Borgarráð - Fundur nr. 5353

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2015, fimmtudaginn 12. mars, var haldinn 5353. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.04. Viðstödd voru: S. Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Sóley Tómasdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Kjartan Magnússon, Halldór Halldórsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Hrólfur Jónsson, Hallur Símonarson, Ebba Schram og Linda Sif Sigurðardóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram skýrsla sérstakrar stjórnar ferðaþjónustu fatlaðs fólks, dags. 5. mars 2015.

Stefán Eiríksson og Líf Magneudóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R14120069

Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarráð þakkar sérstakri stjórn ferðaþjónustu fatlaðs fólks sem skipuð var á eigendafundi Strætó bs. 4. febrúar sl. fyrir mikið og vel unnið starf við erfiðar og krefjandi aðstæður. Sömuleiðis er stjórninni þakkað fyrir ítarlega og greinargóða skýrslu sem dregur upp skýra mynd af máli og þeim viðfangsefnum sem takast þarf á við til að koma starfsemi ferðaþjónustu fatlaðs fólks í það horf sem var að stefnt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir skýrslu neyðarstjórnar ferðaþjónustu fatlaðs fólks sem nú skilar af sér eftir mánaðarstarf. Í skýrslunni kemur fram staðfesting á þeim veikleikum sem hagsmunasamtök fatlaðs fólks vöruðu eindregið við áður en farið var í breytt kerfi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, bæði í borgarráði og borgarstjórn, lögðu fram bókanir strax í janúar þar sem varað var við grafalvarlegri stöðu í ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Á það var ekki hlustað á þeim tíma af hálfu meirihlutans sem lýsir ákveðnum hroka gagnvart verkefninu og því hvaðan viðvaranir koma.

2. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Árbæjar frá 3. febrúar og 3. mars 2015.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn undir 1. lið fundargerðarinnar frá 3. mars:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir greinargerð um breytingar á leiðakerfi Strætó bs. með tilliti til Árbæjarhverfis og Norðlingaholts. Ábendingar hafa borist um að með umræddum breytingum hafi almenningssamgöngur innan hverfisins versnað og möguleikar íbúa verið skertir til að taka þátt í félags- og íþróttastarfi í mismunandi hverfishlutum. R15010005

3. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 4. og 25. febrúar 2015.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu undir 2. lið fundargerðarinnar frá 25. febrúar: 

Borgarráð beinir því til borgarstjóra að hann efni til opins fundar með íbúum Grafarholts og Úlfarsárdals eins og ítrekað hefur verið óskað eftir af hverfisráði og íbúasamtökum þessara hverfa. Á fundinum verði íbúum gefin skýr svör um framkvæmdaáætlun skóla, íþróttamannvirkja og menningarmiðstöðvar sem fyrirhugað er að reisa í Úlfarsárdal.

Frestað. R15010007

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 24. febrúar 2015. R15010008

5. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 4. mars 2015. R15010023

6. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. mars 2015. R15010021

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R15030002

8. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs vegna ársins 2015, dags. í dag, ásamt fylgigögnum. R15020014

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vísa til bókunar sinnar frá 19. júní sl. 

9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. mars 2015, þar sem óskað er heimildar borgarráðs til að fullhanna og bjóða út framkvæmdir vegna Betri hverfa 2015. R15030055

Samþykkt.

10. Lagt fram bréf Lyfjastofnunar, dags. 24. febrúar 2015, þar sem óskað er umsagnar um lyfsöluleyfi fyrir nýja lyfjabúð að Stigahlíð 45-47. Jafnframt lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. mars 2015. R15020231

Samþykkt.

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar og sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 3. mars 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð feli ÍTR og SEA að hefja viðræður við Seltjarnarnesbæ um mögulegt samstarf um rekstur fimleikahúss á Seltjarnarnesi. R15020193

Samþykkt.

12. Lögð fram svohljóðandi tillaga staðgengils borgarstjóra, dags. 11. mars 2015: 

Lagt er til að borgarráð samþykki ósk mannréttindastjóra um aukafjárúthlutun að upphæð 1,5 m.kr. vegna nýstofnaðra ráða. 

Jafnframt lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu, dags. 9. mars 2015, þar sem óskað er eftir aukafjárheimild vegna nýstofnaðra ráða, öldungaráðs og fjölmenningarráðs. R12080081

Samþykkt. Fjárheimildin kemur af kostnaðarstað 09205, ófyrirséð. 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata, Framsóknar og flugvallarvina og Halldór Halldórsson leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillagan er í samræmi við samþykktir fyrir ráðin þar sem segir að þau skuli funda að minnsta kosti fjórum sinnum yfir árið auk eins fundar með borgarstjórn. Ekki er gert ráð fyrir að greitt sé fyrir fleiri fundi, þó ráðin geti fundað oftar.

13. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu, dags. 9. mars 2015, um úgáfu bæklingsins Kynlegar tölur.

Anna Kristinsdóttir, Halldóra Gunnarsdóttir og Arnþrúður Ingólfsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R15030056

14. Lagt fram bréf fjármálaskrifstofu, dags. 9. mars 2015, með breyttri tíma- og verkáætlun vegna fjárhagsáætlunar 2016-2020. R15010253

15. Kynnt er ákvörðun fjármálaskrifstofu um að falla frá fyrirhuguðu útboði á skuldabréfum Reykjavíkurborgar þann 11. mars 2015. R14100366

16. Lagt fram bréf fjármálaskrifstofu, dags. 12. mars 2015, ásamt endurskoðuðum viðauka 2 við reglur um fjárstýringu. R14050072

17. Lögð fram svohljóðandi tillaga staðgengils borgarstjóra, dags. 11. mars 2015: 

Lagt er til að borgarráð samþykki að haga álagningu ábyrgðargjalds á Orkuveitu Reykjavíkur á árinu 2015 þannig að 0,55% ábyrgðargjald verði lagt á lán sem tekin hafa verið vegna samkeppnisrekstrar fyrirtækisins og 0,375% á lán vegna sérleyfisrekstrar. 

Greinargerð fylgir tillögunni. R15020169

Samþykkt.

18. Lögð fram dagskrá málþings um kynjaða- og starfsáætlun Reykjavíkurborgar vegna 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna á Íslandi sem fram fer 18. september 2015. R14060161

19. Lagt fram bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 6. mars 2015, þar sem óskað er eftir tilnefningu tveggja fulltrúa Reykjavíkurborgar í starfshóp um tónlistarkennslu á framhaldsstigi. R14090228

Samþykkt að skipa Ragnar Þorsteinsson í starfshópinn.

20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarráð felur umhverfis- og skipulagsráði að finna bensínstöð við Kirkjustétt 2-6 í Grafarholti nýjan stað í samráði við eiganda hennar. Umrædd bensínstöð, sem reist var árið 2005, er skammt frá Ingunnarskóla, frístundaheimilinu Stjörnulandi og félagsmiðstöðinni Fókusi. Árum saman hafa foreldrar barna í Ingunnarskóla gert athugasemdir við staðsetningu stöðvarinnar svo nærri fjölmennasta skóla hverfisins og m.a. kvartað yfir því að í ákveðnum vindáttum berist bensínfnykur inn í skólahúsnæðið. Jafnframt óskar borgarráð eftir lögfræðilegu áliti á því hvort staðsetning bensínstöðvarinnar samræmist reglum ríkis og borgar um bensínstöðvar, t.d. reglum Brunamálastofnunar ríkisins um brunavarnir en þar segir m.a. að fjarlægð milli mannvirkja bensínstöðvar og byggingar, þar sem fólk vistast eða dvelur um lengri tíma, t.d. skóla, skuli að lágmarki vera tólf metrar. Einnig segir að bensínstöðvar beri að skipuleggja þannig að ekki skapist óþarfa umferð um afgreiðslusvæði þeirra en töluverð umferð skólabarna er um stöðina vegna nálægðar við nærliggjandi skóla- og frístundastarf. R15030097

Frestað.

21. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að teknar verði upp merkingar til bráðabirgða á götum Reykjavíkur til að vara við hættulegum holum vítt og breitt um borgina. Strax verði gripið til þessara ráðstafana því mikið eignatjón hefur orðið nú þegar. R15030099

Frestað.

22. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Frá upphafi kjörtímabilsins 16. júní 2014 til 4. mars 2015 hafa verið skipaðir 74 starfs- og stýrihópar af meirihlutanum í borgarstjórn. Af þeim eiga 24 að vera búnir að skila af sér sinni vinnu og einhverjar niðurstöður hafa verið kynntar fyrir borgarráði en ekki allar. Því er óskað eftir upplýsinga um a) hversu margir starfshópar hafa nú þegar skilað af sér niðurstöðum sinnar vinnu og hverjir það eru, b) hverjir hafa ekki skilað og hvaða hópar það þá eru, c) hvort þeir sem enn hafa ekki skilað hafa fengið formlega framlengingu á skilum og d) hvaða tímafrestir eru á því frá að hópur skilar og þar til að kynning fer fram í borgarráði? R15010311

23. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Hversu margir stýri- og starfshópar voru stofnaðir í heildina á síðasta kjörtímabili? Óskað er eftir upplýsingum um fjölda og lista yfir heiti þeirra og ábyrgðarmenn. Eru einhverjir þeirra enn starfandi og þá hversu margir og hvaða hópar eru það? R15010311

24. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Hversu margir verkefnastjórnarhópar hafa verið settir á fót síðan 16. júní 2014 og fram til dagsins í dag? R15010311

25. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina: 

Út frá svari fjármálastjóra við fyrirspurn Framsóknar og flugvallarvina, dags. 27. febrúar 2015, er óskað eftir upplýsingum um fjölda fasteignahluta á bak við tölurnar í hverjum og einum flokki fyrir árið 2014 og 2015, þ.e.a.s. fasteignaskatts á íbúðum (A) atvinnuhúsnæði (B) og opinberum byggingum (C) ásamt lóðarleigu af íbúðarhúsnæði annars vegar og atvinnuhúsnæði og opinberum byggingum. R15020235

26. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Framsókn og flugvallarvinir óska eftir upplýsingum um hvaða málsmeðferð eigi sér stað innan borgarkerfisins, þegar að úthlutaðir styrkir eru ekki nýttir. Verið er að óska eftir upplýsingum hvort að heimilt sé að endurúthluta þá fjárhæðinni til annars aðila sem óskaði eftir styrk, hvort að auglýst sé aftur, hvort að fjárhæðin færist yfir á fjárheimildir næsta árs eða hvort að heimildin falli niður. R15020014

27. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina: 

Óskað er eftir upplýsingum um hvort og þá hvernig hlutfall asfalts í malbiki hafi breyst í þeim framkvæmdum sem gerðar hafa verið á vegum borgarinnar síðan í ársbyrjun 2010. Óskað er eftir upplýsingum frá Malbikunarstöðinni sem og frá þeim verktökum sem tekið hafa að sér malbikunarframkvæmdir fyrir borgina. Þá óskast upplýsingar um hvenær var byrjað að nota vistvæna olíu (repjuolíu eða fiskolíu) í malbiksframkvæmdir á vegum borgarinnar. Þá óskast upplýsingar um hvort að einhver hluti af 160 milljóna króna aukafjárheimild í malbikunarframkvæmdir sem samþykkt hefur verið, verði notaður í annan kostnað en beinar framkvæmdir, eins og t.d. verkfræðivinnu. R15030100

28. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Gerð er tillaga um að fengin verði óháð úttekt sérfræðinga á ástæðum á því slæma ástandi á götum borgarinnar sem nú er staðreynd, áður en farið verður í viðhald og endurbótaframkvæmdir. R15030101

Frestað.

Fundi slitið kl. 11.15

Sigurður Björn Blöndal

Björk Vilhelmsdóttir Halldór Auðar Svansson

Halldór Halldórsson Kjartan Magnússon

Sóley Tómasdóttir Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir