Borgarráð - Fundur nr. 5355

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2015, fimmtudaginn 26. mars, var haldinn 5355. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Árseli, Rofabæ 30, og hófst kl. 9.06. Viðstödd voru auk borgarstjóra: S. Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Líf Magneudóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Hrólfur Jónsson, Hallur Símonarson, Kristbjörg Stephensen, Ólöf Örvarsdóttir, Pétur Krogh Ólafsson og Úlfhildur Jóna Þórarinsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð bílastæðanefndar frá 20. mars 2015. R15010029

2. Lögð fram fundargerð ferlinefndar fatlaðs fólks frá 19. mars 2015. R15010032

3. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 18. mars 2015. R15030011

4. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 10. mars 2015. R15010004

5. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Háaleitis og Bústaða frá 16. febrúar og 16. mars 2015. R15010009

6. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 19. mars 2015. R15010010

7. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 12. mars 2015. R15010011

8. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 18. mars 2015. R15010012

9. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 20. mars 2015. R15010015

10. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 20. mars 2015. R15010022

- Kl. 9.09 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

11. Lagðar fram fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs frá 23. og 25. mars 2015. R15010021

B-hluti fundargerðarinnar frá 25. mars samþykktur. 

12. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 15 mál. R15030002

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir lýsa því yfir að þeir leggjast algerlega gegn því að dótturfyrirtæki Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur, verði veitt heimild til að stofna aflandsfélag í skattaafsláttarríkinu Guernsey um vátryggingarstarfsemi, nánar tiltekið frumtryggingarfélag. Nauðsynlegt er fyrir Framsókn og flugvallarvini, sem ekki eiga neina aðkomu að stjórn OR, að lýsa þessu yfir hér strax við fyrstu kynningu, þar sem núverandi stjórn, skipuð af meirihluta í borgarstjórn, Samfylkingu, Bjartri framtíð, Vinstri grænum og Pírötum, ásamt minnihlutafulltrúum frá Sjálfstæðisflokknum hafa allir samþykkt fyrir sitt leyti tillögu um stofnun félags um eigin tryggingar Orkuveitunnar, sbr. framlagt minnisblað, en þar kemur fram að um sé að ræða að stofna erlent félag og önnur gögn málsins bera með sér að horft sé til aflandssvæðisins Guernsey. Teljum við algerlega óásættanlegt, við hvaða aðstæður sem er, að Reykjavíkurborg og dótturfélög hennar standi að stofnun félaga í skattaparadísum.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Erindi Orkuveitu Reykjavíkur er háð samþykki eigenda og er í umsagnarferli hjá fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Erindið kemur til afgreiðslu borgarráðs þegar umsögnin liggur fyrir. Rétt er að fram komi að meirihlutinn hefur gert skýran fyrirvara við að stofnað verði félag erlendis í þágu skattahagræðis og verður umfjöllun um þann þátt málsins hluti af meðferð þess. 

13. Lögð fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. mars 2015, vegna kynningar í umhverfis- og skipulagsráði þann 18. mars 2015, á drögum að verklýsingu fyrir hverfisskipulag Árbæjarhverfis, dags. 16. mars 2015.

Björn Axelsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir og Pétur Jónsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. R14010072

14. Lagt fram bréf íþróttafélagsins Fylkis, dags. 20. mars 2015, um breytingu á notkun knattspyrnuæfingasvæðis milli Hraunbæjar og Bæjarháls.

Borgarstjóri leggur til að erindinu verði vísað til umhverfis- og skipulagssviðs, inn í vinnslu við gerð hverfisskipulags Árbæjar. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu: 

Borgarráð tekur jákvætt í erindi íþróttafélagsins Fylkis, dags. 20 mars sl., varðandi breytingar á knattspyrnuvöllum félagsins gegn því að félagið gefi eftir notkun á 1,4 hektara æfingasvæði milli Hraunbæjar og Bæjarháls, sem hentar vel til þéttingar byggðar. Borgarstjóra er falið að hefja viðræður við Fylki á grundvelli umrædds erindis og setja málið í hefðbundið samráðsferli gagnvart íbúum.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi breytingartillögu: 

Borgarráð tekur jákvætt í erindi íþróttafélagsins Fylkis, dags. 20 mars sl., varðandi breytingar á knattspyrnuvöllum félagsins gegn því að félagið gefi eftir notkun á 1,4 hektara æfingasvæði milli Hraunbæjar og Bæjarháls, sem hentar vel til þéttingar byggðar. Erindi félagsins er vísað til gerðar hverfisskipulags og borgarstjóra falið að hefja viðræður við Fylki samhliða nauðsynlegu samráði. R15030218

Samþykkt.

15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. mars 2015, sbr. kynningu á fundi umhverfis- og skipulagsráðs s.d. á tillögu að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar Hraunbær 103-105 þar sem gert er ráð fyrir að heimilt verði að reisa byggingu með íbúðum fyrir eldri borgara. R15030220

Kynnt.

16. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. mars 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. mars 2015 á auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar nr. 33 við Freyjubrunn. R15030197

Samþykkt.

17. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. mars 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. mars 2015 á leiðréttingu á þéttbýlisuppdrætti aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 vegna breyttrar landnotkunar á nokkrum lóðum. R11060102

Samþykkt.

18. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. mars 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. mars 2015 á breytingu á deiliskipulagi Holtavegar 8-10. R14030041

Samþykkt.

19. Lagt fram bréf umhverfis- og og skipulagssviðs, dags. 20. mars 2015, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að bjóða út framkvæmdir við viðbyggingu Klettaskóla ásamt breytingum á eldra húsnæði. Kostnaðaráætlun er 2.600 m.kr. R15030212

Samþykkt.

Ámundi V. Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

20. Lögð fram áfangaskýrsla starfshóps um nýju Reykjavíkurhúsin, dags. 23. mars 2015, um útfærslu Reykjavíkurhúsa í Vesturbugt, ásamt fylgiskjölum. R13010108

Samþykkt að senda áfangaskýrsluna til kynningar hjá fagráðum Reykjavíkur. 

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi tillögu: 

Í anda aukins samráðs og samvinnu leggja Framsókn og flugvallarvinir fram þá tillögu að leitað verði umsagna umhverfis- og skipulagsráðs, velferðarráðs, mannréttindaráðs og stjórnkerfis- og lýðræðisráðs um hverja og eina leið sem kynnt er í kynningunni.

Frestað.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Kynning sú sem hér hefur farið fram er í stórum atriðum byggð á húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar frá árinu 2011, við gerum þær sömu athugasemdir við kynninguna og við gerðum í bókun á borgarráðsfundi þann 27. nóvember 2014 (liður 25) þar sem við á. Þá teljum við forsendur í kostnaðarlíkaninu ekki nægjanlega áreiðanlegar af þerri ástæðu sem hér að framan greinir og því ekki hægt að taka afstöðu til þeirra 5 ólíku leiða sem kynntar hafa verið. Lögmætisköflunum í lok hverrar leiðar er ábótavant, því verðum við að geta metið áhættu af málarekstri og mögulegum skaðabótum sem hver og ein leið kann að hafa í för með sér, sérstaklega með tillit til EES samningsins, jafnræðis og samkeppnissjónarmiða. 

Auðun Freyr Ingvarsson, Ebba Schram, Eyþóra Kristín Geirsdóttir, Ásgeir Westergren og Ellý Alda Þorsteinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

21. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. mars 2015: 

Lagt er til að borgarráð samþykki að lóðum 03 og 04 í Vesturbugt verði úthlutað eftir auglýsingu til þeirra sem verða með hagstæðustu tilboðin í lóðirnar. Jafnframt að Reykjavíkurborg kaupi, á grundvelli hagkvæmasta tilboðs, allt að 80 af u.þ.b. 170 íbúðum sem byggðar verða á lóðunum, húsnæði fyrir bílageymslur og rými fyrir leikskóla. Borgarsjóði verði heimilað að framselja íbúðirnar til Félagsbústaða og sjálfseignastofnana, sem reknar eru án hagnaðarsjónarmiða. Bílageymslur verði heimilt að framselja til Bílastæðasjóðs. Skipaður verði starfshópur fulltrúa borgarlögmanns, skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, umhverfis- og skipulagssviðs, innkaupadeildar, Bílastæðasjóðs og Félagsbústaða til að vinna nánari útfærslu á tillögu um úthlutun lóðanna. Starfshópurinn láti vinna nauðsynlegar breytingar á gildandi deiliskipulagi, sem umhverfis- og skipulagsráði er falið að auglýsa, sjái um gerð útboðsgagna og útboð lóðanna.

Greinargerð fylgir tillögunni. Jafnframt lagt fram minnisblað skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 23. mars 2015, um ráðstöfun lóða, kaup íbúða o.fl. R13090022

Frestað.

22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. mars 2015: 

Lagt er til að borgarráð feli skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að auglýsa eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu á lóðum við Vesturbugt og á lóðum Reykjavíkurborgar á Kirkjusandsreit. Leitað er eftir samstarfi við sjálfseignastofnanir, húsnæðissamvinnufélög og leigufélög sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða og vinna að byggingu íbúða fyrir félagsmenn sína. 

Greinargerð fylgir tillögunni. Jafnframt lögð fram drög að auglýsingu um Nýju Reykjavíkurhúsin. R13090022

Frestað.

23. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 9. mars 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki húsaleigusamning við BS eignir ehf. vegna Norðlingabrautar 4. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 23. mars 2015. R15030004

Samþykkt.

24. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutunar- og útboðsskilmála fyrir Nýlendureit. R14010144

Frestað.

25. Lagður fram dómur héraðsdóms í máli nr. E-3172/2014, Hörður Jónsson gegn Reykjavíkurborg. R14100240

26. Lagður fram dómur Hæstaréttar í máli nr. 592/2014, Sextán ehf. og Casino ehf. gegn Reykjavíkurborg. R13070010

27. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. mars 2015:

Borgarráð samþykkir að veita fjármálastjóra framlengda heimild til að greiða tónlistarskólum í Reykjavík, sem eru í tímabundnum greiðsluvanda, fyrirfram áætlað framlag Jöfnunarsjóðs vegna kennslukostnaðar vegna nemenda á miðstigi í söngnámi og/eða framhaldsstigi í söng- og tónlistarnámi, vegna febrúar 2015, alls um 16,6 m.kr.

Greinargerð fylgir tillögunni. R14050155

Samþykkt.

28. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. mars 2015: 

Lagt er til að samþykkt verði beiðni Tónskólans Hörpunnar um þátttöku Reykjavíkurborgar í kostnaði skólans vegna veikinda kennara skólans frá desember 2013 til og með loka mars 2014, alls kr. 874.521. Þessi útgjöld verði færð á kostnaðarstað M3010 og fjármögnuð af kostnaðarstað 09205, ófyrirséð. 

Greinargerð fylgir tillögunni. R14040139

Samþykkt.

29. Kynnt er tillaga fjármálastjóra og fjárstýringarhóps til borgarráðs, dags. 25. mars 2015, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki að stofnaður verði nýr óverðtryggður skuldabréfaflokkur Reykjavíkurborgar, RVKN 35 1, til 20 ára. Einnig er lagt til að borgarráð samþykki jafnframt fyrirliggjandi tilboð í skuldabréfaflokkinn RVKN 35 1 og að borgarráð samþykki að falla frá frekari skuldabréfaútboðum á þessu ári samkvæmt samþykktri útgáfuáætlun frá 8. janúar 2015 enda ekki ráðgerð frekari lántaka á árinu 2015 með útgáfu skuldabréfa. R14100366

Samþykkt. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

30. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 23. mars 2015, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 19. mars 2015 á tillögu um niðurgreiðslu vegna matarþjónustu í Gerðubergi. R15030217

Samþykkt.

Stefán Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

31. Lagt fram til kynningar bréf velferðarsvið, dags. 23. mars 2015, sbr. samþykkt velferðarráðs á samningi milli velferðarsviðs og Blindrafélagsins. 

Stefán Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R15030219

32. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 24. mars 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um skil starfshópa á kjörtímabilinu, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. mars sl. R15010311

33. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 24. mars 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um stofnun verkefnastjórahópa á kjörtímabilinu, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. mars sl. R15010311

34. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. mars 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um tíma- og framkvæmdaáætlun fyrir hönnun mannvirkja í Úlfarsárdal, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. desember sl. R14110191

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir lýsa áframhaldandi áhyggjum sínum af framkvæmdahraða í Úlfarsárdal, þar sem að starfshópur sá sem stofnaður hefur verið hefur engin tímamörk í afgreiðslu sinni. Gott er þó að upplýst sé að áætlanagerð eigi að liggja fyrir í lok apríl.

35. Lagt fram bréf Faxaflóahafna sf., dags. 16. mars 2015, umbyggingu nýs vita. R15030156

Samþykkt að vísa erindinu til gerðar fjárfestingaráætlunar.

36. Lagt fram bréf heilbrigðiseftirlitsins, dags. 17. mars 2015, sbr. samþykkt heilbrigðisnefndar frá 11. mars 2015 á heilbrigðissamþykkt um verndun vatnsbóla á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 2. mars 2015, þar sem óskað er samþykktar borgarstjórnar á tillögum á endurskoðaðri samþykkt um verndarsvæði vatnsbóla og afmörkun vatnsverndarsvæða á höfuðborgarsvæðinu. R11020100

Samþykkt.

Vísað til staðfestingar borgarstjórnar.

Árný Sigurðardóttir og Kristín Lóa Ólafsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

37. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. mars 2015: 

Borgarráð samþykkir að fela sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs að vinna áfram að undirbúningi og könnun á möguleikum þess að sýning Bjarkar í MoMA –  Samtímalistasafninu í New York – komi til Reykjavíkur. 

Jafnframt lagt fram minnisblað menningar- og ferðamálasviðs, dags. 23. mars 2015. R15030154

Samþykkt.

- Kl. 12.03 víkur Björk Vilhelmsdóttir af fundinum.

38. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 24. mars 2015, um samráðshóp Reykjavíkurborgar og lóðarhafa Austurbakka 2, ásamt erindisbréfi hópsins. R14120135

39. Lagt er fram erindisbréf starfshóps um sjálfbæran Elliðaárdal, dags. 26, mars 2015. R15030224

40. Lögð fram drög að samkomulagi ríkisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar um samstarf á sviði kjaramála, dags. í mars 2015. R15030239

Samþykkt að veita borgarstjóra heimild til að undirrita samkomulagið.

41. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks:

Erindisbréf hóps um ný húsnæðissamvinnufélög var lagt fram í borgarráði 16. janúar 2014. Í hópnum sitja fulltrúar Reykjavíkurborgar, Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Kennarasambands Íslands. Tilgangurinn er að stuðla að stofnun nýrra húsnæðissamvinnufélaga í samvinnu við fulltrúa verkalýðsfélaga sem hafa að markmiði byggingu og rekstur leiguíbúða. Með hópnum hefur starfað framkvæmdastjóri Félagsbústaða. Hópnum var ætlað að skila skýrslu og niðurstöðum sínum 1. apríl 2014 en þessi vinna er talin lykilatriði í útfærslu húsnæðisstefnu borgarinnar. Hversu oft hefur hópurinn hist? Hvað líður vinnu hans og niðurstöðum? Hvert er innlegg hans á innleiðingu húsnæðisstefnu borgarinnar, dags. 13. október 2013, um ný húsnæðissamvinnufélög? Samþykkt var í borgarráði 11. apríl 2013 að leita eftir viðræðum við velferðarráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið um samstarf Reykjavíkurborgar og ráðuneytanna um uppbyggingu lítilla og meðalstórra leiguíbúða. Stofnaður var stýrihópur um framgang þess verkefnis. Erindisbréf hóps um „samstarf ríkis og borgar um uppbyggingu nýrra leiguíbúða“ var lagt fram í borgarráði 16. janúar 2014. Hvað líður þessari vinnu? R14010124

42. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

Borgarráð samþykkir að hafinn verði undirbúningur að því að skipta um gólfefni í Fylkishöll, íþróttahúsi Fylkis, í samvinnu við félagið. Núverandi gólfefni hefur verið notað frá því húsið var tekið í notkun árið 1995 og er því komið til ára sinna. R15030252

Frestað.

43. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks:

Borgarráð samþykkir að samningur milli Reykjavíkurborgar og íþróttafélagsins Fylkis verði endurskoðaður með það að leiðarljósi að áhorfendastúka félagsins njóti sambærilegs stuðnings hlutfallslega og önnur slík mannvirki, sem reist hafa verið eða fyrirhugað er að reisa, á félagssvæðum íþróttafélaganna í Reykjavík. R14030100

Frestað.

44. Fram fer kynning á dagskrá borgarstjóra en hann verður meðal ræðumanna á ráðstefnu ICLEI – Local Governments for Sustainability í Seoul í Kóreu dagana 8.-12. apríl nk. Borgarstjóri mun einnig funda með borgarstjóra Seoul og öðrum borgarstjórum um samstarf á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Auk borgarstjóra sækja Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs, og Pétur Ólafsson, aðstoðarmaður borgarstjóra, ráðstefnuna. R15010051

Fundi slitið kl. 12.47

S. Björn Blöndal

Halldór Auðar Svansson Júlíus Vífill Ingvarsson

Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir