Borgarráð - Fundur nr. 5281

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2013, fimmtudaginn 12. september, var haldinn 5281. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.04. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Oddný Sturludóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Hallur Símonarson, Hrólfur Jónsson og Kristbjörg Stephensen.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 6. september 2013. R13010020

2. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 21. júní 2013. R13010032

3. Lögð fram fundargerð stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 2. september 2013. R13010033

4. Lögð fram fundargerð Sorpu bs frá 9. september 2013. R13010030

5. Lagðar fram fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs frá 9. og 11. september 2013. R13010028
B-hluti fundargerðanna samþykktur.

6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. R13090007

7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. september 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs s.d., um breytingu á skilmálum deiliskipulags Húsahverfis Grafarvogi III svæði C. R12120097
Björn Axelsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Samþykkt.

8. Lögð fram umsókn Félags múslima á Íslandi um lóð fyrir mosku, dags. 2. ágúst 2013 og umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. ágúst 2013. R13080019
Frestað.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúi VG bjó sig undir að fagna því að borgarráð afhenti Félagi múslima á Íslandi byggingarlóð undir mosku í Reykjavík eins og lagt var til. Þar með hefði lokið 14 ára bið sem hefur reynt á þolrif félagsmanna. Engin lóðaumsókn trúfélags í Reykjavík hefur beðið jafnlengi og stofnanir á borð við eftirlitsnefndir Evrópuráðsins gegn kynþáttamisrétti og bandaríska utanríkisráðuneytið hafa lýst áhyggjum sínum vegna málsins og stjórnardeild lýðræðis-, mannréttinda- og atvinnumála í Bandaríkjunum hefur leitt líkum að því að þessi langi afgreiðslutími borgaryfirvalda stafi af fordómum gagnvart múslimum. Borgarráðsfulltrúi VG þakkar núverandi skipulagsráði fyrir að höggva á hnútinn hvað skipulagið varðar en furðar sig á því að borgarráð skuli draga lappirnar og fresta nú afgreiðslu tillögu máls sem lagt var fram í ráðinu 11. júlí sl. Það er langt síðan að borgaryfirvöld lofuðu fjórum trúfélögum lóðum undir starfsemi sína og hefur afgreitt þrjár þeirra. Búddistar fengu lóð við Rauðavatn, rússneska rétttrúnaðarkirkjan við Mýrargötu, ásatrúarmenn í Öskjuhlíðinni en enn eru múslimar látnir bíða. Í hverju hverfi borgarinnar hefur þjóðkirkjan fengið gjaldfrjálsa lóð eða lóðir án kvaða um gatnagerðargjöld. Um réttmæti þessa má deila og borgarráðsfulltrúi VG er í grunninn ósammála slíkum ráðahag, en á meðan svona er í pottinn búið má færa rök fyrir því að trúfélögin fjögur njóti sömu kjara og ekki má gleyma þeim sjóðum hjá ríki og borg sem þjóðkirkjan ein getur sótt í. Byggingar á borð við ásatrúarhof, dæmigerða rétttrúnaðarkirkju og mosku munu fegra borgina og gefa henni alþjóðlegri blæ. Að láta múslima, þá sem lengst hafa beðið, bíða enn frekar eftir lóð hefur ekki góðan svip.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Stefnt er að afgreiðslu málsins að viku liðinni. Það er hefð fyrir því að þegar óskað er eftir frestun mála í ráðinu, er orðið við því.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Þetta mál hefur beðið í 14 ár, allir fletir verið skoðaðir og ekkert réttlætir frekari frestun. Borgarráðsfulltrúi VG vonar að lóðaumsóknin verði afgreidd á næsta fundi ráðsins og öllum tillögum um frestun verði hafnað þá.

9. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. september 2013, um viðauka við samning um framlag skóla- og frístundasviðs til sjálfstætt starfandi leikskólans Ársólar. R13080069
Ragnar Þorsteinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Samþykkt.

10. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. september 2013, um viðauka við samning um framlag skóla- og frístundasviðs til sjálfstætt starfandi leikskólans Lundar. R13080069
Ragnar Þorsteinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Samþykkt.

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar, dags. 9. september 2013, varðandi nýjan samning við Farfugla ses. um rekstur tjaldsvæðisins í Laugardal. Samhliða er óskað eftir að borgarráð heimili að bjóða út framkvæmdir vegna stækkunar á þjónustumiðstöð í Laugardal. R13090035
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

12. Lagt fram bréf innkaupadeildar, dags. 9. september 2013, um afgreiðslu innkauparáðs 6. sept. sl. á erindi endurskoðunarnefndar varðandi tillögu um töku tilboðs lægstbjóðanda, KPMG ehf., í EES útboði nr. 12938 – Reykjavíkurborg – Endurskoðunarþjónusta. R13010235
Ólafur B. Kristinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Vísað til afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 2. tl. 5. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar nr. 715/2013.

13. Lagt fram bréf skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar, dags. 10. september 2013, ásamt tveimur erindisbréfum borgarstjóra, dags. 11. september 2013, annars vegar vegna leiðakerfisbreytinga í Reykjavík og hins vegar vegna áframhaldandi þróunar alhliða samgöngumiðstöðvar á umferðarmiðstöðvarreit. R12110104

14. Lögð fram bréf Samkeppniseftirlitsins, dags. 13. ágúst og 19. júní 2013, vegna erindis um háttsemi Bílastæðasjóðs Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar á markaði með bílastæði í Reykjavík. R13030151

15. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks, dags. 18. apríl 2013, um umferðartengingar við Grafarholt. Jafnframt lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. ágúst 2013, með umsögn sviðsins, dags. 15. maí 2013. R13040092
Tilagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar gegn 2 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Við hörmum að fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar skuli fella tillögu Sjálfstæðisflokksins um að kannaðir verði tiltækir kostir við að bæta umferðartengingar við Grafarholt, íbúum hverfisins til hagsbóta og með það að markmiði að fjölga möguleikum Strætó bs. á að bæta þjónustu við hverfið. Greinilegt er að það er ekki á dagskrá núverandi borgarstjórnarmeirihluta að bæta umferðartengingar eða strætisvagnaþjónustu við íbúa Grafarholts.

16. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra SSH, dags. 6. september 2013, með tillögu að rekstraráætlun fyrir skíðasvæðin í Bláfjöllum og Skálafelli fyrir árið 2014. R13090033
Borgarráð vísar tillögunni til meðferðar við vinnslu fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2014.

17. Lögð fram greinargerð fjármálaskrifstofu, dags. 8. september 2013, um framkvæmd styrkjareglna á árinu 2012. R13060101

18. Fram fer kynning fjármálaskrifstofu á þróun tekna og gjalda málaflokka 2008-2013. R13010213

19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:
Borgarráð samþykkir að veita 10 milljónum króna í neyðarsöfnun vegna yfirstandandi hörmunga í Sýrlandi þar sem tvær milljónir barna eru á vergangi á átakasvæðum og ein milljón barna eru í flóttamannabúðum. Unicef á Íslandi er falin ráðstöfun fjárins en fjármagnið komi úr liðnum ófyrirséð í fjárhagsáætlun. R13090052
Frestað.

20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:
Borgarráðsfulltrúi VG lagði til í borgarráði 11. júlí sl. að bráðavandi útigangsmanna yrði leystur sem fyrst. Velferðarráð veitti umsögn um tillöguna 5. september sl. og því hefði verið eðlilegt að hún hefði verið tekin til afgreiðslu á yfirstandandi fundi. Því er lagt til að tillagan verði tekin til afgreiðslu á næsta fundi borgarráðs. R13010187
Frestað.

21. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:
Í kauptilboði sjóðs á vegum Landsbréfa í svokallað Magmabréf, sem er skuldabréf í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, kemur fram að tilboðsgjafi setji þann fyrirvara að hafa lokið fjármögnun fyrir 30. ágúst. Hafi fjármögnunin ekki náðst fyrir þann dag teljist samningur sem til var stofnað með kauptilboðinu, fallinn niður. Hinsvegar er tilboðsgjafa heimilt að lengja frestinn, samþykki Orkuveita það. Því er spurt: Var fjármögnun lokið fyrir 30. ágúst og ef ekki, var gefinn lengri frestur og þá hvað langur? R13060112

22. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarráð samþykkti á fundi sínum hinn 10. júlí 2008 að gefa Knattspyrnufélaginu Víkingi fyrirheit um stækkun athafnasvæðis félagsins eftir að leigusamningur við lóðarhafa við Stjörnugróf 18 rennur út árið 2016. Hinn 26. júní 2009 samþykkti íþrótta- og tómstundaráð að skipa vinnuhóp með fulltrúum íþrótta- og tómstundasviðs, skipulags- og byggingarsviðs og Knattspyrnufélagsins Víkings til að fjalla nánar um afhendingu umrædds svæðis til félagsins sem og þær hugmyndir og tillögur sem Víkingur hefur um nýtingu svæða félagsins til framtíðar. Óskað er eftir upplýsingum um framvindu málsins og hvernig hefur verið unnið að því í samræmi við samþykkt borgarráðs. R08060004

23. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka eftirfarandi fyrirspurn sem lögð var fram í borgarráði 14. febrúar sl. Nú eru um sjö mánuðir liðnir frá því að umrædd fyrirspurn var lögð fram og er mikilvægt að fá svör við henni sem fyrst enda um að ræða ríka hagsmuni þeirra lóðarhafa, sem í hlut eiga. ,,Óskað er eftir greinargerð um stöðu lóða- og byggingarmála við Lambasel. Í greinargerðinni verði m.a. metnir kostir þess að ríkjandi skilmálum gagnvart lóðarhöfum verði breytt til að stuðla að því að sem fyrst verði hægt að ljúka við byggingu þeirra húsa sem enn er ólokið í götunni.“ R12080034

24. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Óskað er eftir greinargerð um stöðu húsnæðismála Dalskóla. Þar komi fram hve stór hluti kennslu skólans fari fram í færanlegum kennslustofum og hve miklu fé hafi verið varið til uppsetningar þeirra og viðhalds. Gerð verði grein fyrir ásigkomulagi kennsluhúsnæðisins, skólalóðarinnar og starfsmannaaðstöðu. Einnig verði fjallað um ásigkomulag gangstétta í hverfinu m.t.t. gönguleiða skólabarna. R13090053

Fundi slitið kl. 10.50

Einar Örn Benediktsson
Björk Vilhelmsdóttir Elsa Hrafnhildur Yeoman
Júlíus Vífill Ingvarsson Kjartan Magnússon
Oddný Sturludóttir Þorleifur Gunnlaugsson