Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2011, fimmtudaginn 3. nóvember, var haldinn 5188. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.06. Viðstödd voru Dagur B. Eggertsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Jón Gnarr Kristinsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Óttarr Ólafur Proppé og Þorleifur Gunnlaugsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram minnisblað stjórnar Austurhafnar TR frá 18. f.m. um fjármögnun, tillögu til eigenda um lán. R11010037
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1.
Bókun borgarráðs:
Eigendalán til Austurhafnar vegna tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu er til 12 mánaða, en að þeim tíma liðnum á endurfjármögnun hússins að liggja fyrir. Borgarráð leggur áherslu á að strax verði farið í einföldun á stjórnarfyrirkomulagi þeirra félaga sem koma að rekstrinum. Með einföldun fyrirkomulagsins verði ábyrgð á rekstrinum skýr og gegnsæ. Gera þarf úttekt á rekstrinum til að skýr staða liggi fyrir og hægt sé að meta hvernig verkefnið hefur farið af stað. Borgarráð leggur jafnframt áherslu á að ekki sé farið í frekari framkvæmdir við húsið sem ekki leiða af sér tryggar viðbótartekjur á meðan á úttektinni stendur.
2. Lögð fram leiðrétt fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 11. október. R11010013
3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 19. október. R11010012
4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 17. október. R11010015
5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 13. október. R11010016
6. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 20. október. R11010018
7. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 26. október. R11010020
8. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 28. október. R11010034
9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R11100332
10. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 27. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 26. s.m., um tillögu að endurauglýsingu á breyttu deiliskipulagi Klettasvæðis, Skarfabakka vegna lóða nr. 1-3 við Korngarða og nr. 4 við Klettagarða. R11040106
Samþykkt.
11. Lagt fram að nýju bréf skipulagsstjóra frá 14. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs frá 12. s.m., um tillögu að deiliskipulagi Túngötureits sem afmarkast af Túngötu, Bræðraborgarstíg, Hávallagötu og Hofsvallagötu. Jafnframt lögð fram umsögn borgarlögmanns frá 31. s.m. um málið. R11100278
Samþykkt.
Kjartan Magnússon vék af fundi við afgreiðslu málsins.
12. Lagt fram bréf fjármálastjóra frá 17. f.m. um tillögu að tilfærslum innan fjárhagsáætlunar 2011 vegna upplýsinga- og vefdeildar. R11010129
Samþykkt.
13. Lagt fram bréf aðstoðarsviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 26. f.m. um að endurbygging á horni Austurstrætis og Lækjargötu hafi hlotið viðurkenningu dómnefndar Philippe Rotthier stofnunarinnar árið 2011 fyrir bestu endurnýjun í borgum í Evrópu. R11090228
14. Lagt fram bréf Sögusteins frá 22. júlí þar sem óskað er eftir samstarfi um útgáfu 1. bindis ritverksins Reykvíkingar og kaupum á eintökum af verkinu. Jafnframt lagðar fram umsagnir menningar- og ferðamálasviðs frá 1. september og skipulagsstjóra frá 19. september um málið. R11080035
Samþykkt að styrkja útgáfuna um 750 þ.kr. gegn því að Reykjavíkurborg fái eintök af ritverkinu skv. nánara samkomulagi.
15. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs, dags. í dag. R11010039
Samþykkt að veita Söngfuglum, kór eldri borgara, 100 þ.kr. styrk vegna söngstarfs.
16. Lagðir fram úrskurðir úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 25. f.m. varðandi Laufásveg 68. R10020045
17. Lagt er til að Margrét Kristín Blöndal taki sæti í hverfisráði Kjalarness í stað Ágústs Más Garðarssonar. R10060101
Vísað til borgarstjórnar.
18. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra SSH frá 24. f.m. ásamt tillögum verkefnishóps um menntamál og sérfræðiþjónustu í skólum. R11090014
Vísað til skóla- og frístundaráðs til umsagnar.
- Kl. 10.28 tekur Björk Vilhelmsdóttir sæti á fundinum.
19. Lagðar fram umsagnir húsnæðishóps Reykjavíkurborgar frá 14. f.m., Félagsbústaða hf. frá 18. s.m. og velferðarsviðs frá 21. s.m. um lokaskýrslu framkvæmdahóps Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, varðandi vinnu við undirbúning að breytingum á rekstri félagslegs húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Einnig lögð fram samantekt skrifstofu borgarstjórnar frá 1. þ.m. R11090017
Bókun borgarráðs:
Borgarráð lýsir sig reiðubúið að vinna að áframhaldandi skoðun tillagna hópsins þar sem jafnframt verði tekið tillit til ábendinga sem fram koma í þeim umsögnum sem fyrir liggja í málinu.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna tekur undir bókun ráðsins. Því skal þó til haga haldið að tæplega 700 einstaklingar og fjölskyldur eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði í borginni og ekkert hefur verið gert af hálfu borgarinnar í langan tíma til að fjölga íbúðum. Það er því ekki aðeins krafa að félagslegum íbúðum verði ekki fækkað heldur að þeim verði fjölgað. Ennfremur vill fulltrúi Vinstri grænna árétta það að kerfisbreytingar, sem tóku gildi í maí 2008 þegar borgin hætti hlutfallslegri niðurgreiðslu á félagslegu húsnæði en tók þess í stað upp sérstakar húsaleigubætur, hafa haft í för með sér hlutfallslega aukningu á greiðslubyrði íbúanna. Þetta þarf að leiðrétta sem fyrst.
20. Lögð fram samantekt velferðarsviðs frá 1. þ.m. um breytingar á framleiðslueldhúsi að Lindargötu. R11040041
21. Lögð fram tillaga borgarstjóra ásamt greinargerð frá 1. þ.m. um tilraunaverkefni í Breiðholti til þriggja ára. R10060053
Vísað til umsagnar í stjórnkerfisnefnd og hverfisráði Breiðholts.
22. Lagt fram áhættumat fyrir höfuðborgarsvæðið, sbr. bréf slökkviliðsstjóra frá 26. maí sl. Jafnframt lagt fram minnisblað slökkviliðsstjóra frá 1. þ.m. R11050134
Bókun borgarráðs:
Borgarráð þakkar fyrir þá miklu og vönduðu vinnu sem liggur í áhættumati fyrir Reykjavík og höfuðborgarsvæðið allt sem kynnt hefur verið fyrir ráðinu. Borgarráð felur slökkviliðsstjóra að vinna áfram að úrbótum og áhættuminnkun í samræmi við skýrsluna og gera borgarráði reglulega grein fyrir framvindu málsins hvað varðar þau atriði sem eru merkt áhætta.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Þakkað er fyrir góða vinnu í tengslum við gerð áhættumats fyrir höfuðborgarsvæðið. Óskað er eftir því að eftirfarandi atriði verði skoðuð og áhættumetin í tengslum við þessa vinnu:
1. Staðsetning stórrar bensínstöðvar í beinni aðflugslínu Reykjavíkurflugvallar.
2. Líkur á tjóni á höfuðborgarsvæðinu vegna hugsanlegs sjávarflóðs í líkingu við Básendaflóðið svokallaða þegar saman fóru afar kröpp veðurlægð og há sjávarstaða.
3. Líkur á eldsumbrotum í nágrenni Reykjavíkur, t.d. í Bláfjöllum, og áhrif hugsanlegs hraunflóðs vegna þeirra.
4. Líkur á eldsumbrotum í Snæfellsjökli og hugsanleg flóðahætta vegna þeirra.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Borgarráðsfulltrúi VG bendir á að í áhættumati slökkviliðstjóra höfuðborgarsvæðisins er talið nokkuð líklegt að eldsvoði verði í Farsóttarhúsinu að Þingholtsstræti 25. Að húsið væri í hæsta áhættustigi og afleiðingarnar væru í flokknum „skelfilegt.“ Reykjavíkurborg rekur neyðarathvarf fyrir útigangsmenn í húsinu. Þeir eru oft illa á sig komnir og eiga iðulega enga möguleika á því að bjarga sér af eigin rammleik. Á þetta hefur borgarráðsfulltrúi VG ítrekað bent og lagt til að fundið verði annað og öruggara húsnæði fyrir neyðarskýli handa útigangsfólki.
23. Lögð fram tillaga borgarstjóra ásamt greinargerð frá 1. þ.m. um val smærri framkvæmda- og viðhaldsverkefna í hverfum borgarinnar árið 2012. R11090037
Frestað.
24. Lagt fram yfirlit fjármálaskrifstofu yfir tímasetningar á kynningum á fjárhagsáætlun. R11060068
25. Lögð fram dagskrá aðalfundar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem haldinn verður 4. nóvember nk. R11110012
26. Lagt fram bréf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur frá 25. f.m. varðandi samþykki eigenda vegna lántöku Orkuveitu Reykjavíkur. R10100312
Vísað til umsagnar hjá fjármálaskrifstofu.
27. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir upplýsingum um það hver kostnaður borgarinnar er af því að fella aspir í nágrenni Ráðhússins ásamt gróðursetningu nýrra trjáa á sömu slóðum. Hver er verktakakostnaður vegna verksins og hver er kostnaður borgarinnar, m.a. vegna efniskaupa, undirbúnings og utanumhalds? R11010134
28. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykkir að fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar og njóta fullrar fjárhagsaðstoðar hækki frá og með 1. janúar næstkomandi um 12.000 kr. á mánuði til samræmis við hækkun atvinnuleysisbóta sem í dag nema kr. 161.523
1. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings, 18 ára eða eldri, sem rekur eigið heimili og fær í dag 149.000 kr. á mánuði hækki í 161.000 kr. á mánuði.
2. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til hjóna/sambúðarfólks sem fá í dag 223.500 kr. á mánuði hækki í 247.500 kr.
3. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings sem býr með öðrum, leigir húsnæði án þinglýsts leigusamnings eða hefur ekki aðgang að húsnæði og fær í dag 125.540 kr. hækki í 137.540 kr.
4. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings sem býr hjá foreldrum og fær í dag 74.500 kr. hækki í 86.500 kr.
5. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til þeirra sem fara með forsjá barns og búa hjá foreldrum og fá í dag 125.540 kr. hækki í 137.540 kr.
6. Í samræmi við eingreiðslur vegna atvinnuleysisbóta fái fjárhagsaðstoðarþegar sem notið hafa fullrar fjárhagsaðstoðar frá 20. febrúar síðastliðinn 50.000 kr. eingreiðslu sem greidd verði út 1. janúar næstkomandi.
7. Fjárhæðir til þeirra sem eru með skerta fjárhagsaðstoð hækki hlutfallslega jafnmikið og að sama skapi fái þeir sem einhverra hluta vegna fá skerta fjárhagsaðstoð greidda hlutfallslega eingreiðslu. Eingreiðslan verði aldrei lægri en 12.500 kr. R10090141
Vísað til meðferðar velferðarráðs.
Fundi slitið kl. 12.15
Dagur B. Eggertsson
Björk Vilhelmsdóttir Elsa Hrafnhildur Yeoman
Júlíus Vífill Ingvarsson Kjartan Magnússon
Óttarr Ólafur Proppé Þorleifur Gunnlaugsson