Borgarráð - Fundur nr. 5176

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2011, fimmtudaginn 11. ágúst, var haldinn 5176. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.30. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Júlíus Vífill Ingvarsson, Oddný Sturludóttir, Óttarr Ólafur Proppé og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Kristbjörg Stephensen.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 8. ágúst. R11010005

2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 3. ágúst. R11010020

3. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 10. ágúst. R11010028
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R11070078

- Kl. 9.40 tekur Hanna Birna Kristjánsdóttir sæti á fundinum.

5. Staða í kjaraviðræðum við Félag leikskólakennara kynnt. R11080032

6. Lagt fram bréf fjármálastjóra leikskólasviðs frá 9. þ.m. þar sem óskað er heimildar til að hækka rekstrarframlög sjálfstætt starfandi leikskóla vegna nýrra kjarasamninga. R11080036
Samþykkt.

7. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá 9. þ.m. um gerð sóknaráætlunar fyrir höfuðborgarsvæðið. R09080014

8. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 10. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um tillögur að fegrunarviðurkenningum Reykjavíkurborgar 2011. R11080033
Samþykkt.

9. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 8. þ.m. vegna fyrirspurnar borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks um skipan starfshópa, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. apríl. R11040030

10. Lagt fram svar borgarstjóra frá 9. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um fjárstyrki til Ísaksskóla, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. júlí sl. R09050100

11. Lagt fram bréf Austurhafnar-TR frá 19. f.m. um brúarlán og greiðslutryggingu vegna síðustu verkþátta í Hörpu. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra frá 4. þ.m. um málið. R11010037

12. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 8. þ.m. varðandi styrkbeiðni til úrbóta á Hjartagarði vegna verkefnisins Festivall. R11080034
Samþykkt.

13. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 4. þ.m. um framsal byggingarréttar á lóð nr. 15-21 við Freyjubrunn. R11080026
Samþykkt.

14. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 4. þ.m. um framsal byggingarréttar á lóð nr. 16 við Lofnarbrunn. R11080025
Samþykkt.

15. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 2. þ.m. um endurkröfu kostnaðar vegna stjórnsýslukæru. R11020062
Samþykkt.

16. Lagður fram úrskurður mennta- og menningarmálaráðuneytisins frá 20. f.m. um stjórnsýslukæru vegna synjunar á leikskólavist. R11030081

17. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs, dags. í dag. R11010039

18. Lagt fram bréf UNESCO frá 2. þ.m. um að Reykjavíkurborg hafi hlotið titilinn Bókmenntaborg UNESCO. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs frá 9. s.m. um málið, ásamt drögum að samkomulagi Reykjavíkurborgar og Sögueyjunnar Ísland um viðburði og kynningarstarf vegna titilsins.
Þá er lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. s.m.:
Í tilefni af því að Reykjavíkurborg hefur hlotið titilinn Bókmenntaborg UNESCO er lagt til að borgarráð samþykki 2 m.kr. fjárframlag til alþjóðlegrar kynningar í samstarfi við verkefnið Sögueyjan, sem leiðir þátttöku Íslands á bókasýningunni í Frankfurt í haust. Framlag Reykjavíkurborgar greiðist af styrkjalið borgarráðs.
Greinargerð fylgir tillögunni. R09040074
Samþykkt.

Bókun borgarráðs:
Borgarráð fagnar þeim tímamótaáfanga að Reykjavík hafi hlotið titilinn Bókmenntaborg UNESCO. Titillinn er mikilvæg viðurkenning á bókmenntahefð og bókmenntaarfi borgarinnar og þjóðarinnar allrar. Titillinn gefur ótal tækifæri til að efla enn frekar lestraráhuga barna og unglinga, bókmenntaáhuga og bókaútgáfu í Reykjavík, sem og bera hróður okkar frábæru rithöfunda um heim allan. Viðurkenningin mun skapa ótvíræð tækifæri til eflingar ferðamennsku í Reykjavík og enn frekari kynningu á okkar ómetanlegu miðaldabókmenntum. Starfsfólki menningar- og ferðamálasviðs og Borgarbókasafns, sem og þeim fjölmörgu úr bókmenntageiranum sem komu að umsóknarferlinu, eru færðar miklar þakkir fyrir sitt framlag. Til hamingju Reykjavík.

19. Lögð fram umsögn velferðarsviðs, dags. 27. f.m., um styrkbeiðni vegna stofnunar og reksturs athvarfs fyrir konur á leið úr vændi og mansali, sbr. erindi Stígamóta mótt. 30. júní. R11060127
Samþykkt að veita Stígamótum 2 m.kr. styrk til verkefnisins.
Sóley Tómasdóttir vék af fundi við afgreiðslu málsins.

20. Lagt fram bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins frá 5. þ.m. þar sem óskað er eftir að Reykjavíkurborg tilnefni fulltrúa í stýrihóp til að hafa yfirumsjón með heildarrannsókn fornleifa í miðbæ Reykjavíkur. R09090027
Samþykkt að tilnefna borgarminjavörð sem fulltrúa Reykjavíkurborgar í stýrihópinn.

21. Lagt fram að nýju bréf Ísaksskóla frá 4. f.m. um tillögu að samkomulagi milli Reykjavíkurborgar og Ísaksskóla um kaup á fasteignum skólans. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra frá 9. þ.m. um málið.
Þá er lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. í dag:
Lagt er til að borgarráð samþykki að heimila framkvæmda- og eignasviði að kaupa fasteignir Skóla Ísaks Jónssonar á 184 m.kr og greiða skólanum auk þess 15 m.kr vegna viðhaldsframkvæmda á fasteignum skólans sem er að fullu lokið. Seljandi nýtur kaupréttar á fasteignunum til allt að 15 ára á sama raunverði enda stefnir skólinn að því að starfa í eigin húsnæði þegar náðst hafa betri tök á fjármálum skólans. Borgarráð samþykkir jafnframt að heimila framkvæmda- og eignasviði að leigja Skóla Ísaks Jónssonar fasteignirnar undir starfsemi sína. Gert er ráð fyrir að kaupin verði fjármögnuð af handbæru fé.
Greinargerð fylgir tillögunni. R09050100
Frestað.

22. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra og fjármálastjóra Strætó bs. frá 30. júní sl. um fjárhag byggðasamlagsins, stöðu og horfur. R10050008

23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 9. þ.m.:
Borgarráð samþykkir að veita Strætó bs. styrk til að veita almenningi ókeypis strætisvagnaferðir á Menningarnótt þann 20. ágúst nk. Áætlaður kostnaður Reykjavíkurborgar að upphæð 3,5 m.kr. verður greiddur af liðnum ófyrirséð 09205.
Greinargerð fylgir tillögunni. Jafnframt lagt fram erindi formanns stjórnar Menningarnætur um málið. R11070012
Samþykkt.

24. Kynnt er mánaðaruppgjör A-hluta fyrir janúar-maí 2011. R11040014

- Kl. 11.50 víkur Hanna Birna Kristjánsdóttir af fundi.

25. Lagt fram minnisblað fjármálastjóra frá 8. þ.m. um stöðu innheimtumála. R10010068

26. Borgarráðsfulltrúar Vinstri Grænna og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Nú þegar flóknu uppsagnar- og ráðningarferli í tengslum við nýtt skóla- og frístundasvið er lokið er óskað eftir sundurliðuðu yfirliti um kostnað vegna sameininga leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila. Í yfirlitinu komi fram bæði útlagður kostnaður til ráðgjafarfyrirtækja á sviði mannauðsstjórnunar og ráðninga sem og sá kostnaður sem til hefur fallið í vinnustundum og viðbótarkostnaði á menntasviði, leikskólasviði, íþrótta- og tómstundasviði og í Ráðhúsinu. Sömuleiðis er óskað eftir heildarkostnaði vegna uppsagna stjórnenda í leikskólum og hvernig allur sá kostnaður sem til hefur fallið vegna málsins rímar við þann kostnað sem gert hafði verið ráð fyrir í upphafi ferilsins. R11080038

Fundi slitið kl. 12.05

Dagur B. Eggertsson
Elsa Hrafnhildur Yeoman Júlíus Vífill Ingvarsson
Oddný Sturludóttir Óttarr Ólafur Proppé
Sóley Tómasdóttir