Borgarráð - Fundur nr. 5348

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2015, fimmtudaginn 5. febrúar, var haldinn 5348. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.17. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, S. Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Sóley Tómasdóttir, Hjálmar Sveinsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Halldór Halldórsson og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Hrólfur Jónsson, Hallur Símonarson, Kristbjörg Stephensen Pétur Krogh Ólafsson og Úlfhildur Jóna Þórarinsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Fram fer umræða um ferðaþjónustu fatlaðs fólks.

Bryndís Haraldsdóttir, Jóhannes Rúnarsson, Stefán Eiríksson og Kristín Soffía Jónsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R14120069

Borgarráð veitir borgarstjóra umboð til að leggja fram og samþykkja tillögu á sameiginlegum fundi eigenda og stjórnar Strætó bs. vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Tillagan fjallar um skipun neyðarstjórnar yfir ferðaþjónustu fatlaðs fólks undir forystu Stefáns Eiríkssonar, sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, með aðild fulltrúa Sjálfsbjargar, Þroskahjálpar og Öryrkjabandalags Íslands og fulltrúum þeirra sveitarfélaga sem eiga aðild að verkefninu. Hlutverk stjórnarinnar er að tryggja örugga og eðlilega þjónustu og framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðra eins fljótt og kostur er. Stjórnin hafi fullt umboð til að gera þær breytingar sem hún telur nauðsynlegar til að bæta úr í þjónustu og framkvæmd og hafi jafnframt fullt umboð til að gera tillögur að grundvallarbreytingum á fyrirkomulagi eða framkvæmd þjónustunnar til framtíðar. Enn fremur verði lögð fram og samþykkt tillaga um óháða úttekt á aðdraganda, innleiðingu og framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðs fólks hjá Strætó bs. Sérstök úttekt verði gerð á alvarlegu máli Ólafar Þorbjargar Pétursdóttur.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja tillögu um skipun neyðarstjórnar vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks enda er staða mála verulega alvarleg og hefur verið of lengi. Á þetta hefur verið bent eins og sjá má í bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í borgarráði 15. janúar sl. um að ekki verði lengur unað við þá grafalvarlegu stöðu sem er á framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Þar voru jafnframt lagðar fram spurningar í 8 liðum sem svör hafa enn ekki borist við. Einnig er vísað til tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn 20. janúar sl. sem kveður á um að gerð verði úttekt á útboði ferðaþjónustunnar og tengdum þáttum. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að neyðarstjórn sem skipuð verður helgi sig verkefninu algerlega þar til búið er að ná tökum á framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðs fólks.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Harmar þann alvarlega atburð sem gerðist í gær en fagnar því að loks verði skipaður neyðarhópur, svokölluð neyðarstjórn, en Framsókn og flugvallarvinir gerðu tillögu á borgarstjórnarfundi 20. janúar sl. um að skipaður yrði aðgerðarhópur án tafar. Það er miður að þeirri tillögu hafi verið vísað til velferðarráðs í stað þess að taka strax afstöðu til hennar og grípa til aðgerða enda um mjög brýnt og viðkvæmt mál að ræða. Þá er mjög ámælisvert að á fundi forsætisnefndar 30. janúar sl. bókaði meirihlutinn athugasemdir við að minnihlutinn væri að leggja fram tillögur með afbrigðum á borgarstjórnarfundi, m.a. þessa tillögu, sem sýnir hvað meirihlutinn hefur dregið lappirnar í þessu máli og vilji og alvara til að leysa málið lítill. Þá telja Framsókn og flugvallarvinir það mjög ámælisvert að ráðist var í breytingar á svo mikilvægri og viðkvæmri þjónustu áður en tryggt var að breytingarnar myndu ganga upp og allir verkferlar væru tryggir og skýrir. Voru þessar breytingar á ferðaþjónustu fatlaðs fólks illa undirbúnar. Meirihlutinn hefur dregið lappirnar í að leysa vandamál varðandi ferðaþjónustu fatlaðs fólks og eru afleiðingarnar skelfilegar. Á því ber meirihlutinn ábyrgð og stjórn Strætó bs.

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 26. janúar 2015. R15010012

3. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 15. desember 2014. R14010029

4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 15 mál. R15020006

5. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R15010036

6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. janúar 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. janúar sl., um auglýsingu á breytingu á skilmálum deiliskipulags Kvosarinnar. Einnig er lögð fram úttekt umhverfis- og skipulagssviðs, dags. í janúar 2015, um hótel og gististaði í miðborginni. R15010315

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Verði uppbyggingu og þróun ekki beint í ákveðinn farveg mun hótelstarfsemi verða ráðandi í miðborginni innan fárra ára. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í umhverfis- og skipulagsráði hafa óskað eftir því að tekið verði saman lögfræðilegt álit þar sem lagt verði mat á þær leiðir sem sveitarfélög hafa til að stýra starfsemi og uppbyggingu eins og stefnt er að í tillögu að deiliskipulagi Kvosarinnar. Mikilvægt er að hafa fast land undir fótum í þeim efnum. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykkja að setja tillögu að deiliskipulagi Kvosarinnar í auglýsingu en setja fyrirvara um endanlega afstöðu að athugasemdafresti loknum.

7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. janúar 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. janúar sl., um auglýsingu á breytingu á skilmálum deiliskipulags Grjótaþorps. R15010316

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Verði uppbyggingu og þróun ekki beint í ákveðinn farveg mun hótelstarfsemi verða ráðandi í miðborginni innan fárra ára. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í umhverfis- og skipulagsráði hafa óskað eftir því að tekið verði saman lögfræðilegt álit þar sem lagt verði mat á þær leiðir sem sveitarfélög hafa til að stýra starfsemi og uppbyggingu eins og stefnt er að í tillögu að deiliskipulagi Grjótaþorps. Mikilvægt er að hafa fast land undir fótum í þeim efnum. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykkja að setja tillögu að deiliskipulagi Grjótaþorps í auglýsingu en setja fyrirvara um endanlega afstöðu að athugasemdafresti loknum.

8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. janúar 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. janúar sl., um auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi Örfiriseyjar. R15010172

Samþykkt. 

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Tillagan er að mestu staðfesting á gildandi deiliskipulagsáætlun en horfir ekki til framtíðar og þeirra fjölmörgu spennandi tækifæra til byggðarþróunar sem liggja í svæðinu. Enda þótt fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telji tillöguna endurspegla litla hugmyndaauðgi samþykkja þeir að auglýsa hana en setja fyrirvara við endanlega afstöðu eftir að athugasemdir og ábendingar hafa borist frá hagsmunaaðilum og öðrum sem áhuga hafa á byggðarþróun og betri borg.

9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. janúar 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. janúar sl., um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 50 við Nauthólsveg. R15010314

Samþykkt.

10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. janúar 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. janúar sl., um auglýsingu á breytingu á skilmálum deiliskipulags Hlíðarenda. R14050011

Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina greiða atkvæði á móti tillögunni og leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina greiddu atkvæði gegn deiliskipulagi Hlíðarenda þann 5. nóvember 2014 og gerðu þá skýra grein fyrir atkvæðum sínum með ítarlegum bókunum. Með sama hætti afgreiddu borgarfulltrúar þessara sömu flokka deiliskipulagið í borgarstjórn 2. desember sl. Afstaða fulltrúanna er enn óbreytt. 

Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 1. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013.

11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. janúar 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. janúar sl., um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi urðunarstaðar í Álfsnesi vegna athugasemda Skipulagsstofnunar, ásamt fylgigögnum. R14060229

Samþykkt.

12. Lögð fram starfsáætlun stýrihóps kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunargerðar fyrir árið 2015. Jafnframt lögð fram ársskýrsla stýrihóps kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar fyrir 2014.

Herdís Sólborg Haraldsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R15010318

13. Lagt fram bréf fjármálaskrifstofu, dags. 3. febrúar 2015, um endurskoðaða fjárfestingastefnu verðbréfasafns. R15020013

14. Fram fer kynning á skipulagi, framkvæmd og kynningu rafrænna íbúakosninga Reykjavíkurborgar fyrir Betri hverfi 2015 sem fram fer 17.-24. febrúar nk. 

Sonja Wiium, Eggert Ólafsson og Bjarni Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. R14090207

15. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 4. febrúar 2015: 

Lagt er til að fjárheimildir vegna launakostnaðar fagsviða og miðlægra skrifstofa á árinu 2015 verði lækkaðar um 330 m.kr. í samræmi við tillögur fagsviða og miðlægra skrifstofa sem er liður í að mæta hagræðingarkröfu sem gert er ráð fyrir í samþykktri fjárhagsáætlun ársins. Fjármálastjóra verði falið á grundvelli tillagna sviðsstjóra og skrifstofustjóra að dreifa lækkun útgjalda á fagsvið, stofnanir og kostnaðarstaði í samráði við sviðsstjóra og skrifstofustjóra og undirbúa tillögu að viðauka við fjárhagsáætlun ársins. Um leið er óskað eftir að borgarráð fallist á að falla frá samþykkt frá 25. nóvember 2014 um taka upp miðlæga ráðningarrýni hjá Reykjavíkurborg á árinu 2015.

Greinargerð fylgir tillögunni. R15010072

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

- Kl. 11.00 víkur Sóley Tómasdóttir af fundinum.

16. Fram fer umræða um endurnýjun húsgagna í Ráðhúsi Reykjavíkur. 

Borgarlögmaður fer yfir stöðu mála í viðræðum við Cassina. R14060033

17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Lagt er til að haldnir verði opnir fundir í hverfum borgarinnar þar sem farið verður yfir þjónustukönnun Capacent, samanburð á þjónustu Reykjavíkurborgar við önnur sveitarfélög og útkomu hverfa borgarinnar í könnuninni. Hverfisráð borgarinnar skipuleggi, auglýsi og standi fyrir fundunum. R14090108

Frestað.

18. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina: 

Óskað er eftir upplýsingum um það hvað Félagsbústaðir áttu margar íbúðir í árslok 2010, 2011, 2012, 2013 og 2014 sundurliðað eftir fjölda félagslegra leiguíbúða, fjölda íbúða fyrir aldraða og fjölda íbúða fyrir fatlaða. Þá er óskað eftir upplýsingum í hvaða mánuðum Félagsbústaðir keyptu leiguíbúðir á árinu 2014 og fjölda í hverjum mánuði. R15020053

Fundi slitið kl. 11.10

Sigurður Björn Blöndal

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir Halldór Auðar Svansson

Halldór Halldórsson Hjálmar Sveinsson

Júlíus Vífill Ingvarsson