No translated content text
Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2011, mánudaginn 28. nóvember, var haldinn 5194. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 13.05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Oddný Sturludóttir, Óttarr Ólafur Proppé og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Helga B. Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram frumvarp að 5 ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2012-2016. R10080085
Samþykkt með 4 atkvæðum að vísa frumvarpinu til borgarstjórnar.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna óska bókað:
Þrátt fyrir að það komi varla lengur á óvart að meirihlutanum gangi illa að viðhafa vönduð vinnubrögð eða halda sig innan tímaviðmiða, er það mjög slæmt að nú sé boðað til aukafundar í borgarráði og borgarstjórn í lok árs vegna áætlunar sem samkvæmt yfirlýsingum og áætlunum átti að liggja fyrir sl. haust eða í september. Á fundi borgarráðs sl. fimmtudag kom fram að enn væri áætlunin ekki tilbúin, þá 3 mánuðum eftir að hún átti að liggja fyrir og hana með engu móti hægt að afhenda í aðdraganda aukafundar borgarráðs í dag. Borgarráðsfulltrúar eru því að sjá þessi gögn fyrst núna, þrátt fyrir að því sé haldið fram að þessi vinna hafi staðið yfir allt þetta ár. Hvorki borgarráð né önnur fagráð virðast með nokkrum hætti hafa komið að þessari vinnu og ef það er rétt að borgarfulltrúar meirihlutans séu einnig lítið sem ekkert upplýstir um þessa vinnu, þá segir það enn meira um það hversu illa er að verkinu staðið. Þannig fengust engin svör um það á fundinum í dag hvernig haldið hefur verið á undirbúningi áætlunarinnar gagnvart fagráðum, formönnum eða stjórnkerfinu almennt. Við fyrstu sýn virðist því sem frumvarpið innihaldi enga stefnu eða pólitíska sýn, heldur aðeins upplýsingar um forsendur fjármála borgarinnar næstu árin. Nær væri að leggja slíkt plagg fram sem minnisblað eða greinargerð en varla sem frumvarp að fimm ára áætlunar.
Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óska bókað:
Borgaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar fagna því að nú sé í fyrsta sinn í langan tíma lögð fram langtímaáætlun í fjármálum borgarinnar þar sem ítarlega er reynt að spá fyrir um aðstæður næstu ára. Það er sérstaklega metnaðarfullt í ljósi þeirra aðstæðna sem ríkja á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Því ber að þakka fjármáladeild Reykjavíkurborgar og öllum starfsmönnum sem koma að þessari vinnu fyrir vel unnið og faglegt starf. Fullyrðingar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna um að fimm ára áætlun sé seint á ferð eru furðulegar því slík áætlun hefur ekki áður verið lögð fram jafnsnemma og raunar hefur fimm ára áætlun aldrei verið lögð fram áður. Þessu breytta vinnulagi ber að fagna.
2. Lögð fram drög að atvinnustefnu Reykjavíkurborgar dags. 25. nóvember 2011. R10090142
Borgarráðsfulltrúii Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar eftir upplýsingum um hvenær atvinnumálahópurinn var skipaður og hverjir sátu í honum. Jafnframt er óskað eftir erindisbréfi hópsins og fundargerðum, sem og yfirliti yfir hagsmunaaðila sem haft var samráð við og hvaða fulltrúar þeirra voru í sambandi við hópinn.
Fundi slitið kl. 14.15
Dagur B. Eggertsson
Elsa Hrafnhildur Yeoman Hanna Birna Kristjánsdóttir
Júlíus Vífill Ingvarsson Oddný Sturludóttir
Óttarr Proppé Sóley Tómasdóttir