Borgarráð - Fundur nr. 5171

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2011, fimmtudaginn 30. júní, var haldinn 5171. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.35. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kjartan Magnússon, Oddný Sturludóttir, Óttarr Ólafur Proppé og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Örn Sigurðsson.

Þetta gerðist:

1. Nýir kjarasamningar kynntir.
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 29. þ.m.:
Lagt er til að borgarráð samþykki fyrirliggjandi kjarasamninga við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, Eflingu – stéttarfélag, Samiðn – Samband iðnfélaga, Rafiðnaðarsamband Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Þroskaþjálfafélag Íslands, Iðjuþjálfafélag Íslands, Stéttarfélag sjúkraþjálfara, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga, Kjarafélag Tæknifræðingafélags Íslands, Verkfræðingafélag Íslands, Verkstjórasamband Íslands, Fræðagarð, Kjarafélag viðskipta- og hagfræðinga, Stéttarfélag lögfræðinga, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og Stéttarfélag háskólamanna á matvæla- og næringarsviði. Þessir kjarasamningar voru undirritaðir fyrir hönd Reykjavíkurborgar með fyrirvara um samþykki borgarráðs. Jafnframt er lagt til að borgarráð veiti fjármálastjóra nauðsynlegar fjárheimildir til að unnt sé að greiða starfsmönnum laun hinn 1. júlí nk. í samræmi við nýja kjarasamninga ofangreindra stéttarfélaga og eftirgreindra stéttarfélaga sem heyra undir kjarasamninga skv. samningsumboði Launanefndar sveitarfélaga, þ.e. Félag grunnskólakennara, Skólastjórafélag Íslands, Félag tónlistarskólakennara og Félag íslenskra hljómlistarmanna.
Greinargerð fylgir tillögunni. R11060113
Samþykkt.

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 20. júní. R11010015

3. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 22. júní. R11010020

4. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 24. júní. R11010021

5. Lögð fram fundargerð menningar- og ferðamálaráðs frá 20. júní. R11010025

6. Lögð fram fundargerð menntaráðs frá 22. júní. R11010026

7. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 29. júní. R11010028
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

8. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 27. júní. R11010030

9. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 23. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 22. s.m., um auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi Grundarstígsreits sem afmarkast af Grundarstíg, Spítalastíg, Þingholtsstræti og Skálholtsstíg. R10070065
Samþykkt.

10. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 23. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 22. s.m., um auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi Túngötureits sem afmarkast af Túngötu, Bræðraborgarstíg, Hávallagötu og Hofsvallagötu. R08010062
Samþykkt.
Kjartan Magnússon vék af fundi við afgreiðslu málsins.

11. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 23. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 22. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðar nr. 98 við Haukdælabraut. R11060100
Samþykkt.

12. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 23. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 22. s.m., um lýsingu vegna yfirstandandi vinnu við aðalskipulag Reykjavíkur. R11060102
Samþykkt.

13. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 23. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 22. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóða nr. 35-37 við Borgartún. R11060101
Samþykkt.

14. Lagt er til að Sigrún Jónsdóttir taki sæti í hverfisráði Grafarholts og Úlfarsárdals í stað Olgu Olgeirsdóttur og að Haukur Ísbjörn Jóhannsson taki sæti varamanns í ráðinu í stað Sigrúnar. R10060060
Samþykkt.

15. Lögð fram fréttatilkynning um fjölgun göngugatna í miðborginni. Jafnframt lagt fram minnisblað umhverfis- og samgöngusviðs frá 29. þ.m. um Laugaveginn sem göngugötu í júlí. Þá er lögð fram tillaga borgarstjóra um að samtökin Miðborgin okkar fái 600 þ.kr. styrk vegna opnunar Laugavegar fyrir gangandi umferð. R11060028
Samþykkt.

16. Lögð fram tillaga að umsögn Reykjavíkurborgar um frumvarp til sveitarstjórnarlaga. R11040064
Samþykkt með smávægilegri breytingu í samræmi við umræður á fundinum.

17. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 17. f.m. um endurnýjun lóðarleigusamninga um hesthúsalóðir við A-tröð, B-tröð, C-tröð og D-tröð í Víðidal. R11050098
Samþykkt.

18. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 24. þ.m. þar sem lagt er til að N31 ehf. verði seldur byggingarréttur fyrir einbýlishús á lóð nr. 74 við Haukdælabraut. R11060109
Samþykkt.

19. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 27. þ.m. um breytingar á fjárhagsáætlun 2011 vegna fjárfestinga. R11010129
Samþykkt með 4 atkvæðum.

20. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 27. þ.m. um 7 m.kr. fjárveitingu vegna uppbyggingar Bjarkarhlíðar við Bústaðaveg. R11060110
Samþykkt.

21. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 27. þ.m. ásamt húsaleigusamningi vegna Gylfaflatar 5. R11060111
Samþykkt.

22. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 27. þ.m. um kaupsamning á tveimur færanlegum kennslustofum við Norðlingaskóla. R11040084
Samþykkt.

23. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra ÍTR frá 24. þ.m., sbr. samþykkt íþrótta- og tómstundaráðs 29. september sl., um að mannréttindaskrifstofa geri ítarlega úttekt á jafnréttismálum í öllum íþróttagreinum og öllum íþróttafélögum. Jafnframt er lögð fram skýrsla mannréttindaskrifstofu um úttektina, dags. í júní 2011. R10090196

Borgarráð þakkar fyrir úttekt á jafnréttismálum íþróttafélaganna og beinir því til ÍTR að fylgja henni eftir. Jafnframt beinir borgarráð því til ÍTR að skýrslan verði kynnt íþróttafélögunum í Reykjavík, ÍBR, UMFÍ og ÍSÍ.

24. Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 14. þ.m.:
Borgarráð samþykkir að beina því til mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar að kanna hvort hægt sé að stuðla að því að hælisleitendur dveljist í Reykjavík meðan fjallað er um hælisumsóknir þeirra af íslenskum stjórnvöldum.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Jafnframt lögð fram umsögn mannréttindastjóra um tillöguna, dags. 29. s.m.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir umsögn Útlendingastofnunar um tillöguna. R11060051
Frestað.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins undrast að ekki hefur verið orðið við beiðni þeirra frá 20. júní um að borgarráð fái umsögn frá Útlendingastofnun vegna málsins. Sú beiðni er hér með ítrekuð um leið og þakkað er fyrir umsögn mannréttindastjóra Reykjavíkur.

- Kl. 11.40 víkur Sóley Tómasdóttir af fundi og Þorleifur Gunnlaugsson tekur þar sæti.

25. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 27. þ.m. ásamt umsögn velferðarsviðs um tillögu borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um hækkun fjárhagsaðstoðar, sbr. 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. s.m. R10090141
Borgarráð tekur undir umsögn velferðarsviðs.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna harmar það að meirihluti borgarráðs skuli hafna hækkun á fjárhagsaðstoð til fátækra skjólstæðinga sinna til jafns við hækkun atvinnuleysisbóta. Þetta er þvert á málflutning meirihlutans til þessa og greinilegt að vilji er ekki lengur fyrir því að vinna gegn sárri fátækt í borginni. Forgangsröðunin er ámælisverð, þar sem samþykkt eru fjárútlát hiklaust til annarra málaflokka en velferðar á meðan fátækt er blákaldur veruleiki allt of margra borgarbúa. Afstaða Besta flokksins og Samfylkingar byggir á rökstuðningi velferðarsviðs og er honum að nokkru leyti svarað hér:
1. Meginrök velferðarsviðs eru þau að endurskoðun grunnfjárhæðar fjárhagsaðstoðar skuli fara „fram í tengslum við vinnslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2012 eins og áður og mælir [sviðið] því ekki með að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoð verði hækkuð nú.“ Sviðið ber fyrir sig 11. grein reglna um fjárhagsaðstoðar þó endurskoðun sé alls ekki óheimil á öðrum tíma ársins. Grunnfjárhæð þeirra sem hafa forsjá með börnum var endurskoðuð til lækkunar 17. febrúar sl., meira en tveimur mánuðum eftir samþykkt fjárhagsáætlunar ársins 2011. Við það tækifæri benti fulltrúi Vinstri grænna á umrædda reglugerð eins og sjá má í bókun frá fundinum, en á þeim tíma þótti reglugerðin ekki bindandi. Rök velferðarsviðs hvað þetta varðar einkennast því af hentistefnu.
2. Velferðarsvið notar lágtekjumörk Hagstofunnar í röksemdafærslu sinni en þau voru kr. 156.900 í ráðstöfunartekjur fyrir einstakling árið 2010. Mörkin voru hinsvegar kr. 160.800 árið 2009 og lækkuðu því um kr. 3.900 á milli ára. Þetta skýrist af því að hæstu uppgefnar tekjur (háar og ofurtekjur) hafa lækkað eftir hrunið sem síðan hafði áhrif á útreikninginn þrátt fyrir það að fátækt ykist. Þetta sýnir hversu varasamt þar er að nota umrædd lágtekjumörk sem mælikvarða á fátækt.
3. Velferðarsvið ber fyrir sig starfshóp um fátækt sem skipaður var þann 14. júlí 2010, áfangaskýrslu hópsins og drög að lokaskýrslu. Hópurinn sem samkvæmt erindisbréfi átti að skila af sér í janúar sl. hefur ekki enn gert það. Skýrslan er því á ábyrgð Bjarna Karlssonar, fulltrúa Samfylkingarinnar og formanns starfshópsins, sem lagði sérstaka áherslu á að leggja hana fram sem drög í vor og því fylgdu loforð um samráð sem ekki hefur verið efnt þrátt fyrir margvíslegar athugasemdir minnihluta hópsins. Aftur notar velferðarsvið það sem því hentar betur. Yfirlýst markmið hópsins og reyndar meirihluta borgarstjórnar var að hækka fólk á fjárhagsaðstoð yfir lágtekjumörk Hagstofunnar fyrir árið 2009, en þau voru þá kr. 160.800 í ráðstöfunartekjur og sú upphæð var nefnd í erindisbréfi hópsins. Nú vitnar velferðarsvið í ósamþykkta skýrslu og notar fátækramörk fyrir árið 2010, sem eru mun lægri og byggir rökstuðning sinn á þeim. Það er nöturlegt að skýrsla starfshóps sem átti að vinna gegn fátækt skuli nú vera notuð til að vinna gegn fátækum.
4. Velferðarsvið mælir gegn hækkun á þeim grundvelli að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sé „fyrst og fremst hugsuð sem tímabundin neyðaraðstoð“ og því hafi „verið litið svo á að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sé að jafnaði lægri en lægstu tekjur eða atvinnuleysisbætur“. Um leið er þó viðurkennt að staðan hafi breyst og þeim fjölgi „stöðugt sem njóta fjárhagsaðstoðar til langs tíma“ sem er í takt við stóraukið langtímaatvinnuleysi. Aftur notar sviðið rök sem henta því. Núverandi meirihluti hækkaði fjárhagsaðstoð til tæplega helmings skjólstæðinga sinna upp að atvinnuleysisbótum um síðustu áramót. Þá var því lýst yfir að vilji væri til að hækka bæturnar meira, en slíkt myndi skaða borgina þar sem hún yrði að standa straum af kostnaði vegna mismunar fjárhagsaðstoðar og atvinnuleysisbóta. Þessari hindrun hefur nú verið rutt úr vegi með hækkun atvinnuleysisbóta 1. júní sl.

26. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs, dags. í dag. R11010039

27. Lagt fram bréf fjármálastjóra frá 27. þ.m. um lánsfjáráætlun vegna lánsfjáröflunar á síðari hluta ársins 2011. R11010153
Samþykkt.

28. Kynnt er þriggja mánaða uppgjör A-hluta janúar til mars. Jafnframt lagt fram yfirlit yfir innkaup framkvæmda- og eignasviðs í janúar-mars 2011. R11060059

29. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra ÍTR frá 24. þ.m., sbr. samþykkt íþrótta- og tómstundaráðs s.d., um stjórnlög unga fólksins. R11010094

30. Lagt fram bréf NASDAQ OMX frá 27. þ.m. um áminningu til Reykjavíkurborgar vegna brota á reglum Kauphallarinnar um birtingu upplýsinga í tengslum við ákvörðun um lánveitingu til Orkuveitu Reykjavíkur. R11040069

31. Lögð fram til kynningar skýrsla verkefnisstjórnar um menningarfána Reykjavíkurborgar. R10060057

32. Lagt fram bréf garðyrkjustjóra frá 29. þ.m., sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs 28. s.m, um breytingu á gjaldskrá fyrir sorphirðu. R11010064
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna vísa til bókana sinna í umhverfis- og samgönguráði.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í fjárhagsáætlun umhverfis- og samgöngusviðs fyrir yfirstandandi ár kemur fram að gjöld vegna sorphirðu eru áætluð kr. 897.907 milljónir en tekjur kr. 961.893 milljónir. Því er reiknað með að tekjur umfram gjöld verði kr. 63.986 milljónir. Borgarlögmaður hefur úrskurðað að Reykjavíkurborg sé óheimilt að hafa tekjur umfram gjöld af sorphirðu. Því er spurt hvort löglega hafi verið staðið að málum við gerð fjárhagsáætlunar sviðsins hvað þetta varðar.

33. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Þar sem boðaðar hafa verið umtalsverðar breytingar á stjórn fiskveiða og fyrirkomulagi í sjávarútvegi, er lagt til að Reykjavíkurborg vinni sérstaka úttekt á áhrif fyrirhugaðra breytinga á atvinnugreinina og atvinnulíf í Reykjavík. R11040003
Frestað.

34. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokkins óska upplýsinga um það hvort tilboð hafi borist vegna reksturs hótels í tengslum við Hörpuna, hvaða afstaða hafi verið tekin til þess máls, af hverjum og hver staða framkvæmda á reitnum sé almennt? R11010037

35. Lagt fram bréf Kjartans Magnússonar, dags. í dag, þar sem hann óskar eftir lausn úr starfshópi vegna 25 ára afmælis leiðtogafundarins. R11050011


Fundi slitið kl. 12.45

Dagur B. Eggertsson

Elsa Hrafnhildur Yeoman Hanna Birna Kristjánsdóttir
Kjartan Magnússon Oddný Sturludóttir
Óttarr Ólafur Proppé Þorleifur Gunnlaugsson