Borgarráð - Fundur nr. 5350

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2015, fimmtudaginn 19. febrúar, var haldinn 5350. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.02. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, S. Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Sóley Tómasdóttir, Halldór Halldórsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Hrólfur Jónsson, Hallur Símonarson, Kristbjörg Stephensen, Ólöf Örvarsdóttir, Pétur Krogh Ólafsson og Linda Sif Sigurðardóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 10. febrúar 2015. R15010004

2. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Grafarvogs frá 10. og 27. janúar 2015. R15010008

3. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Kjalarness frá 8. janúar og 12. febrúar 2015. R15010011

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 12. febrúar 2015. R15010013

5. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 13. febrúar 2015. R15010015

6. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. febrúar 2015. R15010021

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R15020006

8. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir 15 umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R15020003

- Kl. 9.08 taka Júlíus Vífill Ingvarsson og Hjálmar Sveinsson sæti á fundinum.

9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. febrúar 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. febrúar 2015, um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi vegna lóðar Langholtsskóla, nr. 23 við Holtaveg vegna færanlegra kennslustofa. R15020139

Samþykkt.

10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. febrúar 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. febrúar 2015, um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 122-124 við Úlfarsbraut. R15020140

Samþykkt.

11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. febrúar 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. febrúar 2015, um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 7 við Brautarholt. R13030115

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðsluna og leggja fram svohljóðandi bókun: 

Áhyggjur íbúa og hagsmunaaðila af uppbyggingu og bílastæðamálum á svæðinu eru réttmætar. Ekki hefur tekist að skapa sátt um þéttingu byggðar og skapa samráðsgrundvöll sem er forsenda uppbyggingar í eldri hverfum. Sérstaklega á það við á þessum reit. Óánægja íbúa og fyrirtækja í nágrenninu hefur komið skýrt fram á fyrri stigum þessa máls. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa flutt tillögur í borgarstjórn og í umhverfis- og skipulagsráði um að komið verði til móts við ábendingar íbúa til dæmis með stefnu um heildarlausnir í bílastæðamálum. Þessar lausnir hafa ekki verið kynntar fyrir fulltrúum Sjálfstæðisflokksins né ræddar í umhverfis- og skipulagsráði. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiða ekki atkvæði með því að setja framlagða tillögu í auglýsingaferli vegna þess að með tilliti til sögu þessa máls þarf miklu meira samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila áður en lengra er haldið.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr einnig hjá við afgreiðslu málsins og leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina greiðir ekki atkvæði með tillögunni þar sem bílastæðavandi í hverfinu samhliða þéttingu byggðar hefur enn ekki verið leystur þrátt fyrir áhyggjur íbúa og hagsmunaðila.

12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. febrúar 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út 1. áfanga gatnagerðar vegna uppbyggingar á Hlíðarenda. R14010193

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggjast gegn öllum breytingum er hafa áhrif á Reykjavíkurflugvöll meðan að Rögnunefndin svokallaða er að störfum.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Um er að ræða útboð á framkvæmdavegi sem hefur ekki áhrif á rekstur flugvallarins.

13. Lagt fram svar skipulagsfulltrúa, dags. 16. febrúar 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina frá 22. janúar 2015 um kynningu á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar. R14050011

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Í svarinu er staðfest að umrædd gögn voru hvorki lögð fram né kynnt í umhverfis- og skipulagsráði, borgarráði og borgarstjórn vegna deiliskipulags Reykjavíkurflugvallar né hafi umhverfis- og skipulagsráð, borgarráð og borgarstjórn samþykkt breytingarnar sem gerðar voru á umsögn skipulagsfulltrúa eftir að borgarstjórn samþykkti deiliskipulagið. Þá er staðfest að athugasemdaraðilum var ekki send umsögnin eftir breytingarnar. Í upphaflegri umsögn sem lá til grundvallar samþykki borgarstjórnar á deiliskipulaginu er ranglega vísað til niðurstöðu áhættumatsnefndar Isavia og áhættumati og nothæfisstuðli ruglað saman. Auk þess sem ranglega er fullyrt um notkun brautarinnar. Fyrir liggur að þær forsendur sem lágu til grundvallar í umsögn skipulagsfulltrúa eru rangar. Byggðist umsögnin á rangtúlkunum á bréfi forstjóra Isavia, dags. 13. desember 2013, til innanríkisráðherra þar sem sett var upp sú sviðsmynd að miðað við ákveðnar forsendur væri nothæfisstuðullinn hærri svo sem ef litið væri á Keflavíkurflugvöll og Reykjavíkurflugvöll sem einn flugvöll, ef miðað væri við ákveðin veðurskilyrði og ákveðna tegund flugvéla og ef það yrði opnuð NA-SV flugbraut í Keflavík. Ætlaðist forstjórinn ekki til þess að umrætt bréf hans til innanríkisráðherra yrði túlkað sem eitthvert mat Isavia á að leggja umrædda flugbraut niður enda átti eftir að vinna áhættumatið.

14. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 16. febrúar 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að úthluta Mílu ehf. lóð að Norðlingabraut 3 fyrir tækjahús. R15020136

Samþykkt. 

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins.

15. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 13. febrúar 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki kauptilboð í spildu í hlíðum Úlfarsfells. Jafnframt er lagt fram bréf Mosfellsbæjar, dags. 11. febrúar 2015. R14120098

Samþykkt.

16. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 16. febrúar 2015, varðandi húsaleigusamning vegna Hraunbæjar 119 fyrir Borgarbókasafn Árbæjar. Jafnframt er lagður fram húsaleigusamningur, dags. 13. febrúar 2015. R15020132

Samþykkt.

17. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 16. febrúar 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki meðfylgjandi endurskoðaðar reglur um kaup og sölu fasteigna. Jafnframt eru lagðar fram reglur um kaup og sölu fasteigna hjá Reykjavíkurborg og verklagsregla. R14100110

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir lýsa ánægju sinni með endurskoðun á reglum um kaup og sölu fasteigna hjá Reykjavíkurborg sem hér hafa verið samþykktar. Í þeim felst að tekið hefur verið tillit til þeirra bókana og tillagna sem við höfum lagt fram á síðustu mánuðum, sérstaklega hvað varðar kröfur um aldur verðmata fasteigna og aukið gegnsæi við sölumeðferð eigna borgarinnar, hvort sem eignirnar eru seldar á vegum borgarinnar eða hjá fasteignasölum.

18. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu, dags. 1. febrúar 2015, sbr. samþykkt mannréttindaráðs um að vísa skýrslu fulltrúa Intercultural cities varðandi þátttöku Reykjavíkurborgar í verkefninu fjölmenningarborgir til umfjöllunar í borgarráði.

Anna Kristinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R14040176

19. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu, dags. 17. febrúar 2015, ásamt skýrslu starfshóps um aðgerðir gegn heimilisofbeldi gagnvart fötluðu fólki. R14100262

Vísað til umfjöllunar og umsagnar mannréttindaráðs, velferðarráðs, íþrótta- og tómstundaráðs, umhverfis- og skipulagsráðs, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs og skóla- og frístundaráðs.

Anna Kristinsdóttir, Halldóra Gunnarsdóttir, Tómas Ingi Adolfsson, Steinunn Ása Þorvaldsdóttir og Ellý Alda Þorsteinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir telja þá vinnu sem hér hefur verið kynnt mjög þarfa og til mikillar fyrirmyndar. Mikilvægt er að í tillögum að aðgerðum verði líka horft til samskipta fatlaðra á netmiðlum og þær ofbeldishættur sem þar leynast. Vinna sem þessi sýnir mikilvægi þess að mannréttindaráð fái meiri frumkvæðisheimildir í samþykktum sínum og tryggða í samþykktum annarra fagráða beina aðkomu að ákvarðanatöku og vinnu þeirra, sbr. tillögu Framsóknar og flugvallarvina í borgarráði þann 29. janúar 2015.

20. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu, dags. 5. febrúar 2015, varðandi bókun ferlinefndar fatlaðs fólks s.d. um þátttöku Reykjavíkurborgar í gerð staðals fyrir aðgengi fatlaðs fólks að ferðaþjónustu. R14070101

Samþykkt.

Anna Kristinsdóttir og Tómas Ingi Adolfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

21. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 11. febrúar 2015, um úthlutun almennra styrkja skóla- og frístundaráðs 2015. R15020138

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir telja óeðlilegt að sama verkefni fái styrki frá fleiri en einu ráði Reykjavíkurborgar, nema sérstök og veigamikil rök liggi þar að baki.  

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Styrkjareglur Reykjavíkurborgar eru skýrar hvað þetta varðar, ekkert í reglunum bannar að aðilar njóti styrkja frá fleiri en einu ráði. Það er þó í framvæmd undantekning frekar en meginregla.

22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. febrúar 2015:

Lagt er til að fjárheimildir velferðarsviðs (VEL) verði hækkaðar um 30,6 m.kr. til reksturs gistiskýlis við Lindargötu fyrir húsnæðislausa karlmenn, samkvæmt samþykkt velferðarráðs þar að lútandi á fundi ráðsins þann 12. febrúar sl., sjá málsnúmer R15020141. Breytingin verði fjármögnuð af liðnum ófyrirséð, kostnaðarstað 09205, og færist á kostnaðarstað F3250 hjá VEL. R15010072

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

23. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 16. febrúar 2015, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 12. febrúar 2015 á tillögu um að rekstur gistiskýlis fyrir húsnæðislausa karla verði falinn velferðarsviði frá og með 1. apríl nk. R15020141

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

Tvenn góðgerðarsamtök, Hjálpræðisherinn og Samhjálp, skiluðu inn tilboðum í rekstur gistiskýlisins. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að gengið verði að tilboði lægstbjóðanda í rekstur gistiskýlisins í stað þess að borgin taki yfir reksturinn enda er sáralítill munur á fjárhæðum milli samtakanna annars vegar og borgarinnar hins vegar. 

Greinargerð fylgir tillögunni.

Tillagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina. 

Tillaga velferðarsviðs samkvæmt framlögðum gögnum samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir gera grein fyrir mótatkvæði sínu með eftirfarandi hætti: Við erum mótfallin því að þjónusta þessi verði færð yfir til borgarinnar og eftir atvikum að gera ekki áframhaldandi samning við þann aðila sem hefur áralanga reynslu í rekstri á gistiskýlinu með góðum árangri og þá er nákvæmlega ekkert sem gefur til kynna að Reykjavíkurborg geti sinnt þessu verkefni fyrir lægri fjárhæð eða með betri þjónustu en núverandi rekstraraðili. Þá er í hæsta máta ótrúverðugt að samþykkt hafi verið fjárhagsáætlun fyrir rúmum 2 mánuðum, þar sem rekstrarkostnaður er áætlaður rúmlega 52 milljónir (án innri leigu), þegar síðan fjármálaskrifstofa velferðarsviðs reiknar út kostnað borgarinnar rúmlega 80 milljónir (án innri leigu). Draga slík vinnubrögð mjög úr trúverðugleika fjárhagsáætlana borgarinnar. 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata hafna framkominni tillögu Sjálfstæðisflokksins en styðja ákvörðun meirihluta velferðarráðs um að fela velferðarsviði rekstur gistiskýlis fyrir heimilislausa karla. Auglýst var eftir áhugasömum aðilum um rekstur skýlisins. Fimm aðilar lýstu áhuga og á endanum skiluðu tveir þeirra inn tilboði í reksturinn. Tekið var fram í auglýsingu að velferðarsvið áskildi sér rétt til að hafna öllum tilboðum og annast reksturinn sjálft, enda væri það metið fjárhagslega hagkvæmast og faglega farsælast. Það reyndist vera niðurstaða þessarar skoðunar. Samhjálp átti hæsta tilboð, Hjálpræðisherinn þar næstur en mat velferðarsviðs á kostnaði við reksturinn reyndist lægra en beggja framangreindra aðila. Það liggur því beinast við að fela velferðarsviði reksturinn til tveggja ára, en að þeim tíma liðnum liggi fyrir mat í ljósi reynslunnar á því hvort rekstrinum sé best fyrir komið hjá sviðinu eða hvort rétt sé að bjóða hann út að nýju. Tímanum verði einnig varið í að ramma inn á hvaða hugmyndagrunni þjónustan skuli byggjast.

Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 1. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. 

Ellý Alda Þorsteinsdóttir og Sigtryggur Jónsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

24. Lagður fram dómur Héraðsdóms, dags. 16. janúar 2015, í máli nr. E-3598/2013, Sorpa bs. gegn Samkeppniseftirlitinu.

Hörður Felix Harðarson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R13090172

25. Fram fer umræða um málefni tónlistarskóla í Reykjavík. R14090228

Ragnar Þorsteinsson og Sigfríður Björnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

26. Fram fer kynning á viðburðum vegna 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna. R14060161

27. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. febrúar 2015: 

Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt erindisbréf stýrihóps um heildstæða frítímaþjónustu og atvinnumál fyrir fötluð ungmenni.

Jafnframt lagt fram erindisbréf stýrihópsins og bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 14. nóvember 2014. R15020070

Samþykkt.

Jafnframt er samþykkt að skipa Heiðu Björgu Hilmisdóttur, Evu Einarsdóttur og Börk Gunnarsson í stýrihópinn.

28. Lagt fram svar Strætó bs., dags. 17. febrúar 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um frekari skýringar á nýju tölvukerfi fyrir ferðaþjónustu fatlaðs fólks, sbr. 15. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. febrúar sl. R14120069

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir viðbótarsvör Strætó og kalla eftir því að meirihluti borgarstjórnar svari spurningu um hvaða rekstrarsparnaði átti að ná með útboði á ferðaþjónustu fatlaðs fólks og hvort þær fyrirætlanir muni ganga eftir.

29. Lögð fram drög að umsögn Reykjavíkurborgar um frumvarp að lögum um náttúrupassa, 455. þingmál, dags. 19. febrúar 2015. Einnig er lögð fram umsagnarbeiðni atvinnuveganefndar Alþingis dags. 6. febrúar 2015. R15020081

Skrifstofustjóra borgarstjórnar er falið að ganga frá umsögninni að teknu tilliti til þeirra athugasemda sem fram komu á fundinum og senda atvinnuveganefnd Alþingis áður en frestur rennur út. Umsögnin verður lögð fram til staðfestingar borgarráðs á næsta fundi ráðsins.

30. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir upplýsingum um hverjir hafi aðgang að upplýsingum um farsímanotkun kjörinna fulltrúa og starfsmanna Reykjavíkurborgar og hvernig sé farið með slíkt. Hvaða aðili innan borgarinnar hefur aðgang að mínum síðum og/eða fyrirtækjasíðum Vodafone og getur þannig fylgst með öllum farsímum sem skráðir eru hjá borginni? Er starfsmönnum kynnt að upplýsingar um notkun séu aðgengilegar? Ef svo er hvernig á sú kynning sér stað? R15020177

Fundi slitið kl. 12.05

Sigurður Björn Blöndal

Halldór Auðar Svansson Halldór Halldórsson

Hjálmar Sveinsson Júlíus Vífill Ingvarsson

Sóley Tómasdóttir Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir