Borgarráð - Fundur nr. 5183

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð


Ár 2011, fimmtudaginn 29. september, var haldinn 5183. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.00. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Einar Örn Benediktsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Júlíus Vífill Ingvarsson, Óttarr Ólafur Proppé og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Helga B. Laxdal.

Þetta gerðist:


1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 19. september. R11010015

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 8. september. R11010016

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 22. september. R11010018

4. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 21. september. R11010020

5. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 28. september. R11010028
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 6 mál. R11080078

7. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna: R11090102
Nýsamþykkt lög um íbúakosningar og íbúafundi eru mikið framfaraskref fyrir lýðræði í sveitarfélögum, þar sem kveðið er á um að íbúar geti kallað eftir atkvæðagreiðslum og íbúafundum. Þar er þó ekki kveðið á um hvort atkvæðagreiðslur skuli vera ráðgefandi eða bindandi og sveitarstjórnir geta ákveðið hvort undirskriftir frá fimmtungi eða þriðjungi íbúa nægi til að knýja slíkt fram. Þar sem lýðræðið virkar best með skýrum og fyrirfram ákveðnum reglum, samþykkir borgarráð að stofnaður verði starfshópur sem hafi það hlutverk að smíða reglur um hvernig bregðast skuli við, verði kallað eftir atkvæðagreiðslu um afmörkuð viðfangsefni borgarstjórnar. Þar verði skilgreint hlutfall íbúa sem nægir til að kalla fram atkvæðagreiðslur og hvaða þýðingu þær hafa. Hópurinn skilgreini einnig ramma og fyrirkomulag íbúafunda og hvernig niðurstöður þeirra verði nýttar.
Vísað til stjórnkerfisnefndar.

8. Lögð fram samþykkt borgarstjórnar frá 20. þ.m. um að heimsmeistaraeinvígisins í skák verði minnst á næsta ári þegar liðin verða 40 ár frá því að það var haldið, sbr. bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 21. s.m. R11090088

- Kl. 9.10 tekur Hanna Birna Kristjánsdóttir sæti á fundinum.

9. Lögð fram tillaga borgarráðs um samskipti leik- og grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar við trúar- og lífsskoðunarfélög. Einnig er lagt fram að nýju bréf mannréttindastjóra frá 6. júní, sbr. samþykkt mannréttindaráðs s.d. R10100305
Samþykkt með 5 atkvæðum gegn 2.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Með reglum um samskipti leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila við trúar- og lífsskoðunarfélög, sem nú hafa verið samþykktar í borgarráði, er mannréttindaráð dregið að landi í máli sem það hefur haft lítinn sóma af. Allur ferill málsins hefur einkennst af þekkingarleysi á stjórnsýslu og virðingarleysi gagnvart skólasamfélaginu og þeim fjölmörgu sem hafa boðið fram krafta sína í þeim tilgangi að ná sátt í þessu viðkvæma máli. Lögfræðilegt álit borgarlögmanns þess efnis að mannréttindaráð hafi farið út fyrir valdsvið sitt með því að setja leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum samskiptareglur undirstrikar bráðlæti mannréttindaráðs en því miður lítinn sem engan áhuga ráðsins á vönduðum nútímalegum vinnubrögðum. Borgarráð hefur nú fengið þennan kaleik og samþykkt samskiptareglur við trúar- og lífsskoðunarfélög. Þær hafa tekið jákvæðum breytingum frá upphaflegum tillögum mannréttindaráðs en eru þó unnar án þess að stofnað hafi verið til umræðu og samráðs við þá sem láta sig málið varða. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða þess vegna atkvæði gegn tillögunni.

10. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 20. þ.m.:
Lagt er til að útsvarstekjur vegna ársins 2011 verði endurskoðaðar og hækkaðar um 1.630 m.kr. að teknu tilliti til greiðslna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og fjárhagsáætlun ársins verði endurskoðuð til samræmis. Jafnframt er lagt til að af þessum tekjum verði 1.413 m.kr. varið til þess að fjármagna metinn viðbótarkostnað á árinu 2011 vegna kjarasamninga við stéttarfélög starfsmanna.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Einnig lagt fram bréf fjármálastjóra frá 26. þ.m. um útsvarstekjur 2011. R11010129
Samþykkt með 4 atkvæðum.

11. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 20. þ.m.:
Lagt er til að eftirfarandi tekjuspá verði lögð til grundvallar úthlutunar á fjárhagsramma ársins 2012:
Útsvarstekjur nettó eftir framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga: 42.571 m.kr.
Fasteignagjaldatekjur af íbúðarhúsnæði: 2.789 m.kr.
Fasteignagjaldatekjur af atvinnuhúsnæði og opinberu húsnæði: 9.570 m.kr.
Alls er um að ræða 54.930 m.kr.
Greinargerð fylgir tillögunni. R11060068
Samþykkt með 4 atkvæðum.

12. Lögð fram að nýju greinargerð fjármálastjóra frá 19. þ.m. um forsendur fjárhagsáætlunar. R11060068

13. Lögð fram að nýju tillaga borgarstjóra frá 20. þ.m. að rammaúthlutun vegna fjárhagsáætlunar 2012, ásamt greinargerð. R11060068
Samþykkt með 4 atkvæðum.
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:
Borgarráð samþykkir að fela nýráðnum verkefnisstjóra um kynjaða fjárhagsáætlunargerð að greina hvort þörf er á endurskoðun rammaúthlutunar, í ljósi þess að talsverður munur er á yfirvinnu- og akstursgreiðslum borgarinnar til karla og kvenna. Gera má ráð fyrir því að leiðrétting á þessum greiðslum komi til með að hafa áhrif á rekstrarkostnað sviðanna, til hækkunar eða lækkunar eftir því hvaða leiðir verða farnar. Í greiningunni komi fram hvaða áhrif leiðréttingin getur haft fyrir hvert svið um sig og skal þá gera grein fyrir áhrifum hækkunar annars vegar og lækkunar hins vegar.
Tillögunni frestað.

14. Lagt fram minnisblað fjármálaskrifstofu frá 26. þ.m. um samanburð á gjaldskrám sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. R11040020

15. Lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 7. apríl sl. um sameiningu lóða nr. 77 og 79 við Sólvallagötu og nr. 122 við Hringbraut og að gerður verði nýr lóðarleigusamningur í samræmi við deiliskipulag. Jafnframt lagt fram að nýju minnisblað framkvæmda- og eignasviðs frá 8. júní varðandi málið. Þá er lagt fram að nýju minnisblað borgarlögmanns frá 15. þ.m. um málið. R08090043
Samþykkt.

16. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 22. þ.m. varðandi framlengingu leigusamnings um Háuhlíð 9. R10080073
Samþykkt.

17. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs frá 26. þ.m. um yfirtöku Reykjavíkurborgar á leikskólanum Mýri. R11080079
Samþykkt.

18. Lögð fram umsókn Sorpu bs. um lóð undir gasgerðarstöð á eða við núverandi athafnasvæði byggðasamlagsins í Álfsnesi, sbr. erindi framkvæmdastjóra Sorpu bs. frá 8. mars sl. Einnig lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 14. þ.m., ásamt umsögn skipulagsstjóra frá 12. s.m., minnisblað umhverfis- og samgöngusviðs frá 25. mars sl. og umsögn framkvæmda- og eignasviðs frá 14. þ.m. um málið. R11030042
Samþykkt með þeim fyrirvörum sem fram koma í umsögn framkvæmda- og eignasviðs.

19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 30. f.m.:
Sviðsstjórum framkvæmda- og eignasviðs og skóla- og frístundasviðs verði falið að mynda starfshóp til að skoða framtíðarmöguleika og gera tillögur í húsnæðismálum vegna sérskóla fyrir nemendur með þroskahamlanir. Tekið verði mið af og haldið áfram þeirri vinnu sem þegar hefur verið unnin í tengslum við stofnun nýs sérskóla, Klettaskóla, í húsnæði Öskjuhlíðarskóla. Áframhaldandi samráð verði haft við hagsmunaaðila, s.s. foreldra, nemenur og kennara. Hópurinn skili niðurstöðum til skóla- og frístundaráðs og borgarráðs eigi síðar en í nóvember 2011 ásamt kostnaðaráætlunum. Þurfa tillögurnar að liggja fyrir áður en endanlegar ákvarðanir verða teknar um fjárfestingu ársins 2012 ásamt fyrirhugaðri fimm ára áætlun fjárfestinga.

Greinargerð fylgir tillögunni. R11010114
Samþykkt.

20. Lögð fram viljayfirlýsing ríkis og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um eflingu almenningssamgangna, dags. 22. september. R11070014

21. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs, dags. í dag. R11010039
Samþykkt að veita Norrænum músíkdögum að upphæð styrk 1,5 m.kr.

22. Lögð fram styrkumsókn vegna tónleikahalds 46664 samtaka Nelson Mandela.
Samþykkt með 5 atkvæðum og fyrirvara um styrki frá iðnaðarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti og að tónleikarnir verði haldnir. R11070031

23. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir 8 umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R11090001

24. Lögð fram drög að tillögu samgönguráðs að samgönguáætlun 2011-2022. R10010075
Vísað til umsagnar umhverfis- og samgönguráðs, skipulagsráðs og framkvæmda- og eignasviðs.

25. Lagt fram bréf fjármálastjóar frá 11. þ.m. um framgang aðgerðaáætlun Orkuveitu Reykjavíkur. R11030100
Samþykkt.

26. Lagt fram bréf fjármálastjóra frá 22. þ.m. um fyrirkomulag ábyrgðargjalds Orkuveitu Reykjavíkur. R11090108
Samþykkt.

- Kl. 10.35 tekur Björk Vilhelmsdóttir sæti á fundinum og Einar Örn Benediktsson víkur af fundi.

27. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:
Borgarráð samþykkir að Reykjavíkurborg gangi til samstarfs við ríkið og hagsmunaaðila í ferðaþjónustu um markaðsverkefnið Ísland – allt árið og leggi til þess 40 m.kr. á árinu 2011 og jafnháa fjárhæð á ári 2012 og 2013. Menningar- og ferðamálasviði er falin umsjón og eftirfylgni verkefnisins f.h. Reykjavíkurborgar. Framlagið komi af liðnum atvinnumál 07150. Framlög 2012 og 2013 eru með fyrirvara um heimildir í fjárhagsáætlun.
Greinargerð fylgir tillögunni. R11090125
Samþykkt.

28. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 27. þ.m.:
Lagt er til að borgarráð veiti 5 m.kr. til að standa straum af þeim kostnaði sem fellur til hjá Höfuðborgarstofu vegna undirbúnings að stofnun Ráðstefnuskrifstofu Reykjavíkur. Ráðgert er að Ráðstefnuskrifstofan taki til starfa í ársbyrjun 2012. Framlagið komi af liðnum atvinnumál 07150.
Greinargerð fylgir tillögunni. R11090126
Frestað.

29. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:
Borgarráð leggur til að veitt verði 1.170.000 kr. fjárframlag til að standa straum af kostnaði við viðburði í tilefni af 25 ára afmæli leiðtogafundarins í Höfða þann 11. október næstkomandi. Upphæðin færist af liðnum 09205 ófyrirséð.
Greinargerð fylgir tillögunni. R11050011
Samþykkt með 6 atkvæðum.

30. Lögð fram umsögn skrifstofustjóra borgarstjóra frá 27. þ.m. vegna áfangaskýrslu um stoðþjónustu á vegum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. R11090014
Samþykkt.

31. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 27. þ.m.:
Borgarráð samþykkir að veita 1,5 m.kr. til kynningar á vefnum Betri Reykjavík, tekið af gjaldaliðnum 09205 ófyrirséð.
Greinargerð fylgir tillögunni. R10060063
Samþykkt með 4 atkvæðum.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðsflokks óskað bókað:
Það er jákvætt að stefnt sé að auknu samráði við borgarbúa á vefnum, enda hefur verulega skort á raunverulegt og öflugt samráð við íbúa um brýn mál að undanförnu. Það breytir þó engu um þá staðreynd að með þessari leið sem nú er valin felst í raun engin sérstök nýbreytni, enda felst einungis í tillögunni aðgerð sem gefur íbúum tækifæri til umræðu og ábendinga en ekki raunverulegrar ákvarðanartöku. Þannig hefur það lengi verið hjá Reykjavík í gegnum öfluga heimasíðu og ýmis lýðræðisverkefni. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að ekki sé vilji til að halda áfram með tilraunir með beina netkosningu um einstök mál sem gert var við einstaka framkvæmdaþætti í góðri samstöðu allrar borgarstjórnar á síðasta kjörtímabili. Þau verkefni hlutu mikinn hljómgrunn meðal borgarbúa, voru unnin í góðu samstarfi við fagaðila og sérfræðinga, fengu alþjóðlega viðurkenningu og höfðu alla burði til að tryggja Reykjavík þá forystu sem sveitarfélagið á að hafa í þróun virkara íbúalýðræðis.


Fundi slitið kl. 11.26

Dagur B. Eggertsson
Björk Vilhelmsdóttir Elsa Hrafnhildur Yeoman
Júlíus Vífill Ingvarsson Hanna Birna Kristjánsdóttir
Sóley Tómasdóttir Óttarr Ólafur Proppé