Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2013, fimmtudaginn 21. nóvember, var haldinn 5293. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Karl Sigurðsson, Kjartan Magnússon, Oddný Sturludóttir og Sóley Tómasdóttir. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Birgir Björn Sigurjónsson, Hallur Símonarson, Hrólfur Jónsson, Ólöf Örvarsdóttir, Ebba Schram og Úlfhildur Þórarinsdóttir. Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð bílastæðanefndar frá 15. nóvember 2013. R13100445
2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 6. nóvember 2013. R13010010
3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 14. nóvember 2013. R13010016
4. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 23. október og 4. nóvember 2013. R13010032
5. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 15. nóvember 2013. R13010029
6. Lagðar fram fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. og 20. nóvember 2013. R13010028 B-hlutar fundargerðanna samþykktir.
7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. R13100469
8. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir 7 umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R13110001
9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. nóvember 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs s.d., um tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, ásamt fylgigögnum. Haraldur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 9.13 tekur Elsa Hrafnhildur Yeoman sæti á fundinum.
Borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Kjartan Magnússon, leggur fram tillögu um að málinu verði frestað í borgarráði. R11060102 Tillagan er felld með 5 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn 2 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Samþykkt að vísa málinu til afgreiðslu borgarstjórnar.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun: Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera alvarlegar athugasemdir við meðferð tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 í borgarráði. Gögn málsins voru send borgarráðsmönnum með fundarboði kl. 16.40 eða í lok vinnudags sl. þriðjudag. Með tillögunni eru gögn á 1.510 blaðsíðum, ný, breytt eða uppfærð gögn eru á 1.192 blaðsíðum. Því er ljóst að verið er að leggja fram margvísleg ný gögn í málinu, sem borgarráðsfulltrúar hafa ekki fengið tækifæri til að kynna sér með fullnægjandi hætti. Er sérstaklega bagalegt hversu skammur tími gefst til að fara yfir hinar fjölmörgu athugasemdir, sem borist hafa frá almenningi vegna aðalskipulagstillögunnar og svör umhverfis- og skipulagssviðs við þeim en þessi gögn eru á samtals 587 blaðsíðum. Með því að gefa svo skamman tíma til yfirferðar gagna málsins, gerir meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins borgarráðsmönnum ókleift að fara yfir þau með fullnægjandi hætti. Slík vinnubrögð fela auk þess í sér lítilsvirðingu gagnvart hinum fjölmörgu einstaklingum og lögaðilum sem sendu inn athugasemdir vegna aðalskipulagstillögunnar. Þær athugasemdir voru sendar í góðri trú og í trausti þess að farið yrði vandlega yfir þær af kjörnum fulltrúum áður en málið yrði afgreitt. Raunin er hins vegar sú að borgarstjórnarmeirihlutinn kýs að keyra athugasemdir frá almenningi í gegnum borgarráð og borgarstjórn á óeðlilegum hraða á sama tíma og kjörnum fulltrúum eru settar eins þröngar skorður við að kynna sér umræddar athugasemdir og meirihlutinn telur sig komast upp með. Borgarfulltrúum er síðan ætlað að lesa öll gögn málsins yfir um helgina svo hægt sé að ljúka endanlegri afgreiðslu málsins á aukafundi borgarstjórnar nk. þriðjudag. Svo óvönduð vinnubrögð af hálfu borgarstjórnarmeirihlutans og lítilsvirðing gagnvart innsendum athugasemdum almennings eru með öllu óviðunandi.
Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna benda á að mjög ítarleg umfjöllun um tillögu að aðalskipulagi hefur farið fram á vettvangi borgarráðs og borgarstjórnar undanfarið eitt og hálft ár. Borgarfulltrúar hafa haft öll tækifæri til að kynna sér málið mjög ítarlega. Breytingar sem eru fram komnar á tillögunni eru til að koma til móts við fram komnar athugasemdir, en breyta ekki meginlínum skipulagsins. Gögn málsins eru borgarfulltrúum því af góðu kunn. Meiriháttar breytingar hafa þegar verið kynntar ítarlega og ber þar helst að nefna breytingu á tímasetningum varðandi lokun flugbrauta í Vatnsmýri. Til frekari glöggvunar er hér yfirlit yfir umfjöllun borgarráðs og borgarstjórnar um tillöguna: 20. desember 2012, fundur borgarráðs, kynning á vinnu- og auglýsingarferli. 10. janúar, fundur borgarráðs, kynning á drögum að svæðisskipulagsbreytingu. 15. janúar, fundur borgarstjórnar, almenn umræða. 31. janúar, fundur borgarráðs, kynning á borginni við sundin. 5. febrúar, fundur borgarstjórnar, umræða um borgina við sundin. 14. febrúar, fundur borgarráðs, kynning á skapandi borg. 19. febrúar, fundur borgarstjórnar, umræða um skapandi borg. 28. febrúar, fundur borgarráðs, kynning á grænu borginni. 5. mars, fundur borgarstjórnar, umræða um grænu borgina. 14. mars, fundur borgarráðs, kynning á borg fyrir fólk. 19. mars, fundur borgarstjórnar, umræða um borg fyrir fólk. 4. júní, fundur borgarstjórnar, aðalskipulagstillaga ásamt umhverfisskýrslu samþykkt í auglýsingu. Formleg fyrri umræða. Málinu hefur verið vísað til afgreiðslu borgarstjórnar sem mun fjalla um það á aukafundi 26. nóvember. Kynningarfundur verður haldinn til enn frekari glöggvunar fyrir borgarfulltrúa næstkomandi mánudag, 25. nóvember.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: Upptalning á því vinnuferli sem fylgt hefur verið við mótun aðalskipulagstillögunnar breytir því ekki að á þessum borgarráðsfundi voru lögð fram ný, breytt eða uppfærð gögn á 1.192 blaðsíðum, sem borgarráðsfulltrúar hafa fengið afar skamman tíma til að kynna sér. Þar af er um að ræða athugasemdir frá almenningi vegna auglýstrar aðalskipulagstillögu á 538 blaðsíðum og svör umhverfis- og skipulagssviðs vegna þeirra á 49 blaðsíðum. Umræddar athugasemdir hafa ekki verið til umfjöllunar á neinum fundum borgarráðs eða borgarstjórnar þar til nú. Við ítrekum að með svo óvönduðum vinnubrögðum sýnir borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar og Besta flokksins fjölmörgum einstaklingum og lögaðilum lítilsvirðingu sem sendu inn athugasemdir vegna tillögunnar í góðri trú.
10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. nóvember 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. nóvember sl., um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi reitsins Brautarholts 7. R13030115 Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: Á fundi borgarstjórnar 26. september sl. fluttu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftirfarandi tillögu: Borgarstjórn samþykkir hið auglýsta deiliskipulag og felur umhverfis- og skipulagsráði að fara í sérstaka skoðun og mótun aðgerða svo sem með notkun gjaldskyldu, íbúakorta eða annarra aðgerða til að stýra bílastæðamálum og koma til móts við áhyggjur íbúa og annarra hagsmunaaðila í nágrenni nýrra stúdentagarða. Tillagan var samþykkt. Óskað er upplýsinga um hvar sú vinna stendur. Upplýsingar verði lagðar fram í borgarráði svo fljótt sem unnt er. Mikilvægt er að tillögur að aðgerðum vegna fyrirsjáanlegs bílastæðavanda á svæðinu verði tilbúnar áður en kynningarferli deiliskipulagsins lýkur. Tillögurnar verði hluti af kynningargögnum auglýstrar deiliskipulagstillögu. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu taka endanlega afstöðu til deiliskipulags Rauðarárholts vegna lóðar nr. 7 við Brautarholt þegar athugasemdir hafa borist og tillögur um mótvægisaðgerðir vegna bílastæðavanda hafa verið lagðar fram.
11. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 18. nóvember 2013, ásamt leigusamningi við Lúðrasveitina Svan. R13110156 Samþykkt.
12. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 18. nóvember 2013, ásamt viðauka við leigusamning við veitingahús Perlunnar ehf. R13110154 Samþykkt.
13. Lagt fram að nýju samkomulag Reykjavíkurborgar og Seltjarnarness, dags. 12. nóvember 2013, vegna endurskoðunar svæðisskipulags, sbr. bókun bæjarstjórnar Seltjarnarness 8. maí 2013 og bókun við samþykkt svæðisskipulags í svæðisskipulagsnefnd 18. október 2013. R11090095 Samþykkt.
14. Lagt fram bréf sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 29. október 2013, ásamt drögum að samstarfssamningum milli Reykjavíkurborgar og Skátasambands Reykjavíkur og KFUM og KFUK. R13110003 Samþykkt.
15. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 15. nóvember 2013, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 7. nóvember sl., um að ganga til samstarfs við velferðarráðuneytið um móttöku flóttafólks 2013 og 2014. R13110021 Samþykkt.
16. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 19. nóvember 2013, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um styrki og samstarfssamninga MOF og ÍTR, sbr. 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. október sl. R13010213
17. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 18. nóvember 2013, við munnlegri fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks frá 25. október sl., um fjölgun starfa í miðlægri stjórnsýslu, ásamt greinargerð. R13110170
18. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 19. nóvember 2013, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um Bílastæðasjóð, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. október 2013. R13100468
19. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 19. nóvember 2013, um breytingar á áður framlögðum tillögum um gjaldskrárhækkanir og afleiddar breytingar á frumvarpi að fjárhagsáætlun 2014. R13010213 Vísað til borgarstjórnar.
20. Lagt fram samkomulag Reykjavíkurborgar og S10 ehf., dags. 13. nóvember 2013, um framlengingu á forgangsrétti samkvæmt dómsátt frá 8. desember 2008. R13020120
21. Lagðar fram tillögur starfshóps er lúta að þjónustu við börn hjá skóla- og frístundasviði, ásamt verklagsreglum, dags. 18. nóvember 2013. R11090110
Ragnar Þorsteinsson og Soffía Pálsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. Samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Málið fer til staðfestingar borgarstjórnar með vísan til 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun: Með nýju verklagi við innheimtu þjónustugjalda verður tryggt að foreldrar í skuldavanda fái vandaða málsmeðferð, að fjárhagslegar og félagslegar aðstæður fólks verði kannaðar og samningar gerðir í samræmi við greiðslugetu foreldra. Ávallt verður þess gætt að kanna hvort barnaverndarsjónarmið eigi við í hverju tilviki fyrir sig. Nú þegar greiðir Barnavernd Reykjavíkur fyrir leikskóla og frístundastarf fyrir hóp barna í borginni og einnig fær hópur foreldra greiðslur vegna barna sinna á grundvelli reglna um fjárhagsaðstoð. Frá efnahagshruni hafa innheimtuferlar borgarinnar verið mildaðir, frestir lengdir og starfsfólk borgarinnar í innheimtu sýnir almennt mikinn sveigjanleika til að koma til móts við foreldra í erfiðri stöðu og leysa mál þannig að ekki bitni á börnunum. Með þessu nýja verklagi og aukinni persónulegri aðstoð við foreldra er tryggt að enn betur verði hægt að greiða úr þessum viðkvæmu tilfellum og að sjaldnar þurfi að koma til þeirrar undantekningar að barn missi pláss sitt í leikskóla eða á frístundaheimili.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: Breytt verklag sem meirihluti Besta flokks og Samfylkingar hefur lagt til um innheimtu vegna grunnþjónustu við börn kemur ekki í veg fyrir að börnum verði beitt í innheimtuaðgerðum. Það er óásættanlegt, jafnvel þótt þau tilvik séu skilgreind sem undantekningar. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna hefur miklar efasemdir um að ferillinn standist lög, enda hafa verið gerðar við hann alvarlegar athugasemdir af þar til bærum aðilum. Ósanngirni er alveg jafn ósanngjörn þótt tilvikin séu fá – og lögbrotin eru alveg jafn mikil lögbrot, jafnvel þó þau séu aðeins framin í undantekningartilvikum.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: Í fyrri umsögnum fjármálastjóra hefur komið fram að breytingar á innheimtureglum borgarinnar kynnu að leiða til verri skuldastöðu og aukinna vanskila barnafjölskyldna. Því er óskað eftir mati á fjárhagslegum áhrifum núverandi innheimtureglna, sem geta leitt til þess að börnum sé vikið úr grunnþjónustu, á skuldastöðu og vanskil barnafjölskyldna í borginni. Jafnframt er óskað álits borgarlögmanns á því hvort innheimtureglur borgarinnar samræmist barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þegar kemur að því að víkja börnum úr grunnþjónustu og láta þau þar með líða fyrir forgangsröðun eða efnahag foreldra sinna.
22. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 8. nóvember 2013, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um þjónustu við börn, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. september sl. R11090110
23. Fram fer kynning á stöðu vinnu við samgöngumiðstöð. Þorsteinn Hermannsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R12110104
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka fyrri afstöðu um að ítarleg þarfagreining og sérfræðileg úttekt fari fram á því hver sé ákjósanlegasta staðsetningin fyrir miðstöð almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar og að í slíkri athugun verði bornir saman ólíkir kostir fyrir slíka miðstöð eins og Kringlan, Mjóddin og Vatnsmýrarvegur 10.
24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. nóvember 2013: Lagt er til að leigugjald vegna lands undir bílastæði á vegum Bílastæðasjóðs verði endurskoðað þannig að leigugjaldið taki mið af fasteignamati þess lands sem notað er undir bílastæðin og kostnaði við stofnframkvæmdir. Tekjuáhrif hjá aðalsjóði af þessari tillögu á árinu 2014 eru talin nema um 86,4 m.kr. Lagt er til að þessum tekjuauka verði varið til að hreinsa götur og bílastæði miðborgarinnar. Tillagan hefur ekki áhrif á a-hluta eða samstæðu a- og b-hluta. Greinargerð fylgir tillögunni. R13010213 Frestað. Skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og fjármálaskrifstofu er falið að funda með bílastæðanefnd vegna málsins.
25. Lagður fram ársreikningur Þríhnúka ehf. fyrir árið 2012. Björn Ólafsson og Svanhildur Konráðsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R13110017
26. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 16. október 2013, sbr. samþykkt menningar- og ferðamálaráðs, dags. 14. október 2013, á tillögu um sameiningu Minjasafns Reykjavíkur, Ljósmyndsafns Reykjavíkur, Víkurinnar – Sjóminjasafns og Viðeyjar. Einnig eru lagðar fram umsagnir skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 11. nóvember 2013, Þjóðminjasafnsins, dags. 12. nóvember 2013, fjármálaskrifstofu, dags. 9. nóvember 2013, Faxaflóahafna sf., dags. 8. nóvember 2013, og borgarlögmanns, dags. 19. nóvember 2013, um erindið. Svanhildur Konráðsdóttir og Berglind Ólafsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R13100365 Samþykkt.
Fundi slitið kl. 11.55
Dagur B. Eggertsson
Elsa Hrafnhildur Yeoman Júlíus Vífill Ingvarsson
Karl Sigurðsson Kjartan Magnússon
Oddný Sturludóttir Sóley Tómasdóttir