Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2013, fimmtudaginn 14. mars, var haldinn 5260. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.00. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Óttarr Proppé, Hjálmar Sveinsson, Júlíus Vífill Ingvarsson og Kjartan Magnússon. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Kristbjörg Stephensen, Anna Margrét Jóhannesdóttir, Hrólfur Jónsson og Ólöf Örvarsdóttir.
Fundarritari var Helga B. Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 12. janúar 2013. R13010009
2. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 27. febrúar og 4. mars 2013. R13010011
3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 12. febrúar 2013. R13010012
4. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu frá 11. mars 2013. R13010030
5. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. mars 2013. R13010028
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
Dagur B. Eggertsson víkur af fundi við afgreiðslu málsins.
6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. R13030017
7. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs, dags. 14. mars 2013, ásamt fylgigögnum. R13010039
- Kl. 9.15 tekur Sóley Tómasdóttir sæti á fundinum.
8. Fram fer kynning á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, borg fyrir fólk. R11060102
Haraldur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
9. Lagt fram bréf sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. mars 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs 6. s.m., um breytingu á deiliskipulagi Pósthússtrætisreits vegna lóðar nr. 11 við Pósthússtræti. R12110160
Samþykkt.
- Kl. 10.05 tekur Oddný Sturludóttir sæti á fundinum og Hjálmar Sveinsson víkur.
10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. mars 2013:
Borgarráð staðfestir hjálagðan samning Reykjavíkurborgar við Náttúruminjasafn Íslands um leigu á húsnæði fyrir safnið í Perlunni. Samningurinn er gerður með fyrirvara um að Reykjavíkurborg bæði kaupi Perluna af Orkuveitu Reykjavíkur og taki að auki á leigu vatnstank sem er skilgreindur sérstaklega í samningnum. R12110049
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að afgreiðslu á fyrirliggjandi tillögu verði frestað þar sem mikilvæg gögn í málinu hafa hvorki verið kynnt í borgarráði né borgarstjórn. Í því skyni að upplýsa borgarfulltrúa um þetta mál, sem snertir ríka almannahagsmuni, óskar borgarráð eftir því að stjórn Orkuveitunnar aflétti leynd af minnisblaðinu Sala Perlunnar og þörf OR fyrir tankarými frá 2013-2023, sem lagt var fram á stjórnarfundi fyrirtækisins 14. desember sl. Í minnisblaðinu koma fram mikilvægar upplýsingar um þörf Orkuveitunnar fyrir tankarými m.t.t. afhendingaröryggis hitaveitunnar í vesturhluta borgarinnar og mjög ákveðin varnaðarorð, sem gaumgæfa þarf áður en endanleg ákvörðun verður tekin um leigu á hitaveitugeymi undir sýningarhald á umræddu tímabili.
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna sitjur hjá við afgreiðslu málsins.
Tillaga borgarstjóra samþykkt með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Afhendingaröryggi hitaveitunnar til borgarbúa er algjört forgangsmál. Ríkir almannahagsmunir búa þar að baki. Það er með miklum ólíkindum að meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins skuli ásamt Vinstri grænum koma í veg fyrir að borgarfulltrúar og almenningur geti með viðhlítandi hætti kynnt sér mikilvæg gögn þess máls, sem til afgreiðslu er og varðar afhendingaröryggi. Á þessum fundi borgarráðs var tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um að allar upplýsingar málsins yrðu lagðar fram felld af meirihlutanum. Sú leyndarhyggja, sem borgarstjórnarmeirihlutinn hefur að leiðarljósi með svo vafasömum vinnubrögðum vekur enn frekari spurningar um málið, raunverulegan tilgang þess og forsendur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa stutt sölu eigna OR og studdu að Perlan yrði seld á frjálsum markaði en með skýrum ákvæðum um nýtingu og skipulag. Meirihluti Samfylkingar, Besta flokksins og Vinstri grænna vill kaupa Perluna af Orkuveitu Reykjavíkur á 950 milljónir króna. Hafa ber í huga að Reykjavíkurborg á 93,5#PR í Orkuveitunni og því er hér aðeins um að ræða flutning fjár úr einum vasa í annan. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja þetta óverjandi aðgerð, sem ekki tekur mið af fjárhagslegum hagsmunum Reykvíkinga. Perlan var ekki byggð sem náttúruminjasafn og ábendingar hafa komið fram frá fagmönnum um að ráðast þurfi í kostnaðarsamar framkvæmdir svo húsið henti til slíkra nota. T.d. skal efast um að sú áætlun standist að einungis kosti 100 milljónir króna að smíða milliloft o.fl. í þessu sérstæða húsi en samkvæmt gögnum málsins er ljóst að allur kostnaður við breytingar á því lendir á Reykjavíkurborg. Í tengslum við kaup Reykjavíkurborgar á Perlunni fyrir 950 milljónir króna, gaf formaður borgarráðs út yfirlýsingar í fjölmiðlum um að sú leið, að selja Perluna til fjárfesta, hafi ekki reynst fær þar sem öll tilboð hafi verið með fyrirvara um byggingu hótels eða aðra uppbyggingu í Öskjuhlíð. Á þessum fundi hefur forstjóri Orkuveitunnar staðfest að í maí sl. barst Orkuveitunni formlegt kauptilboð í Perluna að upphæð 950 milljóna króna frá einkaaðila hér í borg, sem var án fyrirvara um slíkar skipulagsbreytingar. Umræddar fullyrðingar formanns borgarráðs um sölu Perlunnar eiga því ekki við rök að styðjast. Benda þessar yfirlýsingar til þess að miðlun upplýsinga milli borgarráðs Reykjavíkur og stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur sé stórlega ábótavant.
11. Lögð fram skýrsla Veðurstofu Íslands, VÍ 2012-017, varðandi veðurmælingar á Hólmsheiði ásamt minnisblaði Mannvits dags. 16. janúar 2013.
Þorsteinn R. Hermannsson tók sæti á fundinum undir þessum lið.
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að skýrsla Veðurstofu Íslands um veðurmælingar á hugsanlegu flugvallarstæði á Hólmsheiði verði send til Isavia, Landsnets, Flugfélags Íslands, Flugfélagsins Ernir og annarra rekstraraðila á flugvallarsvæðinu til umsagnar. Leitað verði álits og ráðgjafar þessara aðila varðandi mat á Hólmsheiðinni fyrir flugvöll og flugstarfsemi. Sömu aðilum verði sendar allar upplýsingar sem tiltækar eru varðandi efnið. R13030062
Frestað.
12. Lagðar fram greinargerðir ÍSOR um grunnvatnsmælingar og vatnsvernd á Hólmsheiði.
Þorsteinn R. Hermannsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. R13030063
13. Lagt fram bréf skrifstofustjóra umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. mars 2013, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs 6. s.m., varðandi framkvæmdir við nýtt pottasvæði við Vesturbæjarlaug. R12030102
Rúnar Gunnarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir ánægju sinni með tillögu um barnapott við Vesturbæjarlaug. Hins vegar er lýst yfir vonbrigðum með að í uppdráttum skuli ekki vera gert ráð fyrir þeim möguleika að vatnsrennibraut verði komið fyrir á svæðinu. Um 120 ábendingar bárust frá sundlaugargestum vegna umræddra framkvæmda og þar áttu hugmyndir um vatnsrennibraut langmestu fylgi að fagna. Hægðarleikur væri að koma slíkri braut fyrir á svæðinu án þess að svipmóti og sjarma gömlu laugarinnar væri raskað. Þá er harmað að í vinnu við framtíðarskipulag Vesturbæjarlaugar virðist lítið sem ekkert samráð hafa verið haft við grasrótarsamtök í Vesturbænum eins og við sjálfstæðismenn höfðum þó óskað eftir, s.s. Knattspyrnufélag Reykjavíkur, Íbúasamtök Vesturbæjar, Prýðifélagið Skjöld og Mími-vináttufélag Vesturbæjar. En fulltrúar meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins felldu tillögu sjálfstæðismanna um að samráð yrði haft við þessa aðila um framtíðarþróun laugarinnar á fundi ÍTR 13. janúar 2012.
14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. mars 2013, ásamt verkstöðuskýrslu nýframkvæmda árið 2012. R10110008
Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
15. Lagt fram að nýju bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 7. febrúar 2013, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs þann 6. febrúar sl. á tillögum að breytingum á reglum skóla- og frístundasviðs um niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum. Jafnframt lögð fram umsögn borgarlögmanns, dags. 18. febrúar 2013. R13020060
Samþykkt.
16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. mars 2013:
Borgarráð staðfestir samkomulag Reykjavíkurborgar við fjármála- og efnahagsráðuneytið f.h. ríkissjóðs um skipulag og uppbyggingu á landi ríkisins við Skerjafjörð sem undirritað var með fyrirvara hinn 1. mars 2013.
Greinargerð fylgir tillögunni. R12100372
Samþykkt.
17. Lagt fram bréf innanríkisráðuneytisins, dags. 5. febrúar 2013, varðandi úrskurð ráðuneytisins í stjórnsýslukæru Berglindar Karítas Þórsteinsdóttur. R12020146
18. Lagður fram dómur Hæstaréttar í máli nr. 115/2013, Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis gegn íslenska ríkinu, Íbúasamtökum Kjalarness, Eiríki H. Sigurðssyni, Sigrúnu Árnadóttur og Reykjavíkurborg. R12080064
19. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 13. mars 2013, um rafræna gagnagátt um fjármál Reykjavíkurborgar. Jafnframt lögð fram drög að erindisbréfi starfshóps um útfærslu og innleiðingu gagnagáttar um fjármál Reykjavikurborgar. R12090165
20. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 13. mars 2013, ásamt svari skrifstofustjóra skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 11. mars 2013, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi valkosti sem hafa verið skoðaðir til að bæta úr aðstöðu í Grafarvogi til íþróttaiðkunar í hverfinu í tengslum við starf Fjölnis, skólanna og óskir íbúa. R13010249
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Vakin er athygli á því að í framlögðu svari við fyrirspurn um aðstöðu íþróttafélaga í Grafarvogi, dags. sl. mánudag, kemur ekki fram að í síðustu viku samþykkti íþrótta- og tómstundaráð einróma að vísa eftirfarandi tillögu Sjálfstæðisflokksins til skoðunar í samstarfshópi Reykjavíkurborgar og Fjölnis: Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að óska eftir viðræðum milli Reykjavíkurborgar, Mosfellsbæjar og ríkisvaldsins um samstarf um byggingu íþróttahúss við Borgarholtsskóla. Miðað verði við að húsið verði samnýtt í þágu Borgarholtsskóla og íþróttastarfs Ungmennafélagsins Fjölnis í Grafarvogi.
21. Lagt fram bréf Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, dags. 25. febrúar 2013, með ósk um sameiginlega húsnæðisleit á miðborgarsvæðinu fyrir þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða og heilsugæslustöð sem þjónaði vestur- og miðborg Reykjavíkur. R13030064
Samþykkt að fela sviðsstjóra velferðarsviðs og skrifstofustjóra skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að vinna að málinu með Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þjónustumiðstöðinni.
22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:
Borgarráð gerir ekki athugasemdir við meðfylgjandi drög innanríkisráðuneytisins að reglum um brottflutning ökutækja í Reykjavík.
Jafnframt eru lögð fram drög innanríkisráðuneytisins að reglum um brottflutning ökutækja og umsögn framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs, dags. 13. mars 2013, um reglurnar. R11120034
Samþykkt.
23. Rætt um uppbyggingu og skipulag Úlfarsárdals. R13020140
Björn Axelsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fundi slitið kl. 12.47
Dagur B. Eggertsson
Elsa Hrafnhildur Yeoman Júlíus Vífill Ingv arsson
Kjartan Magnússon Oddný Sturludóttir
Óttarr Ólafur Proppé Sóley Tómasdóttir