Borgarráð - Fundur nr. 5294

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2013, fimmtudaginn 28. nóvember, var haldinn 5294. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Einar Örn Benediktsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Hjálmar Sveinsson,  Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Hallur Símonarson, Ólöf Örvarsdóttir, Ebba Schram og Ragnheiður Stefánsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð bílastæðanefndar frá 22. nóvember 2013. R13100445

2. Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 18. og 30. október 2013. R13020044

3. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 12. nóvember 2013. R13010008

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis og Bústaða frá 18. nóvember 2013. R13010013

5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 14. nóvember 2013. R13010019

6. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 25. nóvember 2013. R13010030

7. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa frá 26. nóvember 2013. R13010028

Samþykkt.

8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. R13100469

9. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir 9 umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R13110001

10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. nóvember 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. nóvember sl., á tillögu um að falla frá stokkalausn á Mýrargötu í aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, ásamt fylgigögnum. R13030021

Samþykkt.

11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. nóvember 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. nóvember sl., varðandi tillögu umhverfis- og skipulagssviðs að breyttu deiliskipulagi Vesturbugtar, ásamt fylgigögnum. Einnig er lögð fram yfirlýsing Íbúasamtaka Vesturbæjar, dags. 21. nóvember, ásamt undirskriftarlista með 417 nöfnum dags. 25. nóvember sl. R12070091

Samþykkt með 5 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að byggingarmagn (lóðanýting, rúmmál og hæð húsa) samkvæmt fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu sé of mikið miðað við grunnflöt og heildaryfirbrag aðliggjandi byggðar. Gamli vesturbærinn hefur í meira en öld þróast í nánu sambandi við höfnina og sjávarútveginn en með fyrirhuguðum byggingum verður lokað á  tengsl við höfnina og sjávarsíðuna. Hið nýja hverfi mun einkennast af einsleitum byggingum sem eiga lítið skylt við eldri byggð og byggingarsögu borgarinnar en við teljum að yfirbragð og fjölbreytileiki gamla vesturbæjarins eigi að vera ríkjandi á svæðinu. Lítil áhersla er lögð á opin svæði og ekki er gert ráð fyrir sparkvelli á svæðinu eins og óskað hefur verið eftir. Ljóst er að byggðin verður án raunhæfra kosta í bílastæðamálum fyrir íbúa og atvinnufyrirtæki á svæðinu en aðeins er gert ráð fyrir 0,8 bílastæðum á íbúð. Graeme Massie arkitektar, sem áttu vinningstillögu í opinni hugmyndasamkeppni um rammaskipulag gömlu hafnarinnar, hafa sent frá sér yfirlýsingu um að stóra þætti í vinningstillögunni sé ekki að finna í deiliskipulaginu.

12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. nóvember 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. nóvember sl., á tillögu um breytingu á deiliskipulagi Nýlendureits, ásamt fylgigögnum. R13070096

Samþykkt með 5 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

Elsa Hrafnhildur Yeoman og Einar Örn Benediktsson víkja af fundi en Karl Sigurðsson tekur sæti á fundinum við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

Í því skyni að ná meiri sátt um kirkjubyggingu á Nýlendureit er lagt til að skoðað verði hvort unnt sé að koma byggingunni fyrir á nýjum og rúmbetri stað, á horni Mýrargötu og Seljavegar.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. Borgarráð óskar eftir upplýsingum um niðurstöðu ráðsins.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja rétt að tekið verði tillit til þeirra sjónarmiða íbúa að fyrirhuguð kirkjubygging sé í ósamræmi við nærliggjandi byggð við Nýlendugötu hvað varðar stærð, hæð og arkitektúr. Samkvæmt tillögunni verður sjálft kirkjuskipið tólf metrar á hæð. Á byggingunni eiga að vera þrír turnar, tveir sem mega fara upp í allt að sautján metra hæð og aðalturn má vera 22 metrar að hæð að krossi undanskildum. Margt bendir því til að verið sé að koma of stórri byggingu fyrir á of þröngri lóð. Aðeins er gert ráð fyrir þremur bílastæðum og er ljóst að þau munu hvergi nærri duga fyrir þá starfsemi, sem fara mun fram í kirkjunni. Í því skyni að ná sátt um kirkjubyggingu á Nýlendugötureit teljum við rétt að skoðað verði hvort unnt sé að koma byggingunni fyrir á nýjum og rúmbetri stað; á horni Mýrargötu og Seljavegar. Ljóst er að mun betur færi um svo stóra byggingu á þeirri lóð og að hægt væri að koma fyrir fleiri bílastæðum en á umræddri lóð við miðja Nýlendugötu.

13. Lagt fram bréf umhverfis- og samgöngusviðs, dags. 13. nóvember 2013, um nýja gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs í Reykjavík. R11040019

Vísað til borgarstjórnar.

14. Lagt fram bréf starfshóps um vinnslu aðgerðaráætlunar til að auka hlut rafvæddra samgangna í Reykjavíkurborg, dags. 26 nóvember 2013, ásamt skýrslu með niðurstöðum hópsins. R12070100

Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs.

15. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 26. nóvember 2013, varðandi háhraðalest milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur.  R13110218

Runólfur Ágústsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

16. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 25. nóvember 2013, varðandi úthlutun lóðar og sölu byggingaréttar við Haukdælabraut 78-92. R13070065

Samþykkt.

17. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 22. nóvember 2013, varðandi úthlutun lóðar og sölu byggingaréttar á lóðinni nr. 24 við Lautarveg. R13070161

Samþykkt.

18. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 14. nóvember 2013, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki kaup á lóðinni Stakkholti 3. R13030105

Samþykkt.

19. Lagt fram bréf Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 21. nóvember 2013, varðandi lögbundna uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur, ásamt fylgigögnum. R13090090

Borgarráð veitir borgarstjóra umboð til að samþykkja, á eigendafundi Orkuveitu Reykjavíkur, að stofna dótturfélög í samræmi við framkomna tillögu um uppskiptingu  fyrirtækisins.

Elín Smáradóttir og Eiríkur Hjálmarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna er alfarið andsnúinn uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur. Hvorki raforkulögin né Evróputilskipunin sem þau byggja á taka mið af íslenskum raunveruleika þar sem samkeppnismarkaðurinn er svo til eingöngu að nafninu til. Borgarráðsfulltrúinn er ekki að leggja til að Orkuveitan geti nýtt sérleyfishluta starfseminnar sér til hagsbóta á samkeppnismarkaðnum, síður en svo. Bókhaldslegur aðskilnaður er mikilvægur og hann hefði vel mátt útfæra án þess að skipta fyrirtækinu upp með jafn umfangsmiklum hætti. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir eigendanefndar virðast ráðherra og löggjafinn ætla að halda áformunum til streitu og málið þannig komið úr höndum borgaryfirvalda. Það er miður. Borgarráð verður að fara að lögum og það er af þeirri ástæðu og engri annarri sem borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna samþykkir tillöguna.

20. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 18. nóvember 2013, þar sem lagt er til að velferðarsvið Reykjavíkurborgar fái í vetur afnot af húsi að Vatnsstíg 12 sem bráðabirgðagistiskýli fyrir karla. Jafnframt lagt fram bréf velferðarsviðs, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 21. nóvember sl., á tillögu um að stofnað verði til fimm viðbótar gistirýma fyrir heimilislausa karlmenn í Reykjavík til loka maímánaðar 2014. Greinargerð fylgir tillögunni. R13110155

Samþykkt.

Stella K. Víðisdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

21. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 26. nóvember 2013 við tillögu borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna, dags. 11. júlí 2013 og dags. 12. september 2013, um gistiskýli fyrir heimilislausa karla. R13010187

22. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 18. nóvember 2013, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki leigusamning vegna nýs húsnæðis fyrir þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða að Laugavegi 77. R13110166

Samþykkt.

Stella K. Víðisdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

23. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 22. nóvember 2013, varðandi tillögu að nýju skipuriti fyrir velferðarsvið. Greinargerð fylgir tillögunni. Jafnframt lagt fram bréf stjórnkerfisnefndar, dags. 27. nóvember sl. R13110137

Samþykkt með 6 atkvæðum borgarfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna greiðir atkvæði gegn tillögunni og vísar til bókunar fulltrúa Vinstri grænna við afgreiðslu málsins í velferðarráði.

Málið fer til staðfestingar borgarstjórnar með vísan til 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

Stella K. Víðisdóttir og Hrönn Pétursdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

24. Lagt fram bréf Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs., dags. 15. nóvember 2013, um nýja gjaldskrá fyrir slökkviliðið fyrir árið 2014. R13010184

Samþykkt. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

25. Lagt fram bréf velferðarráðuneytisins, dags. 20. nóvember 2013, þar sem óskað er tilnefningar í stjórn lánatryggingarsjóðs kvenna. R13090179

Frestað.

26. Lagt fram bréf fjármálaskrifstofu, dags. 28. nóvember 2013, vegna breytingartillagna Besta flokksins og Samfylkingarinnar á frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2014.  R13010213

Vísað til borgarstjórnar.

27. Lagður fram árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir janúar til september 2013, ásamt umsögn endurskoðunarnefndar Reykjavíkur, dags. 25. nóvember 2013. Einnig er lögð fram skýrsla og áritun borgarráðs og borgarstjóra, dags. 28. nóvember 2013.  R13110201

Halldóra Káradóttir, Gísli Hlíðberg Guðmundsson, Ásgeir Westergren og Ólafur Kristinsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

28. Lagt fram bréf borgarritara, dags. 26. nóvember 2013, varðandi samstarfssamning á milli Reykjavíkurborgar og Moskvu. R13070091

29. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir að endurskoða staðsetningu stórbílastæða við Lóuhóla og Seljabraut þar sem íbúar hafa ítrekað kvartað yfir ónæði vegna þeirra. Unnið verði að því að finna hentugri staði fyrir slík stæði í samráði við hverfisráð Breiðholts og íbúasamtökin Betra Breiðholt. R13110245

Frestað.

Fundi slitið kl. 13.05

Dagur B. Eggertsson

Einar Örn Benediktsson   Elsa Hrafnhildur Yeoman

Hjálmar Sveinsson    Júlíus Vífill Ingvarsson

Kjartan Magnússon    Sóley Tómasdóttir