Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2015, fimmtudaginn 7. maí, var haldinn 5359. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 08.31. Viðstödd voru S. Björn Blöndal, Sóley Tómasdóttir, Halldór Auðar Svansson, Júlíus Vífill Ingvarsson og Halldór Halldórsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Ebba Schram, Ólöf Örvarsdóttir, Óli Jón Hertevig, Hallur Símonarson, og Linda Sif Sigurðardóttir.
Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð bílastæðanefndar frá 24. apríl 2015. R15010029
2. Lögð fram fundargerð ferlinefndar fatlaðs fólks frá 30. apríl 2015. R15010032
3. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Breiðholts frá 16. og 21. apríl 2015. R15010006
4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 28. apríl 2015. R15010008
5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 30. apríl 2015. R15010010
6. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 29. apríl 2015. R15010015
7. Lögð fram fundargerð aðalfundar Orkuveitu Reykjavíkur frá 27. apríl 2015. R15010025
8. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 23. mars 2015. R15010025
9. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó frá 17. apríl 2015. R15010027
10. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. maí 2015. R15010021
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
11. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R15050010
- Kl. 8.34 tekur Hjálmar Sveinsson sæti á fundinum.
- Kl. 8.35 taka borgarstjóri og Pétur Krogh Ólafsson sæti á fundinum.
12. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R15050001
13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. apríl 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. apríl 2015, um sameiningu lóðanna nr. 3 og 5 við Brúnaveg. R15040220
Samþykkt.
- Kl. 8.37 tekur Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sæti á fundinum.
14. Lagt fram að nýju bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. apríl 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. apríl 2015, á göngugötum í miðborg Reykjavíkur sumarið 2015. R15040215
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:
Með tilliti til þess að verið er að leggja til að lengja tímabil lokunar sumargatna á þessu ári um 33% og að lítil reynsla er enn komin á þriggja mánaða lokun er lagt til að tekin verði upp sveigjanleg lokun á tímabilinu frá 15. maí til 15. september. Sérstaklega verði litið til þess mánaðartímabils sem bætist við í ár. Tekið verði tillit til verðurfars og annarra aðstæðna og leitað álits hjá vegfarendum og þeim sem reka fyrirtæki á svæðinu varðandi viðmið. Það er í samræmi við hugmyndir sem búa að baki endurgerðar Laugavegarins.
Tillagan felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina.
Lögð fram að nýju breytingatillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:
Til að mæta mismunandi sjónarmiðum rekstraraðila í miðborginni og til að gefa betri tíma til undirbúnings er lagt til að gildistími opnunar sumargatna 2015 verði frá 15. maí 2015 í stað 1. maí s.á. og verði til 15. september 2015 í stað 1. október s.á.
Tillagan samþykkt með 6 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Sjálfstæðisflokks, borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir telja að meiri reynsla þurfi að koma á sumarlokanir í þá 3 mánuði áður en tekin verður ákvörðun um lengri lokunartíma, en lýsum því yfir við teljum að breytingartillaga Sjálfstæðisflokksins um a.m.k meiri sveigjanleika í opnunum á „lengingartímabilinu“, hefði verið til þess fallin að ná víðtækari sátt um þetta meðal þjónustuveitenda á þeim svæðum sem lokanirnar taka til.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að vinna að þróun göngugatna í miðborg Reykjavíkur í samvinnu við vegfarendur, íbúa og hagsmunaðila á svæðinu. Ekki er skynsamlegt að taka stór skref sem geta haft neikvæð áhrif á þessa þróun og dregið úr nokkuð góðri sátt sem ríkt hefur. Á síðustu öld áttu fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn frumkvæði að því að breyta verslunargötum í göngugötur. Um það stóð mikill styr á þeim tíma. Við styðjum verkefnið Sumargötur en viljum að tekið sé tillit til aðstæðna og að samráð verði virkara. Breytingartillaga okkar um sveigjanleika sem fulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingar, Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og Pírata hafa fellt miðar einmitt að því.
15. Lögð fram skýrsla innri endurskoðunar um mat á eftirlitsumhverfi a-hluta Reykjavíkurborgar, dags. í maí 2015.
Anna Margrét Jóhannsdóttir og Ingunn Þórðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R14020016
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir þakka fyrir greinargerð innri endurskoðunar sem hér er lögð fram til að varpa ljósi á eftirlitsumhverfi Reykjavíkurborgar. Mikilvægt er fyrir borgarstjórn að fá slíka úttekt, enda er eitt mikilvægasta hlutverk kjörinna fulltrúa að sinna eftirlitshlutverki og mikilvægt er að borgarstjórn sé á hverjum tíma vel upplýst og hafi á að skipa stjórnunartækjum sem gefa henni kleift að hafa eftirlit með því að stefna Reykjavíkurborgar nái fram að ganga og að settum markmiðum sé náð. Í því samhengi verður mjög gagnlegt að sjá nýja upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar verða lagða fram. Munu Framsókn og flugvallarvinir óska eftir því í forsætisnefnd að umræða um greinargerð þessa muni fara fram í borgarstjórn samhliða umræðu um nýja upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar.
16. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. maí 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. apríl 2015, um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna lóðarinnar nr. 19 við Hafnarstræti. R15040221
Samþykkt.
17. Lögð fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. apríl 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. apríl 2015, um auglýsingu á tillögum að skipulags- og matslýsingum fyrir Breiðholt, hverfi 6.1, 6.2 og 6.3. R14010072
Samþykkt.
18. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. maí 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs s.d., um umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. maí 2015 um landsskipulagsstefnu 2015-2026. R15040163
Samþykkt með 6 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Sjálfstæðisflokks. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins.
19. Lagt fram bréf stjórnkerfis- og lýðræðisráðs, dags. 28. apríl 2015, með tillögu fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina í ráðinu, um „Stop doing lista“. R15020146
Bókun borgaráðs:
Borgarráð samþykkir að fela fagráðum Reykjavíkurborgar að gera árlega „hættulista“ sem hluta af gerð fjárhagsáætlunar.
20. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. apríl 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um hvernig bráðabirgðaviðgerðum á holum og slæmu ástandi gatna borgarinnar sé sinnt, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. febrúar 2015. R15020236
21. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. maí 2015:
Borgarráð samþykkir að öllum þeim 17 ára ungmennum sem sóttu um sumarstarf hjá Reykjavíkurborg innan auglýsts umsóknarfrests verði boðið starf. Um er að ræða allt að 121 ungmenni, ráðningartími verði með sama hætti og undanfarin ár, þ.e.a.s 4 vikur og starfshlutfall verði 80%. Kostnaður vegna þessa er áætlaður 26,6 milljónir króna. Fjárheimild sem nemur allt að 21 milljón króna verði færð af liðnum ófyrirséð, kostnaðarstað 09205, yfir á kostnaðarstað atvinnumál 07150 í samræmi við þann fjölda sem ráðinn verður. Að öðru leyti er tillagan fjármögnuð með hagræðingu á kostnaðarstaðnum atvinnumál 07150. Samþykki tillögunnar felur ekki í sér neina breytingu á niðurstöðu rekstrar, efnahags eða sjóðstreymis a-hluta eða samstæðu miðað við samþykkta fjárhagsáætlun.
Greinargerð fylgir tillögunni. R15040179
Samþykkt.
22. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 5. maí 2015, ásamt drögum að loftslagsyfirlýsingu sem lögð verður fram á höfuðborgaráðstefnu Norðurlanda. R14060209
23. Lagt fram bréf borgarlögmanns, dags. 1. maí 2015, þar sem lagt er til að fallist verði á bótakröfu vegna rennandi yfirborðsvatns í Birkihlíð, Úlfarsárvegi 20, sem myndaðist eftir lagningu göngustígs ofan Úlfarsárvegar. R15020207
Samþykkt.
24. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 4. maí 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki útgáfu lóðarleigusamnings fyrir Bergstaðastræti 18. R14030043
Samþykkt.
25. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 4. maí 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita 17 m.kr. til breytinga á Hagaskóla vegna tveggja kennslustofa í kjallara. R14080119
Samþykkt.
26. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 4. maí 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að verð á byggingarrétti í Úlfarsárdal og Reynisvatnsási verði óbreytt til 31. desember 2015. R14010261
Samþykkt.
27. Kynnt er fyrirhuguð ferð forseta borgarstjórnar á ráðstefnu í Noregi á vegum Intercultural cities 12.-13. maí nk. R15050005
28. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. maí 2015:
Lagt er til að innkaupadeild og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar verði falið að gera tillögur um fyrirkomulag kaupa á nýjum húsgögnum í Ráðhús Reykjavíkur. R15050007
Samþykkt.
29. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 5. maí 2015, ásamt drögum að erindisbréfi starfshóps um Smart cities. R15050008
30. Lögð fram umsögn borgarlögmanns, dags. 6. maí 2015, um frumvarp til laga um verndarsvæði í byggð, 629. mál. R15040167
Umsögn borgarlögmanns samþykkt samhljóða.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Sjálfstæðisflokks taka jafnframt undir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga og Skipulagsstofnunar.
31. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. maí 2015:
Lagt er til að fjárheimildir fagsviða og annarra rekstrareininga a-hluta fyrir árið 2015 verði hækkaðar um samtals kr. 579.347.933 vegna kostnaðarauka við endurskoðun á starfsmati.
Greinargerð fylgir tillögunni. R15010072
Samþykkt að vísa málinu til afgreiðslu borgarstjórnar.
32. Lögð fram að nýju drög að erindisbréfi stýrihóps um atvinnumál.
Samþykkt að skipa Sóleyju Tómasdóttur, Þórgný Thoroddsen og Áslaugu Friðriksdóttur í stýrihópinn. R15040191
- Kl. 10.33 víkur Sóley Tómasdóttir af fundi.
33. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálaráðs, dags. 4. maí 2015, um tillögu og rökstuðning vegna ráðningar í starf safnstjóra Listasafns Reykjavíkur.
Svanhildur Konráðsdóttir og Ólöf Kristín Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R15050009
34. Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar um frumvarp til laga um stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl (691. mál), dags. 5. maí 2015. R15040132
Borgarráð tekur undir umsögnina.
35. Lögð fram umsögn Reykjavíkurborgar um frumvarp til breytinga á lögum um veiðigjöld (692. mál), dags. 5. maí 2015. R15040136
Borgarráð tekur undir umsögnina.
Fundi slitið kl. 10.37
S. Björn Blöndal
Dagur B. Eggertsson Halldór Auðar Sveinsson
Halldór Halldórsson Júlíus Vífill Ingvarsson
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir