Borgarráð - Fundur nr. 5321

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2014, fimmtudaginn 26. júní, var haldinn 5321. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.04. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, S. Björn Blöndal, Sóley Tómasdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Halldór Auðar Svansson, Hildur Sverrisdóttir og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Óli Jón Hertervig, Ebba Schram, Hallur Símonarson Pétur Krogh Ólafsson og Linda Sif Sigurðardóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 20. júní 2014. R14010007

2. Lagðar fram fundargerðir heilbrigðisnefndar frá 6. maí og 10. júní 2014. R14010008

3. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 5. júní 2014. R14010020

4. Lagðar fram fundargerðir mannréttindaráðs frá 13. og 27. maí 2014. R14010021

5. Lagðar fram fundargerðir menningar- og ferðamálaráðs frá 12. og 26. maí og 2. júní 2014. R14010022

6. Lögð fram fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 4. júní 2014. R14010023

7. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. júní 2014. R14010025

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

8. Lagðar fram fundargerðir velferðarráðs frá 11. og 19. júní 2014. R14010032

9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R14050188

10. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um 39 rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R14060001

11. Fram fer kynning á stöðu kjarasamningsviðræðna Reykjavíkurborgar. R14030047

- Kl. 9.09 tekur Halldór Auðar Svansson sæti á fundinum.

12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 23. júní 2014:

Lagt er til að borgarráð samþykki heimild til fjármálastjóra að greiða laun hinn 1. júlí nk. samkvæmt nýgerðum kjarasamningum við eftirtalin stéttarfélög, sem samninganefnd Reykjavíkurborgar hefur undirritað með fyrirvara um samþykki borgarráðs og hafa hlotið samþykki félagsmanna, enda þótt endanlegt kostnaðarmat liggi ekki fyrir og samningarnir hafi af þeim sökum ekki verið lagðir fyrir borgarráð til afgreiðslu: Félagsráðgjafafélag Íslands, Iðjuþjálfafélag Íslands, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga, Sálfræðingafélag Íslands, Stéttarfélag háskólamanna á matvæla- og næringarsviði, Stéttarfélag sjúkraþjálfara, Þroskaþjálfafélag Íslands, Kjarafélag viðskipta- og hagfræðinga, Stéttarfélag lögfræðinga, Fræðagarð, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Kennarasamband Íslands vegna grunnskólakennara, Kennarasamband Íslands vegna skólastjórnenda grunnskóla, Tæknifræðingafélag Íslands og Verkfræðingafélag Íslands. R14030047

Samþykkt.

13. Fram fer kynning á mánaðaruppgjöri A-huta 2014 - jan.-apríl 2014. R14050068

14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. júní 2014:

Borgarráð samþykkir heimild til fjármálastjóra að undirbúa, á grundvelli samþykktar fjárhagsáætlunar 2014, lántökur á seinni hluta árs 2014 með stækkun á verðtryggðum skuldabréfaflokk Reykjavíkurborgar RVK 09 1. Skuldabréfaútboð verði annan miðvikudag í september, október, nóvember og desember nema annað verði ákveðið. 

Greinargerð fylgir tillögunni. R14060189

Samþykkt.

15. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 16. júní 2014, þar sem lagt er til að borgarráð hafni framkomnum tilboðum í Laugaveg 4 og 6 og Skólavörðustíg 1a og skrifstofunni verði heimilað að selja fasteignirnar hæstbjóðanda á fasteignasölu. R13050134

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, greiðir atkvæði á móti og leggur fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir bóka að sala á fasteignunum Laugavegi 4-6 og Skólavörðustíg 1a skuli ekki eiga sér stað í flýti, að eðlilegur tími verði gefinn til að fá sem hæst verð fyrir eignina þannig að Reykjavíkurborg þurfi að afskrifa sem minnst vegna þessara lóða en ljóst er fyrirfram að afskriftir verða miklar.  Þá er eðlilegt að tímabundnar framsalstakmarkanir verði settar í samning þann sem kann að vera gerður til að koma í veg fyrir óeðlileg viðskipti með lóðirnar eins og sagan sýnir að áttu sér stað.

16. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 2. júní 2014, þar sem lagt er til að borgarráð heimili aðilaskipti/skuldskeytingu að skuldabréfi í eigu Reykjavíkurborgar frá Alvogen BioTech til Fasteignafélagsins Sæmundar, ásamt fylgigögnum.

Greinargerð fylgir tillögunni. R13090038

Samþykkt með 6 atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, greiðir atkvæði á móti og leggur fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir mótmæla samþykkt um skuldaraskipti á þeim forsendum að almennt eigi að setja framsalstakmarkanir á þau skuldabréf sem útgefin eru vegna gatnagerðargjalda og eftir atvikum annarra gjalda er tengjast lóðum. Í því máli sem hér er til umfjöllunar teljum við að skilyrða eigi framsalið með þeim hætti að tryggt sé að eignarhald á báðum félögunum sé það sama, að öðrum kosti verði upphaflegi skuldarinn skuldbundinn til greiðslu skuldabréfsins.

17. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 23. júní 2014, um sölu byggingarréttar og úthlutun lóðar að Haukdælabraut 60. R14060042

Samþykkt.

18. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 23. júní 2014, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki leigusamning við Nýtt takmark vegna Barónsstígs 13, ásamt fylgigögnum. R14060188

Samþykkt.

19. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 23. júní 2014, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki húsaleigusamning fyrir heimahjúkrun Reykjavíkurborgar vegna Hraunbæjar 119, ásamt fylgigögnum. R14060183

Samþykkt. 

Stella K. Víðisdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

20. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 23. júní 2014, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki framlengingu á húsaleigusamningi vegna skátaheimilis að Háuhlíð 9, ásamt fylgigögnum. R14060186

Samþykkt.

21. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 23. júní 2014, um leigusamning vegna Varmahlíðar 1, ásamt fylgigögnum. R14060185

Samþykkt með 4 atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fyrir nokkru síðan keypti Reykjavíkurborg Perluna af Orkuveitu Reykjavíkur fyrir 950 m.kr. og létu borgarbúa um að taka á sig að koma þeirri eign í verð í stað þess að selja hana á almennum markaði. Það er almenn regla hjá Reykjavíkurborg að leigutekjur á ári miðist við 8% af virði eignarinnar sem myndi hljóða upp á 76 m.kr. í leigutekjur á ári í þessu tilfelli. Í stað þess er ljóst að langt er frá því að slík upphæð fáist en leigutekjur af eigninni eru u.þ.b. 35 m.kr. á ári. Borgarbúar sitja því uppi með afar slæma fjárfestingu í boði meirihlutans í Reykjavík.

22. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 23. júní 2014, um úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar að Jöldugróf 6. R14060037

Samþykkt.

23. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 23. júní 2014, um sölu byggingarréttar og úthlutun lóðar að Bleikargróf 6. R14060053

Samþykkt.

24. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um lagfæringar á umferðarljósum við Breiðholtsbraut-Suðurfell, dags. 8. maí 2014. Jafnframt lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. maí 2014. R14050059

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs.

25. Lagt fram bréf borgarstjóra til stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 23. júní 2014, varðandi tekjuauka Jöfnunarsjóðs vegna bankaskatts. R14060191

26. Lagt er til að Líf Magneudóttir taki sæti í stjórn Faxaflóahafna í stað Elínar Oddnýjar Sigurðardóttur. R14060128

Samþykkt.

27. Lagt er til að Halldór Auðar Svansson og Stefán Einar Stefánsson taki sæti sem fulltrúar Reykjavíkurborgar í samstarfsnefnd Reykjavíkurprófastdæma. R14060141

Samþykkt.

28. Lagt er til að Elín Oddný Sigurðardóttir verði kosin í menningar- og ferðamálaráð í stað Þorgerðar Öglu Magnúsdóttur. Jafnframt er lagt til að Þorgerður taki sæti varamanns í ráðinu í stað Auðar Alfífu Ketilsdóttur. R14060109

Samþykkt.

29. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarráð samþykkir að leggja áherslu á að draga úr svifryki í borginni með því að halda frjókornamagni í andrúmslofti í skefjum. Slíkt er helst gert með reglulegum grasslætti sem spornar gegn því að blóm illgresis frjóvgist og berist um andrúmsloftið. Fjöldi þeirra sem glíma við slíkt ofnæmi hefur aukist verulega á undanförnum árum og því enn meiri ástæða til aðgerða. Nauðsynlegt er að borgin sjái um að gras sé slegið oftar og opin svæði hirt til að draga megi úr frjókornum í andrúmslofti því annars dregur ofnæmið verulega úr lífsgæðum fjölda borgarbúa. R14060226

Frestað.

30. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Lagt er til að Reykjavíkurborg taki að sér að skipuleggja viðbragðs- og samskiptateymi sem hafi það að markmiði að auðvelda öll samskipti milli einkaaðila og opinberra aðila þegar stórar hátíðir eru haldnar í Reykjavík á opnum svæðum. 10 þúsund manns sóttu hina vel heppnuðu tónlistarhátíð Secret Solstice um síðustu helgi. Borgin kom ekki að þeirri hátíð með öðrum hætti en að gefa leyfi til þess að halda mætti hátíðina í borgarlandi. Önnur leyfi og samskipti þurftu hátíðarhaldarar að sjá um sjálfir. Vitað er að betur hefði mátt skipuleggja samskipti milli aðila hvað hátíðina varðar. Til dæmis gætti misskilnings um sölutíma áfengis og lokaði lögreglan fyrir söluna án þess að taka mark á rökum seljenda. Leyfin voru hins vegar ekki útgefin fyrr en eftir að hátíðin byrjaði og höfðu aðilar því lítið rými til að gera athugasemdir enda almennur opnunartími opinberra stofnana liðinn. Það eru hagsmunir borgarbúa að hátíðir sem þessar fari fram snurðulaust. Ekki á að skipta neinu máli hver heldur hátíðina en ástæða er til að auðvelda öll samskipti milli aðila hvort sem um er að ræða einkaaðila eða opinbera. Reykjavíkurborg býr að góðri þekkingu og reynslu af hátíðarhöldum. Því er lagt til Reykjavíkurborg stofni viðbragðs- og samskiptateymi og bjóði fram krafta sína til að gera samskipti milli aðila einfaldari og betri. Sjálfsagt er að veita einkaaðilum slíka þjónustu þrátt fyrir að borgin haldi ekki hátíðina sjálf. Með þessu er einnig stuðlað að enn meiri menningaránægju og einkaaðilar hvattir til enn meira menningarstarfs. R14060227

Frestað.

Fundi slitið kl. 10.49

Sigurður Björn Blöndal

Áslaug Friðriksdóttir   Björk Vilhelmsdóttir

Hildur Sverrisdóttir   Halldór Auðar Svansson

Sóley Tómasdóttir   Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir