Borgarráð - Fundur nr. 5341

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2014, fimmtudaginn 4. desember, var haldinn 5341. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.07. Viðstödd voru: S. Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Sóley Tómasdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Halldór Halldórsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Halldóra Káradóttir, Hrólfur Jónsson, Hallur Símonarson, Ólöf Örvarsdóttir og Linda Sif Sigurðardóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð bílastæðanefndar frá 24. nóvember 2014. R14010033

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 27. nóvember 2014. R14010017

3. Lögð fram fundargerð eigendafundar Orkuveitu Reykjavíkur frá 28. nóvember 2014. R14010029

4. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 27. október 2014. R14010029

5. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 20. og 24. nóvember 2014. R14010031

6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R14120005

- Kl. 9.08 tekur Hjálmar Sveinsson sæti á fundinum.

7. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs ásamt fylgigögnum, dags. í dag. R14010037

Samþykkt að veita Kvennaráðgjöfinni styrk að fjárhæð kr. 500.000.- vegna starfsemi ráðgjafarinnar. 

Öðrum styrkbeiðnum er hafnað.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vísa til bókunar sinnar í borgarráði 19. júní sl.

- Kl. 9.17 tekur borgarstjóri sæti á fundinum.

8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. nóvember 2014, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 26. nóvember 2014, um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 2-8 við Blikastaðaveg, ásamt fylgigögnum. R14120006

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins og leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna hefur efasemdir um ágæti þess að fjölga orkustöðvum í Reykjavík og situr hjá við afgreiðslu málsins.

9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. nóvember 2014, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að hefja útboð á viðbyggingu Vesturbæjarskóla og endurbótum á frístundaheimili. R14120010

Samþykkt.

10. Lögð fram tillaga stjórnkerfis- og lýðræðisráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, dags. 15. október 2014, um afléttingu leyndar á yfirliti um framleiðslu virkjana Orku náttúrunnar maí 2013-maí 2014 ásamt bréfi stjórnkerfis- og lýðræðisráðs, dags. 22. október 2014, sbr. samþykkt ráðsins, dags. 20. október sl., á að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs. Jafnframt lögð fram umsögn stjórnar Orku náttúrunnar, dags. 4. nóvember 2014, og umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 16. nóvember 2014. R14110005

Samþykkt.

Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarráð beinir því til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að tryggja, í samstarfi við stjórn Orku náttúrunnar, að uppskipting Orkuveitu Reykjavíkur leiði ekki til minna gagnsæis og upplýsingaráðgjafar til borgarstjórnar og borgarbúa en til staðar var fyrir þá breytingu á rekstrarformi fyrirtækisins. Jafnframt að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, í samstarfi við stjórn Orku náttúrunnar, vinni að auknu gagnsæi í rekstri samstæðunnar svo borgarbúar geti gengið að upplýsingum um störf og stöðu orkufyrirtækja í eigu borgarinnar í samræmi við bókun borgarráðs 27. nóvember sl., að teknu tilliti til samkeppnissjónarmiða og mikilsverðra viðskipahagsmuna fyrirtækja innan samstæðunnar.

11. Fram fer kynning á starfi frístundamiðstöðva í Reykjavík.

Ragnar Þorsteinsson og Soffía Pálsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R14120004

12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 2. desember 2014:

Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagðar tillögur starfshóps um tilraunaverkefni um styttingu vinnudags án launaskerðingar. Stofnaður verði stýrihópur með aðkomu viðeigandi stéttarfélaga sem hafi yfirumsjón með verkefninu.

Jafnframt eru lagðar fram tillögur starfshóps um tilraunaverkefni um styttingu vinnudags án launaskerðingar. R14050127

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir fagna tillögunni og telja að allar tillögur sem geta leitt til meiri vellíðunar, betri starfsanda og aukinna afkasta starfsmanna, séu vel þess virði að reyna þær. Að auki styðjum við allar tillögur sem leiða til aukins aðgengis barna að foreldrum sínum og fellur þetta þar undir.

Stefán Eiríksson og Ása Guðbjörg Ásgeirsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

13. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um hjólreiðabraut við Kirkjustræti, dags. 20. nóvember 2014. Jafnframt lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. nóvember 2014. R14110146

Frestað.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram þá málsmeðferðartillögu að tillögunni verði vísað til umsagnar hverfisráðs Vesturbæjar, hverfisráðs Miðbæjar og Landssamtaka hjólreiðamanna. 

Samþykkt.

14. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um gerð verklagsreglna um sölu og ráðstöfun fasteigna borgarinnar, dags. 2. október 2014.

Jafnframt lögð fram umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 11. nóvember 2014. R14100110

Tillagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 1 atkvæði borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

15. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um heildarverklagsreglur við sölu og ráðstöfun fasteigna borgarinnar, dags. 23. október 2014. Jafnframt lögð fram umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 17. nóvember 2014.

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga: 

Lagt er til að Reykjavíkurborg endurskoði gildandi verklagsreglur um kaup og sölu fasteigna fyrir árslok 2014. R14100110

Breytingartillagan samþykkt.

16. Lagt fram svar íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 26. nóvember 2014, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um kaup á leiktækjum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. nóvember sl. R14110055

17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 2. desember 2014:

Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi erindisbréf fyrir neyðarstjórn Reykjavíkurborgar. Samþykkt erindisbréfsins og endurskipan neyðarstjórnar er liður í yfirstandandi uppfærslu viðbragðsáætlana á sviði almannavarna sem standa yfir.

Greingargerð fylgir tillögunni.

Jafnframt er lagt fram erindisbréf fyrir neyðarstjórn Reykjavíkurborgar. R14120002

Samþykkt.

18. Lagt fram að nýju bréf skrifstofu borgarstjóra, dags. 25. nóvember 2014, þar sem óskað er eftir samþykki borgarráðs á viljayfirlýsingu milli Reykjavíkurborgar og Búseta. R14010133

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir sitja hjá og vísa til bókunar við lið 24 frá fundi borgarráðs 27. nóvember auk þess sem ekki sést að tryggt sé jafnræði á milli aðila sem starfa í þessu rekstrarformi og með sama markmið.  

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Húsnæðissamvinnufélög starfa á íbúðamarkaði og eiga þar í samkeppni við sjálfstæða aðila, hlutafélög og önnur húsnæðissamvinnufélög. Nýstofnuð húsnæðissamvinnufélög geta fyrirvaralítið hafið byggingu búseturéttaríbúða enda er stofnun þeirra einföld. Búseti húsnæðissamvinnufélag hsf. (Búseti) eins og önnur slík og sambærileg félög starfar á samkeppnisgrundvelli enda er búseturéttur ekki félagslegt úrræði. Þriðjungur íbúða á vegum Búseta í Reykjavík eru auk þess leiguíbúðir einkahlutafélags í eigu Búseta og það hlutafélag starfar á almennum leigumarkaði í samkeppni við önnur félög. Þá er rétt er að benda á að önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu veita húsnæðissamvinnufélögum ekki sérstaka fyrirgreiðslu í formi lóðaúthlutana. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja að Reykjavíkurborg hafi ekki heimild til þess að úthluta lóðum án greiðslna fyrir byggingarrétt án undangenginnar auglýsingar eða opins útboðs.  Gengið er svo langt með viljayfirlýsingunni að stefna að úthlutun lóða fyrir 230 íbúðir með þessum hætti. Auk þess er Reykjavíkurborg óheimilt að bjóða einu tilteknu félagi til samstarfs um byggingu svokallaðra Nýrra Reykjavíkurhúsa við Vesturbugt og á öðrum reitum í borginni „samkvæmt nánara samkomulagi“ eins og stendur í viljayfirlýsingunni. Til slíks samstarfs verður að stofna í opnu ferli sem byggir á jafnræði.

19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra dags. 4. desember 2014:

Lagt er til að borgarráð samþykki heimild til fjármálastjóra til að greiða laun hinn 9. desember nk. vegna breytinga á starfsmati hjá starfsmönnum Reykjavíkurborgar enda þótt endanlegt kostnaðarmat vegna þess liggi ekki fyrir. Gert er ráð fyrir að kostnaðarmat liggi fyrir í næstu viku og að greinargerð verði lögð fram á fundi borgarráðs í næstu viku. R14020053

Samþykkt.

Helga Björg Ragnarsdóttir og Atli Atlason taka sæti á fundinum undir þessum lið.

20. Lögð fram umsögn Fjármálaskrifstofu, dags. 28. nóvember 2014, um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga með síðari breytingu (afnám lágmarksútsvars). R14110117

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja eðlilegt að kjörnir fulltrúar sveitarfélaga taki ákvörðun um skattlagningu í sínu sveitarfélagi en séu ekki bundnir af lagafyrirmælum Alþingis um lágmark eða hámark útsvars. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að þegar sveitarfélög taka ákvörðun um breytingar á útsvarsálagningu til lækkunar sé það á þeirra eigin ábyrgð en verði ekki bætt af öðrum sveitarfélögum í gegnum jöfnunarkerfi þeirra.

21. Lagt fram minnisblað fjármálaskrifstofu, dags. 25. nóvember 2014, með gjaldskrársamanburði og fjölskyldudæmi. R14010255

22. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 3. desember 2014, ásamt viljayfirlýsingu Hvalfjarðarsveitar, Akraneskaupstaðar, Reykjavíkurborgar, Borgarbyggðar, Skorradalshrepps, Kjósahrepps og Faxaflóahafna sf., um stofnun samstarfsvettvangs á Grundartanga, dags. 28. nóvember 2014. R14120014

Samþykkt.

23. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina: 

Framsókn og flugvallarvinir óska eftir að fá afrit af starfslokasamningi á milli stjórnar Strætó bs. og fyrrverandi framkvæmdarstjóra, sem og að upplýst verði um hvaða lögfræðiráðgjafar stjórn Strætó bs. naut varðandi starfslok framkvæmdastjóra, þar sem um varhugavert fordæmi er að ræða við gerð starfslokasamninga þegar forsvarsmenn fyrirtækja í eigu borgarinnar hafa gerst brotlegir við lög, siðareglur, eigendastefnu og farið út fyrir valdmörk sín. Hafi verið gert minnisblað, þá óskast afrit af því. Skv. 5.3.1 kafla eigendastefnu Strætó bs. segir að stjórn Strætó bs. fari með málefni fyrirtækisins á milli eigendafunda og hafi eftirlit með að skipulag fyrirtækisins og starfsemi sé jafna í réttu og góðu horfi og í samræmi við stefnu eigenda. Stjórn skal í því skyni tryggja skilvirka ferla um innra eftirlit og innri endurskoðun. Óskað er eftir upplýsingum um það hvaða skilvirku ferla um innra eftirlit og endurskoðun stjórn Strætó bs. hefur tryggt frá apríl 2013, eða frá því að eigendastefnan var samþykkt. Þá óskast upplýsingar um hver sinnir innri endurskoðun hjá félaginu. Í kafla 5.3.2 eigendastefnu segir að stjórn Strætó bs. hafi reglubundið eftirlit með að framkvæmdastjóri fylgi fjárhags- og starfsáætlun eftir og að stjórn Strætó bs. annist um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna fyrirtækisins. Óskað er eftir upplýsingum frá stjórn Strætó bs. um a) hvernig og hvaða aðferðir stjórnin notar til að hafa eftirlit með að framkvæmdastjóri fylgi fjárhags- og starfsáætlun eftir og til hvaða aðgerða stjórnin grípi eða geta gripið til þegar bregðast þarf við ef stjórnin verður þess áskynja að brotalöm sé í starfi framkvæmdastjóra og b) hvaða aðferðir stjórn Strætó bs. notar til að hafa eftirlit með bókhaldi og meðferð fjármuna fyrirtækisins og til hvaða aðgerða stjórnin getur gripið eða grípur ef upp kemst um bókhaldsóreiðu og meðferð fjármuna. R14120039

24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Skýrar reglur skortir um ívilnandi lóðaúthlutanir án greiðslna fyrir byggingarrétt. Lagt er til að allar úthlutanir af þessu tagi verði látnar bíða þar til samdar hafa verið reglur sem byggja á opnu ferli og jafnræði. Lagt er til að borgarráð skipi þegar starfshóp sem gerir tillögur að skilyrðum fyrir slíkum úthlutunum. R14120040

Frestað.

25. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarráð samþykkti á fundi sínum 27. nóvember sl. að að aksturssamningum hjá Reykjavíkurborg verði sagt upp og þess í stað greitt fyrir mældan akstur í þágu vinnuveitanda samkvæmt akstursdagbók, þar sem við á. Ekki liggur fyrir áætlun um hvort eða hversu mikill sparnaður verður af aðgerðinni, enda veltur það á skráðum akstri. Með tilliti til harðra viðbragða starfsmanna Reykjavíkurborgar má álykta sem svo að samráði við starfsfólk sé áfátt eða hafi jafnvel ekki verið neitt. Vegna þessa er óskað eftir upplýsingum um hvort samráð hafi verið við starfsfólk vegna þessara breytinga og hver aðlögunartími er að þeim. R14120041

Fundi slitið kl. 11.50

Sigurður Björn Blöndal

Halldór Auðar Svansson Halldór Halldórsson

Hjálmar Sveinsson Júlíus Vífill Ingvarsson

Sóley Tómasdóttir Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir