No translated content text
Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2014, fimmtudaginn 2. október, var haldinn 5331. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Halldór Auðar Svansson, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Sigurður Björn Blöndal, Sóley Tómasdóttir og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og starfsmenn sátu fundinn, Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Hrólfur Jónsson, Ebba Schram, Hallur Símonarson, Björn Axelsson og Úlfhildur Þórarinsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 11. september 2014. R14010018
2. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 19. september 2014. R14010026
3. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 19. september 2014. R14010019
4. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 12. september 2014. R14010031
5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 18. september 2014. R14010014
6. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 9. september 2014. R14010009
7. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 8. september 2014. R14010011
8. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 23. september 2014. R14010012
9. Lagðar fram fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs frá 24. september og 1. október 2014. R14010025
B-hlutar fundargerðanna samþykktir.
10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 21 mál. R14090205
11. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs ásamt fylgigögnum, dags. í dag. R14010037
Synjað.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og vísa til bókunar sinnar á fundi borgarráðs 19. júní sl.
12. Lagt fram að nýju bréf svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins, dags. 26. ágúst 2014, um auglýsingu á tillögu að nýju svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015-2040. Jafnframt lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. september 2014, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs s.d. á umsögn umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 17. september 2014. R13060030
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins og vísa til bókunar sinna fulltrúa í umhverfis- og skipulagsráði.
13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. september 2014, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs s.d., um breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits vegna lóðarinnar nr. 10 við Arnargötu. R14070053
Samþykkt.
14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags.17. september 2014, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs s.d., varðandi breytingu á deiliskipulagi urðunarstaðar í Álfsnesi, ásamt fylgigögnum. R14060229
Samþykkt.
15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. september 2014, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs s.d., um breytingu á deiliskipulagi reits 1.381, Laugarás. R14040028
Samþykkt.
16. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 28. nóvember 2013 um flutning á kirkjubyggingu á Nýlendureit. Einnig er lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. september 2014, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs s.d. á umsögn skipulagsfulltrúa ásamt fylgigögnum. R13070096
Frestað.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð felur skipulagsfulltrúanum í Reykjavík að efna til opins íbúafundar um deiliskipulag Nýlendureits. Á fundinum verði farið yfir fyrirhugaða staðsetningu kirkjulóðar á reitnum og tillögu um nýja staðsetningu á horni Seljavegar og Mýrargötu. Þá verði fulltrúum Íbúasamtaka Vesturbæjar og Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi sérstaklega boðið að kynna sjónarmið sín á fundinum.
Frestað.
17. Lögð fram að nýju tillaga borgarstjóra, dags. 9. september 2014, um stofnun borgargarðs í Elliðaárdal. Jafnframt lagt fram bréf starfshóps um borgargarð í Elliðaárdal, dags. 5. mars 2014, ásamt tillögum starfshópsins. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs um tillögurnar, dags. 25. mars 2014, ásamt minnisblaði sviðsins með hugtakaskilgreiningum, dags. 30. september 2014. R12070096
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks styðja tillögu um hverfisvernd Elliðaárdals. Við frekari útfærslu tillögunnar er mikilvægt að hafa gott samráð við grasrótarsamtök eins og Hollvinasamtök Elliðaárdalsins, íbúasamtök hverfa sem liggja að dalnum og önnur félagasamtök sem láta sig málið varða.
- Kl. 9.45 víkur Björn Axelsson af fundinum.
18. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 18. september 2014 sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 17. september 2014, á félagslegri menntastefnu Reykjavíkurborgar. Einnig er lögð fram skýrsla starfshóps um endurskoðun félagslegrar menntastefnu Reykjavíkurborgar dags. 2014. R14090157
Frestað.
Ragnar Þorsteinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
19. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 22. september 2014, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 18. september sl. með tillögu um að hjúkrunarheimilinu Eir verði falinn rekstur dagdvalarrýma fyrir heilabilaða. R13110188
Samþykkt.
Stefán Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
20. Lagt fram bréf Bílastæðasjóðs, dags. 22. september 2014, sbr. samþykkt bílastæðanefndar frá 12 september sl., með tillögu um hækkun stöðubrotsgjalda. R14090160
Samþykkt.
Kolbrún Jónatansdóttir tekur sæti á fundinn undir þessum lið.
21. Lögð fram að nýju drög að erindisbréfi borgarstjóra, dags. í september 2014, fyrir starfshóp um endurskoðun mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. R14090109
Samþykkt að skipa Magnús Sigurbjörnsson, Sigríði Nönnu Jónsdóttur, Sabine Leskopf, Líf Magneudóttir, Kjartan Jónsson og Ragnar Hansson í starfshópinn.
22. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks, dags. 14. ágúst 2014, varðandi styrkveitingar borgarráðs. Jafnframt lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 29. september 2014, ásamt Styrkjahandbók Reykjavíkurborgar. R14080057
Frestað.
23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. september 2014:
Borgarráð samþykkir að Reykjavíkurborg verði aðili að að sáttmála sveitarfélaga um aðlögun að loftlagsbreytingum (e. Mayors Adapt). Reykjavíkurborg hefur verið aðili að loftslagssáttmála sveitarfélaga (e. Covenant of Mayors) síðan 2010. Sem aðili að loftslagssáttmálanum býðst Reykjavík að gerast aðili að sáttmála sveitarfélaga um aðlögun að loftslagsbreytingum (e. Mayors Adapt) en sá sáttmáli var formlega settur af stað á vegum Evrópusambandsins í mars 2014. Reykjavík er boðið að vera einn af fyrstu þátttakendum í sáttmálanum og þar með einnig boðið til þátttöku í hátíðarathöfn í Brussel í október 2014. Ferðakostnaður fyrstu 50 borgarstjóranna sem skuldbinda sig til þátttöku verður greiddur af Mayors Adapt verkefninu.
Greinargerð fylgir tillögunni. R14090191
Samþykkt.
Vísað til borgarstjórnar.
24. Lagt fram svar fjármálaskrifstofu, dags. 23. september 2014, við fyrirspurn Framsóknar og flugvallarvina um auglýsingakostnað Reykjavíkurborgar, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. september sl. R14090136
25. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 30. september 2014, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um stöðu almannavarnamála í Reykjavík, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. september sl. R14090135
Borgarráðfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir svör borgarstjóra við fyrirspurn um stöðu almannavarnamála í Reykjavík, á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. Fram kemur í svarinu að unnið er að uppfærslu á viðbragðsáætlun vegna hugsanlegs öskufalls frá eldsumbrotum við Bárðarbungu og að til staðar er áhættumat fyrir höfuðborgarsvæðið. Borgaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að Reykvíkingar fái sem gleggstar upplýsingar um áhættumatið og viðbragðsáætlun vegna hugsanlegs öskufalls. Leiðbeiningum um viðbrögð verði komið til borgarbúa. Eftir því sem íbúar þekkja betur til þessara mála verður öryggistilfinning þeirra meiri. Óskað er eftir því að slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins komi á fund borgarráðs til að fara yfir þessi mál.
26. Lagt fram svar menningar- og ferðamálasviðs, dags. 17. september 2014, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallavina um kostnað vegna reksturs Friðarsúlunnar, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. september sl. R14090077
27. Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 29. september 2014, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallavina um auglýsingu á sölu á Laugavegi 4-6 og Skólavörðustíg 1a, sbr. 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. september sl. R13050134
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir þakka fyrir framkomin svör, en telja verulega skorta á fagleg og gagnsæ vinnubrögð við sölu á umræddum fasteignum, þar sem sömu fasteignasalar gera verðmöt á eignunum og fá þær í sölumeðferð, ásamt því sem að þeim er í sjálfsvald sett hvernig þeir haga kynningu á eignunum við sölu, en rétt væri að borgaryfirvöld hefðu skýrar reglur í verksamningi á milli sín og fasteignsala um m.a. hvernig kynningu sé háttað.
28. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 30. september 2014, með tillögu um að borgarráð samþykki að verð á byggingarrétti í Úlfarsárdal og Reynisvatnsási verði óbreytt fram til 31. desember 2014. R14010261
Samþykkt.
29. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 29. september 2014, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki að selja lóðina Mýrargötu 18 með útboðsfyrirkomulagi. R14090230
Samþykkt.
30. Fram fer kynning á rekstraruppgjöri a-hluta janúar – júlí 2014. R14050068
31. Fram fer kynning á minnisblaði fjármálaskrifstofu um fjárhagsleg samskipti ríkis og borgar. R14010255
32. Lagt fram bréf borgarstjóra um tilnefningu Margrétar M. Norðdahl af hálfu borgarstjóra í stjórn Listahátíðar Reykjavíkur. R14090093
33. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi tillögu:
Framsókn og flugvallarvinir leggja fram þá tillögu að borgarráð samþykki það verklag við sölu fasteigna í eigu borgarinnar að sá eða þeir aðilar sem framkvæma verðmat á fasteignum fyrir borgina verði ekki falið að sjá einnig um sölumeðferð eignanna. R14100110
Frestað.
34. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi ályktunartillögu:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hvetja til vandaðrar stjórnsýslu af hálfu ríkisins, ekki síst þegar fjallað er um mál sem varða stóra hópa starfsfólks opinberra stofnana á borð við Fiskistofu. Ákvörðun um flutning Fiskistofu er dæmi um óundirbúinn og óvandaðan flutning stofnunar. Enda virðist niðurstaðan verða sú að fæst ef nokkuð af starfsfólkinu flytur með og ríkissjóður verður fyrir óþarfa kostnaði. Ráðherra er hvattur til þess að falla frá þessum áformum. Með sama hætti er erfitt að sjá hvernig ný stofnun sem félags- og húsnæðismálaráðherra hefur tilkynnt um á erindi út á land. Þörfin fyrir starfsemi stofnunar sem hefur með barnavernd, réttindagæslu fatlaðs fólks o.fl. er mest á höfuðborgarsvæðinu og á hún því að vera þar. Við mótun byggðastefnu er kominn tími til að tekið verði tillit til höfuðborgarinnar sem mikilvægs útvarðar byggðar á Íslandi. Stefnumótun í byggðamálum þarf að taka mið af breyttum aðstæðum og þörfum íbúa landsins og viðurkenna mikilvægi höfuðborgarinnar. R14100111
Frestað.
35. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að minnihluti í borgarstjórn fái einn fulltrúa í stjórn Sorpu. R14100112
Frestað.
Fundi slitið kl. 11.47
Sigurður Björn Blöndal
Björk Vilhelmsdóttir Halldór Auðar Svansson
Halldór Halldórsson Júlíus Vífill Ingvarsson
Sóley Tómasdóttir Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir