No translated content text
Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2013, fimmtudaginn 13. júní, var haldinn 5272. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Kjartan Magnússon, Óttarr Ólafur Proppé og Sóley Tómasdóttir. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Halldóra Káradóttir, Hallur Símonarson, Ólöf Örvarsdóttir og Hrólfur Jónsson.
Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 17. og 24. apríl og 10. maí 2013. R13020044
2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 23. apríl 2013. R13010012
3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 3. júní 2013. R13010015
4. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 7. júní 2013. R13010020
5. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. júní 2013. R13010028
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R13050048
7. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 5. júní 2013, sbr. samþykkt borgarstjórnar 4. s.m., um kosningu Kjartans Magnússonar í borgarráð í stað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og kosningu Gísla Marteins Baldurssonar sem varamanns í stað Kjartans Magnússonar. R12060089
- Kl. 9.07 tekur Júlíus Vífill Ingvarsson sæti á fundinum.
- Kl. 9.09 tekur Oddný Sturludóttir sæti á fundinum.
8. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Lagt er til að Reykjavíkurborg skoði kosti og undirbúi sölu Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. Fyrirtækið er hlutafélag sem er alfarið í eigu borgarinnar en starfar á útboðs- og samkeppnismarkaði. Forsendur fyrir því að Reykjavíkurborg starfræki malbikunarstöð eiga ekki lengur við og það er ekki hlutverk Reykjavíkurborgar að standa í áhættusömum samkeppnisrekstri. Lóðasamningur hefur ekki verið gerður við fyrirtækið og þarf að ganga frá lóðamálum þess áður en það verður sett í söluferli.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Jafnframt lögð fram umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 13. júní 2013. R13010251
Tillagan felld með 4 atkvæðum gegn 2.
Borgarráðfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram tillögu í borgarráði 31. janúar 2013 um að skoðaður yrði fýsileiki þess að setja Malbikunarstöðina Höfða í söluferli. Seinagangur í Ráðhúsinu er orðinn vel þekktur. Malbikunarstöðin Höfði hf. starfar á frjálsum samkeppnismarkaði en er alfarið í eigu Reykjavíkurborgar. Ekkert réttlætir slíka sérstöðu einnar malbikunarstöðvar sem er í samkeppni við önnur fyrirtæki í sömu grein. Iðnrekstur borgarinnar skekkir samkeppnismyndina og dregur úr líkum á nýliðun enda ekki fýsilegt að keppa við stærsta sveitarfélag landsins. Það er augljóst hagsmunamál íbúa á höfuðborgarsvæðinu að á þessu sviði ríki frjáls samkeppni. Malbikunarstöðin stendur á verðmætri lóð við Sævarhöfða og stefnt er að því að svæðið þróist yfir í íbúðarbyggð í framtíðinni eins og önnur svæði á Höfðanum. Sú ástæða er tilgreind fyrir því að selja ekki malbikunarstöðina að ekki sé hægt að finna aðra heppilega lóð í borgarlandinu. Ekkert hefur verið gert til að auka framboð iðnaðarlóða á þessu kjörtímabili og nú getur Reykjavíkurborg ekki einu sinni fundið lóð fyrir eigið fyrirtæki.
9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. júní 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs þann 5. júní sl., um auglýsingu á breyttu deiliskipulagi Norðlingaholts vegna bensínstöðvarlóðar að Elliðabraut 2. R13060034
Samþykkt.
Bókun borgarráðs:
Hér er um að ræða breytingu á gömlu skipulagi á lóð sem þegar hefur verið úthlutað. Umhverfis- og skipulagsráð áréttar að í gildi er stefna um orkustöðvar í Reykjavík sem gerir ekki ráð fyrir fleiri stórum stöðvum í landi borgarinnar.
10. Lagt fram bréf sviðsstýru umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júní 2013, vegna tillögu borgarstjóra frá fundi borgarráðs 6. febrúar sl., um fegrun Fellagarða. R13020010
Samþykkt.
11. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. í dag:
Borgarráð samþykkir að veita skóla- og frístundasviði 54 m.kr. í viðbótarfjárveitingu vegna fjölgunar barna í leikskólum í Reykjavík haustið 2013 um 110. Þar af er gert ráð fyrir að ráðstafa til innri leigu 5,1 m.kr. sem eykur tekjur eignasjóðs sem því nemur. Fjármagnið verður tekið af liðnum ófyrirséð, kostnaðarstað 09205.
Greinargerð fylgir tillögunni. R13050065
Vísað til borgarstjórnar.
12. Lagðir fram almennir lóða- og framkvæmdaskilmálar, dags. í júní 2013, ásamt bréfi skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar, dags. 10. júní 2013, um breytingu á almennum lóða- og framkvæmdaskilmálum fyrir lóðir í Reykjavík. R13020140
Samþykkt. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Útboð á lóðum getur kallað fram sannvirði lóða en reynslan sýnir að útboð lóða hefur oftar haft mjög varhugaverðar afleiðingar og valdið verðbólu. Til að útboð sé sanngjörn leið gagnvart lóðakaupendum þurfa að vera til staðar mjög skýrar ytri aðstæður. Þær eru að á sama tíma séu lóðir seldar á föstu verði og að lóðir sem settar eru í útboðsferli séu af einhverjum ástæðum verðmætari en aðrar lóðir t.d. vegna útsýnis. Einnig er mikilvægt að lóðaframboð sé nægilega mikið þannig að lóðakaupendur hafi val og þurfi ekki að bjóða í lóðir. Nú eru lóðir í Reykjavík mjög fáar og uppfylla eftirspurn einungis um skamman tíma, jafnvel aðeins í nokkra mánuði. Hægagangur í skipulagsmálum á þessu kjörtímabili hefur verið slíkur að engar nýjar lóðir, hvorki fyrir fjölskyldur né atvinnufyrirtæki, munu verða á boðstólnum innan skamms í Reykjavík. Við slíkar aðstæður er ekki ráðlegt að taka upp útboð lóða.
13. Lagðir fram útboðsskilmálar vegna byggingarréttar fyrir íbúðarhús við Reynisvatnsás, dags. í júní 2013, ásamt bréfi skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar, dags. 10. júní 2013. R13060035
Samþykkt. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
14. Lagðir fram útboðsskilmálar fyrir íbúðarhús í Úlfarsárdal, dags. í júní 2013, ásamt bréfi skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar, dags. 10. júní 2013. R13060036
Samþykkt. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
15. Lagt fram bréf skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar, dags. 11. júní 2013, um upplýsingar um lóðasölu hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. R13060041
16. Lagt fram bréf skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar, dags. 4. júní 2013, varðandi lóðir fyrir leiguhúsnæði í Úlfarsárdal. R13060014
Samþykkt.
17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 11. júní 2013:
Lagt er til að borgarráð samþykki að fela umhverfis- og skipulagssviði í samstarfi við skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að leggja drög að forsögn og undirbúa tveggja þrepa hönnunarsamkeppni um uppbyggingu þjónustumannvirkja fyrir Úlfarsárdal og Grafarholt. Forsögn samkeppninnar verði lögð fyrir umhverfis- og skipulagsráð og borgarráð áður en hún verður auglýst. Jafnframt verði hafinn undirbúningur að endurskoðun deiliskipulags hverfisins.
Greinargerð fylgir tillögunni. R12110045
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Við styðjum að efnt verði til hönnunarsamkeppni um uppbyggingu umræddra þjónustumannvirkja. Við tökum jafnframt undir þá skoðun íbúasamtaka Grafarholts og Úlfarsárdals og Knattspyrnufélagsins Fram að of langt sé gengið í að draga úr byggð í Úlfarsárdal eins og lagt er til í drögum að nýju aðalskipulagi. Þá minnum við á mikilvægi þess að unnið verði að málinu í góðu samstarfi við umrædda hagsmunaaðila ásamt hverfisráði Grafarholts og Úlfarsárdals og að þessir aðilar verði reglulega upplýstir um framvindu málsins.
18. Lagt fram bréf skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar, dags. 10. júní 2013, þar sem lagt er til að Reykjavíkurborg hafni forkaupsrétti og samþykki að Arion banki hf. verði lóðarhafi lóðar nr. 8 við Lofnarbrunn með nánar tilgreindum skilmálum. R13050152
Samþykkt.
19. Kynnt er þriggja mánaða uppgjör fyrir janúar til mars 2013.
Gísli H. Guðmundsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R13060023
20. Lögð fram ályktun Skógræktarfélags Reykjavíkur, dags. 4. júní 2013, um skemmdarverk sem unnin voru á útivistarsvæði í Breiðholtshvarfi. R13050147
21. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur, dags. 4. júní 2013, þar sem mótmælt er áformum um trjáfellingar í Öskjuhlíð. R13050147
22. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 3. júní 2013, í máli nr. E-2059/2012, Jakup Musial gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. R11020052
23. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 11. júní 2013, um samning milli Reykjavíkurborgar og Skákakademíu Íslands 2013-2015. R07020021
Samþykkt.
24. Lagt fram til kynningar bréf borgarritara, dags. 11. júní 2013, um verklagsreglur um farsíma starfsmanna Reykjavíkurborgar. R13050176
25. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Þar sem misvísandi upplýsingar hafa komið fram um stöðu liðarins ófyrirséð 09205 á fundum borgarráðs að undanförnu er óskað eftir stöðu hans núna, yfirliti yfir nýtingu hans það sem af er ári og þau verkefni sem fyrirhugað er að nýta liðinn í. R12010171
26. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar eftir upplýsingum um framvindu mála varðandi vinnu við að eyða kynbundnum launamun hjá borginni. Nú er ansi langt um liðið frá því starfshópi var falið að vinna úr niðurstöðum annars starfshóps um málið og æskilegt að hægt verði að grípa til aðgerða áður en langt um líður. R10090203
27. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi tillögu:
Á fundi borgarráðs 6. maí sl. var lögð fram tillaga um að setja tilgreindar þrjár fasteignir borgarinnar í söluferli. Ekki var lagt fram mat sérfræðinga á eftirspurn eftir slíkum eignum eða mat á áætlaðri þróun fasteignaverðs. Óskað er eftir því að á næsta fundi borgarráðs verði lagt fram álit fasteignasala varðandi eftirspurn eftir eignum í miðborginni. Þá verði einnig lagður fram listi yfir aðrar fasteignir, m.a. í miðborginni, sem eru í eigu borgarinnar og mat fasteignasala á því hvort fýsilegt sé að setja þær í sölumeðferð ásamt verðmati. R13060057
Frestað.
28. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að skipaður verði samráðshópur sem greini og komi með tillögur að því hvernig bæta megi þjónustu Reykjavíkurborgar við byggingariðnaðinn. Hópurinn skoði sérstaklega hvort hægt sé að einfalda afgreiðsluferil erinda og gera þjónustuna skilvirkari. Hann setji fram gæðastaðla og tillögur að eftirfylgni og varanlegu samráði framkvæmdaaðila og borgarinnar. Samráðshópurinn verði skipaður fulltrúum Samtaka iðnaðarins og Reykjavíkurborgar. Gerður verði samanburður á þjónustustigi Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Hópurinn verði skipaður af borgarráði og skili tillögum sínum til ráðsins. R13060056
Frestað.
Fundi slitið kl. 10.53
Óttarr Ólafur Proppé
Björk Vilhelmsdóttir Einar Örn Benediktsson
Júlíus Vífill Ingvarsson Kjartan Magnússon
Oddný Sturludóttir Sóley Tómasdóttir