Borgarráð - Fundur nr. 5304

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2014, fimmtudaginn 20. febrúar, var haldinn 5304. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09.05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Einar Örn Benediktsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Kjartan Magnússon, Oddný Sturludóttir, Sóley Tómasdóttir og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. 

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Birgir Björn Sigurjónsson, Hrólfur Jónsson, Hallur Símonarson, Kristbjörg Stephensen, Ólöf Örvarsdóttir, Sigurður Björn Blöndal og Ragnheiður Stefánsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis og Bústaða frá 17. febrúar 2014. R14010013

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 20. janúar 2014. R14010014

3. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Miðborgar frá 23. janúar og 6. febrúar 2014. R14010017

4. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 14. febrúar 2014. R14010019

5. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. febrúar 2014. R14010025

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 6 mál. R14020010

7. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir 12 umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R14020003

8. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs ásamt fylgigögnum, dags. í dag. R14010037

Samþykkt að veita Samtökunum um tvítyngi 1,5 m.kr. styrk vegna þróunar starfseminnar.

Samþykkt að veita Söngfuglum, kór eldri borgara, 100 þúsund kr. styrk til rekstrar kórsins. 

Samþykkt að veita Borgarblöðum ehf. 400 þúsund kr. styrk til útgáfu Vesturbæjarblaðsins og 400 þúsund kr. styrk til útgáfu Breiðholtsblaðsins.

Samþykkt að veita Skrautási ehf. 400 þúsund kr. styrk til útgáfu Grafarvogsblaðsins, 400 þúsund kr. styrk til útgáfu Grafarholtsblaðsins og 400 þúsund kr. styrk til útgáfu Árbæjarblaðsins.

Samþykkt að veita Drengjakór Reykjavíkur 250.000 kr. styrk í tilefni af 25 ára afmæli kórsins. 

Samþykkt að vísa umsögn húsfélagsins að Vatnsstíg 5 til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs. 

- Kl. 9.10 tekur Oddný Sturludóttir sæti á fundinum.

9. Fram fer kynning á vinnu við hverfisskipulag Grafarvogs og Háaleitis og Bústaða. R14010072

Björn Axelsson, Lilja Grétarsdóttir, Halldóra Hrólfsdóttir, Egill Guðmundsson, Guðmundur Gunnarsson, Ragnhildur Skarphéðinsdóttir, Kristveig Sigurðardóttir og Eva Einarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. febrúar 2014, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. febrúar sl., um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi Heilsuverndarreits vegna lóðar Sundhallarinnar, nr. 43 við Barónstíg. R14020099

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Kjartan Magnússon leggur fram svohljóðandi bókun:

Undirritaður telur æskilegt að viðbygging við Sundhöll Reykjavíkur verði byggð í sama stíl og eldri hluti hússins.

11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. febrúar 2014, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. febrúar sl., á tillögu að deiliskipulagi reitsins Brautarholts 7; ásamt fylgigögnum. R13030115

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. febrúar 2014, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. febrúar sl., á breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna lóðarinnar nr. 13 við Tryggvagötu; ásamt fylgigögnum. R13120078

Samþykkt.

13. Lagt fram bréf sviðsstjóra eigna og atvinnuþróunar og umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. febrúar 2014, með hjálögðum þjónustusamningi milli umhverfis- og skipulagssviðs (USK) og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar (SEA), dags. 3. desember 2013, ásamt reglum um samþykktarferli vegna mannvirkjagerðar á vegum Reykjavíkurborgar. Jafnframt lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs frá 15. janúar sl. R13120011

Samþykkt.

14. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 17. febrúar 2014, þar sem lagt er til að borgaráð heimili að samþykkt borgarráðs, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. maí 2009,  um heimild til samninga við lóðarhafa útboðslóða, verði einnig látið ná yfir fastverðslóðir. R13020043

Samþykkt.

15. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 17. febrúar 2014, með tillögu um að borgarráð samþykki úthlutun lóðar við hlið Marina hótels við Mýrargötu 10-12, gegn greiðslu kr. 142.028.160.- fyrir byggingarrétt og gatnagerðargjald í samræmi við áður veitt lóðarvilyrði. Greinargerð fylgir tillögunni. R13040157

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

16. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 17. febrúar 2014, með tillögu um að borgarráð samþykki lóðarstækkun við lóð nr. 30 við Síðumúla um 281 fermetra án þess að lóðarstækkun leiði til aukinna byggingarheimilda á lóð; ásamt fylgigögnum. R13110100

Samþykkt.

17. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 17. febrúar 2014, með tillögu um að borgarráð heimili að skipt verði um lóðarhafa lóðanna Skyggnisbrautar 26-30 og Skyggnisbrautar 14-18/Friggjarbrunns 42-44 og að nýr lóðarhafi verði Byggben kt. 450997-2779.

Greinargerð fylgir tillögunni. R13070076

Samþykkt.

18. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 11. febrúar 2014:

Borgarráð samþykkir að ganga til samninga við Íþróttafélag Reykjavíkur í samræmi við hjálögð drög að samningi um endurskoðun á skipulagi og uppbyggingu íþróttamannvirkja í S-Mjódd og rekstur Íþróttafélags Reykjavíkur á íþróttahúsum í Breiðholti.

Tillagan hefur ekki áhrif á fjárhagsáætlun 2014 en taka þarf tillit til hennar við gerð 5 ára áætlunar árin 2015-2019.

Jafnframt lagt fram bréf sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 10. febrúar 2014, ásamt drögum að nýju samkomulagi milli borgaryfirvalda og ÍR um framkvæmdir við íþróttahús í S-Mjódd. R14020065

Samþykkt.

Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Á undanförnum árum hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt fram fjölmargar tillögur um úrbætur í aðstöðumálum Íþróttafélags Reykjavíkur í Breiðholti. T.d. átti Sjálfstæðisflokkurinn frumkvæði að því árið 2010 að hefja viðræður við ÍR um að félagið tæki að sér rekstur íþróttahúsanna við Seljaskóla og Austurberg. Hefur sá rekstur gengið vel og er því mikilvægt að festa hann í sessi eins og lagt er til í fyrirliggjandi samkomulagi. Þá telja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mikilvægt að einnig verði samið við ÍR um rekstur íþróttahúss Breiðholtsskóla eins og félagið hefur óskað eftir og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað lagt fram  tillögur um, t.d. í júní 2012 og febrúar 2013. Á árinu 2012 lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um að hafnar yrðu endurbætur og lagfæringar á félagssvæði ÍR við Skógarsel. M.a. yrðu endurbætur gerðar á aðkomu svæðisins, keppnisvelli, frjálsíþróttasvæði, áhorfendasvæði, grasæfingavöllum, girðingu o.fl. Var þessi tillaga sjálfstæðismanna samþykkt í maí 2012 en hún hefur enn ekki komið til framkvæmda þar sem fjárveitingar hafa ekki fengist. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja fyrirliggjandi samkomulag við ÍR enda líta þeir svo á að með því sé verið að stíga mikilvæg skref til að hrinda í framkvæmd tillögum Sjálfstæðisflokksins í þágu íþróttastarfs barna og ungmenna í Breiðholti. Þeir gagnrýna þó meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins harðlega fyrir hina miklu töf, sem orðið hefur á því á kjörtímabilinu, að fjármagna umrædd verkefni á meðan ýmislegt annað hefur verið sett í forgang. Og reyndar er það svo að ekki er gert ráð fyrir að ein einasta króna renni til umræddra verkefna í Breiðholti  á þessu kjörtímabili heldur vísar meirihlutinn fjármögnun þeirra alfarið til næsta kjörtímabils borgarstjórnar.

Borgarráðfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er leiðinlegt að reynt sé að draga þessi jákvæðu framfaramál niður í pólitískar skotgrafir. Ekkert tilefni er til þess. Samningur Reykjavíkurborgar og ÍR frá 2010 gerði ráð fyrir að nýjum samningi yrði lokið fyrir 1. febrúar 2014 þannig að einkennilegt er að halda því fram að það hafi mikið dregist. Unnið hefur verið að málinu í góðu samkomulagi við forystu félagsins og nú er komin farsæl lending í þágu íþrótta, unglinga og barna í Breiðholti.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Með bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins er ekki verið að draga umrætt mál ofan í pólitískar skotgrafir enda styður Sjálfstæðisflokkurinn tillöguna . Í bókuninni var minnt á tillögur Sjálfstæðisflokksins í þágu íþróttastarfs barna og ungmenna í Breiðholti á kjörtímabilinu og gagnrýndar miklar tafir, sem orðið hafa á framkvæmd þessara tillagna, sem meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins ber alfarið ábyrgð á.

19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 11. febrúar 2014:

Borgarráð samþykkir að ganga til samninga við Ungmennafélagið Fjölni í samræmi við hjálögð drög að samningi  um  aðstöðumál Fjölnis  í Grafarvogi og rekstur  íþróttamannvirkja við Dalhús. Jafnframt samþykkir borgarráð að ganga til samninga við Knatthöllina ehf. í samræmi við hjálögð drög að samningi um leigu á fimleikaaðstöðu í fimleikahúsi er rísa mun við hlið Egilshallar. Tillagan hefur ekki áhrif á fjárhagsáætlun 2014 en taka þarf tillit til hennar við gerð 5 ára áætlunar árin 2015-2019.

Jafnframt lagt fram bréf sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 10. febrúar 2014, ásamt drögum að nýju samkomulagi milli borgaryfirvalda og Fjölnis um byggingu fimleikahúss við hlið Egilshallar.

R13060044

Samþykkt.

Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Á kjörtímabilinu hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt fram fjölmargar tillögur um úrbætur í aðstöðumálum vegna íþróttastarfs barna og ungmenna í Grafarvogi. Í þeim tillöguflutningi hefur sérstök áhersla verið lögð á að bætt verði úr aðstöðuvanda Ungmennafélagsins Fjölnis fyrir inni-íþróttagreinar, m.a. með byggingu fimleikasalar. Vísað er til tillagna fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í íþrótta- og tómstundaráði 14. október 2011, 27. janúar 2012, 9. nóvember 2012, 21. febrúar 2013 og 8. mars 2013. Stærstan hluta kjörtímabilisins sýndi meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar aðstöðumálum Fjölnis lítinn áhuga og lengi vel átti lítil vinna sér stað innan borgarkerfisins til að vinna að umræddum tillögum sjálfstæðismanna þrátt fyrir að þær hafi annað hvort verið samþykktar eða vísað til frekari skoðunar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja fyrirliggjandi samkomulag við Fjölni enda líta þeir svo á að með því sé verið að stíga mikilvægt skref til að hrinda í framkvæmd tillögum Sjálfstæðisflokksins í þágu íþróttastarfs barna og ungmenna í Grafarvogi. Þeir gagnrýna þó borgarstjórnarmeirihlutann fyrir mikla töf sem orðið hefur á úrbótum í þessu máli á meðan ýmislegt annað hefur verið sett í forgang. Og reyndar er það svo að ekki er gert ráð fyrir að ein einasta króna renni til byggingar fimleikasalar við Egilshöll á þessu kjörtímabili heldur vísar meirihlutinn fjármögnun verkefnisins til næsta kjörtímabils borgarstjórnar. 

Borgarráðfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er leiðinlegt að reynt sé að draga þessi jákvæðu framfaramál niður í pólitískar skotgrafir. Ekkert tilefni er til þess. Samningur Reykjavíkurborgar og Fjölnis byggir á sameiginlegri niðurstöðu í starfshópi um framtíðaruppbyggingu í þágu félagsins. Hópurinn skilaði af sér um mitt síðasta ár. Í kjölfarið var gengið til samningsgerðarinnar. Unnið hefur verið að málinu í góðu samkomulagi við forystu félagsins og nú er komin farsæl lending í þágu íþrótta, unglinga og barna í Grafarvogi.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Með bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins er ekki verið að draga umrætt mál ofan í pólitískar skotgrafir enda styður Sjálfstæðisflokkurinn tillöguna. Í bókuninni var minnt á tillögur Sjálfstæðisflokksins í þágu íþróttastarfs barna og ungmenna í Grafarvogi á kjörtímabilinu og gagnrýndar miklar tafir, sem orðið hafa á framkvæmd þessara tillagna, sem meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins ber alfarið ábyrgð á.

20. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 11. febrúar 2014, þar sem óskað er staðfestingar borgarráðs á undirrituðum samningum til þriggja ára við Laufeyju Sigurðardóttur vegna Mozarthátíðar, dags. 31 janúar 2014, Sinfóníuhljómsveit Íslands vegna tónlistarhátíðarinnar Tectonics, dags. 4. febrúar 2014 og Sónar Reykjavík ehf. vegna tónlistarhátíðarinnar Sónar, dags. 16. janúar 2014; ásamt fylgigögnum. R14020087

Samþykkt.

21. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 5. febrúar 2014, með ályktunartillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um Landhelgisgæsluna og björgunarstarf sem vísað var til borgarráðs á fundi borgarstjórnar 4. febrúar sl. Lögð er fram svohljóðandi tillaga að ályktun:

Borgarstjórn Reykjavíkur fagnar þeim árangri sem Landhelgisgæslan hefur náð á undanförnum árum við að efla samstarf sitt við björgunaraðila erlendra vinaþjóða. Dönsk varðskip sem hafa margoft tekið þátt í björgunaraðgerðum hér við land hafa t.d. reglulega viðkomu í Reykjavík og taka þá þátt í björgunaræfingum með Landhelgisgæslunni. Borgarstjórn býður slíka aðila velkomna til Reykjavíkur og fagnar áformum um aukið björgunarsamstarf vinaþjóða við norðanvert Atlantshaf.

R13030006

Samþykkt með 6 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins.

Málið fer til staðfestingar borgarstjórnar með vísan til 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

Borgarfulltrúi Vinstri grænna greiðir atkvæði á móti afgreiðslunni og leggur fram svohljóðandi bókun:

Íslendingar njóta ríkrar sérstöðu sem herlaus þjóð með öflugt sjálfboðaliðanet í forvarnar- og björgunarstörfum, auk þess sem hið opinbera sinnir málum á forsendum friðar. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna hefur að sjálfsögðu ekkert á móti samstarfi við erlendar þjóðir en sér enga ástæðu til að álykta sérstaklega um það.  Ályktunin mun varla breyta miklu um erlent samstarf, heldur vakna spurningar um hvort persónulegur og flokkspólitískur ávinningur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks búi ekki heldur að baki henni.

22. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu, dags. 18. febrúar 2014, ásamt samstarfssamningi Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands um jafnréttisrannsóknir.

Jafnframt lögð fram umsögn mannréttindaskrifstofu, dags. 10. janúar 2014 og  bréf rektors Háskóla Íslands, dags. 29. nóvember 2013, varðandi framlengingu á samstarfssamningi Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands um jafnréttisrannsóknir.  R11100307

Samþykkt.

23. Lögð fram tillaga mannréttindaráðs, dags. 14. febrúar 2014, um að halda árlega borgarstjórnarfund innflytjenda í Reykjavík. R14020023

Samþykkt.

Vísað til frekari útfærslu forsætisnefndar og skrifstofu borgarstjórnar.

24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. febrúar 2014:

Lagt er til að borgarráð samþykki að fundir borgarstjórnar, borgarráðs og allra fagráða Reykjavíkurborgar verði að öllu leyti pappírslausir frá og með júní 2014.

Greinargerð fylgir tillögunni. R14020116

Samþykkt.

Skrifstofu borgarstjórnar, í samvinnu við skrifstofu þjónustu og reksturs er falið að útfæra framkvæmd tillögunnar að höfðu samráði við fagsvið borgarinnar.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Mjög jákvætt er að vinna áfram í átt að pappírslausum samskiptum. Mjög mikilvægt er hins vegar að bæta aðgengi að fundargögnum og öðrum gögnum sem liggja á vefsvæðum fagráða. Ekki er hægt að leita á svæðunum og opna þarf hvern fund fyrir sig til þess að nota leit. Það er mjög bagalegt því oft liggur á að finna gögn við gerð tillagna og bókana. Mjög mikilvægt er að leggja áherslu á að tryggja einfaldan aðgang að efni svæðanna eins og að öllu öðru efni á vef borgarinnar.

25. Samþykkt að Áslaug María Friðriksdóttir  taki sæti Gísla Marteins Baldurssonar í stjórnkerfisnefnd. R13040023

26. Lagður fram dómur héraðsdóms nr. E-1283/2013, dags. 11. febrúar 2014, í máli Róberts A. Spanó gegn Reykjavíkurborg. R13030146

27. Lagður fram dómur héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 17. febrúar 2014, í máli E-2186/2013, VB landbúnaður ehf. gegn Reykjavíkurborg. R13050182

28. Lagt fram bréf fjármálastjóra, dags. 17. febrúar 2014, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki eftirfarandi yfirlýsingu:

Reykjavíkurborg mun frá og með 1. janúar 2015 eingöngu taka við reikningum  á rafrænu formi frá birgjum vegna vöru og þjónustu ef um er að ræða birgja sem senda Reykjavíkurborg reikninga reglubundið í hverjum mánuði. Birgjum sem eru í minni viðskiptum gefst kostur á aðlögun að þessari reglu til 30. júní 2015.

Greinargerð fylgir. R14020110

Samþykkt.

29. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra SSH, dags. 5. febrúar 2014, varðandi niðurstöðu eigendafundar Sorpu bs. vegna undirbúnings að framkvæmdum við byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi; ásamt fylgigögnum. R13110098

Borgarráð felur umhverfis- og skipulagssviði að undirbúa gerð deiliskipulags á Álfsnesi.

30. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna ítrekar mánaðargamla fyrirspurn um fyrirkomulag innheimtu, þar sem óskað er eftir rökstuðningi: a. Fyrir því að þessi háttur er hafður á varðandi skólamáltíðir, þrátt fyrir að innheimtureglur borgarinnar kveði á um annað. b. Af hverju ekki er hægt að hafa sama hátt á varðandi leikskóla og frístundaheimili, fyrst reynslan sýnir að fyrirkomulagið veldur ekki fjárhagslegum usla í Reykjavík? c. Hvort þetta fyrirkomulag sé í samræmi við það jafnræði sem ítrekað hefur verið fjallað um, þegar ekki er beitt sömu innheimtuaðferðum fyrir sambærilega þjónustu. Um leið ítrekar fulltrúinn gagnrýni sína á seinagang svara við fyrirspurnum. R11090110

Fundi slitið kl. 12.10

Dagur B. Eggertsson

Einar Örn Benediktsson        Elsa H. Yeoman

Kjartan Magnússon                Oddný Sturludóttir

Sóley Tómasdóttir           Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir