Borgarráð - Fundur nr. 5208

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2012, fimmtudaginn 8. mars, var haldinn 5208. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.17. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Oddný Sturludóttir, Óttarr Ólafur Proppé og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Helga B. Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 29. febrúar. R12020166

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 22. febrúar. R12010009

3. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Laugardals frá 13. og 20. febrúar. R12010016

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 1. mars. R12010018

5. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 7. mars. R12010027

6. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 5. mars. R12010029

7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 4 mál. R12020129

8. Lagður fram dómur Héraðdóms í máli E-2802/2011, Arngunnur Jónsdóttir og Helgi Rafnsson gegn Reykjavíkurborg. R11060092

9. Lagður fram dómur Hæstaréttar í máli 478/2011, Herborg Friðjónsdóttir gegn Reykjavíkurborg. R10090059

10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 22. f.m.
Borgarráð heimilar að gengið verði frá og undirritað meðfylgjandi samkomulag milli Reykjavíkurborgar annars vegar og fjármálaráðuneytisins og velferðarráðuneytisins hins vegar um landsvæði tengt uppbyggingu Landspítala háskólasjúkrahúss (hér eftir LSH) og Háskóla Íslands (hér eftir HÍ) við Hringbraut og nefnt hefur verið A, B, C og U-reitir. Samþykki borgarráðs verður með fyrirvara um gildistöku deiliskipulags á athafnasvæði LSH við Hringbraut.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Jafnframt lögð fram drög að samkomulagi, dags. í febrúar, og minnisblað framkvæmda- og eignasviðs frá 28. f.m. R12020127
Samþykkt með 4 atkvæðum. Hanna Birna Kristjánsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir sitja hjá.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Samkvæmt samningnum sem nú er lagður fram um framtíðaruppbyggingu Landspítala er gert ráð fyrir a.m.k. 293.000 ferm byggingarmagni á lóðinni. Það er fjórföldun núverandi byggingarmagns. Ríkið hefur með samningnum afsalað sér landi sem ekki mun nýtast starfsemi Landspítalans í framtíðinni en fær mjög aukið byggingarmagn á móti á þeim lóðum sem nær standa núverandi spítalastarfsemi. Með tilliti til þess að samningurinn fjallar um meiri uppbyggingu en nokkur fordæmi eru fyrir hér á landi þarf, áður en hann er samþykktur, að liggja fyrir mat á uppbyggingarþoli svæðisins, áhrif umferðar á umhverfi og nærliggjandi byggð, yfirbragði fyrirhugaðra bygginga og ásýnd þeirra. Gildi samningsins hvílir á því að deiliskipulagstillaga sem hvorki hefur verið samþykkt í skipulagsráði né farið í lögbundið kynningar- og samráðsferli verði samþykkt. Sú tillaga að nýjum spítalabyggingum sem rekja má til forhönnunarsamkeppni árið 2010 hefur verið mjög umdeild, ekki síst vegna umfangsins og því ljóst að endanleg niðurstaða um uppbyggingu mun ráðast af þeim viðbrögðum sem tillagan mun fá meðal almennings í kynningar- og auglýsingarferlinu. Skipulagsráð verður að taka sér þann tíma sem nauðsynlegur er til þess að móta uppbyggingu á lóð Landspítalans með heildarhagsmuni að leiðarsljósi. Áður en því mikilvæga og lögbundna ferli lýkur getur borgarráð ekki afgreitt samninga sem ganga út frá ákveðinni niðurstöðu í þessu stóra máli. Samningurinn skuldbindur Reykjavíkurborg til þess að endurskoða skipulag á norðurhluta lóðarinnar um leið og nýtt deiliskipulag sem tekur til sömu lóðar hefur tekið gildi. Slík vinnubrögð ganga ekki upp og undirstrika að skipulagsráð hefur ekki tekið sér þann tíma sem nauðsynlegur er til að vinna vandað deiliskipulag á lóð Landspítalans.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Besta flokks óska bókað:
Nýtt samkomulag um lóð og lendur ríkisins á og í kringum Landspítalann er endurskoðun á eldri samningum. Eldri samningar gera ráð fyrir að Landspítali og Háskóli Íslands eigi byggingarheimildir á svokölluðum A, B, C og U reitum. Í endurskoðuðu samkomulagi er gert ráð fyrir að byggingarheimildir á U, C og syðsta hluta B reits gangi til borgarinnar. Í samkomulaginu eru aðilar sammála um að vinna að framsetningu deiliskipulags á skipulagsreitum í samræmi við vinningstillögu í forhönnunarsamkeppni um nýjan Landspítala frá júlí 2010. Endurskoðun á deiliskipulagi Landspítalalóðar hefur staðið yfir um nokkurt skeið og verið í vinnslu hjá skipulagsráði. Þeirri vinnu er ekki lokið. Fallist skipulagsráð ekki í megindráttum á þær tillögur sem hafa verið til umfjöllunar hjá ráðinu í tæp tvö ár mun samkomulag þetta ekki öðlast gildi. Gildistaka skipulags er forsenda þess að samkomulagið sé í gildi. Bent er á að endurskoðað skipulag þarf að taka mið af samningum ríkis og borgar um ráðstöfun byggingarréttar og því eðlilegt að nýtt samkomulag liggi fyrir í megindráttum áður en skipulagsbreyting er hagsmunaaðilakynnt eða auglýst. Mikill ávinningur er af því fyrir borgina að geta nýtt þær byggingarheimildir sem kunna að verða til á svæðinu án tillits til uppbyggingarþarfa Landspítalans og Háskóla Íslands með tilliti til ábyrgrar borgarþróunar og því er lögð áhersla á að samningar við ríkið um nýtingu landsins séu skýrir.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna telur ekki tímabært að ganga frá samningnum á meðan enn er verið að vinna deiliskipulag og ótal álitamál óútkljáð og situr því hjá við afgreiðslu málsins.

11. Lagt fram yfirlit framkvæmda- og eignasviðs yfir innkaup í janúar 2012. R12010071

12. Lögð fram umsögn skipulagsráðs frá 29. f.m. um frágang sjávarkants við Sæbraut, sbr. bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 19. september sl. og frá 5. þ.m. varðandi málið. R11090074
Samþykkt með 5 atkvæðum.
Hanna Birna Kristjánsdóttir og Júlíus Vífill Ingvarsson sitja hjá.

13. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 2. þ.m., þar sem lagt er til að Gæðahúsi ehf. verði seldur byggingarréttur fyrir raðhús á lóð nr. 5-9 við Haukadælabraut með nánar tilgreindum skilmálum. R12030009
Samþykkt.

14. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 2. þ.m. ásamt verkstöðuskýrslu nýframkvæmda vegna ársins 2011. R10110008

15. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 5. þ.m. um tillögu að gerð göngu- og hjólastígs frá Elliðaárósum að Hlemmi. R11100289
Frestað.

16. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 5. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 1. s.m. um tillögu að breytingu á reglum um styrki til áfangaheimila. R12030015
Samþykkt.

17. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 2. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 1. s.m. um tillögur að útfærslu á aukinni þjónustu við utangarðsfólk og drög að samkomulagi milli velferðarsviðs og lögreglunnar um framkvæmd verkefnisins borgarverðir. R11110124

18. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 5. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs um drög að samningi velferðarsviðs, velferðarráðuneytis vinafélags velunnara Vinjar og Rauða kross Íslands um rekstur Vinjar, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir.
Samþykkt.
Borgarráð staðfestir nú samþykkt velferðarráðs á samstarfssamningi milli Reykjavíkurborgar, velferðarráðuneytisins, Rauða Kross Íslands og vinafélags Vinjar sem tryggir rekstur Vinjar út árið 2014. Það er ánægjulegt hvað vinafélag Vinjar kemur rausnarlega að starfseminni og vill borgarráð þakka þeim frjálsu félagasamtökum sérstaklega fyrir sinn hlut. R10100092

19. Lögð fram styrkjahandbók um meðferð og eftirfylgni styrkja, samstarfs- og þjónustusamninga. R10060153

20. Lögð fram tillaga tekin af samráðsvefnum Betri Reykjavík 31. janúar, um að borgin stofni borgarbanka. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra frá 5. þ.m. um tillöguna. R12020029
Fellt samhljóða með vísan til umsagnar fjármálastjóra.

21. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Sorpu bs. frá 8. f.m ásamt tillögu að viðauka við þjónustusamning Sorpu bs. og sveitarfélaganna um rekstur endurvinnslustöðva. Jafnframt lögð fram umsögn umhverfis- og samgöngusviðs frá 27. s.m. R06010059
Viðauki við þjónustusamning samþykktur. Hanna Birna Kristjánsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir sitja hjá og vísa í bókanir í umhverfis- og samgönguráði.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Besta flokks óska bókað:
Stefnt hefur verið að fækkun og stækkun endurvinnslustöðva um alllangt skeið. Mun sú þróun haldast í hendur við aukna endurvinnslu heima fyrir og að íbúar geti losað sig við flesta úrgangsflokka í tunnur við heimilin. Það dregur úr ferðum á endurvinnslustöðvar og samræmist því markmiðum borgarinnar um bíllausan lífsstíl.

22. Lögð fram svohljóðandi beiðni borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna:
Staðfest hefur verið að OR seldi eignarhlut REI í tveimur félögum (Enex Kína og Envent Holding) án auglýsingar og eðlilegrar upplýsingar til stjórnarmanna í OR og kjörinna fulltrúa. Þar sem stjórnendur fyrirtækis og fulltrúar meirihlutans hafa svarað fyrir þessa aðgerð með þeim hætti að þetta standist alla skoðun, samþykktir og reglur, óska borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna eftir sérstakri úttekt á sölunni. Í þeirri úttekt er óskað eftir því að innri endurskoðandi skoði ferlið með hliðsjón af samþykktri skýrslu stýrihóps um málefni OR og REI; ítrekuðum ábendingum umboðsmanns Alþingis; stjórnsýsluúttekt innri endurskoðanda frá september 2008; bókunum og samþykktum eigenda og stjórnar OR um meðferð slíkra ákvarðana; og sérstökum verklagslegum stjórnar OR frá nóvember 2010. Einnig er óskað eftir því að skoðað verði hvort ætla megi að slíkt ferli án opinberrar auglýsingar hafi skilað fyrirtækinu fullnægjandi verði fyrir umræddar eignir. Mikilvægt er einnig að fram komi hvort það sé ásættanlegt að sömu starfsmenn OR fari fyrir því að réttlæta og rökstyðja ákvörðunina og tóku hana og framkvæmdu sem stjórnarmenn í dótturfélagi OR. Að auki fylgi úttektinni álit borgarlögmanns á lagalegri stöðu málsins og þeim skýringinum forsvarsmanna OR að ekki hefði verið hægt að vinna málið með öðrum hætti. R11020039

23. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. í dag, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna um sölu eigna Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. mars. R11020039

24. Fram fer kynning á heildarskýrslu um ferðir íbúa höfuðborgarsvæðisins október-desember 2011. R11110084
Borgarráð hefur verið sammála um mikilvægi þess að íbúar borgarinnar hafi val um samgöngukosti. Í nýrri ferðavenjukönnun vekur athygli að konur virðast síður en karlar nýta sér hjólreiðar, en könnunin sýnir að 8#PR kvenna hjóla allt árið á móti 17#PR karla. Þar sem ýmislegt bendir til þess að árangur í breytingu samgönguvenja í borgum hvíli á því að bæði karlar og konur noti aðra samgöngumáta en bílinn, óskar borgarráð eftir því að greint verði frekar hver ástæða þessa munar er. Í því sambandi er t.d. hægt að skoða hvernig hægt sé að efla fræðslu um hjólafærni og bæta aðstöðu fyrir reiðhjól á vinnustöðum borgarinnar þar sem konur eru í meirihluta, kortleggja hjólaleiðir til og frá vinnustöðum kvenna, rýna ferðavenjukönnun með aðferðafræði kynjaðrar starfs- og fjárhagsáætlunargerðar og aðrar þær leiðir til að greiða fyrir eflingu hjólreiða í Reykjavík svo bæði konur og karlar nýti sér þennan holla, ábyrga og ódýra ferðamáta.

25. Borgarráðsfulltrúar leggja fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð áréttar þau ákvæði í mannréttindastefnu borgarinnar sem lúta að vinnu gegn klámvæðingu og vændi. Borgarstjóra er falið leita eftir samstarfi við lögreglustjóra og innanríkisráðherra um þessi mál og tryggja að Reykjavíkurborg leggi sitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn klámvæðingu, vændi og mansali. R10030053
Samþykkt.

26. Lögð fram bréf úttektarnefndar á stjórnsýslu- og stjórnkerfi Reykjavíkurborgar og fyrirtækja hennar dags. 20. f.m. og 6. þ.m. um verkáætlun nefndarinnar.
Borgarráð staðfestir áætlun úttektarnefndar borgarstjórnar um umfang og áherslur í starfinu, auk áætlaðs kostnaðar. Úttektarnefnd leggur til þá aðferðarfræði að skipta verkinu í tvo áfanga og leggja fyrir borgarráð endurmat á afmörkun í haust. Borgarráð leggur áherslu á tvennt: a) Að kostnaðaráætlun standist í alla staði. b) Að verkefni sem áætluð eru í seinni áfanga og tengjast fjárhagslegum hagsmunum, nánari tilvikagreiningu og skoðun á samspili skipulags- og framkvæmdaákvarðana, eru afar brýn.
Borgarrráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna varar við því að dregið verði úr umfangi verkefnisins, enda brýnt að farið verði gaumgæfilega ofaní málið í samræmi við samþykkt borgarstjórnar. Því má ekki koma til þess að fallið verði frá síðari áfanganum, jafnvel þótt kostnaðinum verði skipt milli fjárhagsáranna 2012 og 2013.

Fundi slitið kl. 12.30

Óttarr Ólafur Proppé
Björk Vilhelmsdóttir Elsa Hrafnhildur Yeoman
Hanna Birna Kristjánsdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson
Oddný Sturludóttir Sóley Tómasdóttir