Borgarráð - Fundur nr. 5278

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2013, fimmtudaginn 22. ágúst, var haldinn 5278. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Þorleifur Gunnlaugsson.
Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Hallur Símonarson, Kristbjörg Stephensen, Hrólfur Jónsson og Örn Sigurðsson.
Fundarritari var Helga B. Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Laugardals frá 27. maí, 10. júní og 12. ágúst 2013. R13010017

2. Lagðar fram fundargerðir innkauparáðs frá 12. og 26. júlí og 2. og 16. ágúst 2013. R13010020

3. Lagðar fram fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. og 21. ágúst 2013. R13010028
B-hluti fundargerðanna samþykktur.

4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. R13080007

5. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R13080002

- Kl. 9.08 tekur Oddný Sturludóttir sæti á fundinum.

- Kl. 9.12 tekur Eva Einarsdóttir sæti á fundinum.

6. Kynnt er dagskrá Menningarnætur 2013. R13080009
Einar Bárðarson og Stefán Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

7. Fram fer umræða um rekstrarleyfi „kampavínsstaða#GL í Reykjavík. R13070169
Stefán Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. ágúst 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 14. ágúst 2013, um auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi á reitnum Einholt-Þverholt. R12060152
Samþykkt.
Björn Axelsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

9. Fram fer umræða um rannsókn Barnaverndar Reykjavíkur og eftirlit skóla- og frístundasviðs með málefnum leikskólans 101.
Ragnar Þorsteinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R13080054

10. Fram fer kynning á fyrirhugaðri uppbyggingu á vegum Sítusar hf. við Austurhöfn – Hörpu.
Árni Geir Pálsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R13010037

Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarráð fagnar því að uppbygging á svokölluðum Hörpu-reitum geti hafist fljótlega og undirstrikar þá hagsmuni sem felast í því að ljúka uppbyggingu og frágangi svæðisins í heild á næstu árum. Mikilvægt er að áhersla verði lögð á metnað í hönnun bygginga, gatna og almenningsrýma á þessu lykilsvæði sem tengja mun miðborgina og hafnarsvæðið órofa böndum og felur borgarráð umhverfis- og skipulagssviði að hefja nú þegar undirbúning að breyttu deiliskipulagi svæðisins í samráði við Sítus og aðra lóðarhafa í samræmi við rammaskipulag hafnarinnar.

11. Lagt fram bréf bankastjóra Landsbankans hf., dags. 16. ágúst 2013, varðandi lóð fyrir nýjar höfuðstöðvar bankans. Jafnframt lögð fram umsögn skipulagsfulltrúans í Reykjavík, dags. 21. ágúst 2013. R13080042
Vísað til meðferðar hjá Sítus hf. að höfðu samráði við umhverfis- og skipulagssvið og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar. Borgarráð óskar jafnframt eftir því að fá upplýsingar um framvindu málsins.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.

12. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 12. ágúst 2013, vegna fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um styrkveitingar borgarráðs, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. júní 2013 R13060028

13. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 22. ágúst 2013, vegna fyrirspurnar borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um styrki Reykjavíkurborgar til trúarsamtaka, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. janúar sl. R13010250

14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 20. ágúst 2013:
Í ljósi þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað síðustu misseri í málefnum samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks í Rússlandi er borgarlögmanni, mannréttindaskrifstofu og skrifstofu borgarstjóra og borgarritara falið að koma með tillögur að breytingum á samstarfssamningi Reykjavíkur og Moskvu eða uppsögn á honum, að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið og Samtökin #EFK78.
Greinargerð fylgir tillögunni. R13070091
Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks setja sig ekki upp á móti því að skoðaðar verði breytingar á samstarfsamningi á milli Reykjavíkur og Moskvu. Í slíkri yfirferð þarf að fara yfir þau tækifæri sem geta falist í vinasamböndum við aðrar borgir. Moskva er ein af 11 borgum sem teljast til vinaborga Reykjavíkur. Íslensk utanríkisþjónusta er í sendiráðs- og ræðismannssambandi á 270 stöðum í heiminum í yfir 80 löndum. Með því að vera í sambandi við önnur ríki á alþjóðavettvangi er íslensk þjóð ekki að leggja blessun sína yfir mannréttindabrot sem vitað er að framin eru í ýmsum þessara landa, þ. á m. í löndum þar sem starfrækt eru íslensk sendiráð. Fulltrúar utanríkisráðuneytisins hafa nýtt sér stöðu sína til að árétta stuðning Íslands við réttindabaráttu samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks í Rússlandi. Að skella hurðum gerir maður bara einu sinni og ekki er líklegt að það atvik veki athygli annars staðar en hér. Með því getur þó verið lokað á mikilvæg tækifæri til þess að hafa áhrif á ráðamenn annarra þjóða til lengri tíma og gera gagn í þágu mannréttinda. Borgarstjóri hefur sagt opinberlega að hann vilji slíta samstarfssamningi við Moskvu. Sú tillaga sem hér liggur fyrir gengur ekki út á það heldur að farið verði yfir málið og að það muni síðan koma aftur fyrir borgarráð sem tekur endanlega ákvörðun. Afstaða til samstarfssamningsins í heild sinni og hugsanlegra breytinga á honum verður tekin þegar leitað hefur verið eftir áliti frá þeim aðilum sem tilgreindir eru í tillögunni.

15. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um skipun starfshóps til að vinna tillögur að launastefnu Reykjavíkurborgar. Jafnframt er lögð fram ódags. umsögn kjaradeildar um tillöguna. R13070112
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar gegn einu atkvæði borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Það eru mistök af hálfu meirihlutans að fella tillögu um gerð stefnu sem stuðlað gæti að launajöfnuði meðal launþega borgarbúa. Í tillögunni er ekki mælt fyrir um leiðir að því markmiði að minnka launamun meðal starfsfólks borgarinnar og það getur varla talist óeðlilegt að borgarstjórn skipi starfshóp til að endurskoða tólf ára gamla stefnu. Það er jafnframt ámælisvert að formaður borgarráðs skuli aðeins hafa óskað eftir umsögn eins aðila, þess starfsmanns borgarinnar sem er aðalsamningamaður Reykjavíkurborgar gagnvart stéttarfélögunum. Deildarstjóri kjaradeildar gerir sitt besta til að veita faglega umsögn en í raun er ósanngjarnt að setja hann í þessa stöðu. Það er jafnframt umhugsunarvert hvers vegna ekki er óskað álits einhverra lægst launuðu starfsmannanna eða stéttarfélaga þeirra. Í umsögn deildarstjóra kjaradeildar, sem er málefnaleg af hans hálfu sem embættismanns, er gerð grein fyrir þeirri starfsmannastefnu sem fyrir liggur og launastefnu sem í henni felst, sem og þróun mála frá árunum 1999-2000. Í þeirri þróun sem deildarstjórinn lýsir skipar starfsmatskerfið veigamikinn sess sem samstarfsverkefni stéttarfélaganna og borgarinnar. Starfsmatskerfið felur hinsvegar í sér hvernig störfum er raðað innbyrðis en segir ekkert um launamuninn sjálfan. Deildarstjórinn segir að frá árinu 2000 hafi lægstu laun hjá Reykjavíkurborg hækkað hlutfallslega mest og launabilið því í raun minnkað. Óskað er eftir nánari rökstuðningi hvað þetta varðar. Lægstu laun sem Reykjavíkurborg greiðir eru rúmar 200.000 kr. á mánuði og fjölmargir borgarstarfmenn eru með laun undir 300.000 kr. á mánuði. Hæstu laun munu vera um 1.000.000 kr. á mánuði og þá er átt við sviðsstjóra og efstu embættismenn en einhverjir úr þeirra röðum þiggja jafnframt laun sem fulltrúar borgarinnar í félögum eða fyrirtækjum tengdum Reykjavíkurborg. Slík launauppbót stendur lægra launuðum starfsmönnum ekki til boða.
Það lítur því út fyrir það að launamunur meðal launþega borgarinnar sé fimmfaldur eða jafnvel sexfaldur. Því er ljóst að jafnvel þó að lægstu laun hafi hækkað hlutfallslega meira en önnur á undanförnum árum eru þau fyrir neðan allar hellur og hvorki samboðin þeim sem launin þiggja né virðingu Reykjavíkurborgar, stærsta launagreiðanda borgarinnar. Það að launamunur yrði einn á móti þremur þýddi að tekjumunur yrði eitthvað minni að teknu tilliti til jöfnunaráhrifa skattkerfisins. Ef lægstu tekjur eru viðunandi og kostnaður við að afla sér menntunar hóflegur, m.a. með góðu námslána- og/eða námslaunakerfi, þá ættu tvöfaldar tekjur að vera feikinóg til að taka tillit til mismunandi ábyrgðar, álags og annarra þátta sem eðlilegt er að einhver umbun fylgi.
Það er komið að því að kjörnir fulltrúar hætti að firra sig ábyrgð á launamálum starfsfólks borgarinnar. Reykjavíkurborg á að móta sér þá launastefnu að lægstu laun verði viðunandi á næstu árum og því þurfi að hækka þau tiltölulega mest. Til þess að svo megi verða þarf pólitískan vilja og hann gætu kjörnir fulltrúar birt í þeirri stefnu að launamunur verði ekki meiri en þrefaldur.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hversu margir starfsmenn og kjörnir fulltrúar eru í fullu starfi hjá Reykjavíkurborg og hve margir þeirra eru með laun frá: a. 200.000 kr. til 300.000 kr. á mánuði? b. 300.000 kr. til 400.000 kr. á mánuði? c. 400.000 kr. til 500.000 kr. á mánuði? d. 600.000 kr. til 700.000 kr. á mánuði? e. 700.000 kr. til 800.000 kr. á mánuði? f. 800.000 kr. til 900.000 kr. á mánuði? g. 900.000 kr. til 1.000.000 kr. á mánuði? h. 1.000.000. kr. á mánuði eða meira?

16. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna þar sem lagt er til að gerð verði stefna um utanlandsferðir starfsmanna og kjörinna fulltrúa Reykjavíkurborgar, kostaðar af borginni.
Jafnframt er lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjóra og borgarritara um tillöguna, dags. 25. júlí 2013. R13070114
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar gegn einu atkvæði borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Það má vera rétt sem borgarritari segir í umsögn um tillöguna að starfsfólk ferðist á vegum borgarinnar að gefnu tilefni og taki þátt í alþjóðlegum samskiptum á grundvelli verkefna sinna og sérþekkingar. Það er hinsvegar skoðun borgarfulltrúa VG að sá hópur sé á stundum of þröngur og margir sitji alltaf heima sem ættu fullt erindi utan. Það er ennfremur augljóst að öllum starfsmönnum kemur það vel að heimsækja sambærilega stofnanir og skoða samsvarandi starfsemi í öðrum löndum og slíkt er til þess falið að auðga viðkomandi stofnun borgarinnar. Í tillögunni koma ekki fram fyrirfram gefnar niðurstöður og ekkert gefið í skyn að úr yrðu óþarfar utanlandsferðir. Að þetta sé metið og yfirfarið af lýðræðislega kjörnum fulltrúum borgarinnar og til að mynda settar reglur um að ákveðið hlutfall lægra settra starfsmanna fari í utanlandsferðir, bæri vott um ábyrgð á því hvernig borgin vill koma fram við sína starfsmenn þar sem reglur, gagnsæi og sanngirni myndu ráða. Það er miður að meirihluti borgarráðs hafi fellt tillöguna.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
1. Hver var heildarkostnaður Reykjavíkurborgar vegna utanlandsferða starfsmanna og kjörinna fulltrúa á árinu 2012? 2. Hversu margir einstaklingar fóru þessar ferðir og hve oft fór hver og einn? 3. Hversu margir kjörnir fulltrúar fóru í þessar ferðir og hve oft fór hver og einn? 4. Hversu margir starfsmenn sem þiggja laun samkvæmt ákvörðun kjararáðs fóru í þessar ferðir og hve oft fór hver og einn? 5. Hversu margir félagsmenn í Eflingu fóru í þessar ferðir? 6. Hversu margir félagar í Starfsmannafélagi Reykjavíkur fóru í þessar ferðir?

17. Lagt fram bréf Félags múslima á Íslandi, dags. 2. ágúst 2013, þar sem óskað er eftir lóð við Suðurlandsbraut 76 og til vara Suðurlandsbraut 72, undir mosku. R13080019

18. Kynnt er mánaðarlegt rekstraruppgjör A-hluta janúar - maí 2013. R13010156

- Kl. 11.25 víkja Eva Einarsdóttir og Oddný Sturludóttir af fundi.

19. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs ásamt fylgigögnum, dags. í dag. R13010039
Samþykkt að veita Landsbyggðarvinum vegna verkefnisins Sköpunargleði – Heimabyggðin mín, styrk að fjárhæð kr. 50.000.-
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Fundi slitið kl. 11.30

Dagur B. Eggertsson
Elsa Hrafnhildur Yeoman Júlíus Vífill Ingvarsson
Kjartan Magnússon Þorleifur Gunnlaugsson