No translated content text
Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2011, föstudaginn 11. nóvember, var haldinn 5190. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 13.08. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Oddný Sturludóttir, Óttarr Ólafur Proppé og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Helga B. Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Rætt um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2012. R11060068
- Kl. 13.12 tekur Júlíus Vífill Ingvarsson sæti á fundinum.
- Kl. 13.25 tekur Geir Sveinsson sæti á fundinum.
2. Lagðar fram umsagnir stjórnkerfisnefndar frá 8. þ.m. og hverfisráðs Breiðholts, dags. í dag, um tilraunaverkefni í Breiðholti til þriggja ára, sbr. tillögu borgarstjóra frá 1. s.m.
Samþykkt með 6 atkvæðum.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Tillaga um hverfisstjóra/-stýru er að mörgu leyti góð og hugmyndin gæti leitt til aukins íbúalýðræðis og sjálfstæðari hverfa. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna hefur þó efasemdir um stofnun sérstaks stýrihóps undir forystu borgarstjóra og hlutverk hans. Með þessu fyrirkomulagi lítur út fyrir að verið sé að auka á miðstýringu í stað þess að nýta verkefnið til að auka áhrif hverfisráðsins. Sá þáttur tillögunnar virðist vera illa ígrundaður, enda hvorki ljóst hverjir muni sitja þar né hvert hlutverk hans verði. Það er eindregin skoðun Vinstri grænna að efla þurfi hverfisráðin í borginni samhliða þjónustumiðstöðvunum. Tilraunaverkefnið miðar aftur á móti að því að auka áhrif þjónustumiðstöðvarinnar en á sama tíma draga úr vægi hverfisráðsins. Meirihluti Besta flokks og Samfylkingar er því í raun að leggja til aukna miðstýringu undir formerkjum lýðræðisvæðingar. Það orkar mjög tvímælis. R10060053
3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. í dag:
Borgarráð samþykkir að á ráðstefnu UNESCO, sem haldin verður í Seoul í Suður Kóreu 16.-17. nóvember nk., verði undirrituð fyrir hönd Reykjavíkurborgar s.k. Seoul-yfirlýsing um skapandi borgir fyrir sjálfbæra þróun, Seoul Declaration: Creative Cities for Sustainable Develmopment. Sem ein af bókmenntaborgum UNESCO er Reykjavíkurborg boðið að verða hluti af tengslaneti skapandi borga fyrir sjálfbæra þróun. Yfirlýsingin fylgir hjálagt og er efni hennar í takt við áherslur Reykjavíkurborgar um mikilvægi skapandi atvinnugreina í sókn Reykjavíkur til aukinnar sjálfbærni og fjölbreytts atvinnulífs. Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á að styðja við skapandi atvinnugreinar í gegnum stefnumótun, borgarþróun og samstarf innan borgar sem og við önnur sveitarfélög og borgir. Með undirritun sinni tekur Reykjavíkurborg undir það að tengslanet skapandi borga geti gegnt mikilvægu hlutverki í framþróun skapandi atvinnugreina og borgin lýsir sig ennfremur reiðubúna til þess að taka þátt í undirbúningi funda tengslanetsins eftir atvikum. R11110034
Samþykkt.
4. Lagt fram bréf sviðsstjóra umhverfis- og samgöngusviðs, dags. í dag, sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs s.d., um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. R10060146
Borgarráð tekur undir umsögn umhverfis- og samgöngusviðs um áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða sem umhverfis- og samgönguráð borgarinnar hefur fjallað um og tekið undir.
Í umsögninni koma fram mikilvægar ábendingar og athugasemdir sem varða lífsgæði borgarbúa. Borgarráð óskar því eindregið eftir því að fá fund með ráðuneytinu þar sem farið verði yfir fyrrnefnda umsögn sem og þau sjónarmið og áherslur sem koma fram í bókunum umhverfis- og samgönguráðs, sbr. bréf ráðsins.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá við afgreiðslu málsins.
5. Lagt fram bréf sviðsstjóra umhverfis- og samgöngusviðs, dags. í dag, sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs s.d., um umhverfismat samgönguáætlunar 2011-2022. R10050009
Borgarráð tekur undir umsögn umhverfis- og samgöngusviðs um umhverfismat samgönguáætlunar 2011-2022 sem umhverfis- og samgönguráð borgarinnar hefur fjallað um og tekið undir.
Í umsögninni koma fram mikilvægar ábendingar og athugasemdir sem varða stefnu borgarinnar í samgöngu-, umhverfis- og skipulagsmálum. Borgarráð óskar því eindregið eftir því að fá fund með ráðuneytinu þar sem farið verði yfir fyrrnefnda umsögn sem og þau sjónarmið og áherslur sem koma fram í bókunum umhverfis- og samgönguráðs, sbr. bréf ráðsins.
Dagur B. Eggertsson vék af fundi við afgreiðslu málsins.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá.
Fundi slitið kl. 17.05
Dagur B. Eggertsson
Elsa Hrafnhildur Yeoman Geir Sveinsson
Júlíus Vífill Ingvarsson Oddný Sturludóttir
Óttarr Ólafur Proppé Sóley Tómasdóttir