Borgarráð - Fundur nr. 5346

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2015, fimmtudaginn 22. janúar, var haldinn 5346. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.00. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, S. Björn Blöndal, Sóley Tómasdóttir, Hjálmar Sveinsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Halldór Halldórsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Hrólfur Jónsson, Ólöf Örvarsdóttir, Hallur Símonarson, Kristbjörg Stephensen og Úlfhildur Jóna Þórarinsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð ferlinefndar fatlaðs fólks frá 15. janúar 2015. R15010032

2. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 13. janúar 2015. R15010004

3. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Breiðholts frá 21. ágúst, 23. september, 21. október, 18. nóvember og 18. desember 2014. R14010010

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 8. janúar 2015. R15010006

5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 9. desember 2014. R14010012

6. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 8. janúar 2015. R15010014

7. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 16. janúar 2015. R15010022

8. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. janúar 2015. R15010021

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R15010085

10. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R15010036

11. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs ásamt fylgigögnum, dags. í dag. R15010088

Samþykkt að veita Finnboga Jónssyni styrk að fjárhæð kr. 300.000,- vegna leikverksins Þú kemst þinn veg sem sett verður upp í Norræna húsinu. 

Samþykkt að veita samtökunum Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs styrk að fjárhæð kr. 3.000.000,- vegna uppgræðslu á suðvesturhorni landsins. Borgarstjóri víkur af fundi við afgreiðslu málsins. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vísa einnig til bókunar sinnar í borgarráði 19. júní sl. 

12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. janúar 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. janúar 2015, um auglýsingu á breytingu á skilmálum reits 1.171.1., Hljómalindarreits. R12110046

Samþykkt.

- Kl. 9.20 tekur Halldór Auðar Svansson sæti á fundinum.

13. Lögð fram skýrsla umhverfis- og skipulagssviðs, dags. í desember 2014, um sniðtalningar 2014 – umferðatalningar í Reykjavík.

Ólafur Bjarnason og Björg Helgadóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R15010234

14. Fram fer kynning á vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar. 

Guðjóna Björk Sigurðardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R15010246

15. Fram fer kynning á verðlaunatillögum í hönnunarsamkeppni um Laugaveg og Óðinstorg.

Ólafur Bjarnason, Birgir Teitsson, Hermann Ólafsson, Hrólfur Karl Cela og Anna María Bogadóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R15010247

16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. janúar 2015: 

Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samstarfssamningi Reykjavíkurborgar við félagasamtökin Stelpur rokka. Samningurinn er til þriggja ára, frá 1. janúar 2015 til 31. desember 2017. Áætluð fjárveiting árlega er 2,5 m.kr. og verður kostnaður tekinn af lið 09510, ýmsar samningsbundnar greiðslur.

Jafnframt lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 5. janúar 2014, ásamt drögum að samningi til þriggja ára við Stelpur rokka. R14100288

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Samþykkjum verkefnið Stelpur rokka, sérstaklega á þeim forsendum að í ár fögnum við 100 ára kosningarétti kvenna og teljum við þetta áhugavert verkefni til að brjóta upp staðalímyndir kynjanna.  

17. Lagt fram bréf innri endurskoðunar, dags. 12. janúar 2015, um úttekt á aðdraganda stofnunar skóla- og frístundasviðs og sameiningarferli skóla. Jafnframt lögð fram úttektarskýrsla Intellecta, dags. í október 2014.

Kristján B. Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R15010091

Vísað til kynningar á skóla- og frístundasviði og íþrótta- og tómstundasviði.

Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka fyrir úttekt Intellecta á aðdraganda stofnunar skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og sameiningarferli skóla. Í úttektinni er í einu og öllu tekið undir gagnrýni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á sameiningu skóla. Rauði þráðurinn í skýrslunni er að samráð var algjörlega ófullnægjandi auk þess sem skorti framtíðarsýn og faglegar og fjárhagslegar forsendur. Í sem skemmstu máli fær sameiningarferlið, undirbúningur og framkvæmd verksins falleinkunn. 

Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata: 

Meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata þakkar fyrir úttekt á skólasameiningum og stofnun skóla- og frístundasviðs. Eins og kunnugt er voru þeir flokkar sem standa að nýjum meirihluta sem þá áttu sæti í borgarstjórn ekki samstíga í afstöðunni til skólasameininga á síðasta kjörtímabili. Við í núverandi meirihluta erum hins vegar sammála um það mat að skýrslan beri með sér að í verkefninu var margt vel gert og fær góða einkunn en gerðar eru alvarlegar athugasemdir við mikilvæga þætti, ekki síst þá sem lúta að samráði við hagsmunaaðila og skorti á pólitískri samstöðu. Draga þarf lærdóma af bæði því sem miður fór og vel var gert í þessu umfangsmikla og viðkvæma verkefni.

18. Lagt fram erindisbréf starfshóps um málefni miðborgarinnar, dags. í janúar, ásamt fylgigögnum. R15010232

Frestað.

19. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 12. janúar 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um fjárhagsáætlanir Miðborgarinnar okkar, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember sl. R14110196

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir telja að skýringar á því hvers vegna Reykjavíkurborg nýtir sér ekki samningsbundinn rétt sinn til að nefna áheyrnarfulltrúa til setu á stjórnar- og félagsfundum félagsins Miðborgin okkar, þar sem um er að ræða mikilvæg hagsmunasamtök sem snúa að miklu leyti að uppbyggingu og framþróun verslunar og viðskipta í miðborg Reykjavíkur, séu lélegar. Að vísa til þess að framkvæmdastjóri félagsins hafi setið í ráðum og nefndum á vegum borgarinnar, tryggir á engan hátt aðkomu Reykjavíkurborgar að eftirliti með starfsemi félagsins sem fær úthlutað háum fjárhæðum frá Reykjavíkurborg og Bílastæðasjóði á hverju ári en eitt aðalhlutverk áheyrnarfulltrúa væri slíkt. Forsendur fyrir því að sett eru inn ákvæði um áheyrnarfulltrúa í samninga sem Reykjavíkurborg gerir hlýtur að vera að sá réttur sé nýttur.

20. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 20. janúar 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um kynningu á snjómokstri, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. desember sl. R14120136

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir þakka skýr og greinargóð svör frá umhverfis- og skipulagssviði. Ljóst er þó að Reykjavíkurborg þarf að kynna þessar upplýsingaveitur betur fyrir íbúum borgarinnar, sem mjög margir hafa, á þessum snjóþunga vetri, verið óupplýstir um forgangsröðun á mokstri og hvernig mokstri í þeirra hverfum og í nálægð við þeirra heimili sé háttað. Sérstaklega eru margir íbúar ómeðvitaðir um hvort að götur sem þeir búa í séu í einkaeign þeirra og því ekki þjónustaðar af Reykjavíkurborg.

21. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 19. janúar 2015, um afgreiðslu forsætisnefndar frá 16. janúar 2015 á erindi skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 2. janúar 2015, um skýrslu starfshóps um risnu og meðferð risnukostnaðar, reglur um risnu og reglur um móttökur Reykjavíkurborgar.

Gísli H. Guðmundsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.  R14080090

22. Lagt fram erindisbréf stýrihóps um frístundaþjónustu og félagsstarf, dags. 22. janúar 2015. R15010233

Samþykkt að skipa Sóleyju Tómasdóttur, Skúla Helgason og Mörtu Guðjónsdóttur í stýrihópinn.

23. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. janúar 2015:

Lagt er til að borgarráð samþykki erindisbréf stýrihóps um tilraunaverkefni um styttingu vinnudags án launaskerðingar í samræmi við tillögur starfshóps um styttingu vinnudags án launaskerðingar, dags. 1. desember sl., sem samþykktar voru á fundi borgarráðs þann 4. desember sl.

Jafnframt lögð fram drög að erindisbréfi stýrihópsins og tillögur starfshóps um tilraunaverkefni um styttingu vinnudags án launaskerðingar, dags. 1. desember 2014. R14050127

Samþykkt. 

Jafnframt er samþykkt að skipa Sóleyju Tómasdóttur, Magnús Má Guðmundsson og Halldór Halldórsson í stýrihópinn.

24. Lagt fram bréf Faxaflóahafna sf., dags. 9. janúar 2015, sbr. samþykkt stjórnar Faxaflóahafna s.d., um sameiginlega stefnumótun um hafnarmál á Faxaflóa. R15010191

Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun: 

Reykjavíkurborg er jákvæð fyrir því að skilgreind verði framtíðarsýn, verkaskipting og mótuð heildarsýn á hafnarmál á suðvesturhorni landsins. Jafnframt er Reykjavíkurborg opin fyrir því að skoða frekari samvinnu eða sameiningar hafna á suðvesturhorninu með þátttöku Faxaflóahafna. Þar er Hafnarfjarðarhöfn fyrsti kostur. Hugmyndir um sameiningu og samstarf þurfa að fela í sér hagræðingu í rekstri og fjárfestingu innviða til framtíðar og stuðla að því að markmiðin með stofnun Faxaflóahafna séu höfð í heiðri. 

Gísli Gíslason tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

25. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 21. janúar 2015, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki undirritun viljayfirlýsingar Akranesskaupstaðar og Reykjavíkurborgar varðandi áætlunarsiglingar milli Akraness og Reykjavíkur. Jafnframt lagt fram bréf Faxaflóahafna sf., dags. 9. janúar 2015, um farþegasiglingar á milli staða um Faxaflóa og skýrslan Flóasiglingar – áætlunarsiglingar milli Akraness og Reykjavíkur, dags. í desember 2015. R15010184

Samþykkt.

Gísli Gíslason tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

26. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. janúar 2015: 

Lagt er til að borgarráð samþykki aðild Reykjavíkurborgar að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð. Árlegt félagsgjald er kr. 350.000 og greiðist af kostnaðarstað 01100, skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Borgarstjóri stofni starfshóp til að kortleggja með hvaða hætti Reykjavíkurborg vinni þegar að verkefnum sem leiða af skuldbindingum skv. samstarfinu. Starfshópurinn geri tillögur um önnur verkefni í þeim tilgangi að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir samfélagsábyrgð stofnana hennar og fyrirtækja í borginni.

Greinargerð fylgir tillögunni og siðareglur Festu. R15010225

Samþykkt.

27. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 19. janúar 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð staðfesti reglur um rafrænar kosningar Betri hverfi 2015, ásamt fylgigögnum. R14090207

Samþykkt.

28. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 19. janúar 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að úthluta Fag Bygg ehf. raðhúsalóð nr. 2-8 við Urðarbrunn í Reykjavík og selja byggingarrétt á henni fyrir byggingu raðhúss allt að 980 fermetra fyrir fjögur hús. R15010170

Samþykkt.

29. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 19. janúar 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að úthluta EV ehf. raðhúsalóð nr. 84-92 við Urðarbrunn og selja byggingarrétt á henni fyrir byggingu raðhúss allt að 1400 fermetra fyrir fimm hús. R14120064

Samþykkt.

30. Lagt fram minnisblað skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 19. janúar 2015, um uppbyggingu stúdentaíbúða. R14010115

Vísað til umsagnar fjármálaskrifstofu.

31. Lagt fram bréf Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, dags. 8. janúar 2015, með tillögu um að borgarráð staðfesti að endurgreiðsluhlutfall launagreiðenda á greiddum lífeyri verði óbreytt frá fyrra ári eða 69%. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 17. janúar 2015. R15010171

Samþykkt.

32. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 20. janúar 2015, um viðauka við fjárhagsáætlun vegna handritasýningar í tengslum við Landnámssýninguna í Aðalstræti. R15010072

Vísað til borgarstjórnar.

33. Fram fer kynning á rekstraruppgjöri a-hluta janúar-nóvember 2014. R14050068

34. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 13. janúar 2015, þar sem óskað er samþykkis borgarráðs á heiðursborgara Reykjavíkur. 

Greinargerð fylgir tillögunni.

Trúnaður ríkir um efni tillögunnar til 26. janúar nk. R15010193

Samþykkt.

- Kl. 12.35 víkur Hjálmar Sveinsson af fundi.

35. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Reglur um kynningar í skólum þarf að endurskoða með tilliti til þeirrar reynslu sem safnast hefur frá því þær voru settar haustið 2013. Reglurnar hafa reynst of þröngar og hafa komið í veg fyrir að kynningar í öryggis- og heilbrigðismálum fái að fara fram innan veggja skólanna. Það á t.d. við um hjólahjálma sem gefnir hafa verð um árabil en hefur nú verið hafnað og kynningar á tannhirðu af hálfu Tannlæknafélags Íslands vegna þess að félagið gefur tannkrem og tannbursta í fræðsluskyni. Lagt er til að reglur þessar verði endurskoðaðar og túlkun þeirra rýmkuð þar til endurskoðun er lokið og nýjar reglur hafa verið birtar. R15010262

Frestað.

36. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina: 

Á borgarstjórnarfundi 21. október 2014 var samþykkt að vísa tillögu Framsóknar og flugvallarvina til borgarráðs um að fela skóla- og frístundasviði, velferðarsviði og mannréttindaskrifstofu að endurskoða gildandi verklagsreglur sem samþykktar voru 2012 um þjónustu við grunnskólanemendur með fjölþættan vanda, þar sem sérstökum sjónum yrði beint að nemendum í vímuefnavanda auk annarra þeirra þátta sem þarf að taka tillit til í þessum efnum. Í ljósi alvarlegra og stigvaxandi vandamála í skólum borgarinnar, þar sem nemendur verða endurtekið fyrir ógnunum, hótunum og ofbeldi af hálfu vímuefnaneytenda, er óskað eftir svörum um hvenær áætlað er að þessari endurskoðunarvinnu ljúki. R14100380

37. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina: 

Deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar var samþykkt í borgarstjórn 1. apríl 2014. Með bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. maí 2014, til Skipulagsstofnunar, eru eftirtalin gögn send vegna deiliskipulags Reykjavíkurflugvallar: Minnisblað til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, bréf frá Isavia, dags. 23. apríl 2014, bréf til Isavia, dags. 20. maí 2014, umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 10. mars 2014 (með breytingum sem gerðar voru á umsögninni síðar, þ.e. á grundvelli bréfs Isavia, dags. 23. apríl 2014, sbr. bréf til Isavia, dags. 20. maí 2014). Óskað er eftir upplýsingum um það hvort og þá hvenær framangreind gögn voru lögð fram og kynnt í umhverfis- og skipulagsráði, borgarráði og borgarstjórn vegna deiliskipulags Reykjavíkurflugvallar.  Þá er óskað eftir upplýsingum um það hvort og þá hvenær umhverfis- og skipulagsráð, borgarráð og borgarstjórn samþykktu breytingarnar sem gerðar voru á umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 10. mars 2014, á grundvelli bréfs frá Isavia, dags. 23. apríl 2014, sbr. bréf til Isavia, dags. 20. maí 2014. Jafnframt er óskað eftir upplýsingum um það hvort athugasemdaraðilum hafi verið send umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 10. mars 2014, eins og hún var samþykkt og lá til grundvallar þegar deiliskipulagið var samþykkt í borgarstjórn 1. apríl 2014 eða hvort athugasemdaraðilum hafi verið send umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 10. mars 2014, eftir að gerðar voru breytingar á henni á grundvelli bréfs Isavia, dags. 23. apríl 2014, sbr. bréf til Isavia, dags. 20. maí 2014, þ.e. eins og umsögnin var send Skipulagsstofnun með bréfi, dags. 26. maí 2014.  Einungis er óskað eftir upplýsingum um það hvort og hvenær framangreind gögn voru lögð fram vegna deiliskipulags Reykjavíkurflugvallar sem samþykkt var í borgarstjórn 1. apríl 2014 en ekki vegna breytinga á deiliskipulagi Hlíðarenda en skv. fundargerð borgarráðs frá 5. júní 2014 er undir dagskrárlið um breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda lagt fram bréf Isavia, dags. 23. apríl 2014, og bréf til Isavia, dags. 20. maí 2014.  R14050011

Fundi slitið kl. 12.40

Sigurður Björn Blöndal

Halldór Auðar Svansson Halldór Halldórsson

Júlíus Vífill Ingvarsson Sóley Tómasdóttir

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir