Borgarráð - Fundur nr. 5357

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2015, fimmtudaginn 16. apríl, var haldinn 5357. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.08. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, S. Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Sóley Tómasdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Halldór Halldórsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Halldóra Káradóttir, Óli Jón Hertervig, Björn Axelsson, Ámundi Brynjólfsson, Örn Sigurðsson, Hallur Símonarson, Pétur Krogh Ólafsson, Þórhildur Lilja Ólafsdóttir og Úlfhildur Jóna Þórarinsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 26. febrúar 2015. R15010013

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 9. apríl 2015. R15010014

3. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 10. apríl 2015. R15010015

4. Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 8. apríl 2015. R15010026

5. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 20. febrúar 2015. R15010022

6. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 10. apríl 2015. R15010023

7. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó frá 13. mars 2015. R15010027

8. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. apríl 2015. R15010021

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. R15030291

10. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir 11 umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R15030001

- Kl. 9.15 tekur Björk Vilhelmsdóttir sæti á fundinum.

11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. apríl 2015, þar sem óskað er heimildar borgarráðs til að bjóða út framkvæmdir við endurgerð Þórunnartúns. Kostnaðaráætlun 2 er 70 m.kr. og kostnaðarstaður 3105. R15040071

Samþykkt.

12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. mars 2015, þar sem óskað er heimildar borgarráðs til að bjóða út framkvæmdir við nýtt þjónustuhús við bryggju á Skarfabakka, ásamt fylgigögnum. Kostnaðaráætlun 2 er 48 m.kr. og kostnaðarstaður 1103. R14110113

Samþykkt.

13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. apríl 2015, þar sem óskað er heimildar borgarráðs til að bjóða út framkvæmdir vegna leiksvæða, torga og opinna svæða árið 2015. Kostnaðaráætlun 2 er 145 m.kr. og kostnaðarstaðir 7102 og 3108. R15040072

Samþykkt.

14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. apríl 2015, þar sem óskað er heimildar borgarráðs til að bjóða út framkvæmdir í samræmi við hjólreiðaáætlun 2015 við gerð hjólastíga við Bústaðaveg, Háaleitisbraut og Safamýri. Kostnaðaráætlun 2 er 150 m.kr. og kostnaðarstaður 3106. R15040074

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Uppbygging hjólastígakerfis borgarinnar byggir á hjólreiðaáætlun sem samþykkt var í borgarstjórn árið 2010 þegar fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leiddu umhverfis- og samgöngumálin í borginni. Sú áætlun hefur verið grunnurinn að lagningu hjóla- og göngustíga. Margir borgarbúar hafa tekið fram hjólin í framhaldinu og nýtt sér þann vistvæna ferðamáta. Hugmyndafræðin byggðist á því að skapa raunhæft val á umferðarmáta og hugsa samgöngumálin heildstætt. Hafa verður hugfast að þrengingar gatna hafa leitt til þess að bílumferð flæðir inn í húsagötur þar sem meiri hætta er á slysum gangandi og hjólandi vegfarenda, einkum barna sem eru að leik nærri heimilum sínum. Ítrekað hefur verið bent á að þrenging Grensásvegar mun hafa slíkar afleiðingar í för með sér og það getur einnig átt við um þrengingu Háaleitisbrautar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa kallað eftir því að gerðar verði umferðarspár til að leggja mat á þetta eins og nauðsynlegt er og ábyrgt með tilliti til umferðaröryggis og nálægðar við grunnskóla. Við því hefur ekki verið orðið.

15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. apríl 2015, þar sem óskað er heimildar borgarráðs til að bjóða út malbikunarframkvæmdir 2015. Kostnaðaráætlun 2 er 550 m.kr. og kostnaðarstaður 3106. R15030021

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja áform um malbikunarframkvæmdir þar sem áætlað er að malbika 16 km sumarið 2015. Þau áform ganga samt engan veginn nógu langt því uppsöfnuð þörf verður orðin 42 km hjá Reykjavíkurborg í lok ársins 2015 vegna lækkunar fjármagns til viðhaldsframkvæmda á undanförnum árum. Til að bregðast við því lögðu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að framkvæmdum við þrengingu Grensásvegar verði frestað og fjármagnið 160 m.kr. nýtt til gatnaframkvæmda í staðinn.

16. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. apríl 2015, sbr. synjun umhverfis- og skipulagsráðs frá 1. apríl 2015, á umsókn á breytingu á deiliskipulagi reits 1.172.2 vegna Laugavegs 34a og 36. R13120079

Synjun umhverfis- og skipulagsráðs staðfest. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

17. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. apríl 2015, sbr. leiðrétta samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 1. og 15 apríl 2015 á lýsingu vegna uppbyggingu á hluta af þróunarsvæði 33 í Aðalskipulagi Reykjavíkur, deiliskipulagi reits 1.254, Bólstaðarhlíð - Kennaraháskóli. R15040035

Samþykkt.

18. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. apríl 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 1. apríl 2015, um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi norðan Rauðagerðis, við Miklubraut, ásamt fylgigögnum. R15040036

Samþykkt.

19. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. apríl 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 1. apríl 2015 á úthlutun styrkja úr Húsverndarsjóði fyrir árið 2015. R15040033

Samþykkt.

- Kl. 10.20 víkur Björn Axelsson af fundinum.

20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:

Borgarráð samþykki að starfshópi um framkvæmdir í Úlfarsárdal verði heimilt að halda áfram vinnu við undirbúning verkefnisins á grundvelli fyrirliggjandi frumkostnaðaráætlunar og semja við hönnuði. Lagt er til að verkefnið verði unnið í samræmi við fyrirliggjandi tillögu að áfangaskiptingu sem gerir ráð fyrir að fyrstu áfangarnir felist í byggingu grunn- og leikskólabygginga, auk íþróttamannvirkja Fram. Gert er ráð fyrir að skólamannvirki verði tekin í notkun í áföngum, þau fyrstu árið 2016 en öll 2018 eða 2019, sama ár og íþróttamannvirkin verða fullbyggð. Stefnt verði að því að uppbygging íþróttamannvirkja fari fram samhliða byggingu grunnskólans og hefjist þegar nauðsynlegri samningagerð við Fram er lokið. Lokaáfanginn felist í byggingu menningarmiðstöðvar og sundlaugar. Áætlað er að verklok geti orðið árið 2022. Lagt er til að fjárfestingaráætlun til næstu fimm ára verði endurskoðuð á grundvelli meðfylgjandi frumkostnaðaráætlunar. Til að fimm ára áætlun rúmi þessar framkvæmdir er nauðsynlegt að fjárfestingaráætlun hækki vegna Úlfarsárdals um samtals 3.926 m.kr. á næstu fimm árum, úr 4.050 m.kr í 7.976 m.kr. skv. meðfylgjandi frumkostnaðaráætlun. Stefnt verði að því að þessari auknu fjárfestingu verði mætt með auknum tekjum í samræmi við endurskoðaða áætlun um sölu byggingarréttar og gatnagerðargjöld til næstu fimm ára. Endurskoðuð fjárfestingaráætlun verði lögð fram samhliða fjárhagsáætlun 2016 og fimm ára áætlun í samræmi við leikreglur um gerð fjárhags- og fjárfestingaráætlun Reykjavíkurborgar. Heildarkostnaðaráætlun verkefnisins samkvæmt frumkostnaðaráætlun er um 9,8 milljarðar en sú tala er þó háð nokkurri óvissu þar sem um frumkostnaðaráætlun er að ræða. Er starfshópi um framkvæmdir falið að leita leiða til að draga úr framkvæmdaáhættu og kostnaði við verkefnið eftir því sem kostur er, samhliða vinnu við gerð kostnaðaráætlunar I og síðar við fullnaðarhönnun. Sérstaklega skal leitast við að ná eins mikilli samnýtingu rýma og kostur er og þar með minnka mannvirkið. 

Greinargerð fylgir tillögunni. R14110191

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja áform um aukið fjármagn til uppbyggingar í Úlfarsárdal enda er það í samræmi við tillögur Sjálfstæðisflokksins við fjárhagsáætlun ársins 2015. Þar lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til aðra forgangsröðun framkvæmda með aukið fjármagn í Úlfarsárdalinn. Mikilvægt er að hraða sem mest framkvæmdum í Úlfarsárdal enda hafa íbúar verið mjög óánægðir með þann seinagang sem verið hefur á uppbyggingu grunnskóla og íþróttamannvirkja í hverfinu.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir lýsa yfir ánægju sinni með að nú liggi fyrir tímasett framkvæmdaáætlun um uppbyggingu í Úlfarsárdal, eins og fyrirspurn okkar í borgarráði í desember 2014 kvað á um. Það er okkar skilningur að samningar við íþróttafélagið FRAM frá 2008 og viðaukasamningur 2011 séu í gildi og eiga samningar við Fram því ekki að standa í vegi fyrir eða vera fyrirvarar við heildaruppbygginu á svæðinu. 

Ragnar Þorsteinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

21. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. apríl 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um hlutfall asfalts í malbiki, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. mars sl. R15030100

- Kl. 10.30 víkur Ámundi Brynjólfsson af fundi.

22. Lögð fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 7. apríl 2015, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 1. apríl 2015, á viðmiðum vegna ráðninga skólastjóra við grunnskóla í Reykjavík. Einnig er lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 7. apríl 2015, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs á sama fundi, varðandi breytingar á samþykkt fyrir skóla- og frístundaráð vegna ráðningar skólastjóra í leikskóla og grunnskóla. R15040038

Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar Framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Tillögur að breytingum á samþykktum skóla- og frístundaráðs og viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar er vísað til frekari meðferðar forsætisnefndar, 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

Lagt er til að eftirfarandi málsgrein bætist við 10. gr. samþykktar um skóla- og frístundaráð: Við ráðningu í stöðu skólastjóra og leikskólastjóra skal skóla- og frístundasvið gefa foreldrafélagi og skólaráði/foreldraráði viðkomandi skóla kost á virku samráði um málið. Þar sem ráðning skólastjóra eða leikskólastjóra stendur fyrir dyrum, skal gefa stjórn viðkomandi foreldrafélags og skólaráði/foreldraráði kost á að hitta að máli þá umsækjendur, sem metnir hafa verið hæfastir, til að kynnast sýn þeirra á starfið. Heimilt er að hafa slíkan fund opinn öllum foreldrum viðkomandi skóla. Að undangengnu slíku samráði er þessum aðilum, þ.e. stjórn foreldrafélags og skólaráði/foreldraráði, heimilt að skila umsögn til skóla- og frístundasviðs með áliti um hvaða umsækjandi sé hæfastur til að gegna viðkomandi starfi. Umræddum aðilum er einnig heimilt að að skila umsögn til sviðsins án þess að mælt sé með ákveðnum umsækjanda en með ábendingum um hvaða atriði sé æskilegt að leggja áherslu á þegar ráðið verður í stöðuna með tilliti til aðstæðna í umræddum skóla og vilja foreldra.

Tillagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar Framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 2 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Með breytingu á samþykkt skóla- og frístundaráðs um ráðningar skólastjórnenda í leik- og grunnskólum er verið að skerpa enn frekar á faglegum ráðningum og tryggja að pólitískur geðþótti ráði ekki för. Ávallt skal ráða hæfasta umsækjandann og skulu ákvarðanir um ráðningu grundvallast á lögmætum sjónarmiðum. Með þessum breytingum er verið að tryggja slíkt ferli í sessi og einnig bregðast við ábendingum sem komu fram í skýrslu úttektarnefndar borgarstjórnar á stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkur sem lúta m.a. að því að tryggja að faglegt ferli ráði för við ráðningar og að reglur séu samræmdar svo dregið sé úr hættu á að eingöngu pólitísk sjónarmið verði ofaná. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata geta ekki fallist á tillögu Sjálfstæðisflokks um viðbætur við 10. gr. samþykktar skóla- og frístundaráðs um ráðningar skóla- og leikskólastjóra hjá Reykjavíkurborg. Lítur tillagan framhjá því meginatriði í ráðningarferlinu að velja skuli hæfasta umsækjandann út frá faglegum hæfniskröfum sem fara ber eftir í ferlinu. Við ráðningar skólastjórnenda í leik- og grunnskólum er farið eftir stjórnsýslu- og sveitarstjórnarlögum, lögum um grunnskóla eða leikskóla og kjarasamningum SÍS, SÍ og FSL. Nú þegar er aðkoma skóla- og foreldraráða tryggð, og þar með foreldra sem eiga fulltrúa í ráðunum, og samráð er haft við ráðin áður en auglýsing um lausa stöðu skólastjórnenda í leik- og grunnskólum er samin og birt. Meirihlutinn telur að ástæða kunni að vera til að kanna enn frekar möguleika þess að auka þátttöku og samráð við nemendur, foreldra og starfslið skóla í stórum og smáum málum og afgerandi ákvörðunum sem varða skólasamfélagið á hverjum stað fyrir sig. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Við hörmum að fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata hafi fellt tillögu Sjálfstæðisflokksins um virkt samráð við foreldrafélög vegna ráðningar skólastjóra. Það fyrirkomulag, sem hér er lagt til hefur gefist vel víða erlendis og er þar haft til fyrirmyndar um framsækið skólastarf og gott foreldrasamstarf. Í stað þess að taka upp samráð við foreldra varðandi ráðningu skólastjóra kýs meirihlutinn nú að auka á miðstýringu með því að fækka þeim, sem koma að slíkum ráðningum, m.a. með því að draga úr ábyrgð kjörinna fulltrúa á þessum mikilvægu og afdrifaríku ákvörðunum og fela embættismannavaldinu þær alfarið. Tæpt ár er síðan nýr vinstri meirihluti í borgarstjórn gaf loforð um að kraftar allra Reykvíkinga yrðu látnir nýtast við stefnumörkun og ákvarðanatöku í borgarkerfinu og að áhersla yrði lögð á gagnsæi, íbúalýðræði og upplýsingamiðlun. Ljóst er að þessi loforð meirihlutans eru innantóm og merkingarlaus. 

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Við sitjum hjá við afgreiðslu á tillögum frá meirihlutanum að færa ráðningavald á grunnskóla- og leikskólastjórnendum borgarinnar yfir til embættismanna, þar sem vandséð er að það hafi þau áhrif að fagmennska verða meiri við ráðningar og að verið sé að bregðast við athugasemdum í skýrslu um starfshætti Reykjavíkurborgar frá 2013, þó það sé veik tilraun til slíks. Embættismenn starfa á hverjum tíma í umboði sitjandi meirihluta og það að færa borgarráði það vald sérstaklega í hendur að skipa sviðstjóra, styður enn frekar við þau varnaðarorð sem höfð hafa verið uppi um tillöguna og er aðkoma minnihlutans á hverjum tíma, með öllu ótryggð. Slíkt hlýtur að fara gegn markmiðum samstarfssamnings meirihlutans um aukið samráð og samvinnu. Hér er um enn frekara valdaframsal að ræða og endanlegt ákvörðunarvald tekið frá kjörnum fulltrúum og fært til embættismanna. Hlutverk kjörinna fulltrúa er að koma að pólitískri stefnumótun og eftirlitshlutverk og undan því hlutverki skorumst við ekki og aldrei. Þá hefur enn ekki verið lokið vinnu borgarritara, borgarlögmanns og skrifstofustjóra borgarstjórnar við greinargerð um verkaskiptingu borgarstjórnar og borgarráðs, sem og verkaskiptingu kjörinna fulltrúa og embættismanna, en mikilvægt er að slíkt liggi fyrir áður en ákvörðun er tekið um frekara framsal valds á frá kjörnum fulltrúm til embættismanna.  

Ragnar Þorsteinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

23. Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 14. apríl 2015, þar sem óskað er eftir afgreiðslu borgarstjórnar á samþykkt svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins ásamt umhverfisskýrslu. R13060030

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs.

24. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 14. apríl 2015 um skýrslu starfshóps um grænt hagkerfi. Jafnframt lögð fram skýrsla starfshópsins, dags. í mars 2015.

Hrönn Hrafnsdóttir, Jóhanna Eirný Hilmarsdóttir og Þórhildur Ósk Halldórsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R14100353

25. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 15. apríl 2015, varðandi viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar 2015. Jafnframt er lögð fram heildarskýrsla um viðhorfskönnunina. 

Helga Björg Ragnarsdóttir, Ragnhildur Ísaksdóttir og Harpa Hrund Berndsen taka sæti á fundinum undir þessum lið. R15040090

- Kl. 11.50 víkur Júlíus Vífill Ingvarsson af fundinum. 

- Kl. 11.55 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum. 

26. Lagt fram bréf fjármálaskrifstofu, dags. 15. apríl 2015, varðandi úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli 10/2014. Jafnframt lagður fram úrskurður yfirfasteignamatsnefndar í máli 10/2014, dags. 31. mars 2015.

Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R15010297

27. Lagt fram bréf Lex lögmannsstofu, dags. 15. janúar 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að endurupptaka ákvörðun velferðarráðs, sbr. 2. lið fundargerðar velferðarráðs frá 16. október 2014. Jafnframt lögð fram umsögn velferðarsviðs, dags. 9. apríl 2015 og bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 14. apríl 2015. R15010218

Beiðni um endurupptöku hafnað með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar Framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 2 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins með vísan til umsagna velferðarsviðs og skrifstofu borgarstjórnar. 

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins. 

Málið fer til endanlegrar staðfestingar borgarstjórnar með vísan til ákvæða 48. gr. í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. 

Stefán Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

28. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um viðræður við ríkisvaldið um breytingu á skipulagi Laugavegar 162 – Mjólkurstöðvarreitnum, dags. 12. febrúar 2015. Jafnframt lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 17. mars 2015. Einnig lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 31. mars 2015, ásamt fylgigögnum. R15020112

Samþykkt.

29. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 14. apríl 2015, varðandi aðgerðir sem gripið hefur verið til vegna veikinda starfsmanna, sbr. samþykkt borgarstjórnar frá 16. september 2014. Jafnframt lagt fram erindisbréf öryggisnefndar Reykjavíkurborgar, dags. 8. janúar 2015, og viðverustefna Reykjavíkurborgar. R14090128

30. Lögð fram tillaga, samþykkt í borgarstjórn 31. mars 2015, um að haldið verði málþing um þátttöku og áhrif kvenna í stjórnmálum á afmælisdegi Ingibjargar H. Bjarnason. R15040017

Samþykkt.

31. Lögð fram tillaga, samþykkt í borgarstjórn 31. mars 2015, um að stofnuð verði ofbeldisvarnarnefnd á vegum mannréttindaráðs. R15040016

Samþykkt.

32. Lögð fram tillaga, samþykkt í borgarstjórn 31. mars 2015, um að haldin verði afrekasýning kvenna á Íslandi í Ráðhúsi Reykjavíkur. R15040015

Samþykkt.

33. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 14. apríl 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um samstarf vegna Reykjavíkurhúsa, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember sl. R14110197

34. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 13. apríl 2015, við fyrirspurn borgararráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stýrihóp um innleiðingu húsnæðisstefnu, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. mars sl. R14010124

35. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. apríl 2015:

Lagt er til að borgarráð staðfesti hjálagða viljayfirlýsingu um samstarf á milli Reykjavíkurborgar og Seoul. 

Greinargerð fylgir tillögunni. Jafnframt lögð fram viljayfirlýsing Reykjavíkur og Seoul. R15040019

Samþykkt.

36. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. apríl 2015:

Lagt er til að borgarráð samþykki aðild Reykjavíkurborgar að samkomulaginu Compact of Mayors. 

Greinargerð fylgir tillögunni. Jafnframt lagt fram bréf Gino Van Begin, aðalritara ICLEI, dags. 2. apríl 2015. R15040070

Samþykkt.

37. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 14. apríl 2015, með kynningu á yfirlýsingu Heimsþings ECLEI sem haldið var í Seoul í S-Kóreu 8.-12. apríl sl. Jafnframt lögð fram yfirlýsing Heimsþingsins, dags. 9. apríl 2015. R15040069

38. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 13. apríl 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki kaup Reykjavíkurborgar, eignasjóðs, á jörðinni Varmadal á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum. R13100422

Samþykkt.

39. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. apríl 2015: 

Lagt er til að fjárfestingaáætlun A-hluta Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015 verði hækkuð um 312 millj. kr. vegna kaupa á jörðinni Varmadal á Kjalarnesi, landnúmer 125762, sbr. mál nr. R13100422. Útgjöldin verði fjármögnuð af handbæru fé og fjárheimildinni ráðstafað inn á fjárfestingaáætlun eignasjóðs, kostnaðarstað 4102 Lóðir, lönd og skipulagseignir. Tillagan felur í sér lækkun á handbæru fé eignasjóðs, A-hluta og samstæðu, sjá nánar hjálögð gögn. Áhrif á rekstrarniðurstöðu eru óveruleg.

Jafnframt lagt fram yfirlit yfir áhrif tillögu á rekstur og sjóðstreymi eignasjóðs, A-hluta og samstæðu. R15010072

Vísað til borgarstjórnar.

- Kl. 12.39 víkur Björk Vilhelmsdóttir af fundi og Skúli Helgason tekur þar sæti.

40. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 14. apríl 2015, um viljayfirlýsingu við Félag eldri borgara. Jafnframt lögð fram drög að viljayfirlýsingunni. R14010121

Samþykkt.

41. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 13. apríl 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að falla frá forkaupsrétti á íbúð, merkt 01-309, fastanúmer 200-1727, á Vesturgötu 7 í Reykjavík. Jafnframt er lagður fram kaupsamningur, dags. 10. apríl 2015. R15040053

Samþykkt.

42. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 13. apríl 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að úthluta Slippnum fasteignafélagi ehf. lóð og byggingarétti að Mýrargötu 18 við Hlésgötu. R15030296

Samþykkt.

Hrefna Þórsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

43. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 13. apríl 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að heimila framsal byggingarréttar og aðilaskipti að lóðunum Hafnarstræti 17 og 19, frá Sjöstjörnunni ehf. til Suðurhúsa ehf., ásamt fylgiskjölum. R15040051

Samþykkt.

Hrefna Þórsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

44. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 13. apríl 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samning um byggingu líkamsræktaraðstöðu við Breiðholtslaug samkvæmt meðfylgjandi drögum, ásamt fylgiskjölum. R14080026

Samþykkt.

Hrefna Þórsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

45. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 13. apríl 2015, varðandi endurskipan í fulltrúaráð Eirar. R14060135

Samþykkt að Magnús Már Guðmundsson taki sæti Hjördísar Sjafnar Ingimundardóttur í fulltrúaráði Eirar.

46. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. apríl 2015:

Lagt er til að borgarráð samþykki að unnið verði deiliskipulag fyrir göngubrú yfir Breiðholtsbraut til móts við Select. Deiliskipulagið verði unnið í samráði við Vegagerðina og í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkur. R15040092

Samþykkt.

47. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

Þann 7. október 2014 var samþykkt tillaga borgarritara um að borgarráð fæli borgarritara, skrifstofustjóra borgarstjórnar og borgarlögmanni að vinna greinargerð varðandi verkaskiptingu á milli borgarstjórnar og borgarráðs sem og kjörinna fulltrúa og embættismanna. Í svari borgarstjóra þann 6. febrúar 2015 kom fram að vinnu ætti að vera lokið í lok mars. Framsókn og flugvallarvinir óska eftir upplýsingum um hvenær vinnu við greinagerðina verði lokið og hvenær hún verði kynnt fyrir borgarráði. R14080018

48. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

Framsókn og flugvallarvinir vísa í tillögu sína og fyrirspurnir í borgarstjórn 21.10.2014 og borgarráði 22.01.2015 og svar borgarstjóra frá 10.02.2015, um að endurskoða gildandi verklagsreglur um þjónustu við grunnskólanemendur með fjölþættan vanda, þar sem sérstökum sjónum yrði beint að nemendum í vímuefnavanda auk annarra þeirra þátta sem þarf að taka tillit til í þessum efnum. Skv. svari borgarstjóra var áætlað að vinnu lyki um miðjan mars nk. og því óskum við eftir upplýsingum um hvenær niðurstöður liggi fyrir. R14100380

49. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs ásamt fylgigögnum, dags. í dag. R15010088

Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og pírata að veita Geðfræðslu hugarafl styrk að fjárhæð kr. 500.000.- vegna forvarna og fræðslu í grunnskólum. Öðrum styrkumsóknum er hafnað. 

Borgarráðsfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins og borgarráðsfultrúar Sjálfstæðisflokksins vísa til bókunar sinnar í borgarráði 19. júní.

Fundi slitið kl. 12.58

S. Björn Blöndal

Halldór Auðar Svansson Halldór Halldórsson

Kjartan Magnússon Sóley Tómasdóttir

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir Skúli Helgason