Borgarráð - Fundur nr. 5345

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2015, fimmtudaginn 15. janúar, var haldinn 5345. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.05. Viðstödd voru S. Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Sóley Tómasdóttir, Hjálmar Sveinsson, Júlíus Vífill Ingvarsson og Halldór Halldórsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Óli Jón Hertervig, Ólöf Örvarsdóttir, Hallur Símonarson, Ebba Schram og Linda Sif Sigurðardóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 5. janúar 2015. R15010010

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 6. janúar 2015. R15010005

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 8. janúar 2015. R15010013

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 5. janúar 2015. R15010008

5. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 9. janúar 2015. R15010015

6. Lögð fram fundargerð Sorpu bs. frá 9. janúar 2015. R15010023

7. Lögð fram fundargerð bílastæðanefndar frá 9. janúar 2015. R15010029

8. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. janúar 2015. R15010021

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R15010085

- Kl. 9.15 tekur Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sæti á fundinum.

10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. janúar 2015, þar sem óskað er heimildar borgarráðs til að hefja fullnaðarhönnun til útboðs á viðbyggingu við Sundhöll Reykjavíkur ásamt lagfæringum og endurbótum á eldra húsi. Greinargerð fylgir. R12030102

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins og leggur fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir fagna ætíð skynsamlegum og nauðsynlegum endurbótum á eignum Reykjavíkurborgar en telja forgangsröðun heildarverkefnisins ekki rétta á þessum tímapunkti enda liggja ekki fyrir greiningar á fyrir hverja er verið að byggja, íbúana eða aukinn fjölda ferðamanna í miðbænum. Önnur fjölmenn hverfi borgarinnar hafa þörf fyrir uppbyggingu sundlaugamannvirkja og mörg beðið lengi. Þá getum við ekki samþykkt áætlun með allt að 35% sem efri skekkjumörk. Kostnaðaráætlun verður að vinna betur og óásættanlegt er að leggja slíkan opinn tékka fyrir borgarsjóð. Af þessari ástæðu sitjum við hjá.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja að hafin verði fullnaðarhönnun vegna útboðs viðbyggingar við Sundhöll Reykjavíkur enda mun málið verða tekið upp að nýju í borgarráði áður en til útboðs kemur. Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2015 lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að forgangsraða þannig að bygging sundlauga í hverfum þar sem engin sundlaug er sé í forgangi. Viðbygging við Sundhöll Reykjavíkur eigi því að fara aftar í framkvæmdaröðinni.

Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. janúar 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. janúar 2015, um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi reits 1.172.2 vegna lóðanna nr. 9a og 9b við Grettisgötu. R15010173

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram að nýju svohljóðandi bókun sem áður var lögð fram í umhverfis- og skipulagsráði 7. janúar sl.:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina eru samþykkir því að endurskoða nýtingu bílastæðalóðar við Grettisgötu og að leita eftir afstöðu íbúa og annarra hagsmunaaðila til uppbyggingar eins og lýst er í tillögu að deiliskipulagi. Áður en tekin er endanleg afstaða að loknu auglýsingaferli er nauðsynlegt að kostnaður sem kann að falla á Reykjavíkurborg verði greindur og kynntur fyrir umhverfis- og skipulagsráði. Auðar lóðir í miðborg Reykjavíkur sem nú er verið að deiliskipuleggja fyrir flutningshús hljóta að vera meðal verðmætustu lóða sem völ er á um þessar mundir. Reykjavíkurborg ber að stefna að því að endurgjald fyrir þær endurspegli verðmæti þeirra.

12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. janúar 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. janúar 2015, um endurskoðun á samþykkt um götu- og torgsölu í Reykjavík. Einnig er lögð fram tillaga að endurskoðaðri samþykkt um götu- og torgsölu í Reykjavík. R12100401

Samþykkt.

13. Lagt fram bréf innri endurskoðunar, dags. 12. janúar 2015, um eftirfylgniúttekt vegna skýrslu innri endurskoðunar, Fjárstýring Reykjavíkurborgar - fyrirkomulag innra eftirlits, frá árinu 2010.

Kristíana Baldursdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið og kynnir úttektina. R14060215

14. Lagt fram bréf innri endurskoðunar, dags. 12. janúar 2015, um eftirfylgniúttekt vegna skýrslu innri endurskoðunar, Innkaupaskrifstofa - innra eftirlit, frá árinu 2010. R14060215

Borgarráð beinir því til fjármálaskrifstofu að fara yfir niðurstöður úttektarinnar og leggja fram í borgarráði umsögn og áætlun um viðbrögð við ábendingum sem þar koma fram.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Skýrsla innri endurskoðanda um innkaupamál sem lögð var fram í borgarráði í dag er mikill áfellisdómur yfir því hvernig staðið er að innkaupum á vegum Reykjavíkurborgar. Sú skýrsla er eftirfylgni við úttekt innri endurskoðanda á innkaupamálum frá upphafi árs 2010. Þar koma fram fjölmörg varnaðarorð og ábendingar frá innri endurskoðanda um það hvernig bæta má innkaupaferlið en nú er ljóst að ekkert hefur verið gert með þessar mikilvægu vinnu. Þar kemur einnig fram að velta rammasamninga og miðlægra samninga í heildarinnkaupum var of lítil í hlutfalli af heildarinnkaupum borgarinnar eða í kringum 14% og að í því felist tækifæri til að bæta innkaupin með því að auka það hlutfall. Í bréfi sínu til borgarráðs í dag segir innri endurskoðandi „Skemmst er frá að segja að engar ábendingar í skýrslu innri endurskoðunar frá árinu 2010 hafa fengið fullnægjandi úrbætur og umbótaverkefni hafa einungis að litlu leyti verið unnin.“

Kristíana Baldursdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið og kynnir úttektina.

15. Fram fer kynning á framvinduskýrslu Orkuveitu Reykjavíkur um Planið.

Bjarni Freyr Bjarnason tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R15010093

16. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs ásamt fylgigögnum, dags. í dag. R15010088

Samþykkt að veita Félagi einstæðra foreldra styrk að fjárhæð kr. 2.800.000.- vegna stöðugildis félagsráðsgjafa. 

Samþykkt að veita Reykjavík Folk Festival styrk að fjárhæð kr. 350.000.- vegna Þjóðlagahátíðar 5.-7. mars nk.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vísa til bókunar sinnar í borgarráði 19. júní 2014.

Sóley Tómasdóttir víkur af fundi við afgreiðslu styrks til Félags einstæðra foreldra.

17. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu, dags. 6. janúar 2015, með yfirliti yfir styrkúthlutanir mannréttindaráðs. R15010097

18. Lagt fram minnisblað Strætó bs., dags. 14. janúar 2015, um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk. R14120069

Borgarráð beinir því til velferðarráðs að taka til endurskoðunar hámarksfjölda ferða í ferðaþjónustu fatlaðs fólks og jafnframt viðbótargjald sem lagt er á vegna umframferða.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að ekki verði unað við þá grafalvarlegu stöðu sem er á framkvæmd ferðaþjónustu við fatlaða. Gengið var frá samkomulagi um þessa þjónustu í maí 2014 þannig að tíminn til að undirbúa breytingar á þjónustunni hefði átt að vera nægur. Breytingarnar áttu að bæta þjónustuna en hafa ekki enn gert það heldur þveröfugt eins og sjá má á fjölda alvarlegra kvartana frá notendum þjónustunnar. Á þetta lögðu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins áherslu við samþykkt í borgarráði 11. desember 2014 og bókuðu að mikilvægi þess að biðtími styttist frá því sem verið hefði og ætti ekki að vera meiri en 10 mínútur frá umsömdum tíma. Þá telja borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að endurskoða verði gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík vegna þess að gjald fyrir ferðir umfram 60 á mánuði er of hátt og stangast á við lög sem kveða á um að gjaldið eigi að taka mið af gjaldi fyrir almenningssamgöngur.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja jafnframt fram svohljóðandi fyrirspurn í 8. liðum: 

1. Hvaða tölvukerfi var tekið upp hjá Strætó bs. til að sinna þessu verkefni? 2. Var þetta keypt sem staðlað kerfi eða er þetta sérsmíðað og þá af hverjum? 3. Var sú þjónusta boðin út? 4. Hver var ráðgjafi Strætó bs. við val á þessum búnaði, aðlögun, þjálfun og innleiðingu? 5. Hvað kostaði þetta tölvukerfi? 6. Hver mun bera kostnaðinn af þeirri leiðréttingu sem greinilega þarf að gera? 7. Mun sá rekstrarsparnaður sem áætlað var að ná við útboð á þjónustunni nást? 8. Var of mörgu fólki með reynslu sagt upp þannig að þekking yfirfærðist ekki við breytingu á þjónustunni?

Ástríður Þórðardóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir og Stefán Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

19. Lagt fram yfirlit fjármálaskrifstofu, dags. 13. janúar 2015, yfir áætlaðar tímasetningar vegna mánaða- og árshlutauppgjöra 2015. R15010178

20. Kynnt er tillaga fjármálastjóra og fjárstýringarhóps til borgarráðs, dags. 15. janúar 2015, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að fjárhæð 350 m.kr. að nafnvirði, á ávöxtunarkröfunni 3,35% í skuldabréfaflokk borgarsjóðs, RVK 53 1. R14010255

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

21. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. janúar 2015, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. desember 2014, um kynningu á ferðavenjukönnun 2014, ásamt skýrslu Capacent Gallup, dags. í október-nóvember 2014.

Ólafur Bjarnason og Matthías Þorvaldsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. R15010077

22. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 12. janúar 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki meðfylgjandi skilmála um útboðsfyrirkomulag á byggingarrétti á lóðinni nr. 19 við Lambhagaveg. R14090231

Samþykkt.

23. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 13. janúar 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki meðfylgjandi skilmála um útboðsfyrirkomulag á byggingarrétti á lóðinni Mýrargötu 18 við Hlésgötu. R15010195

Samþykkt.

24. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 12. janúar 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að gefið verði út afsal fyrir lóð fyrir flutningshús að Seljavegi 1 til Minjaverndar hf. R14030043

Samþykkt.

25. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 12. janúar 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki kaup á fasteigninni Skriðu, Kjalarnesi. R15010176

Samþykkt. 

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við afgreiðslu málsins.

26. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 13. janúar 2015, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um uppsögn aksturssamninga, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. desember 2014. R14120041

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir umbeðin svör vegna uppsagnar aksturssamninga. Þeir leggja áherslu á að starfsfólk fái góðan fyrirvara vegna breytinga sem geta haft töluverð áhrif á kjör þess.

27. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. janúar 2015:

Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagðan samstarfssamning við Háskóla Íslands um undirbúning að stofnun Friðarseturs í Reykjavík. Framlag Reykjavíkurborgar verði greitt af kostnaðarstað 09205 (ófyrirséð).

Jafnframt lagður fram samstarfssamningur við Háskóla Íslands um undirbúning að stofnun Friðarseturs í Reykjavík, dags. 7. janúar 2015. R14070078

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins  leggja fram svohljóðandi bókun:

Á miðju ári 2010 samþykkti borgarráð samhljóða tillögu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar um að setja á fót Friðarstofnun Reykjavíkur og skipaði fimm manna verkefnastjórn til að undirbúa það. Verkefnastjórn fékk til sín gesti eins og forstöðumann Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands og fulltrúa UNICEF á Íslandi. Þá fundaði nefndin með forseta Íslands á Bessastöðum. Verkefnastjórn skilaði niðurstöðum sínum og tillögu að framhaldi 18. ágúst 2011. Stofnun Friðarseturs Reykjavíkur byggir á tillögu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og er að mestu samhljóða tillögu verkefnastjórnar. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks sakna þess að hvergi skuli ferils þessa máls getið.

28. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. janúar 2015:

Lagt er til að borgarráð samþykki erindisbréf stýrihóps um tilraunaverkefni um styttingu vinnudags án launaskerðingar í samræmi við tillögur starfshóps um styttingu vinnudags án launaskerðingar, dags. 1. desember sl., sem samþykktar voru á fundi borgarráðs þann 4. desember sl.

Jafnframt lögð fram drög að erindisbréfi stýrihópsins og tillögur starfshóps um tilraunaverkefni um styttingu vinnudags án launaskerðingar, dags. 1. desember 2014. R14050127

Frestað.

29. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Óskað er eftir upplýsingum um hvaða lögmannsskrifstofur Reykjavíkurborg hefur átt viðskipti við síðastliðin þrjú ár, 2012, 2013 og 2014 og sundurliðun óskast á fjárhæðum sem greiddar hafa verið til þeirra. R15010211

30. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í samstarfssáttmála meirihlutans sem samþykktur var í júní sl. kemur fram að unnin verði samþykkt um verkaskiptingu kjörinna fulltrúa og embættismanna.  Fyrir okkur kjörna fulltrúa er mikilvægt að sú verkaskipting sé ljós, sérstaklega hvað varðar ábyrgð og frumkvæði á verkefnum. Óskum við upplýsinga um hvað þeirri vinnu líður. R15010214

31. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Óskað er eftir upplýsingum um hvert var hlutfall opins og frjáls hugbúnaðar í stjórnsýslu- og þjónustustigum Reykjavíkurborgar 16. júní 2014 og hvaða breyting hefur orðið á því rúmlega hálfa ári frá því að nýr meirihluti tók við, þ.e.a.s. fram til 1. janúar 2015.  Hver er fjárhæð sem hefur sparast í krónum talið fyrir Reykjavíkurborg, þar sem tekinn hefur verið upp opinn og frjáls hugbúnaður? En í samstarfssáttamála meirihlutans segir að áhersla verði lögð á að nýta opinn og frjálsan hugbúnað, þar sem því verður við komið, á öllum stigum stjórnsýslu og þjónustu. R15010215

Fundi slitið kl. 12.25

Sigurður Björn Blöndal

Halldór Auðar Svansson Halldór Halldórsson

Hjálmar Sveinsson Júlíus Vífill Ingvarsson

Sóley Tómasdóttir Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir