Borgarráð - Fundur nr. 5264

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2013, fimmtudaginn 18. apríl, var haldinn 5264. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.05. Viðstödd voru Óttar Ólafur Proppé, Jón Gnarr, borgarstjóri, Einar Örn Bendiktsson, Oddný Sturludóttir, Marta Guðjónsdóttir og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lagðar fram fundargerðir heilbrigðisnefndar frá 12. febrúar, 12. mars og 9. apríl 2013. R13010008

2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 12. apríl 2013. R13010020

3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R13030128

4. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um 12 rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R13040002

5. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs, ásamt fylgigögnum, dags. 18. apríl 2013. R13010039
Samþykkt að veita eftirtalda styrki:
Söngfuglar, kór eldri borgara kr. 100 þús.
Brunavarðafélag Íslands kr. 300 þús.
Jón Ólafsson f.h. Eddu Öndvegisseturs kr. 485 þús.

- Kl. 9.08 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 15. apríl 2013, ásamt kjörskrám í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður vegna alþingiskosninga 27. apríl nk. Á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi norður eru 45.573, en 45.207 í Reykjavíkurkjördæmi suður. R12110021
Samþykkt.

7. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 15. apríl 2013, um skipan hverfiskjörstjórna og undirkjörstjórna í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður við alþingiskosningar 27. apríl nk. R12110021
Samþykkt.

8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. apríl 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs 10. apríl sl., um auglýsingu á tillögu að breytingu deiliskipulags Mela og Grímstaðaholts vegna lóðar nr. 1 við Hagamel, Melaskóla. R13040060
Frestað.

9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. apríl 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs 10. apríl sl., um auglýsingu á tillögu að breytingu deiliskipulags Þróttarsvæðis vegna lóðar nr. 11 við Holtaveg. R13040058
Samþykkt.

10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. apríl 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs 10. apríl sl., um auglýsingu á tillögu að breytingu deiliskipulags lóða nr. 1, 3, 5 og 7 við Norðurgrund á Kjalarnesi. R13040059
Samþykkt.
Ágústa Sveinbjörnsdóttir tekur sæti á fundinum undir liðum 8-10.

11. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. apríl 2013, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs 10. apríl sl., um tillögu að breytingu á reglum um leikskólaþjónustu. R13020060
Samþykkt.

12. Lögð fram umsögn borgarritara, dags. 16. apríl 2013, um erindi Ástráðs Haraldssonar hrl., dags. 20. febrúar 2013, varðandi lóð á horni Njarðargötu og Eggertsgötu. R13020120
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá við afgreiðslu málsins.

13. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. apríl 2013:
Lagt er til að borgarráð geri heildarsamning við Heimili kvikmyndanna ses. vegna rekstrar Bíós Paradísar. Árlegt framlag nemur nú 5,5 m.kr. Lagt er til viðbótarframlag sem nemi 6,5 m.kr. árlega, auk framlags vegna kvikmyndafræðslu fyrir börn og unglinga sem nemi 2,5 m.kr. árlega á tímabilinu 1. janúar 2013 til 31. desember 2015. Samtals er upphæðin því 14,5 m.kr. á ári tímabilið 2013-2015. Menningar- og ferðamálasviði er falið að gera samning við Heimili kvikmyndanna á grundvelli fyrirliggjandi samnings og annast eftirlit með honum. Samningurinn skal gerður með fyrirvara um að Heimili kvikmyndanna ses. fái að lágmarki jafnhátt framlag frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til rekstrarins og með fyrirvara um fjárhagsáætlun 2014-2015. Skal það staðfest með sérstökum samningi milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Heimilis kvikmyndanna ses. Viðbótarframlag fyrir árið 2013, 9 m.kr., skal fjármagna af liðnum ófyrirséð, kostnaðarstaður 09205.
Greinargerð fylgir tillögunni. R13010144
Samþykkt með fimm atkvæðum gegn tveimur. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði gegn tillögunni og vísa til bókunar sinnar í menningar- og ferðamálaráði.
Svanhildur Konráðsdóttir og Signý Pálsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. apríl 2013:
Lagt er til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg verði formlegur samstarfsaðili að verkefninu Spirit of Humanity Forum.Tilgangur verkefnisins er að skapa alþjóðlegan vettvang sem reglulega leiðir saman og stuðlar að tengslum milli áhrifafólks og leiðtoga víðs vegar að úr heiminum, sem vilja stuðla að friði og auka mannúð á öllum sviðum samfélaga. Reykjavíkurborg var gestgjafi og tók þátt í að skipuleggja ráðstefnu undir þessum merkjum árið 2012 og er nú stefnt að öðrum alþjóðlegum viðburði með svipuðu sniði í Reykjavík í apríl 2014. Skipuð verði 3ja manna verkefnisstjórn er haldi utan um verkefnið. Samstarfsaðilar að verkefninu eru svissnesku samtökin Education 4 Peace Foundation, góðgerðarsamtökin Guerrand-Hermès Foundation for Peace, Brahma Kumaris World Spiritual University og World Servers Foundation, sem hefur haldið utan um undirbúning til þessa. Kostnaður vegna undirbúnings á árinu 2013 er 10.000 evrur (um 1,5 m.kr.) fyrir hvern aðila sbr. hjálögð drög að samkomulagi, og greiðist framlag Reykjavíkurborgar af liðnum ófyrirséð, kostnaðarstaður 09205.
Greinargerð fylgir tillögunni. R10120039
Frestað.
Svanhildur Konráðsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

15. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 12. apríl 2013, sbr. samþykkt velferðarráðs 11. apríl sl., um úthlutun hvatningarverðlauna velferðarráðs. R13040056

16. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 12. apríl 2013, sbr. samþykkt velferðarráðs 11. apríl sl., um stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara til ársins 2017. R13040057
Vísað til borgarstjórnar.
Stella K. Víðisdóttir og Berglind Magnúsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags, 10. apríl 2013:
Borgarráð samþykkir breytingu á stjórnskipulegri stöðu Bílastæðasjóðs. Bílastæðasjóður verði sjóður í eigu Reykjavíkurborgar með sjálfstæðan fjárhag og heyri undir bílastæðanefnd í umboði borgarráðs. Bílastæðanefnd starfi á grunni hjálagðra samþykkta.
Greinargerð fylgir tillögunni. R12110126
Tillagan er samþykkt og samþykkt að skipa Karl Sigurðsson, Kristínu Soffíu Jónsdóttur og Gísla Martein Baldursson í nefndina. Sóley Tómasdóttir verður áheyrnarfulltrúi.

18. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 9. apríl 2013, ásamt tillögu að eigendastefnu fyrir Stræó bs., sbr. samþykkt stjórnar SSH 8. apríl sl. R12040059
Vísað til borgarstjórnar.

19. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 9. apríl 2013, ásamt tillögu að eigendastefnu fyrir Sorpu bs., sbr. samþykkt stjórnar SSH 8. apríl sl. R12040059
Vísað til borgarstjórnar.

20. Lagt fram álit borgarlögmanns, dags. 16. apríl 2013, um sérstaka úttekt innri endurskoðenda á sölu Orkuveitu Reykjavíkur á eignarhlut REI í tveimur félögum. Einnig lagt fram svar innri endurskoðunar við fyrirspurn, dags. 16. apríl 2013. R11020039

21. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. apríl 2013:
Lagt er til að meðfylgjandi samningur á milli Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna sf., um frágang vegna gatnagerðar er tengist lóð sem félagið úthlutaði til HB Granda hf. á Norðurgarði eins og nánar er lýst í hjálögðum drögum að samningi, verði samþykktur. Samkvæmt samningsdrögum greiðir Reykjavíkurborg Faxaflóahöfnum sf. kr. 67.000.000 að viðbættum 25,5#PR virðisaukaskatti, eða samtals kr. 84.085.000, sem fjármagnað er af kostnaðarstað 4200. R13040034
Samþykkt.

22. Fram fer kynning á ársreikningi Reykjavíkurborgar 2012. R12110037
Halldóra Káradóttir og Gísli Guðmundsson frá fjármálaskrifstofu, Stella K. Víðisdóttir og Hörður Hilmarsson frá velferðarsviði, Valgerður Janusdóttir og Kristín Eglisdóttir frá skóla- og frístundasviði taka sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig taka sæti á fundinum fulltrúar frá Orkuveitu Reykjavíkur, Félagsbústöðum og formaður endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar Ólafur Kristinsson.

23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. apríl 2013:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að veita Félagsbústöðum hf. heimild til að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga fyrir allt að 2,8 milljörðum með veði í útsvarstekjum Reykjavíkurborgar til að endurfjármagna uppgreiðslu á skuldabréfaflokknum FEL 97 1a.
Geinargerð fylgir tillögunni. R13040071
Vísað til borgarstjórnar.

24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. apríl 2013:
Lagt er til að heimilt verði að verja allt að 15 m.kr. af liðnum atvinnumál, kostnaðarstað 07150, til að fjármagna allt að 75 störf í sumarátaki fyrir námsmenn.
Greinargerð fylgir tillögunni. R13030069
Samþykkt.
Helga Björg Ragnarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

25. Lagður fram þjónustusamningur milli Reykjavíkurborgar og Reykjavíkurakademíunnar, dags. 4. apríl 2013. R09010097

26. Lagt fram bréf fjármálastjóra, dags. 16. apríl 2013, um viðauka við fjárhagsáætlun 2013. R13030069
Vísað til borgarstjórnar.

27. Lagt fram bréf fjármálastjóra, dags. 15. apríl 2013, um endurskoðun gjalddaga fasteignagjalda árið 2013. R13030069
Samþykkt.

28. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Nú hefur alllangur tími liðið frá því borgarráð samþykkti að endurskoða innheimtureglur borgarinnar vegna þjónustu við börn. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar eftir upplýsingum um framgang málsins og hvenær niðurstaðna sé að vænta. R11090110

29. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Borgarráð samþykkir að í samstarfi við Vegagerð ríkisins og Strætó bs. verði kannaðir tiltækir kostir við að bæta umferðartengingar við Grafarholt, íbúum hverfisins til hagsbóta og með það að markmiði að fjölga möguleikum Strætó bs. á að bæta þjónustu við hverfið. Athugaðir verði kostir þess að leggja afrein af Suðurlandsvegi (norðurstefnu) inn á Krókháls til austurs í átt að Grafarholti og/eða afrein af Vesturlandsvegi (austurstefnu) inn í hverfið að vestanverðu. R13040092
Frestað.

Fundi slitið kl. 12.48

Óttarr Ólafur Proppé
Einar Örn Benediktsson Jón Gnarr
Kjartan Magnússon Marta Guðjónsdóttir
Oddný Sturludóttir Sóley Tómasdóttir