Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2013, fimmtudaginn 19. september, var haldinn 5282. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Eva Einarsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Hallur Símonarson, Ebba Schram og Hrólfur Jónsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Fram fer kynning á störfum eigendanefndar Orkuveitu Reykjavíkur.
Bjarni Bjarnason, Elín Smáradóttir, Eiríkur Hjálmarsson og Ingvar Stefánsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. R13090090
- Kl. 9.07 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.
- Kl. 9.10 tekur Björk Vilhelmsdóttir sæti á fundinum.
2. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 9. september 2013. R13010008
3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 10. september 2013. R13010012
4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 22. ágúst 2013. R13010019
5. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 29. ágúst 2013. R13010032
6. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. september 2013. R13010028
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R13090007
8. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir 11 umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R13090003
9. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar um umsókn um rekstrarleyfi í flokki II fyrir veitingastaðinn Piccolo Italia, Frakkastíg 12, þar sem mælt er með því að borgarráð veiti jákvæða umsögn um leyfið. R13090003
Samþykkt.
10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. september 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. september 2013, á umsögn skipulagsfulltrúa um lóðir í hlíðum Esju vegna farþegaferju. R13060116
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna gerir ekki athugasemdir við veðurmælingar á staðnum. Engu að síður er hér um stórt álitamál að ræða og áður en lengra er haldið verður að taka afstöðu til flókinna spurninga, m.a. um aðgengi allra að náttúrunni, um verðmæti og gildi Esjunnar og hvort rétt sé að framkvæmdin, ef skynsamleg þykir, sé unnin af einkaaðilum.
11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs frá 12. september 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. september 2013, um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi reits 1.174.2 vegna lóðar nr. 66-68 við Laugaveg. R13090060
Samþykkt.
12. Lagt fram bréf skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar, dags. 5. september 2013, varðandi úthlutun lóðar við Sæmundargötu 15-19 til Háskóla Íslands. Einnig er lagt fram að nýju samkomulag Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, dags. 17. september 2013, um lóðir við Sæmundargötu og Sturlugötu fyrir Vísindagarða í Reykjavík.
Eiríkur Hilmarsson, Fjalar Kristjánsson og Hilmar Bragi Janusson taka sæti á fundinum undir þessum lið. R11010186
Samþykkt.
13. Lögð fram tillaga skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar, dags. 16. september 2013, um greiðsluskilmála Alvogen vegna gatnagerðargjalda fyrir byggingu að Sæmundargötu 15-19. R11010186
Samþykkt.
14. Lagt fram bréf skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar, dags. 9. september 2013, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki meðfylgjandi leigusamning um Úlfarsfell III. R13060120
Samþykkt.
15. Lagt fram bréf skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar, dags. 16. september 2013, varðandi tilboð í fasteignina Víðines á Álfsnesi, þar sem lagt er til að borgarráð hafni þeim og heimili samningaviðræður um kaup á eignarhlut ríkisins. R12100348
Samþykkt.
16. Lagt fram bréf skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar, dags. 12. september 2013, þar sem mælt er með því að umsókn um lóðina Einarsnes 62 verði hafnað. R13090017
Samþykkt.
17. Lagt fram bréf skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar, dags. 16. september 2013, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi húsaleigusamning við Tjarnarskóla um fasteignina að Lækjargötu 14b. R12110121
Frestað.
18. Lagt fram bréf skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar, dags. 16. september 2013, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi húsaleigusamning um húsnæði fyrir frístundaheimili að Holtavegi 28. R13090057
Samþykkt.
19. Lögð fram tillaga skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 8. september 2013, um úthlutun lóðar við Suðurlandsbraut, merkt S3 á deiliskipulagi Sogamýrar, umsókn Félags múslima á Íslandi um lóðina, dags. 2. ágúst 2013, umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. ágúst 2013 og minnisblað borgarlögmanns dags. 17. september. R13080019
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráð fagnar því að geta loks samþykkt umsókn Félags múslima á Íslandi um lóð undir mosku og óskar múslimum á Íslandi til hamingju með lóðina og væntanlega uppbyggingu. Úthlutun lóðarinnar í Sogamýri er jafnframt síðasti áfangi Reykjavíkurborgar í að útvega fjórum trúfélögum lóðir undir tilbeiðsluhús sín en nú þegar hafa farið fram lóðaúthlutanir til Ásatrúarfélagsins, Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og Búddista. Í fjölmenningarsamfélagi nútímans má búast við fjölgun trúfélaga jafnhliða fjölgun þeirra sem enga trú iðka. Því telur borgarráð það affarasælast í framtíðinni að trúfélög sæki um og greiði fyrir lóðir í landi borgarinnar líkt og er um aðra mikilvæga starfsemi. Borgarráð vill af þessu tilefni óska eftir því að Alþingi hefji endurskoðun á þeim ákvæðum í lögum um Kristnisjóð o.fl. nr. 35/1970 sem kveða á um að sveitarfélögum sé skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi. Lögin voru sett á tíma þegar trúarlíf þjóðarinnar var almennara og einsleitara og meiri sátt ríkti um þátttöku opinberra aðila í rekstri trúfélaga. Á þeim tíma mátti færa fyrir því rök að eðlilegt væri að Reykjavíkurborg léti frá sér án endurgjalds lóðir undir kirkjur. Það er tímaskekkja að skylda sveitarfélög einhliða til að ráðstafa dýrmætu borgarlandi án endurgjalds til þeirra trúfélaga sem sækjast eftir því. Reykjavíkurborg styður eftir sem áður fjölbreytt trúarlíf í borginni.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa ítrekað bent á að breytingar á aðalskipulagi Sogamýrar hefði átt að fella inn í vinnu að nýju aðalskipulagi Reykjavíkur sem nær til ársins 2030 enda er á skjön við vinnubrögð umhverfis- og skipulagsráðs að taka einstakar lóðir út fyrir sviga og láta mikilvæga heildarhugsun í aðalskipulagi víkja. Þau sjálfsögðu vinnubrögð að vinna framtíðarskipulag borgarinnar á einum stað hefðu tryggt betra samráð við borgarbúa. Það hefði verið æskilegt enda verið að breyta grænu svæði í byggingarland. Í aprílmánuði 2011 var samþykkt einróma í skipulagsráði að setja tímamörk í lóðaúthlutanir til trúfélaga þannig að lóðum yrði skilað aftur til borgarinnar eftir tvö ár ef framkvæmdir hefðu ekki hafist. Þá var einnig samþykkt að trúfélag skuli við úthlutun lóðar upplýsa um fjármögnun framkvæmda. Trúfélög greiða engin gatnagerðargjöld og þess vegna ekki óeðlilegt að sett séu hófleg skilyrði fyrir úthlutuninni. Tillagan var samþykkt einróma í borgarráði mánuði síðar. Þrátt fyrir að borgarráð hafi samþykkt sérstaka skilmála sem gilda eiga fyrir öll trúfélög eru þeir ekki hluti af úthlutunarskilmálum lóðar við Suðurlandsbraut. Slík stjórnsýsla er óskiljanleg. Fordæmalaust er að borgarráð kannist ekki við eigin ákvarðanir. Lágmarkskrafa hefði verið, ef fulltrúar meirihlutaflokkanna í borgarstjórn vildu breyta fyrri samþykktum, að taka málið upp að nýju og gera breytingar með formlegum hætti. Útilokað er að standa að ákvörðun sem stjórnsýslulega er vægast sagt vafasöm. Tekið er undir að endurskoða þarf ákvæði laga um Kristnisjóð sem gera sveitarfélögum skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og tilbeiðsluhús án endurgjalds. Þau ákvæði eiga ekki við í dag enda má búast við því í fjölmenningarsamfélagi nútímans að trúfélögum fjölgi jafnhliða fjölgun þeirra sem enga trú iðka. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks styðja fjölmenningu, fjölbreytt trúarlíf og jafnræði borgarbúa. Endurskoðun fyrrgreindra laga að þessu leyti mun styðja það.
20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. september 2013:
Lagt er til að borgarráð samþykki að veita Tónlistarþróunarmiðstöðinni styrk að upphæð kr. 14.040.000.- á ári til að standa straum af kostnaði við húsaleigu fyrir starfsemi miðstöðvarinnar árin 2014-2016. Styrkupphæð breytist með hækkun og lækkun á vísitölu neysluverðs. Einnig er lagt til að meðfylgjandi húsaleigusamningur verði samþykktur með fyrirvara um samþykkt skv. fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar ár hvert.
Greinargerð fylgir tillögunni. R13090002
Samþykkt.
21. Lagt fram bréf borgarlögmanns, dags. 16. september 2013, um eignarnám umferðarkvaðar á lóð að Laugavegi 87. R09100264
Samþykkt að veita eiganda lóðarinnar 10 daga andmælafrest áður en borgarráð tekur málið til afgreiðslu.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
22. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 2. september 2013, ásamt skýrslu starfshóps á vegum Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborgar um sundlaug í Fossvogsdal, dags. í júlí 2013. R12010101
Borgarráð þakkar starfshópnum fyrir vinnu við skýrsluna sem er nú vísað til umsagnar hjá umhverfis- og skipulagsráði, skóla- og frístundaráði, íþrótta- og tómstundaráði, hverfisráði Háaleitis og Bústaða og íbúasamtökum í Fossvogi.
23. Lagt fram bréf velferðarráðuneytis, dags. 9. september 2013, um tilnefningu ráðuneytisins í stýrihóp um uppbyggingu lítilla og meðalstórra leiguíbúða í Reykjavík. R13010108
24. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 17. september 2013, um endurskoðaða tímaáætlun vegna vinnslu fjárhagsáætlunar 2014-2018. R13010213
Samþykkt.
25. Lögð fram skýrsla aðgerðahóps um kynbundinn launamun, dags. í september 2013, ásamt úttekt mannauðsdeildar á kynbundnum launamun hjá Reykjavíkurborg árið 2012.
Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, Helga Björg Ragnarsdóttir, Berglind Ólafsdóttir, Hörður Hilmarsson, Guðfinnur Þór Newman og Freyr Halldórsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. R13080073
- Kl. 12.28 víkur Björk Vilhelmsdóttir af fundi.
26. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:
Borgarráðsfulltrúi óskar eftir úttekt innri endurskoðunar á málsmeðferð, afgreiðslu tillagna og fyrirspurna á vettvangi borgarstjórnar. Óskin er sprottin upp úr undarlegri málsmeðferð á tillögu borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um endurskoðun á innheimtureglum borgarinnar sem lúta að þjónustu við börn og fyrirspurnum sem lagðar hafa verið fram í kjölfarið. Það sætir furðu að enn skuli ekki hafa verið brugðist við ítrekuðum óskum um að málið verði sett á dagskrá og fyrirspurnum um upplýsingar sem varða ríka almannahagsmuni. Ekki virðist vera áhugi fyrir því að niðurstöður sem legið hafa fyrir frá því í maí komi fyrir sjónir almennings, né heldur upplýsingar um fjölda barna sem ekki hafa fengið sjálfsagða grunnþjónustu af hálfu borgarinnar vegna reglna sem ekki samræmast Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þessi tiltekna málsmeðferð vekur upp spurningar um rétt kjörinna fulltrúa til upplýsingaöflunar og mögulegan aðstöðumun meiri- og minnihluta til að hafa áhrif á stöðu mála í borgarkerfinu. R11090110
27. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Hinn 2. október 2012 samþykkti borgarstjórn tillögu Sjálfstæðisflokksins um að allar kostnaðargreiðslur borgarinnar yrðu gerðar almenningi tiltækar með rafrænum hætti á netinu. Var borgarráði falið að skipa starfshóp sem átti að skila tillögum um hvernig staðið yrði að verkefninu fyrir 15. mars 2013. Þrátt fyrir skýra samþykkt borgarstjórnar hefur borgarráð ekki enn skipað slíkan starfshóp. Þegar borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins minntu á málið í mars, brást borgarstjóri hins vegar við með því að skipa hóp þriggja embættismanna til að fjalla um svipað málefni. Átti sá hópur að skila af sér tillögum fyrir 30. maí sl. en eftir því sem næst verður komist hefur hann ekki enn gert það. Er hér með óskað eftir fundargerðum hópsins og upplýsingum um hvaða aðgerðum er unnið að á vettvangi hans. R12090165
28. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna ítrekar fyrirspurn sína frá því í vor um niðurstöður starfshóps sem marka átti framtíðarsýn um samþætta hverfaþjónustu og hlutverk hverfisráða í Reykjavík. R12010121
29. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:
Í ljósi þess að hér á fundinum hefur fjöldi fyrirspurna og tillagna verið ítrekaðar, óskar borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna eftir yfirliti yfir fyrirspurnir og tillögur sem lagðar hafa verið fram í borgarráði af hálfu Vinstri grænna á kjörtímabilinu en ekki hlotið afgreiðslu eða svör. R13090101
30. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Enn hefur tillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks frá 4. apríl 2013 um að skipaður verði sérstakur átakshópur til að bregðast við neikvæðri íbúaþróun í Reykjavík í samanburði við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ekki fengið afgreiðslu. Slík vinnubrögð eru ámælisverð. Lagt er til að tillagan fái afgreiðslu á næsta fundi borgarráðs. R13040012
Frestað.
Fundi slitið kl. 12.45
Dagur B. Eggertsson
Elsa Hrafnhildur Yeoman Júlíus Vífill Ingvarsson
Kjartan Magnússon Sóley Tómasdóttir
Eva Einarsdóttir