No translated content text
Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2015, fimmtudaginn 9. apríl, var haldinn 5356. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.08. Viðstödd voru S. Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Sóley Tómasdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Halldór Halldórsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Hrólfur Jónsson, Hallur Símonarson, Kristbjörg Stephensen, Björn Axelsson og Linda Sif Sigurðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð ferlinefndar fatlaðs fólks frá 26. mars 2015. R15010032
2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 24. mars 2015. R15010006
3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 24. mars 2015. R15010008
4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 26. mars 2015. R15010013
5. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 27. mars 2015. R15010015
6. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 23. febrúar 2015. R15010025
7. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 23. mars 2015. R15010023
8. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó frá 27. mars 2015. R15010027
9. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 1. apríl 2015. R15010021
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
10. Lagðar fram fundargerðir öldungaráðs frá 11. og 27. mars 2015. R15030096
11. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 12 mál. R15030291
12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. mars 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. mars 2015 á verkefnislýsingu skipulagsgerðar og umhverfismats vegna breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, nýr kirkjugarður í Reykjavík. R11060102
Samþykkt.
13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. mars 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. mars 2015 varðandi breytingu á deiliskipulagi reits 1.172.2 vegna lóðanna nr. 9a og 9b við Grettisgötu. R15010173
Samþykkt.
14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. mars 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. mars 2015, varðandi breytingu á deiliskipulagi reits 1.240.2, Bankareits, vegna lóðarinnar nr. 120 við Laugaveg. R14120107
Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Í eldri deiliskipulagsáætlunum er gert ráð fyrir 1.000 fermetra bílakjallara undir þeim hluta lóðarinnar að Laugavegi 120 sem enn er óbyggður. Nú er lagt til að bílakjallarinn verði felldur niður en byggingarmagn ofanjarðar aukið um þriðjung. Einungis er gert ráð fyrir 17 bílastæðum á lóð 7.000 fermetra hótels sem þarna mun rísa. 30 bílastæði sem nú eru á lóð Laugavegar 120 eru felld niður en auk þess stendur til að fella niður aðliggjandi 25 bílastæði sem eru á borgarlandi við Hlemm. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja að ekki eigi að fella niður kröfu um bílakjallara undir nýbyggingu á lóð Laugavegar 120 enda verði að taka tillit til alvarlegs skorts á bílastæðum á svæðinu. Með nýju aðalskipulagi er stefnt að því að fækka bílastæðum í borginni án tillits til aðstæðna og hefur sú stefna víða skapað veruleg vandræði og óhagræði fyrir íbúa og aðra hagsmunaaðila.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir taka undir bókun sjálfstæðismanna undir þessum lið.
15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. mars 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. mars 2015 á auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi Bryggjuhverfis vegna lóðarinnar nr. 18-24 við Tangabryggju. R15030282
Samþykkt.
- Kl. 9.55 víkur Björn Axelsson af fundinum.
16. Lagt fram bréf borgarlögmanns, dags. 12. febrúar 2015, til Cassina S.p.A. varðandi ætlaðar ólöglegar eftirlíkingar af Le Corbusier húsgögnum í Ráðhúsi ásamt svarbréfi Cassina S.p.A., dags. 20. mars 2015. R14060033
17. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. mars 2015:
Lagt er til að borgarráð feli skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að auglýsa eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu á lóðum við Vesturbugt og á lóðum Reykjavíkurborgar á Kirkjusandsreit. Leitað er eftir samstarfi við sjálfseignarstofnanir, húsnæðissamvinnufélög og leigufélög sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða og vinna að byggingu íbúða fyrir félagsmenn sína.
Greinargerð fylgir tillögunni. Jafnframt lögð fram drög að auglýsingu um Nýju Reykjavíkurhúsin. R13090022
Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 1 atkvæði borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir greiða atkvæði gegn því að auglýst verði eftir samstarfsaðilum um húsnæðisuppbyggingu á þessum tímapunkti, þar sem órökrétt er að byrjað sé að auglýsa eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu þegar að a) lóðum hefur ekki verið úthlutað né heldur b) liggur fyrir hvaða leiðir eigi að fara í uppbyggingu svokallaðra Reykjavíkurhúsa til að sem hagkvæmasta leiguverð náist fyrir leigutaka.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja allar góðar hugmyndir sem leysa úr alvarlegum aðstæðum á húsnæðismarkaði í Reykjavík. Í nýrri skýrslu um svokölluð Reykjavíkurhús er komið mun meira en fyrr til móts við þau sjónarmið sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa viðrað vegna húsnæðismála með því að hallast meira að aðkomu einkaaðila en í fyrri hugmyndum. Því furða borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sig á því að tillaga meirihlutans um auglýsingu eftir samstarfsaðilum skuli ekki gera ráð fyrir að leitað sé leiða á almennum markaði til að fá hagstæðasta verð fyrir leigjendur og kaupendur. Einungis á að leita til þeirra félaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða en öðrum ekki gefinn kostur á að gera tilboð. Þar með er ákveðinn hluti markaðarins útilokaður og tækifærum leigjenda og kaupenda til að fá hagstæðasta verð fækkað.
18. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. mars 2015:
Lagt er til að borgarráð samþykki að lóðum 03 og 04 í Vesturbugt verði úthlutað eftir auglýsingu til þeirra sem verða með hagstæðustu tilboðin í lóðirnar. Jafnframt að Reykjavíkurborg kaupi, á grundvelli hagkvæmasta tilboðs, allt að 80 af u.þ.b. 170 íbúðum sem byggðar verða á lóðunum, húsnæði fyrir bílageymslur og rými fyrir leikskóla. Borgarsjóði verði heimilað að framselja íbúðirnar til Félagsbústaða og sjálfseignarstofnana, sem reknar eru án hagnaðarsjónarmiða. Bílageymslur verði heimilt að framselja til Bílastæðasjóðs. Skipaður verði starfshópur fulltrúa borgarlögmanns, skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, umhverfis- og skipulagssviðs, innkaupadeildar, Bílastæðasjóðs og Félagsbústaða til að vinna nánari útfærslu á tillögu um úthlutun lóðanna. Starfshópurinn láti vinna nauðsynlegar breytingar á gildandi deiliskipulagi, sem umhverfis- og skipulagsráði er falið að auglýsa, sjái um gerð útboðsgagna og útboð lóðanna.
Greinargerð fylgir tillögunni. Jafnframt lagt fram minnisblað skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 23. mars 2015, um ráðstöfun lóða, kaup íbúða o.fl. R13090022
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Lagt er til að tillögunni ásamt fylgigögnum verði vísað til umfjöllunar í umhverfis- og skipulagsráði áður en hún er tekin til afgreiðslu í borgarráði.
Tillagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Ekki er ástæða til að draga aðgerðir í húsnæðismálum frekar á langinn með þessum hætti. Umhverfis- og skipulagsráð mun fá alla þætti er snúa að skipulagi til umfjöllunar. Borgarráð hefur það hlutverk að úthluta lóðum.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar var samþykkt í borgarráði 6. október 2011. Um hana var að mörgu leyti prýðilegt samkomulag og sameiginlegur vilji fulltrúa allra flokka í borgarstjórn að vinna að farsælum lausnum í húsnæðismálum. Öllum má vera ljóst að vandinn er stór en það hefur valdið verulegum vonbrigðum hversu meirihlutaflokkunum í borgarstjórn hefur gengið seint að leggja fram raunhæfar tillögur til úrbóta á húsnæðismarkaði. Nú þegar tillögur um uppbyggingu svokallaðra Reykjavíkurhúsa í Vesturbugt líta loksins dagsins ljós eru þær byggðar á uppbyggingu sem á sér enga stoð í deiliskipulagi reitsins. Það er því óumflýjanlegt að farið sé yfir slíkar tillögur af sérfræðingum borgarinnar á umhverfis- og skipulagssviði til að leggja á mat á það hvort slíkar hugmyndir um aukna uppbyggingu séu raunhæfar. Mikilvægt er að vinna hratt að lausnum í húsnæðismálum en flumbrugangur færir okkur ekki fram á við.
Tillaga borgarstjóra um úthlutun lóða í Vesturbugt samþykkt með með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 1 atkvæði borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Á síðasta fundi borgarráðs var áfangaskýrsla um Nýju Reykjavíkurhúsin kynnt og þær ólíku leiðir sem hægt væri að fara að útfærslu þeirra. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvaða leið skuli farin svo ákvörðun hefur ekki enn verið tekin um útfærsluna. Er því verið að byrja á öfugum enda eins og svo oft áður. Það er því órökrétt að byrjað sé á að úthluta lóðum undir verkefni sem enn er í vinnslu, auk þess sem skýrslan hefur enn ekki verið kynnt öllum borgarfulltrúum né heldur í umhverfis- og skipulagsráði. Framsókn og flugvallarvinir greiða því atkvæði gegn tillögunni því við teljum rétt að borgarstjórn fjalli um svo mikilvægt málefni að undangenginni kynningu fyrir alla borgarfulltrúa eins og við gerðum tillögu um á síðasta borgarráðsfundi. Slík kynning og aðkoma allra borgarfulltrúa að málinu ætti að vera í samræmi við samstarfssáttmála meirihlutans, þar sem segir að með opnari stjórnsýslu verði samræðan upplýstari.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja allar góðar hugmyndir sem leysa úr alvarlegum aðstæðum á húsnæðismarkaði í Reykjavík. Húsnæðisstefna borgarinnar var samþykkt á fyrri hluta síðasta kjörtímabils. Eftir langa bið eru loks lagðar fram ófullburða hugmyndir um uppbyggingu á svokölluðum Reykjavíkurhúsum á þröngum byggingarreit inni á slippasvæði gömlu hafnarinnar. Landið keypti borgin fyrir rúmlega hálfan milljarð og aðstæður eru þannig að reikna má með að framkvæmdakostnaður verði hár. Tillögur um ráðstöfun lóða og uppbyggingu reitsins byggja á skipulagshugmyndum sem aldrei hafa hlotið samþykki né farið í lögbundið kynningar- og samráðsferli. Þær hugmyndir voru kynntar á lokuðum fundi umhverfis- og skipulagsráðs í október á síðasta ári og hafa verið óaðgengilegar upp frá því. Engu að síður eru þær grunnurinn að tillögum að framtíðaruppbyggingu Vesturbugtar. Íbúðum mun samkvæmt því verða fjölgað um allt að 40% og atvinnuhúsnæði mun stækka um 90% miðað við gildandi deiliskipulag sem er nýlegt og tók gildi 3. febrúar 2014. Við lýsum eftir raunhæfum tillögum í húsnæðismálum.
19. Lagður fram ársreikningur A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar 2014, dags. í apríl 2015. Jafnframt lagt fram bréf endurskoðunarnefndar, dags. 7. apríl 2014, um ársreikninginn.
Ársreikningur borgarsjóðs (A-hluta) og samstæðureikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2014 hefur verið undirbúinn af fjármálaskrifstofu í samræmi við ákvæði 61. greinar sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Ársreikningur Reykjavíkurborgar telst fullgerður og tilbúinn til endurskoðunar. Lagt er til að ársreikningi verði vísað til endurskoðunar og til fyrri umræðu í borgarstjórn. R15030149
Samþykkt.
Halldóra Káradóttir, Gísli Guðmundsson, Auðunn Guðjónsson, Guðný Guðmundsdóttir og Ingvar Garðarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig taka Bjarni Bjarnason og Ingvar Stefánsson sæti á fundinum til að kynna ársreikning Orkuveitu Reykjavíkur og Auðun Freyr Ingvarsson til að kynna ársreikning Félagsbústaða.
20. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 23. mars 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutunar- og útboðsskilmála fyrir Nýlendureit. Jafnframt lagðir fram úthlutunar- og útboðsskilmálar vegna byggingarréttar fyrir íbúðar- og atvinnuhúsnæði að Mýrargötu 31, íbúðarhúsnæði að Mýrargötu 27 og 29 og Seljavegi 1A og 1B. R14010144
Samþykkt.
21. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 23. febrúar 2015, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að breyta fjárfestingaáætlun á þann hátt að liður vegna endurbóta á Tjarnarbíói verði hækkaður úr 5 m.kr. í 20 m.kr. Einnig er lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, sbr. samþykkt menningar- og ferðamálaráðs frá 23. mars 15, og önnur fylgiskjöl. R15020196
Samþykkt.
22. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 1. apríl 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að úthluta Sjöstjörnunni ehf., 22 m2 hluta úr lóð Pósthússtrætis 1, 101 m2 hluta úr lóð Hafnarstrætis 17V og 56 m2 hluta af borgarlandi sem liggur á horni Tryggvagötu og Hafnarstrætis, ásamt fylgiskjölum. R15030295
Samþykkt.
23. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 27. mars 2015, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki að falla frá forkaupsrétti vegna sölu á íbúð merktri 03-01-02 að Suðurhólum 24. Jafnframt er lagt fram kauptilboð, dags. 12. mars 2015. R15030277
Samþykkt.
24. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks, dags. 26. febrúar 2015, um að hætt verði við þrengingu Grensásvegar. Jafnframt lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. mars 2015. R15020237
Tillagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokkins leggja fram svohljóðandi bókun:
Afgreiðsla tillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að nýta þá fjármuni sem fara munu í að þrengja Grensásveg til að gera við götur borgarinnar kemur ekki á óvart. Þegar hefur verið ákveðið að setja á annað hundrað milljónir króna í óþarfa þrengingu Grensásvegar. Engar umferðartalningar liggja að baki þeirri ákvörðun. Hún byggir ekki á hraðamælingum né umferðargreiningu. Hún er ekki byggð á öryggissjónarmiðum enda auðvelt að auka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda án þess að þrengja götuna. Reynslan kennir okkur að þrengingar gatna leiða af sér að umferð leitar annað. Eftir að Hofsvallagata var þrengd jókst bílaumferð um þröngar umferðargötur Melanna og Haganna um 1.000 bíla á sólarhring. Þannig jók þrenging Hofsvallagötunnar á slysahættu og skapaði óöryggi einkum vegna þess að börn eru oft að leik í íbúðagötum nærri heimilum sínum. Engin greining hefur verið gerð á því hvert umferðin muni leita þegar Grensásvegur hefur verið þrengdur. Öruggt má telja að umferð muni aukast um Hæðargarð, Breiðagerði, Álmgerði og Heiðargerði. Tæplega er það eftirsóknarvert.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fullyrðingar borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks eiga ekki við nein rök að styðjast. Ákvörðun um þrengingu Grensásvegar byggir á fyrirliggjandi gögnum um þyngd og hraða umferðar á svæðinu og er í anda þeirrar stefnu sem hefur verið að ryðja sér til rúms hérlendis sem og erlendis um að auka jafnræði ólíkra samgönguhátta og tryggja öryggi allra vegfarenda. Hvað Hofsvallagötu varðar, þá hefur þrengingin þar fyrst og fremst orðið til þess að hægja á umferð um götuna og þannig dregið úr slysahættu.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ákvörðun um þrengingu Grensásvegar byggir ekki á neinum gögnum. Hún byggir einvörðungu á áhuga meirihlutaflokkanna í borgarstjórn að hefta flæði umferðar um borgina. Fullyrðing borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um að umferð hafi leitað inn í íbúðagötur við þrengingu Hofsvallagötu byggir á talningum umferðarsérfræðinga borgarinnar.
25. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um skilti sem vara við hættulegum holum, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. mars 2015. Jafnframt er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs frá 31. mars 2015. R15030099
Tillagan er felld með vísan til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.
26. Lagt fram svar staðgengils borgarstjóra, dags. 7. apríl 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um síðu Reykjavíkurborgar á Facebook, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. febrúar sl. R15020239
27. Lagt fram svar fjármálaskrifstofu, dags. 21. mars 2015, við framhaldsfyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um heildartekjur vegna fasteignagjalda 2014-2015, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. mars sl. R15020235
28. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. mars 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um umferðarkannanir vegna þrenginga á aðalgötum, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. mars sl. R15030193
- Kl. 12.35 víkur Björk Vilhelmsdóttir af fundi.
- Kl. 12.38 víkur Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir af fundi.
29. Lagt fram bréf fjármálaskrifstofu, dags. 1. apríl 2015, með tillögum að fjármálastefnum og fjármálareglum Reykjavíkurborgar, ásamt greinargerð. R15020178
Frestað.
Ásgeir Westergren og Einar Bjarki Gunnarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
30. Lögð fram greinargerð fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar, dags. 8. apríl 2015, um framkvæmd styrkjareglna fyrir árið 2014. R15030042
Fundi slitið kl. 13.10
Sigurður Björn Blöndal
Halldór Auðar Svansson Halldór Halldórsson
Júlíus Vífill Ingvarsson Sóley Tómasdóttir