No translated content text
Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2012, fimmtudaginn 20. september, var haldinn 5234. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09.10. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Hjálmar Sveinsson, Óttarr Ólafur Proppé og Sóley Tómasdóttir. Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 13. september. R12010018
2. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 14. september. R12010020
3. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 19. september. R12010027
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
- Kl. 9.10 taka Júlíus Vífill Ingvarsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir sæti á fundinum.
4. Fram fer kynning á stöðu mála vegna kjarasamninga leikskólakennara. R12090046
Karl Björnsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar frá 17. september þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning um hluta af Grandagarði 2, til loka október 2012. R12010197
Samþykkt.
6. Lögð fram tillaga skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar frá 17. september um að borgarráð heimili eignasjóði að bjóða út og festa kaup á íshefli fyrir ÍTR og Skautahöllina. Jafnframt er lögð fram umsögn fjármálastjóra frá 17. september. R12090070
Frestað.
7. Kynnt er mánaðarlegt rekstraruppgjör A-hluta janúar-júlí 2012. R11120032
8. Lögð fram tillaga borgarstjóra frá 19. september um breytingar á fjárhagsáætlun 2012.
Greinargerð fylgir tillögunni. R12050089
Vísað til borgarstjórnar.
9. Lagt fram svar fjármálastjóra dags. 18. september, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um þróun launa og launakostnaðar sem lögð var fram á fundi borgarráðs 13. september. R12080066
10. Lagt fram minnisblað fjármálastjóra frá 18. september um forsendur og áhrif fjárlagafrumvarps á fjárhagsáætlun 2013. R12010171
11. Lagðar fram tillögur vinnuhóps um sameiginlegt útboð sveitarfélaga á akstri vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Einnig er lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs dags. 10. september, sbr. samþykkt velferðarráðs þann 6. september á umsögn ráðsins og umsögn mannréttindaráðs frá 18. september. R11020021
Vísað til borgarstjórnar.
Lögð fram svohljóðandi umsögn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokks um tillögur vinnuhóps um sameiginlegt útboð sveitarfélaga á akstri vegna ferðaþjónustu við fatlað fólk:
Borgarráð vill að mannréttinda fatlaðs fólks verði ætíð gætt og að unnið verði að þjónustu við fatlað fólk í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Nú er verið að huga að útboði í ferðaþjónustu með það að markmiði þróa þjónustuna í takt við þarfir notenda, gera hana sveigjanlegri og að þjónustustig verði eflt með samdægursþjónustu. Er talið að þetta sé hægt innan núverandi fjárhagsramma þar sem hagræðingu má ná fram með útboði. Því finnst borgarráði rétt að SSH (Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu) vinni áfram útboð í ferðaþjónustu fatlaðra. Mikilvægt er að SSH hafi samráð við notendur og hagsmunasamtök þeirra vinni málið þannig að sátt sé um ferðaþjónustuna við notendur og hagsmunasamtök þeirra m.a. við gerð útboðsgagna þar sem þjónustuviðmið verða skilgreind.
Borgarráð leggur áherslu á þau sjálfsögðu mannréttindi fatlaðs fólks og allra að almenningssamgöngur eigi að vera aðgengilegar öllum. Í lögum um málefn fatlaðs fólks kemur fram að sveitarfélög skulu gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu. Markmið ferðaþjónustu fatlaðs fólks er að gefa þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Meðan almenningssamgöngur geta ekki mætt þörfum stórs hóps fatlaðs fólks felst virðing við hópinn í því að viðurkenna að hann þarfnist sértækra úrræða og leita leiða til að mæta þeirri þörf.
Samþykkt með 6 atkvæðum gegn 1.
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna að umsögn:
Reykjavíkurborg efast ekki um kosti þess að samræma ferðaþjónustu fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu, en getur ekki fallist á útboð. Ferðaþjónusta fatlaðra á að vera sjálfsagður hluti almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og eðlilegast að Strætó bs annist hana, fyrirtæki sem hefur það meginhlutverk að reka almenningsvagna, ferðaþjónustu fatlaðra og ferðaþjónustu eldri borgara. Auk þess er fyrirtækið í eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og á forræði almennings. Reykjavíkurborg hefur einsett sér að tryggja jafnan aðgang fólks að þjónustu, m.a. með mannréttindastefnu borgarinnar. Þar segir að þjónusta borgarinnar skuli taka mið af þörfum ólíkra hópa og er þar hvorki ferðaþjónusta fatlaðra né almenningssamgöngur undanskildar. Það er þannig markmið borgarinnar að tryggja aðgengi allra að þjónustu Strætó bs, en í því felst að fyrirtækið starfi í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og bæti m.a. aðgengi að vögnum og strætóstöðvum. Það á að vera forgangsmál, en ekki að fela öðrum að mæta þessum sjálfsögðu kröfum. Útboð á ferðaþjónustu fatlaðra samræmist því ekki markmiðum borgarinnar.
Tillagan er felld með 6 atkvæðum gegn 1.
Í samræmi við ákvæði 4. mgr. 5. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007 verður málið fullnaðarafgreitt í borgarráði.
12. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs frá 11. september sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 5. september á gjaldskrá frístundahluta tilraunaverkefnis í 1. og 2. bekk Fellaskóla o.fl.
Greinagerð fylgir tillögunni. R12090057
Samþykkt.
13. Lagt fram bréf verkefnastjóra menningar- og ferðamálasviðs frá 11. september ásamt sjö samningum milli Reykjavíkurborgar og tilgreindra hátíða um framlag úr Borgarhátíðarsjóði til þriggja ára. Óskað er staðfestingar borgarráðs. R12090058
Samþykkt.
14. Lagt fram svar borgarstjóra dags. 18. september við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi borgarráðs 6. september, vegna umferðar í Norðlingaholti ásamt svari skipulagsstjórans í Reykjavík dags. 12. september. R12090032
15. Lögð fram tillaga borgarstjóra dags. 19. september þar sem lagt er til að borgarráð samþykki þá meginniðurstöðu starfshóps um endurskoðun á kostnaðarskiptingu upplýsingatæknimála, að allar rekstrareiningar Reykjavíkurborgar greiði fyrir þá þjónustu UTM samkvæmt gjaldskrá frá 1. janúar 2013 og að borgarritara verði falið að fylgja eftir öðrum tillögum hópsins. Einnig er lögð fram aðgerðaáætlun starfshópsins dags. 11. september 2012. R12010112
Samþykkt.
Hjörtur Grétarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
16. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um endurskoðun samþykkta mannréttindaráðs frá fundi borgarráðs dags. 13. september 2012. R12090059
Vísað til stjórnkerfisnefndar.
17. Fram fer kynning á stöðu viðræðna vegna sameiginlegra stígaverkefna Reykjavíkur og Vegagerðarinnar. R12070080
Ólafur Bjarnason tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
18. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálaráðs frá 11. september þar sem lagt er til við borgarráð að ný staðsetning fyrir listaverkið Svörtu keiluna verði á hellulögðu torgi á horni Kirkjustrætis og Thorvaldsenstrætis. Jafnframt er lagt fram bréf menningar- og ferðamálaráðs dags. 30. ágúst, bréf skipulags- og byggingasviðs frá 28. júní sl., sbr. samþykkt skipulagsráðs frá 27. júní sl., bréf Listasafns Reykjavíkur dags. 13. júní ásamt bréfi Alþingis frá 3. september sl. R12090007
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:
Borgarráð samþykkir að leggja umrætt listaverk til hliðar og efna þess í stað til samkeppni um minnisvarða um rétt fólks til áhrifa í samfélaginu sem staðsett verði á svipuðum slóðum og hér um ræðir.
Tillagan er felld með 4 atkvæðum gegn 1. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðsluna.
Tillaga um staðsetningu Svörtu Keilunnar er samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.
Í samræmi við ákvæði 4. mgr. 5. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007 verður málið fullnaðarafgreitt í borgarráði.
Fundi slitið kl. 11.28
Dagur B. Eggertsson
Elsa Hrafnhildur Yeoman Hjálmar Sveinsson
Sóley Tómasdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson
Óttarr Ólafur Proppé Hanna Birna Kristjánsdóttir