Borgarráð - Fundur nr. 5184

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2011, fimmtudaginn 6. október, var haldinn 5184. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.05. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Oddný Sturludóttir, Óttarr Ólafur Proppé og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Helga B. Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 27. september. R11010013

2. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 23. september. R11010032

3. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 30. september. R11010029

4. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 3. október. R11010030

5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 4 mál. R11090229

6. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 29. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 28. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Öskjuhlíðar vegna lóðar Keiluhallarinnar. R11090232
Samþykkt.

7. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 29. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 28. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Lambhagalands vegna dreifistöðvar Orkuveitu Reykjavíkur. R09120079
Samþykkt.

8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 29. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 28. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Teigahverfis norðan Sundlaugavegar. R11090231
Samþykkt.

- Kl. 9.17 tekur Dagur B. Eggertsson sæti á fundinum.

9. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 28. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um tímafrest, að viðlögðum dagsektum, til að ljúka byggingarframkvæmdum á lóð nr. 9 við Langholtsveg. R11090170
Samþykkt.

10. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 28. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um tímafrest, að viðlögðum dagsektum, til að ljúka byggingarframkvæmdum á lóð nr. 5 við Langholtsveg. R11090171
Samþykkt.

11. Lögð fram skýrsla vinnuhóps um mótun húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar 2020. Einnig lögð fram tillaga að húsnæðisstefnu Reykjavíkur. R10110019
Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska bókað:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera fyrirvara við hugmyndir um að Reykjavíkurborg hasli sér völl á leigumarkaði í samkeppni við einkaaðila, t.d. með því að hún verði kjölfestufjárfestir í leigufélögum á markaði eins og lagt er til í stefnumótun vinnuhóps um húsnæðisstefnu. Mikilvægt er að félög í samkeppnisrekstri sjái sóknarfæri í rekstri leiguhúsnæðis. Reykjavíkurborg getur hæglega stuðlað að vexti og samkeppni á slíkum markaði með margvíslegum hætti.

12. Lögð fram svohljóðandi tillaga:

Borgarráð felur borgarstjóra að kanna áform Háskólans í Reykjavík um að hefja undirbúning að byggingu námsmannaíbúða og hugsanlega leikskóla á svæði háskólans í Vatnsmýri. Í kjölfarið verði hafist handa við deiliskipulag á svæðinu.

Greinargerð fylgir tillögunni. R10110019
Samþykkt.

13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 4. þ.m.:

Fjármálaskrifstofu verði falið að láta gera úttekt til að kanna kosti þess og galla að Reykjavíkurborg verði kjölfestuaðili í fasteignafélögum um stofnframkvæmdir við leiguhúsnæði og/eða kjölfestuaðili að leigufélögum um rekstur leiguhúsnæðis. Skoðað verði hvaða áhrif mismunandi aðkoma Reykjavíkurborgar muni hafa á félög á samkeppnismarkaði. Markmiðið er að styðja við uppbyggingu á varanlegum og öruggum leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu og auka fjölbreytileika í framboði á leiguhúsnæði. Framlag borgarinnar gæti falist í lóðum, fasteignum eða beinum framlögum. Sérstaklega verði kannað hvort leigufélagið yrði eftir atvikum rekið innan Félagsbústaða sem sérstök deild eða stofnað sjálfstætt félag með öðrum aðilum. Ennfremur er lagt til að Reykjavíkurborg auglýsi eftir samstarfsaðilum sem vilja byggja upp langtímaleigumarkað á tilgreindum svæðum miðsvæðis í Reykjavík.
Kostnaður vegna úttektar 2 m.kr. verði fjármagnaður af 09205, ófyrirséð.

Greinargerð fylgir tillögunni. R10110019
Samþykkt.

14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 4. þ.m.:

Við gerð aðalskipulags, hverfis- og deiliskipulags verði tryggt að a.m.k. 20#PR íbúða verði minni leiguíbúðir og búseturéttaríbúðir sem höfða til ungs fólks og þeirra sem ekki geta eða vilja leggja mikið eigið fé í húsnæði. Til að ná fram markmiðum húsnæðisstefnunnar og hlutfallinu þarf fjórðungur íbúðarhúsnæðisins í nýjum hverfum miðsvæðis, s.s. í Vatnsmýri, við Mýrargötu, við Hlemm og á Ártúnshöfða, að vera leigu- og búseturéttaríbúðir.

Greinargerð fylgir tillögunni. R10110019
Vísað til umsagnar skipulagsráðs.

15. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 4. þ.m.:

Innri endurskoðun verði falið að gera úttekt á rekstri, rekstrarfyrirkomulagi og hlutverki Félagsbústaða og skila til borgarráðs.

Greinargerð fylgir tillögunni. R10110019
Samþykkt.

16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 4. þ.m.:

Lagt er til að Félagsstofnun stúdenta verði veitt vilyrði um lóð að Brautarholti 7. Þar megi gera ráð fyrir allt að 100 íbúðum með fyrirvara um niðurstöðu deiliskipulags.

Greinargerð fylgir tillögunni. R10110019
Samþykkt.

17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 4. þ.m.:

Skipulagsráði er falið að kanna möguleika á að fjölga stúdentaíbúðum í tengslum við námsmannaíbúðir á Lindargötureit. Ennfremur verði kannaðir uppbyggingarmöguleikar, í samstarfi við Háskóla Íslands og Félagsstofnun stúdenta, fyrir námsmannaíbúðir á svæði Háskólans, m.a. vestan Suðurgötu.

Greinargerð fylgir tillögunni. R10110019
Samþykkt.

18. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 23. þ.m. um flutning Námsflokka Reykjavíkur að Suðurlandsbraut 32. R11090114
Samþykkt.

19. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 30. f.m. um heimild til að ganga frá uppgjöri bótaskyldu vegna varnarmannvirkis að Kerhólum á Kjalarnesi. R11050056
Samþykkt.

20. Lagður fram dómur Héraðsdóms í máli E845/2010, Miðbæjarbyggð ehf. gegn Reykjavíkurborg. R10010180

21. Lögð fram umsögn fjármálastjóra frá 3. þ.m. um endurskoðun úthlutunar sérkennslu leikskóla og endurskoðun úthlutunarreglna, sbr. bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs frá 16. f.m., sbr. samþykkt menntaráðs 14. s.m. R11090064
Samþykkt með 5 atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá vegna breytinga á reglum um úthlutun sérkennslu til barna í leikskólum. Þakka ber góða vinnu sem liggur að baki þessum hugmyndum, sem snúast að miklu leyti um að stemma stigu við fjölgun greiningartilvika og kostnaði við eftirfylgni með þjónustu við börn. Rétt er hins vegar að geta þess að annar öflugur drifkraftur umræddra breytinga er krafa um sparnað, slík hagræðing er því knúin fram með því að draga úr fjárveitingum og þrengja úthlutunarreglur. Ljóst er að umræddar breytingar munu hafa veruleg áhrif en þær hafa þó ekki verið rýndar með fullnægjandi hætti og því er engan veginn ljóst hvort raunveruleg hagræðing náist. Allt eins er líklegt að kostnaður aukist með því að dreifa umræddri þjónustu á fleiri staði en nú er og fjölga þannig milliliðum, þ.e. til sex þjónustumiðstöðva, miðað við þær forsendur sem nú liggja fyrir. Eðlilegt hefði verið að rýna svo miklar breytingar með ítarlegri hætti. Leiði slík skoðun í ljós að slíkar breytingar séu æskilegar, mælir margt með því að þær verði innleiddar í litlum skrefum, t.d. í tilraunaskyni í einu hverfi til að meta hver þjónustubreytingin er og afleiðingar í fjármálalegu samhengi. Að lokum vilja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ræða í hreinskilni þann kost að fækka fremur þjónustueiningum við sérkennslu og tryggja þannig að fagmennska sérkennslustarfsmanna nýtist betur og að munur á þjónustu milli hverfa verði ekki meiri en nú er.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokks og Samfylkingar óska bókað:

Fulltrúar leikskólaskólastjóra, sérkennslustjóra, sérkennsluráðgjafa, sálfræðinga og annars fagfólks sátu í hópnum og skila hér vandaðri vinnu sem að sjálfsögðu verður metin jafnt og þétt og endurmetin eftir því sem þurfa þykir. Stöðug framúrkeyrsla og vöxtur hefur verið í fjármagni til sérkennslu undanfarin ár sem nauðsynlegt er að stemma stigu við. Ekki er verið að fjölga milliliðum heldur breyta verklagi á úthlutun sem verður nú hverfamiðuð í stað þess að vera á miðlægum grunni, sem hefur skapað meiri fjarlægð. Tilraun verður gerð í tveimur hverfum með ráðgjöf á vettvangi sem miklar vonir eru bundnar við. Fjármálastjóri Reykjavíkurborgar hefur rýnt tillögurnar og telur þær stuðla að betri og markvissari nýtingu fjármuna, meiri gæðum þjónustu og skilvirkari framkvæmd og eftirliti. Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins og regnhlífasamtök foreldra barna með sérþarfir, Sjónarhóll, hafa veitt breytingunum góða umsögn.

22. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 4. þ.m. varðandi endurnýjun rekstrarleyfis. Jafnframt lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 21. apríl varðandi veitingu umsagnar um rekstrarleyfisumsókn Sextán ehf. vegna veitingastaðarins Monte Carlo, Laugavegi 34a. Einnig lagt fram bréf Lögheima frá 20. s.m. varðandi umsögnina. Þá er lögð fram umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 7. júní sl. um málið. Að auki er lagt fram bréf Lögheima frá 14. þ.m., f.h. rekstraraðila Monte Carlo, þar sem óskað er eftir endurnýjun á rekstrarleyfi, ásamt greinargerð með andmælum við umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 7. júní. R08030056
Samþykkt.

23. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 4. þ.m. varðandi endurnýjun rekstrarleyfis. Jafnframt lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 21. apríl varðandi veitingu umsagnar um rekstrarleyfisumsókn Casino ehf. vegna veitingastaðarins Mónakó, Laugavegi 78. Einnig lagt fram bréf Lögheima frá 20. s.m. varðandi umsögnina. Þá er lögð fram umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 7. júní sl. um málið. Að auki er lagt fram bréf Lögheima frá 14. þ.m., f.h. rekstraraðila Mónakó, þar sem óskað er eftir endurnýjun á rekstrarleyfi, ásamt greinargerð með andmælum við umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 7. júní. R08030057
Samþykkt.

24. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá 30. f.m. ásamt tillögum verkefnahóps um rekstur íþróttamannvirkja. R11090230
Vísað til umsagnar íþrótta- tómstundaráðs.

25. Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá 4. þ.m. varðandi stjórnsýsluúttekt byggðasamlaga og tillögur framtíðarhóps SSH. R11100090

26. Lagt fram bréf Minjaverndar frá 27. f.m. varðandi sölu Vaktarabæjarins að Garðastræti 23 og um forkaupsrétt Reykjavíkurborgar. R11090127
Samþykkt.

27. Kynnt er endurskoðun fjárhagsáætlunar Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2011. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra frá 4. þ.m. um erindið. R10110123

28. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs, dags. í dag. R11010039

29. Lagt fram bréf aðstoðarsviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 6. þ.m. varðandi 15 m.kr. fjárveitingu til að endurnýja stjórnkerfi flugráa á sviði Borgarleikhússins. R11100070
Samþykkt með 6 atkvæðum.

30. Lagt fram bréf fjármálastjóra frá 4. þ.m. um breytingar á fyrirkomulagi viðskiptavaktar. R10060030
Samþykkt.

31. Lagt fram svar borgarstjóra frá 5. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um yfirvinnu starfsfólks á sviðunum, sbr. 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. september. R11080085

32. Lagt fram svar borgarstjóra frá 21. f.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna um ferða-, dagpeninga- og risnukostnað á skrifstofu borgarstjóra, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. ágúst sl. R11080076

33. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 5. þ.m.:

Lagt er til að borgarráð veiti kr. 5.000.000 til Höfuðborgarstofu til að standa straum af þeim kostnaði sem hlýst af undirbúningi að stofnun samráðsvettvangs með helstu hagsmunaaðilum á höfuðborgarsvæðinu á sviði ráðstefnu- og viðburðatengdrar ferðaþjónustu sem reiknað er með að taki til starfa eigi síðar en 1. janúar 2011. Niðurstaða könnunar verði borin undir borgarráð.

Greinargerð fylgir tillögunni. R11090126
Samþykkt með 5 atkvæðum.

34. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna ítrekar tillögu sína frá síðasta fundi borgarráðs og furðar sig á því að hún skuli ekki tekin fyrir í dag, enda ljóst að greiningin er brýn og niðurstöður geta leitt til mikilla bóta í vinnubrögðum og verklagi sem lýtur að gerð fjárhagsáætlunar. Tillagan er svohljóðandi:
Borgarráð samþykkir að fela nýráðnum verkefnisstjóra um kynjaða fjárhagsáætlunargerð að greina hvort þörf er á endurskoðun rammaúthlutunar, í ljósi þess að talsverður munur er á yfirvinnu- og akstursgreiðslum borgarinnar til karla og kvenna. Gera má ráð fyrir því að leiðrétting á þessum greiðslum komi til með að hafa áhrif á rekstrarkostnað sviðanna, til hækkunar eða lækkunar eftir því hvaða leiðir verða farnar. Í greiningunni komi fram hvaða áhrif leiðréttingin getur haft fyrir hvert svið um sig og skal þá gera grein fyrir áhrifum hækkunar annars vegar og lækkunar hins vegar. R10100346

35. Lagt fram bréf lögfræðings velferðarsviðs frá 27. f.m., sbr. samþykkt áfrýjunarnefndar velferðarráðs s.d., um afgreiðslu 3 umsókna um lækkun álagðs útsvars. R09100159
Samþykkt.

Fundi slitið kl. 11.05

Dagur B. Eggertsson
Elsa Hrafnhildur Yeoman Júlíus Vífill Ingvarsson
Kjartan Magnússon Oddný Sturludóttir
Óttarr Ólafur Proppé Sóley Tómasdóttir