþykktar ferðaheimildir á vegum borgarráðs og borgarstjórnar sem lagður verður fram á fundi borgarráðs. R14080135
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa lagt til að gagnsæi verði aukið með breytingum á reglum um ferðaheimildir á þann veg að ákvarðanir um ferðir starfsmanna og ráðgjafa á vegum borgarráðs eða borgarstjórnar verði kynntar í borgarráði en aðrar ferðir starfsmanna og ráðgjafa verði kynntar á fundum viðkomandi nefnda eða fagráða. Breytingartillaga sú sem samþykkt er í borgarráði hér í dag gengur skemur en verður engu að síður að teljast áfangasigur og þess vegna samþykkja borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks breytingartillöguna.
21. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 9. júní 2015, við fyrirspurn Framsóknar og flugvallarvina um ónýttar fjárheimildir vegna styrkjaúthlutana, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. mars 2015. R15060096
22. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 16. júní 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um íbúakjarna að Rangárseli 16-20, sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. maí 2015. R15050131
23. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 16. júní 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um fjölgun hjúkrunarrýma í borginni, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. apríl sl. R15040228
24. Lagt fram bréf formanns starfshóps um áætlun um að brúa bilið á milli fæðingaorlofs og leikskóla, dags. 12. júní 2015, um skil starfshópsins. Jafnframt lögð fram skýrsla starfshópsins, dags. 28. maí 2015. Einnig er lögð fram skýrsla um innritun barna í grunnskóla oftar en einu sinni á ári, dags. í apríl 2015 og umsögn fjármálaskrifstofu dags. 16. júní sl.
Hildur Skarphéðinsdóttir, Kristján Gunnarsson og Ingibjörg Gunnlaugsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R14090013
Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarráð þakkar fyrir skýrslur og greiningu á því hvernig megi brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, annars vegar og greiningu á því hvort áhugavert sé að útskrifa börn úr leikskólum yfir í grunnskóla oftar en einu sinni á ári, hins vegar. Borgarráð felur skóla- og frístundasviði að vinna sambærilega greiningu á auknum sveigjanleika á milli grunnskóla og framhaldsskóla, jafnframt því sem staðið verði fyrir opinni umræðu. Hugmyndirnar sem til umfjöllunar eru hafa ekki aðeins praktíska og fjárhagslega hlið heldur þurfa fagleg sjónarmið og framtíðarsýn um gott skólakerfi og metnaðarfullt skólastarf út frá hagsmunum barna að vera í forgrunni.
Vísað til frekari vinnslu skóla- og frístundasviðs.
25. Lagt fram bréf borgarstjóra, 11. júní 2015, með drögum að bréfi til mennta- og menningarmálaráðherra um sveigjanleika milli skólastiga. R15060125
26. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 28. maí 2015, með beiðni um aukin fjárframlög til sviðsins vegna innritunar barna í leikskóla sem fædd eru í janúar og febrúar 2014. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 16. júní 2015, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki innskráningu allt að 188 nemenda í leikskóla næsta haust og byggir samþykktin á fjárhagsgreiningu í umsögninni sem leiðir í ljós að ekki er þörf á auknum fjárframlögum. R15060015
Samþykkt.
Hildur Skarphéðinsdóttir, Kristján Gunnarsson og Ingibjörg Gunnlaugsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
27. Lagt fram bréf skóla- og frístundasvið, dags. 8. júní 2015, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 3. júní sl., um drög að samningi um framlag til leikskólans Skerjagarðs ásamt fylgiskjölum. R15060126
Frestað.
28. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 15. júní 2015, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 11. júní 2015 á tillögu að reglum Reykjavíkurborgar um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks. R15060146
Samþykkt.
Stefán Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
29. Lagt fram að nýju bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 30. maí 2015, ásamt fylgigögnum, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að hefja söluferli á Amtmannsstíg 5a. Jafnframt er lagðar fram umsagnir fjármálaskrifstofu, dags. 9. júní 2015, velferðarsviðs, dags 9. júní 2015, og skóla- og frístundasviðs, dags. 9. júní 2015. R15050153
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Stefán Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ákvörðun um sölu Amtmannsstígs 5A tengist breytingum sem verið er að gera á starfsemi velferðarsviðs og skóla- og frístundsviðs. Í því felst meðal annars að velferðarsvið skilar þjónustuseli til eignasjóðs sem starfrækt hefur verið að Þorragötu 3. Íbúar við Þorragötu hafa mótmælt þessu mjög harðlega og hafa bent á að borgin hafi ekki heimild að lögum til að gera þær breytingar sem fyrirhugaðar eru. Borgarráði hefur borist bréf frá lögfræðingi íbúa og má augljóst vera að um þetta mál ríkir lögfræðilegur ágreiningur. Eðlilegt er að greitt verði úr þeim ágreiningi áður en teknar eru ákvarðanir um nýtingu húsnæði Þorrasels.
30. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 30. maí 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki meðfylgjandi leigusamning við Sjöstjörnuna ehf. vegna húsnæðis við Rafstöðvarveg 9, ásamt fylgiskjölum. Jafnframt er lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 16. júní 2015. R15050166
Samþykkt.
Stefán Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
31. Fram fer kynning á stöðu lóðamála vegna Sturlugötu 10. R13020120
32. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra ásamt greinargerð, dags. 16. júní 2015:
Borgarráð samþykkir að borgarstjóri semji við Háskóla Íslands og Félagsstofnun stúdenta um að á eftirtöldum reitum á lóðum Háskóla Íslands skuli rísa íbúðir fyrir stúdenta sem gert er ráð fyrir að Félagsstofnun stúdenta muni síðan reisa og reka.
Reitir þessir eru:
• Vísindagarðareitur
• Reitur fyrir neðan Gamla garð
• Reitur við Nýja garð
Reykjavíkurborg í samstarfi við Háskóla Íslands mun láta gera nýtt deiliskipulag fyrir reiti þessa á grundvelli fyrirliggjandi rammaskipulagstillögu fyrir Háskólasvæðið. Kostnaður við gerð deiliskipulagsins skiptist jafnt milli Reykjavíkurborgar og Háskólans. Að deiliskipulagsvinnu lokinni mun Reykjavíkurborg úthluta lóðunum formlega til Félagsstofnunar stúdenta til byggingar stúdentaíbúða. R14010115
Samþykkt.
33. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 15. júní 2015, þar sem óskað er samþykkis borgarráðs á meðfylgjandi drögum að samkomulagi Reykjavíkurborgar og Rauðsvíkur um Baróns- og Laugavegsreiti. R14100006
Samþykkt.
- Kl. 11.25 víkur Hjálmar Sveinsson af fundinum og Björk Vilhelmsdóttir tekur þar sæti. Einnig víkur Kristbjörg Stephensen af fundinum á sama tíma.
34. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 16. júní 2015, varðandi námsleyfi borgarritara frá 1. september til 1. mars 2016.
Ellý Katrín Guðmundsdóttir víkur af fundi við meðferð málsins. R15060159
35. Kynnt er mánaðarlegt rekstraruppgjör A-hluta, janúar-apríl 2015. R15010207
36. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra ásamt greinargerð, dags. 16. júní 2015:
Lagt er til að fjárhagsrammar verði samþykktir fyrir svið borgarinnar vegna undirbúnings fjárhagsáætlunar fyrir árið 2016 skv. meðfylgjandi töflu. Jafnframt er lagt til að borgarráð feli fagsviðum og miðlægum skrifstofum að hefja vinnu við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs og næstu fimm ára. R15010253
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Halldóra Káradóttir og Ásgeir Westergren taka sæti á fundinum undir þessum lið.
37. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra ásamt greinargerð, dags. 16. júní 2015:
Lagt er til að virkjað verði ákvæði reglna um gerð fjárhagsáætlunar um færslu afgangs og halla á milli ára frá fjárhagsárinu 2015 til fjárhagsársins 2016. Tillagan breytir ekki heildarfjárheimildum málaflokka um útgjöld á árinu 2016. Þá er lagt til að samþykktar verði eftirfarandi orðalagsbreytingar á grein 4.3: 4.3 Færsla fjárheimilda á milli ára. Almennt færist rekstrarafgangur á sviði/stofnun á milli ára ef rekja má rekstrarafgang með skýrum hætti til góðrar fjármálastjórnunar en ekki ytri áhrifavalda, frestunar verkefna, manneklu eða þjónustufalls. Sviðsstjóri gerir tillögur til borgarstjóra um færslu afgangs til ráðstöfunar í tiltekið skilgreint verkefni. Borgarstjóri leggur fyrir borgarráð tillögu um ráðstöfun afgangs ef verkefnið er í samræmi við stefnumörkun borgarinnar um þjónustu við borgarbúa og ekki komi til að sérstakar fjárhagsástæður borgarsjóðs kalli á annað. Samþykktum afgangi skal ráðstafað innan næstu tveggja rekstrarára og skal áætlað fyrir ráðstöfun afgangs. Rekstrarhalli á sviði/stofnun færist sömuleiðis milli ára ef hann verður ekki beinlínis rakinn til óhagstæðra ytri áhrifa eða ef sviðsstjóri hefur ekki gert borgarráði tímanlega grein fyrir breyttum aðstæðum og gert viðeigandi ráðstafanir. Borgarstjóri leggur fyrir borgarráð tillögu um að slíkur halli verði fluttur á milli ára. Almennt skal miða við að svið/stofnun endurgreiði slíkan halla á tveimur árum og skal áætlað fyrir því hvernig honum skuli mætt. Ef rekja má rekstrarhalla til ytri áhrifavalda sem sviðsstjóri hefur gert borgarráði tímanlega grein fyrir og ekki var talin ástæða til eða mögulegt að draga á móti úr kostnaði við starfsemina, færist halli ekki á milli ára. Fjármálastjóri setur nánari reglur og leiðbeiningar um framkvæmdina sem telst viðauki við reglurnar og ber að leggja til grundvallar við framkvæmd á þessari grein. Sviðsstjóri setur nánari reglur á sínu sviði um færslu afgangs/halla á grundvelli ofangreindra reglna og gerir grein fyrir þeim í starfsáætlun sviðsins. R15010253
Samþykkt.
Halldóra Káradóttir og Ásgeir Westergren taka sæti á fundinum undir þessum lið.
38. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra ásamt greinargerð, dags. 16. júní 2015:
Borgarráð samþykkir að veita fjármálastjóra framlengda heimild til að greiða tónlistarskólum í Reykjavík, sem eru í tímabundnum greiðsluvanda, fyrirfram áætlað framlag Jöfnunarsjóðs vegna kennslukostnaðar vegna nemenda á miðstigi í söngnámi og/eða framhaldsstigi í söng- og tónlistarnámi, vegna júlí og ágúst 2015, alls um 16,6 m.kr. Eigi síðar en 1. október 2015 verður aftur horfið til eftirágreiðslu framlags og kemur þá til uppgjörs á ofangreindu fyrirkomulagi. R15050134
Samþykkt.
Halldóra Káradóttir og Ásgeir Westergren taka sæti á fundinum undir þessum lið.
39. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra ásamt greinargerð, dags. 16. júní 2015:
Lagt er til að fjárheimildir fagsviða og annarra rekstrareininga A-hluta fyrir árið 2015 verði hækkaðar um samtals kr. 1.145.068.705 vegna kostnaðarauka við endurskoðun á starfsmati, vegna kjarasamnings við Félag grunnskólakennara, vegna kjarasamnings við Félag stjórnenda í leikskólum og að teknu tilliti til tillagna um hagræðingu á móti. Einnig er gert ráð fyrir hækkun kostnaðar vegna áhrifa starfsmats á einkarekna leikskóla. Hækkunin skiptist með milli fagsviða og annarra skipulagseininga, skv. meðfylgjandi töflu. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af kostnaðarstað 09126 Launa- og stafsmannakostnaður. Breytingin hefur ekki áhrif á rekstrarniðurstöðu eða fjárflæði A-hluta eða samstæðu Reykjavíkurborgar. Fjármálastjóra er falið að útfæra breytingar á fjárheimildum á kostnaðarstaði í samráði við fagsvið. R15010072
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Halldóra Káradóttir og Ásgeir Westergren taka sæti á fundinum undir þessum lið.
40. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra ásamt greinargerð, dags. 16. júní 2015:
Lagt er til að borgarráð samþykki að framlengja gildandi samningi við Arion banka um fruminnheimtuþjónustu um eitt ár, eða frá 1. janúar 2016 til og með 31. desember 2016, gegn því að gjöld bankans lækki um 7,11% frá því sem nú er og að bankinn bæti tölfræðigreiningar og skýrslur til borgarinnar í samræmi við fyrirliggjandi tillögur. R15060155
Samþykkt.
Halldóra Káradóttir og Ásgeir Westergren taka sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 11.50 víkur Halldór Halldórsson af fundinum og Kjartan Magnússon tekur þar sæti.
- Kl. 11.55 víkur borgarstjóri af fundinum ásamt Pétri Ólafssyni.
41. Fram fer kynning á starfi endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar.
Ólafur B. Kristinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R15060095
- Kl. 12.44 víkur Kjartan Magnússon af fundinum.
42. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:
Þegar að stjórnarskipti verða í félögum og samlögum í eigum borgarinnar eftir kosningar getur verið vandasamt verkefni fyrir nýja stjórn að setja sig inn í þau verkefni sem eru í gangi í félaginu hverju sinni. Ekki er hægt að tryggja að þeir aðilar sem sátu á síðasta kjörtímabili sitji áfram og komi þannig þekkingu á milli. Fundargerðir eru misvel unnar og því vandasamt að treysta alfarið á þær upplýsingar sem þar koma fram. Ekki eru gerðar neinar sérstakar hæfniskröfur til þeirra aðila sem setjast í stjórnir fyrir hönd borgarinnar. Allt ofangreint má í raun lesa úr skýrslu innri endurskoðunar um ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Því leggja Framsókn og flugvallarvinir fram þá tillögu að framkvæmdarstjórum hvers félags í B-hluta samstæðu borgarinnar verði með skipulögðum hætti falið það verkefni fyrir lok hvers kjörtímabils að gera verkefnaúttekt á þeim verkefnum sem eru í gangi við lok kjörtímabilsins og færast yfir til nýrrar stjórnar, sérstaklega skal horft til ólokinna verkefna, vakin athygli á áhættusömum verkefnum, málaferlum sem eru í gangi eða kunna að vera höfðuð og annað mikilvægt sem máli kann að skipta við rekstur félagsins. Skal þetta lagt fyrir nýja stjórn félagsins á fyrsta fundi hennar. Innri endurskoðun verði falið að hafa eftirlit með því að þetta sé gert og hafi heimild til að gera tillögur að úrbótum þar sem þörf er á. R15060183
Frestað.
Fundi slitið kl. 12.51
Sigurður Björn Blöndal
Björk Vilhelmsdóttir Halldór Auðar Svansson
Júlíus Vífill Ingvarsson Líf Magneudóttir
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir