Borgarráð - Fundur nr. 5277

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2013, fimmtudaginn 25. júlí, var haldinn 5277. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09.14. Viðstödd voru: Dagur B. Eggertsson, Einar Örn Benediktsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Eva Baldursdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir.
Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Hallur Símonarson, Kristbjörg Stephensen og Ólöf Örvarsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

1. Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufundar byggingarfulltrúa frá 16. júlí og 23. júlí 2013 R13010028
Samþykkt.

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 27. júní 2013. R13010018

3. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. júlí 2013. R13010028
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 16 mál. R13060126

5. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir 16 umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R13070001

6. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs ásamt fylgigögnum, dags. 25. júlí 2013. R13010039
Samþykkt að veita styrk vegna RykkRokk-tónleika þann 3. ágúst að fjárhæð kr. 500.000.-

7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júlí 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. júlí sl. um auglýsingu á tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Jafnframt lögð fram umsögn Skipulagsstofnunar, dags. 16. júlí 2013 og minnisblað umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. júlí 2013. R11060102

Samþykkt að uppfæra aðalskipulagstillöguna og önnur skipulagsgögn, með vísan til framlagðra gagna, fyrir auglýsingu hennar. Jafnframt er samþykkt að minnisblað umhverfis- og skipulagssviðs verði til kynningar með tillögunni á auglýsingatíma hennar, ásamt athugasemdum Skipulagsstofnunar, sbr. 3. mgr. 30. gr. l. nr. 123/2010, en borgarstjórn samþykkti tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 í auglýsingu þann 4. júní sl., að undangenginni afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs og borgarráðs þann 3. júní.
Haraldur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skipulagið lýsir þröngsýnum viðhorfum þar sem val um búsetuform er ekki til og fjölbreytileiki borgarinnar er kæfður niður. Öllum er ætlað að búa eins – á þéttingarreitum í vesturborginni. Verði skipulagið samþykkt munu ungar fjölskyldur í ríkara mæli leita til annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu enda er með þessu skipulagi ekki verið að skapa þeim aðstæður til að hefja sinn búskap í borginni. Reynslan sýnir að barnafjölskyldur eru ekki kaupendur íbúða á þéttingarreitum vegna þess að þær íbúðir eru óhjákvæmilega dýrar þar sem lóðarverð er hátt. Á öllu skipulagstímabilinu er ekki gert ráð fyrir uppbyggingu í nýju hverfi í útjaðri borgarinnar en þau hverfi hafa í áranna rás verið eftirsóttustu byggingarsvæðin á höfuðborgarsvæðinu. Skipulagshöfundar skilja ekki kosti úthverfa. Samkvæmt nýlegri búsetukönnun sem Reykjavíkurborg gerði vilja 74#PR borgarbúa á aldrinum 30-50 ára búa í einbýlishúsum. Í nýju aðalskipulagi er ekki gert ráð fyrir því að eitt einasta einbýlishús rísi í Reykjavík fram til ársins 2030. Skipulagshöfundar eru á móti því að byggð verði einbýlishús. Samgöngukafli aðalskipulagsins byggir á samningi ríkis og borgar um að horfið verði frá framkvæmdum við samgöngumannvirki næstu 10 árin. Skipulagið fækkar verulega mislægum gatnamótum, vegstokkum og öðrum mannvirkjum sem tengjast umferðarlausnum miðað við áætlanir eldra aðalskipulags. Skipulagshöfundar leggjast gegn samgöngumannvirkjum í Reykjavíkurborg. Tillaga að aðalskipulagi er í grundvallaratriðum vanhugsuð. Hún byggir á því að flugvöllurinn fari og uppbygging muni hefjast á flugvallarsvæðinu eftir þrjú ár. Skipulagsstofnun bendir í umsögn sinni á að flutningur á flugstarfsemi sé ekki einkamál borgarinnar heldur verði að byggja á samkomulagi hennar við samgönguyfirvöld á landsvísu. Framtíðaruppbygging samkvæmt skipulaginu byggir að stórum hluta á svæði sem ekki hefur verið samið um og litlar sem engar líkur eru á að samkomulag náist um enda eru hugmyndir um uppbyggingu á flugvallarsvæðinu óraunhæfar. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks gagnrýna aðalskipulagstillöguna en telja að vinna við aðalskipulag hafi staðið nægilega og nú sé nóg komið. Þeir telja að frekar en að halda áfram að ræða skipulagið á lokuðum vettvangi borgarinnar sé tímabært að borgarbúar fái tækifæri til þess að kynna sér tillöguna og segja sína skoðun á henni. Með því eru borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ekki að fallast á þá stefnu sem sett er fram í aðalskipulagstillögunni en hvetja borgarbúa til þess að taka virkan þátt í að móta framtíð borgarinnar með því að hafa áhrif á aðalskipulag Reykjavíkur.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar fagna þeirri tillögu að aðalskipulagi sem nú fer í formlega kynningu meðal borgarbúa. Aðdragandi hennar er langur og hún markar tímamót í tvennum skilningi. Hún hefur verið unnin undanfarin sex ár af fulltrúum allra flokka, embættismönnum og sérfræðingum. Slíkt pólitískt samráð við gerð aðalskipulags hefur ekki tíðkast áður. Jafnframt hefur verið staðið fyrir umfangsmiklu samráði í hverfum borgarinnar, gagnvart hagsmunaaðilum og fagfólki. Þessi vinnubrögð styrkja tillöguna. Í öðru lagi markar tillagan tímamót að því leyti að með henni er horfið frá bílmiðuðu skipulagi borgarinnar og tekið upp skipulag sem setur manneskjuna í öndvegi. Það er sorglegt að Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera að klofna í málinu á lokasprettinum. Bókun Júlíusar Vífils Ingvasonar og Kjartans Magnússonar kallar eftir fleiri mislægum gatnamótum og frekari útþenslu byggðar. Það myndi auka umferð í borginni og hverfum hennar, auka mengun og samgöngukostnað heimila. Það vekur athygli að engar formlegar tillögur til að fylgja þessum nýju sjónarmiðum eftir komu fram í öll þau ár sem unnið hefur verið að aðalskipulaginu, enda ganga þær þvert á umhverfismat og önnur gögn sem liggja til grundvallar aðalskipulagstillögunni. Þá er ástæða til að benda á að víða er gert ráð fyrir að byggja megi einbýli í tillögu að aðalskipulagi, einu takmarkanirnar á því er að þau einbýli rísi innan núverandi þéttbýlismarka.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillaga að aðalskipulagi hefur verið lengi í vinnslu og þess vegna hafa fulltrúar allra flokka á einhverjum tíma komið að þeirri vinnu. Það er þó af og frá að í því felist að sú tillaga sem nú er lögð fram sé sameiginleg niðurstaða þeirra borgarfulltrúa og annarra sem setið hafa fundi um aðalskipulag. Tillaga sú sem hér er send í auglýsingaferli hefur tekið verulegum breytingum á þessu kjörtímabili og þá ekki síst þegar kemur að borgarþróun og uppbyggingarsvæðum. Í vinnuferlinu hafa komið fram fjölmargar tillögur um það hvernig gera má aðalskipulagstillöguna betri og raunhæfari í stað þeirrar einsleitni sem hún endurspeglar. Því miður var ekki tekið tillit til þeirra tillagna. Aðalskipulagið tekur ekki tillit fjölbreytileika borgarlífsins og svarar ekki þörfum ungra fjölskyldna til framtíðar.

8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. júlí 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. júlí sl., á auglýsingu um tillögu að breyttu deiliskipulagi Kvosarinnar vegna Hafnarstrætisreits, ásamt fylgigögnum. R13070123
Samþykkt.

9. Lagt fram að nýju bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. júlí 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. júlí sl. varðandi breytingu á deiliskipulagi Þróttarsvæðis vegna lóðarinnar nr. 11 við Holtaveg, ásamt fylgigögnum. R13040058
Samþykkt.

10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. júlí 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. júlí, varðandi breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna Landsímareits, ásamt fylgigögnum. Jafnframt lögð fram bréf BIN hópsins, dags. 24. júlí og 25. júlí 2013 og áskorun dags. 25. júlí 2013. R13030137

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Engin tillaga að deiliskipulagi hefur mætt jafn mikilli andstöðu og tillaga að skipulagi Landsímareits. Fjöldi mótmæla á sér ekki fordæmi í sögu borgarinnar. Slíkum áhuga á mannlífi, húsvernd og uppbyggingu í miðborginni ber borgaryfirvöldum að taka alvarlega. Því er lagt til að afgreiðslu málsins verði frestað hér og nú og boðað verði til íbúakosningar þar sem borgarbúar taki afstöðu til málsins.
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum gegn einu.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu:
Engin tillaga að deiliskipulagi hefur mætt jafn mikilli andstöðu og tillaga að skipulagi Landsímareits. Fjöldi mótmæla á sér ekki fordæmi í sögu borgarinnar. Slíkum áhuga á mannlífi, húsvernd og uppbyggingu í miðborginni ætti meirihluti borgarstjórnar að taka alvarlega. Því er lagt til að deiliskipulag Landsímareits verði tekið fyrir á næsta fundi borgarstjórnar þar sem umræður og endanleg afgreiðsla málsins mun fara fram í heyranda hljóði.
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum gegn þremur.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Þegar fallist var á lengri athugasemdarfrest í málinu í vor var ljóst að það kæmi til afgreiðslu borgarráðs í sumar, þar sem sveitarstjórn hefur einungis átta vikur til að afgreiða málið eftir að athugasemdafresti lýkur, skv. skipulagslögum. Óvenju langur tími var gefinn til ábendinga og athugasemda í málinu sem hefur verið til vinnslu á annað ár. Borgarráð fer með valdheimildir borgarstjórnar í sumarleyfi hennar. Fimm borgarfulltrúar geta hins vegar óskað eftir fundi í borgarstjórn. Slík beiðni hefur ekki komið fram.

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna Landsímareits er samþykkt með sex atkvæðum gegn einu.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Landsímareiturinn hefur lengi verið í mikilli niðurníðslu. Það ástand er ekki sæmandi fyrir hinn gamla kjarna Kvosarinnar. Skipulagið byggir á verðlaunatillögu úr opinni alþjóðlegri samkeppni. Vakin er athygli á því að fulltrúi Húsafriðunarnefndar ríkisins og Borgarminjavörður voru álitsgjafar dómefndarinnar sem valdi tillöguna. Húsafriðunarnefnd gerði auk þess sérstaka umsögn um tillöguna. Nefndin gerði ekki efnislegar athugasemdir við hana og taldi að vinna mætti með hana í hinu sögulega umhverfi. Það hefur verið gert í deiliskipulagsvinnunni sem fylgdi í kjölfarið. Mikilvægt er að hafa í huga að breytt deiliskipulag á Landsímareit tryggir að timburhúsin Vallarstræti 4 og Aðalstræti 11 auk gamla Kvennaskólans við Thorvaldsenstræti 2 standa áfram á sínum stað. Kvosarskipulagið frá 1986 gerir ekki ráð fyrir því. Breytt skipulag gerir einnig ráð fyrir að svokallaður Nasa-salur verði endurbyggður á sínum stað. Komið hefur verið til móts við mótmælendur með því að lækka hæðir á nýbyggingum við Vallarstræti auk þess sem nýbygging við Kirkjustræti verður byggð í svipuðum stíl og gömlu timburhúsin handan Kirkjustrætis. Einnig má benda á nýbyggingar á horni Aðalstrætis og Túngötu. Vakin er athygli á því að í umsögn skipulagssviðs er lagt til að Kirkjustræti verði lokað fyrir almennri bílaumferð í samráði við Alþingi og aðra hagsmunaaðila. Verði af hótelrekstri í gamla Landsímahúsinu og nýbyggingu við Kirkjustræti mun sá rekstur þurfa að taka fullt tillit til Alþingis og þess mikilvæga almenningsrýmis sem er þarna allt um kring. Breyting á deiliskipulagi Landsímareits er mikilvæg forsenda fyrir fegrun reitsins og öflugra mannlífi.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna greiddi atkvæði gegn tillögunni og leggur fram svohljóðandi bókun:
Fá mál hafa kallað á fleiri athugasemdir og háværari mótmæli en sú deiliskipulagsáætlun sem nú hefur verið samþykkt. Meirihluti borgarráðs fer sínu fram, þrátt fyrir undirskriftir 18.000 borgarbúa gegn áformunum, 240 athugasemdir frá hagsmunaaðilum, fjölmennan útifund og mótmælaaðgerðir og einkar afdráttarlausa umsögn frá Minjastofnun Íslands. Þröngir hagsmunir og hagnaðarvon lóðareigandans vega þyngra en hagsmunir almennings, menningararfur þjóðarinnar og götumynd í hjarta miðborgarinnar. Og allt fer þetta fram á lokuðum fundi á mesta sumarleyfistíma borgarbúa, þar sem frekari mótmælum verður ekki við komið og án þess að komið sé til móts við þær athugasemdir sem borist hafa. Fyrirhugaðar nýbyggingar við Vallarstræti og Ingólfstorg rjúfa heild og taka ekki nægilegt mið af friðuðum húsum og húsaröðum. Breyta á þaki og ásýnd Landsímahúss eftir Guðjón Samúelsson og rífa einstakan tónlistarsal með merka sögu og sérstætt útlit allt frá stríðsárunum til að koma þar fyrir hærra húsi og nýjum sal. Minjastofnun Íslands mælir eindregið gegn þessu öllu og bendir auk þess á að mörk kirkjugarðs í Víkurgarði eru óljós og telur æskilegt að ekkert jarðrask fari þar fram. Búast má við að á byggingarreit við Kirkjustræti verði komið niður á hluta garðsins og þá sem þar hvíla. Nýbygging við Kirkjustræti fer óþarflega nærri þjóðþinginu og fallegri röð timburhúsa við Kirkjustræti, varpar morgunskuggum í Víkurgarð og síðdegisskuggum á Austurvöll. Tengsl Víkurgarðs og Austurvallar rofna, sólskinsblettur víkur fyrir hótelviðbyggingu og þrengt er ískyggilega að öllum þeim fjölda fólks sem safnast saman og fer hér um á stórum stundum í lífi þjóðarinnar. Loks hefur Alþingi lýst harðri andstöðu við fyrirhugað skipulag, þar sem það þrengir talsvert að aðkomu, inngangi og byggingum þingsins og þrengslin sem skapast með nýbyggingu við Kirkjustræti kunni hreinlega að verða hættuleg. Við uppbyggingu á þessum mikilvæga stað og í kringum elstu hús borgarinnar verður að gæta fyllstu varkárni. Þá verður að taka meiri hagsmuni fyrir minni. Gamlar deiliskipulagsáætlanir, veðsettur byggingarréttur og hagsmunir lóðarhafa verða að víkja fyrir almannahagsmunum. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna hvetur því Minjastofnun Íslands til að fylgja eftir áliti sínu með þeim ráðstöfunum til verndunar sem hún hefur yfir að ráða til að forða borginni frá fyrirsjáanlegu menningarlegu tjóni.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja fyrirliggjandi tillögu en lýsa yfir furðu sinni á því að meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar skuli kjósa að afgreiða umdeilt deiliskipulag Landsímareits á lokuðum fundi borgarráðs í stað þess að ræða það á opnum fundi borgarstjórnar með þátttöku allra borgarfulltrúa þar sem borgarbúar eiga þess kost að fylgjast með umræðum og afgreiðslu. Gerðar eru athugasemdir við að hvorki skuli gert ráð fyrir bifreiðastæðum né sleppistæði við umrætt hótel, sem mun væntanlega leiða til þrálátrar umferðarstíflu í Kirkjustræti eða annars staðar í Miðbænum. Æskilegt hefði verið að ganga þannig frá skipulaginu að hjólreiðabraut lægi meðfram Kirkjustræti og viðunandi lausn yrði fundin á bílastæðamálum hótelsins. Þá þarf að fara vandlega yfir fram komnar ábendingar um að hinn forni Víkurkirkjugarður nái inn á byggingarreitinn og gæta sérstakrar varfærni við framkvæmdir af þeim sökum.

11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. júlí 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. júlí sl., um auglýsingu á tillögu varðandi endurskoðun deiliskipulags Norðurstígsreits, ásamt fylgigögnum. R13070122
Samþykkt.

12. Lagt fram að nýju bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. júlí 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. júlí sl. á auglýsingu á breyttu deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar, ásamt fylgigögnum R13070031
Samþykkt.

13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. júlí 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. júlí sl., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Suðurhlíða vegna lóðarinnar nr. 9 við Suðurhlíð (Klettaskóla), ásamt fylgigögnum. R12100384
Samþykkt.

14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. júlí 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. júlí sl., um auglýsingu á breyttu deiliskipulagi Öskjuhlíðar vegna lóðar Ásatrúarfélagsins, ásamt fylgigögnum. R13070038
Samþykkt.

15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júlí 2103, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. júlí sl., varðandi tillögur Fegrunarnefndar Reykjavíkur um viðurkenningar vegna lóða fjölbýlishúsa og stofnana og vegna endurbóta á eldri húsum. R13070124
Samþykkt.

16. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 9. júlí 2013, þar sem lagt er til að Reykjavíkurborg hafni forkaupsrétti sínum í Lambhagaveg 25, Reykjavík, ásamt fylgigögnum. R13070099
Samþykkt.

17. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 18. júlí 2013, þar sem lagt er til að Reykjavíkurborg samþykki aðilaskipti á leigusamningi á verslunarhúsnæði að Langholtsvegi 70, ásamt fylgigögnum. R13060125
Samþykkt.

18. Lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar, dags. 1. júlí 2013, ásamt fylgigögnum, með tillögu um að áhugamannafélagið Veraldarvinir fái íbúðarhúsið að Holtsgötu 41b til leigu án endurgjalds til þriggja ára gegn því að koma því í viðunandi horf. Einnig er lögð fram tillaga að kynningarbréfi til nágranna dags. 8. júlí 2013. R13030007

Jafnframt eru lagðar fram að nýju svohljóðandi tillögur borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Lagt er til að íbúðarhúsið Stóra Sel sem stendur við Holtsgötu 41b, verði sett í söluferli. Húsið er steinbær með burstalagi byggt árið 1866 og er friðað. Það er í slæmu ástandi og þarfnast uppgerðar. Við mat á tilboðum verði tekið tillit til áforma kaupanda um uppgerð hússins.
Tillagan er felld með fimm atkvæðum gegn tveimur.

Lagt er til að samráð verði haft við eigendur íbúða og húsfélög sem liggja að Holtsgötu 41b, Stóra Seli, og þeim kynntar fyrirætlanir Reykjavíkurborgar varðandi umrætt hús og lóð áður en ákvarðanir verða teknar um framtíð.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum gegn tveimur. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðsluna.

Samþykkt með fimm atkvæðum gegn tveimur.

19. Lagt fram bréf skipulagsfulltrúa, dags. 15. júlí 2013, ásamt umsögn, dags. 12. júlí 2013, varðandi erindi Félags eldri borgara, dags. 29. apríl 2013, um úthlutun lóðar við Árskóga í Suður-Mjódd. R13040156
Vísað til meðferðar húsnæðishóps Reykjavíkurborgar.

20. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Búseta hsf. og framkvæmdastjóra Knattspyrnufélags Reykjavíkur, dags. 18. júlí 2013, varðandi mögulega uppbyggingu við Keilugranda 1. R13070173
Vísað til meðferðar húsnæðishóps Reykjavíkurborgar.

21. Samþykkt að skipa Ragnar Hansson varamann í heilbrigðisnefnd í stað
Sigurðar Eggertssonar. R11010051

22. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga staðgengils borgarstjóra, dags. 11. júlí 2013:
Í ljósi þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað síðustu misserum í málefnum samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks í Rússlandi er borgarlögmanni, mannréttindaskrifstofu og skrifstofu borgarstjóra og borgarritara falið að koma með tillögur að breytingum á eða uppsögn samstarfssamnings Reykjavíkur og Moskvu, að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið og Samtökin 78.
Greinargerð fylgir tillögunni. R13070091
Frestað.

23. Lögð fram að nýju fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna, dags. 11. júlí 2013 um trúnaðargögn vegna erindis Orkuveitu Reykjavíkur um sölu á skuldabréfi Magma Energy Sweden. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 24. júlí 2013. R13060112

24. Lögð fram skýrsla Deloitte hf., dags. 3. júlí 2013, um hjúkrunarheimilið Eir. R13070093
Borgarráð þakkar fyrir skýrslu Deloitte um Eir. Niðurstöður skýrslunnar og ábendingar undirstrika nauðsyn þess að fullkanna málefni Eirar af óháðum aðilum og viðeigandi stjórnvöldum.

25. Lögð fram svohljóðandi tillaga staðgengils borgarstjóra, dags. 23. júlí 2013:
Lagt er til að mannréttindaskrifstofa og skrifstofa borgarstjóra og borgarritara kanni möguleika á því að halda verkefninu Kaffi GÆS áfram að sumri loknu. Ennfremur verði skoðað hvernig megi nýta þá reynslu sem hlotist hefur af verkefninu til endurskoðunar á utanumhaldi atvinnumála fatlaðra á vegum Reykjavíkurborgar.
Greinargerð fylgir tillögunni. R13060002
Samþykkt.

26. Lögð fram svohljóðandi tillaga staðgengils borgarstjóra, dags. 19. júli 2013:
Lagt er til að fjárfestingaáætlun A-hluta Reykjavíkurborgar verið breytt og hún hækkuð um 50 mkr. á árinu 2013 til að fjármagna breytingar á hluta af húsnæði Perlunnar, Varmahlíð 1, Reykjavík. Þessi breyting verði fjármögnuð af handbæru fé.
Greinargerð fylgir tillögunni. R13030069
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá við afgreiðslu málsins.

27. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um lóð frístundarheimilisins Stjörnulands við Ingunnarskóla. Jafnframt lögð fram umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 24. júlí 2013. R13030009
Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar:
Borgarráð felur skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar að gera tillögu að útfærslu og framkvæmd við lagfæringu lóðar Stjörnulands við Ingunnarskóla, í samráði við umhverfis- og skipulagssvið til samræmis við meðfylgjandi greinargerð þar sem gert er ráð fyrir að Reykjavíkurborg greiði helming kostnaðar.
Borgarráð áréttar þó þá stefnu sína að frístundastarfsemi skuli fara fram innan veggja skólanna þar sem því verður við komið.
Samþykkt.

28. Fram fer umræða um rekstrarleyfi „kampavínsstaða#GL í Reykjavík. R13070169
Borgarráð felur formanni borgarráðs, borgarlögmanni og skrifstofustjóra borgarstjórnar að funda með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins og óskar eftir því að lögreglustjóri mæti á næsta fund borgarráðs til að veita upplýsingar um rekstrarleyfi kampavínsklúbba.

- Einar Örn Benediktsson víkur af fundinum kl. 12.45. Eva Baldursdóttir og Sóley Tómasdóttir víkja af fundinum kl. 13.04.

29. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Borgarráð beinir því til umhverfis- og skipulagssviðs að gripið verði til virkari aðgerða gegn vargfugli í Reykjavík. M.a. verði gripið til hertra aðgerða gegn mávi við Tjörnina og til að stemma stigu við mávavarpi í eyjum á Kollafirði. R09120094
Frestað.

30. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Borgarráð beinir því til umhverfis- og skipulagssviðs að efnt verði til átaks í því skyni að bæta umhirðu á opnum svæðum og við umferðargötur í borginni. Ekki síst þarf að huga betur að grasslætti í eystri hverfum borgarinnar. R13070174
Frestað.


Fundi slitið kl. 13.13

Dagur B. Eggertsson

Elsa Hrafnhildur Yeoman Júlíus Vífill Ingvarsson
Kjartan Magnússon