Borgarráð - Fundur nr. 5168

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2011, fimmtudaginn 9. júní, var haldinn 5168. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.35. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Júlíus Vífill Ingvarsson, Karl Sigurðsson, Kjartan Magnússon og Þorleifur Gunnlaugsson.
Fundarritari var Örn Sigurðsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 23. maí. R11010015

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis og Bústaða frá 6. júní. R11010014

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 26. maí. R11010016

4. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Miðborgar frá 7. og 28. apríl og 26. maí. R11010018

5. Lagðar fram fundargerðir innkauparáðs frá 25. maí og 1. júní. R11010020

6. Lagðar fram fundargerðir skipulagsráðs frá 1. og 8. júní. R11010028
B-hluti fundargerðar frá 8. júní samþykktur.

7. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 20. maí R11010032

8. Lögð fram fundargerð stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 30. maí. R11010033

9. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 30. maí. R11010030

10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R11060024

11. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 1. þ.m. um beitingu dagsekta vegna óleyfisframkvæmda á lóð nr. 14 við Bröndukvísl. R11060022
Samþykkt.

12. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 26. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 25. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Vogahverfis vegna leikskólalóðar. R11060029
Samþykkt.

13. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 26. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 23. s.m., um auglýsingu á tillögu vegna deiliskipulags golfvallar við Brautarholt á Kjalarnesi. R11030115
Samþykkt.

14. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 6. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 1. s.m., varðandi aðstöðu rekstraraðila á lóð Hörpunnar. R11060023
Borgarráð tekur undir umsögn skipulagsráðs. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá.

15. Lagt fram til kynningar bréf skipulagsstjóra frá 6. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 1. s.m., varðandi beitingu þvingunarúrræða vegna auðra húsa í miðborginni. Jafnframt lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 13. f.m. varðandi fyrirspurn og svar um aðgerðir vegna auðra húsa, sbr. samþykkt skipulagsráðs 11. s.m., R11060025

16. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 8. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkurborgar vegna Vísindagarða við Háskóla Íslands. R11030020
Samþykkt.

17. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 8. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi Háskóla Íslands vegna Vísindagarða. R10040002
Samþykkt.

18. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 6. þ.m. um leiðréttingu á vísitölu byggingakostnaðar og beiðni um heimild til að leiðrétta útreikning verðbóta í verksamningum til samræmis við vísitöluleiðréttinguna. R11050102

19. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 13. f.m. um leigusamning við Rammagerðina vegna turns á Lækjartorgi. R11050064
Samþykkt.

20. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 16. f.m. um afhendingu Vegagerðarinnar á nokkrum þjóðvegum innan borgarmarka til framkvæmda- og eignasviðs.
Vísað til umsagnar borgarlögmanns. R11050073

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna telur að Reykjavíkurborg ætti að fara í viðræður við ríkið um það að taka yfir viðhald þess hluta gatnakerfisins innan borgarmarka sem tilheyrir ríkinu og jafnframt aðra þætti samgöngumála í Reykjavík.

21. Lagt fram svar borgarstjórafrá 8. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um stöðu Völundarverks, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. apríl sl. R10030022

Borgarráðfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Borgarráðsfulltrúi VG harmar það ef Völundarverk ef lagt niður. Verkefnið, sem fór vel af stað, var atvinnuátaksverkefni fyrir þann hóp Reykvíkinga sem verst er staddur í atvinnumálum; byggingariðnaðarmenn. Metnaðarfullt samstarf fór fram við iðnaðarmennina og menntastofnanir þeirra um að viðhalda gömlu handverki við endurgerð gamalla húsa sem teljast til menningarverðmæta. Aldrei stóð til, eins og lesa má úr svari meirihlutans, að kaupa allar eignir í miðborginni sem eru í niðurníðslu. Verkefnið átti að standa undir sér með því að gera upp sögulega verðmæt hús í eigu borgarinnar, eitt og eitt eða nokkur í einu, gera þau upp með með upprunalegum handtökum og selja þau síðan eftir atvikum með verndarákvæðum. Það er í raun ömurlegt ef borgarrekið verkefni af þessu tagi verður lagt niður og starfsmenn verði þess í stað ráðnir af atvinnuleysisskrá til verktaka. Verði tekin ákvörðun um að leggja Völundarverk niður í þeirri mynd sem það hefur verið yrði það dæmi um ótrúlega skammsýni af hálfu meirihluta borgarstjórnar og áfall fyrir húsvernd í Reykjavík.

22. Lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 21. apríl varðandi veitingu umsagnar um rekstrarleyfisumsókn Casino ehf. vegna veitingastaðarins Mónakó, Laugavegi 78. Jafnframt lagt fram bréf Lögheima frá 20. s.m. varðandi umsögnina. Þá er lögð fram umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 7. þ.m. um málið. R08030057
Frestað.

23. Lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 21. apríl varðandi veitingu umsagnar um rekstrarleyfisumsókn Sextán ehf. vegna veitingastaðarins Monte Carlo, Laugavegi 34a. Jafnframt lagt fram bréf Lögheima frá 20. s.m. varðandi umsögnina. Þá er lögð fram umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 7. þ.m. um málið. R08030056
Frestað.

24. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs frá 24. f.m.:

Lagt er til að Reykjavíkurborg gangi til samstarfs um frekari þróun á möguleikum þess að gera Þríhnúkagíg á Reykjanesi að aðgengilegum ferðamannastað á heimsmælikvarða. Framlag Reykjavíkurborgar felist í 10 m.kr. framlagi í formi nýs hlutafjár til félagsins Þríhnúkar ehf. en verkefni félagsins er að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum, forhönnun mannvirkja og hagræna úttekt sem eru forsendur fyrir framkvæmdum og aðkomu fjárfesta. Framlagið komi af liðnum 07150 atvinnumál.

Greinargerð fylgir tillögunni. R10050090
Samþykkt. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Þríhnjúkagígur á Reykjanesi er náttúruperla sem íbúum ber að varðveita fyrir sig og komandi kynslóðir. Fulltrúi VG leggur ríka áherslu á að ýtrustu kröfur um gróðurvernd, vatnsvernd og vernd gegn spjöllum á hrauni verði gerðar á meðan mögulegar framkvæmdir standa yfir vegna aðgengis að svæðinu og að þær verði afturkræfar eins og kostur er. Jafnframt er bent á að nauðsynlegt er að skilgreina þolmörk svæðisins og virða þau. Það er umhugsunarvert ef þjóðlenda sem þessi verður í höndum félags sem að meirihluta er í höndum einkaaðila.

25. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Austurhafnar-TR frá 2. þ.m. varðandi kaup á búnaði í Hörpuna.

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:

Borgarráð samþykkir að ganga frá samningsbundnum greiðslum að fjárhæð 185,7 m.kr. til Portusar ehf./Totusar ehf. vegna búnaðarkaupa í nýtt tónlistar- og ráðstefnuhús, Hörpu. Litið er á þetta framlag sem stofnfjárframlag til aukningar hlutafjár félagsins og er það fjármagnað af handbæru fé.

Greinargerð fylgir tillögunni. R11010037
Frestað.

26. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir 27 umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R11060001

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna varar við samþykkt vínveitingaleyfa fyrir rekstraraðila með starfsemi á skilgreindum íbúasvæðum.

27. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs, dags. í dag. R11010039
Synjað.

28. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:

Lagt er til að borgarráð samþykki að fela sviðsstjóra velferðarsviðs og sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs að hefja formlegar samningaviðræður við Eir hjúkrunarheimili, Grafarvogskirkju og Korpúlfa vegna fyrirhugaðrar byggingar þjónustumiðstöðvar í Spöng sem hýsa myndi starfsemi þessara aðila. Samningaviðræðurnar byggja á fyrirliggjandi viljayfirlýsingu og samstarfssamningi vegna fyrirætlana um byggingu menningar- og þjónustumiðstöðvar í Spöng.
Þá er lagt til að samhliða þessum samningaviðræðum verði sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs falið að hefja vinnu við endurhönnun hússins og skipa byggingarnefnd sem verði til samráðs um stærð byggingarinnar og útfærslur. Byggingarnefndin verði skipuð fulltrúum frá framkvæmda- og eignasviði, velferðarsviði, Eir, Grafarvogskirkju og Korpúlfum, einum fulltrúa frá hverjum aðila. Frumkostnaðaráætlun gerir ráð fyrir 600 m.kr. til byggingarinnar og að hægt verði að taka hana í notkun 1. apríl 2014 (viðauki 1).

Greinargerð fylgir tillögunni. R08090095
Frestað.

29. Lagður fram úrskurður innanríkisráðuneytis í máli nr. IRR11030371. R10110086

30. Lagt fram að nýju bréf borgarlögmanns frá 29. apríl ásamt umsögn um frumvarp til nýrra sveitarstjórnarlaga. Jafnframt lagt fram bréf framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 18. apríl varðandi umsagnir um frumvarpið. Þá er lögð fram umsögn fjármálastjóra sveitarfélaga innan SSH frá 24. f.m. R11040064
Borgarráð samþykkir umsögn um fyrstu 8 kafla frumvarpsins.

Bókun borgarráðs:

Frumvarp til laga um sveitarstjórnarlög fjallar um mörg grundvallaratriði nærþjónustu við íbúa, lýðræðislega aðkomu þeirra og siðferði stjórnmálanna. Frumvarpið er því gríðarlega viðamikið og mikilvægt að sem flestir eigi þátt í að móta það. Tími fyrir sveitarstjórnir til að gera athugasemdir hefur því miður verið of stuttur. Enda þótt tímabært sé að endurskoða sveitarstjórnarlögin ber ekki brýna nauðsyn til og ekki æskilegt að flýta frumvarpi um svo stórt mál.

31. Lagt fram bréf samgöngustjóra frá 6. þ.m., sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs 31. f.m., um opnun Laugavegar fyrir gangandi vegfarendur. R11060028
Samþykkt. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Fulltrúi Vinstri grænna í borgarráði telur að lokun Laugavegar frá Vatnsstíg að Skólavörðustíg sé tilraunarinnar virði. Tekið er undir það að tilraun sem þessi verður varla marktæk nema að hún standi yfir í mánuð að lágmarki. Komi í ljós að hún hafi skaðleg áhrif á þá sem þarna búa og eða stunda verslun eða annan rekstur ætti það að koma fyllilega til greina að mætast á miðri leið með vistgötuhugmyndum, „shared space“ (samnýttu rými), takmarkaðri umferð, lokun skv. dagatali og/eða tímum dags, Laugavegs-Hverfisgötu létt-strætó, endurhönnun og rýmismyndun o.fl. Eigi tilraun sem þessi að vera marktæk þarf að kanna ýmsa þætti sem koma umhverfinu við á tilraunatímanum. Mælingar verða að taka til alls sólarhringsins og taka til kosta og galla. Fulltrúi VG vill að öðru leyti ítreka þá skoðun að full ástæða er til að nýta betur torg borgarinnar til fegurra mannlífs og tími er kominn til að skoða það alvarlega að loka Austurstræti öllu og Pósthússtræti að Hafnarstræti. Jafnframt þessu ætti að loka götunum í kringum Ingólfstorg og opna torgið með tilheyrandi niðurrifi og tilfærslum húsa út í Fógetagarð.

32. Lögð fram tillaga stjórnkerfisnefndar um að tímabundnar breytingar á skipan verkefna framkvæmda- og eignaráðs og leikskólaráðs sem samþykktar voru í borgarstjórn 15. júní 2010 og áttu að gilda til áramóta en voru framlengdar 1. júlí nk., verði framlengdar til 31. desember 2011, sbr. bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 6. þ.m. R10090091
Vísað til borgarstjórnar.

33. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 6. þ.m. þar sem lagt er til að stofnað verði skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. R11050120
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði geta ekki fallist á fyrirliggjandi tillögu borgarstjóra um stofnun nýs skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar vegna þess hve illa hefur verið unnið að málinu af hálfu meirihlutans og óskir um eðlilegt samráð við minnihluta borgarstjórnar og hagsmunaaðila í borginni hunsaðar. Engin skýr markmið liggja fyrir um hvers vegna farið er í þessar breytingar, ekkert skipurit eða greining á breytingum liggur fyrir og hvergi koma fram vísbendingar eða upplýsingar um hve mikla hagræðingu umræddar tillögur skila í fjármunum talið eða hvernig. Þá hefur formlegum fyrirspurnum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um mörg grundvallaratriði málsins, sem lagðar voru fram á aukafundum menntaráðs og íþrótta- og tómstundaráðs og í borgarráði í apríl, ekki enn verið svarað. Í fyrirliggjandi greinargerð borgarstjóra koma fram ýmsar hugmyndir um þróun skóla- og frístundastarfs í borginni, sem efna hefði átt til ítarlegra umræðna um á vettvangi fagráða, í stjórnkerfisnefnd, í samráði við starfsfólk og aðra hagsmunaaðila áður en tillaga um slíkt var samþykkt af borgarstjórn. Ætla mætti að meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins hefði lært af því hversu illa hefur verið staðið að breytingum á skólahaldi í borginni sl. vetur en það virðist öðru nær, vinnubrögðin eru engu skárri. Á sama tíma og meirihlutinn samþykkti á fundum menntaráðs og ÍTR umfangsmiklar breytingar á skólahaldi var í bakherbergjum án samráðs við minnihluta eða starfsfólk komið fram með nýjar breytingatillögur á yfirstjórn þeirra tveggja málaflokka sem þá þegar voru að fara í viðkvæmar breytingar á skólum og frístundaheimilum í borginni. Engin önnur rök voru gefin en þau að það þyrfti að senda skilaboð til kennara og frístundaráðgjafa um að það væri líka verið að spara í yfirstjórn. Sviðsstjórum menntasviðs og leikskólasviðs verður því sagt upp og nýr sviðsstjóri ráðinn. Mikið breytingaferli í leik- og grunnskólum og frístund er því í uppnámi vegna breytinga hjá yfirstjórn. Engin vinna eða umræða átti sér stað í umræddum fagráðum eða stjórnkerfisnefnd um þessar breytingar og engar tillögur að samþykktum breyttra ráða liggja fyrir eða hafa verið ræddar. Tillögur um hugmyndafræði eða hugmyndir að skipulagi liggja ekki fyrir en þær ættu að sjálfsögðu að vera til grundvallar áður en bæði breytingar á frístundaheimilum og sviðum eiga sér stað eða eru ræddar auk þess að óljóst er hvernig starfsmannahaldi verður háttað í frístundaheimilum. Sjálfsagðar tillögur um að leitað skuli eftir samráði við notendur þjónustunnar, grasrótarsamtök og starfsfólk, eru afdráttarlaust felldar og sýnir að meirihlutinn treystir sér ekki til að bera tillögur sínar undir helstu hagsmunaaðila og freista þess að ná sátt um þær. Það er greinilegt að formaður stjórnkerfisnefndar vill hraða ferlinu og lágmarka umræður um umræddar breytingar eftir því sem kostur er, enda eru þær fyrst og fremst illa unnar og án eðlilegs samráðs. Að auki fela þær í sér tilflutning verkefna frá ÍTR, sem stjórnað er af borgarfulltrúa Besta flokksins, til menntaráðs, sem stýrt er af borgarfulltrúa Samfylkingarinnar. Nú þegar er þekkt að þrír borgarfulltrúar Samfylkingarinnar stýra stærstu málaflokkum borgarinnar og við þessa breytingu eykst vald þeirra enn á kostnað Besta flokksins sem þó fékk kosna 6 borgarfulltrúa í síðustu kosningum. Nú er svo komið að 75#PR af útgjöldum borgarinnar heyra undir málaflokka sem Samfylkingin stjórnar.

34. Lagt fram bréf fræðslustjóra og aðstoðarsviðsstjóra leikskólasviðs frá 5. f.m., sbr. samþykkt menntaráðs 4. s.m., varðandi tillögu um sameiningu skóla- og frístundamála. R10090091
Tillaga um frávísun samþykkt með 4 atkv. gegn 3.

35. Lagt fram svar borgarstjóra frá 9. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna vegna sameiningar menntasviðs, leikskólasviðs og frístundahluta ÍTR sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. apríl. R11010176

36. Lagt fram bréf formanns eigendanefndar Orkuveitu Reykjavíkur frá 3. þ.m. um sameiginlega eigendastefnu fyrir fyrirtækið. R10060067

37. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð Reykjavíkur samþykkir að kannaðir verði möguleikar á hagræðingu í bókasafnsrekstri borgarinnar með samnýtingu húsnæðis, samrekstri og/eða sameiningu bókasafna. T.d. verði skoðað hvort unnt sé að bæta nýtingu skattfjár og auka þjónustu við almenning og skólabörn með samrekstri almenningsbókasafna og skólabókasafna.

Greinargerð fylgir tillögunni. R11060052
Frestað.

38. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:

Borgarráð samþykkir að fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar og njóta fullrar fjárhagsaðstoðar hækki frá og með 1. júní sl. um 12.000 kr. á mánuði til samræmis við hækkun atvinnuleysisbóta.
1. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings, 18 ára eða eldri, sem rekur eigið heimili og fær í dag 149.000 kr. á mánuði hækki í 161.000 kr. á mánuði.
2. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til hjóna/sambúðarfólks sem fá í dag 223.500 kr. á mánuði hækki í 247.500 kr.
3. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings sem býr með öðrum, leigir húsnæði án þinglýsts leigusamnings eða hefur ekki aðgang að húsnæði og fær í dag 125.540 kr. hækki í 137.540 kr.
4. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings sem býr hjá foreldrum og fær í dag 74.500 kr. hækki í 86.500 kr.
5. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til þeirra sem fara með forsjá barns og búa hjá foreldrum og fá í dag 125.540 kr. hækki í 137.540 kr.
6. Fjárhagsaðstoðarþegar sem notið hafa fullrar fjárhagsaðstoðar frá 20. febrúar til 19. maí síðastliðinn fái 50.000 kr. eingreiðslu sem greidd verði út 1. júlí næstkomandi.
7. Fjárhæðir til þeirra sem eru með skerta fjárhagsaðstoð hækki hlutfallsega jafn mikið og að sama skapi fái þeir sem einverra hluta vegna fá skerta fjárhagsaðstoð greidda hlutfallslega eingreiðslu. Eingreiðslan verði aldrei lægri en 12.500 kr. R10090141
Frestað.

39. Lagt fram til kynningar bréf borgarstjóra frá 8. þ.m. um val á Reykvíkingi ársins.

40. Lagt fram bréf lögfræðings velferðarsviðs frá 17. f.m. um endurupptöku á útsvarsmáli. Jafnframt er lögð fram umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 7. þ.m. um málið. R09100159
Borgarráð samþykkir umsögnina.

Fundi slitið kl. 12.47

Dagur B. Eggertsson

Björk Vilhelmsdóttir Elsa Hrafnhildur Yeoman
Júlíus Vífill Ingvarsson Karl Sigurðsson
Kjartan Magnússon Þorleifur Gunnlaugsson