Borgarráð - Fundur nr. 5161

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð


Ár 2011, fimmtudaginn 14. apríl, var haldinn 5161. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.40. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Oddný Sturludóttir, Óttarr Ólafur Proppé og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Örn Sigurðsson.

Þetta gerðist:


1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 7. apríl. R11010011

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis og Bústaða frá 11. apríl. R11010014

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 14. mars. R11010015

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 5. apríl. R11010017

5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 17. mars. R11010018

6. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 13. apríl. R11010028
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

7. Lögð fram fundargerð stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 4. apríl. R11010033

8. Lögð fram drög að nýrri samþykkt um götu- og torgsölu í Reykjavík ásamt bréfi forstöðumanns Höfuðborgarstofu, dags. 11. þ.m. R10080025
Samþykkt.

9. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R11040001

10. Lagður fram dómur Hæstaréttar í máli nr. 437/2010 Garðlist ehf. gegn Reykjavíkurborg. R09080009

11. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 28. f.m. ásamt umsögn skrifstofustjóra umhverfis- og samgöngusviðs frá 15. s.m. um frumvarp til nýrra umferðarlaga. R11030059
Samþykkt með breytingum í samræmi við umræðu.

12. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 12. þ.m. um frumvarp til laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls ásamt umsögn mannréttindastjóra frá 11. þ.m. R11030030
Samþykkt.

13. Lögð fram tillaga fjármálastjóra frá 13. f.m. varðandi reglur um niðurfellingu fasteignaskatta af friðuðum húsum. R10020059
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

14. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 5. þ.m. um skipan starfshóps til að móta gjaldskrárstefnu borgarinnar, sbr. samþykkt borgarstjórnar s.d. R11040020

15. Lögð fram bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundaráðs frá 8. þ.m. og sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 11. s.m. varðandi tillögur um endurbætur á sundstöðum Reykjavíkurborgar. R11040035
Samþykkt.

16. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 8. þ.m. um að fallið verði frá forkaupsrétti byggingarréttar á lóð nr. 16-20 við Freyjubrunn. Jafnframt er lagt til að Íslandsbanki verði handhafi byggingarréttarins á lóðinni í stað JB Byggingafélags ehf., með sömu skilmálum og giltu gagnvart fyrri lóðarhafa.
Samþykkt. R11040039

17. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 11. þ.m. vegna stækkunar og breytinga í framleiðslueldhúsi á Lindargötu 59. R11040041
Samþykkt.

18. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 11. þ.m. ásamt verkstöðuskýrslu nýframkvæmda árið 2011. R11010197

19. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 11. þ.m. ásamt tillögu að framkvæmdum í nýbyggingahverfum, Norðlingaholti, Reynisvatnsás, Úlfarsfelli og við Sléttuveg. R11040042
Samþykkt.

20. Lagt fram að nýju bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 26. f.m. um útboð á 50 metanbifreiðum í smábílaflokki með fráviki vegna afhendingartíma. R09060056
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

21. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 11. þ.m. ásamt drögum að samstarfssamningi velferðarsviðs og Rannsóknar og greiningar ehf. um forvarnarstarf. R11030007
Borgarráð samþykkir samninginn með fyrirvara um samþykkt velferðarráðs.

22. Lagt fram svar borgarstjóra frá 13. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um ávinning af fyrirhugaðri sameiningu grunnskóla, leikskóla og frístundaheimila, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. f.m. R11010176

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna þakkar fyrir þau gögn sem lögð hafa verið fram, þó enn hafi ekki öllum spurningunum verið svarað. Það er alvarlegt og til marks um metnaðarleysi meirihluta Besta flokks og Samfylkingar að menntaráð og íþrótta- og tómstundaráð skuli hafa afgreitt umsagnir sínar án þessara mikilvægu gagna. Spurningum 2.i og 2.j hefur ekki verið svarað, um það hverjir eigi að sinna þeim verkefnum sem rekstrarstjórar frístundamiðstöðva og aðstoðar-verkefnisstjórar í frístundaheimilum hafa unnið fram til þessa og vandséð að hægt verði að fela einhverjum að vinna þá vinnu án viðbótarkostnaðar. Spurningu 2.f hefur ekki heldur verið svarað, þó því hafi verið haldið fram að viðbótarkostnaður vegna skólastjórnunar muni aukast um allt að 16 m.kr. árlega, með sameiginlegri yfirstjórn grunnskóla og frístundaheimila. Að sama skapi hefur spurningu 4 ekki enn verið svarað, þeirri grundvallarspurningu hvort sameiginleg yfirstjórn grunnskóla og frístundaheimila sé forsenda þess að hægt verði að nýta húsnæði ákveðinna grunnskóla betur. Óskað er svara við þessum spurningum áður en frekari ákvarðanir verða teknar.

23. Lagt fram svar borgarstjóra frá 13. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um fyrirhugaðar breytingar í menntakerfinu, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. f.m. R11010176

24. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. þ.m.:
Lagt er til að borgarráð heimili að varið verði allt að 12 m.kr. af stofnfjárfestingalið til tímabundinna endurbóta á svæðinu milli Vonarstrætis, Tjarnargötu og Kirkjustrætis, sem nú er raskað og óaðgengilegt almenningi. Heimildin er háð því skilyrði að afnotasamningur náist við Alþingi um notkun svæðisins til almenningsnota og að mótframlag, að upphæð 3 m.kr., komi frá skrifstofu Alþingis til framkvæmdanna. Er gert ráð fyrir að þetta verði tekið af liðnum götur, torg og opin svæði sem samanlagt nemur 250 m.kr.
Sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs ásamt sviðsstjóra umhverfis- og samgöngusviðs í samráði við skipulagssvið er falið að ganga frá samningi við Alþingi um afnot og framkvæmdir á svæðinu og leggja fyrir borgarráð ásamt tillögum að útfærslu.

Greinargerð fylgir tillögunni. R11040016
Samþykkt. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Það er sjálfsagt og eðlilegt að gengið verði frá svæðinu með sómasamlegum hætti og það verði gert aðgengilegt almenningi. Ekki er þó útséð um að kostnaður vegna framkvæmdanna eigi með réttu að falla á borgarsjóð, enda er lóðin í eigu Alþingis. Því til viðbótar er málið ekki fullunnið, hvorki liggur fyrir vilyrði né samningur við Alþingi vegna málsins. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna situr því hjá við afgreiðslu þess.

25. Lögð fram drög að tillögum starfshóps samgönguráðs um grunnnet almenningssamgangna á Suðvestursvæði, dags. í mars. R11040048
Bókun borgarráðs:
Borgarráð fagnar framkomnum hugmyndum um eflingu almenningssamgangna og felur umhverfis- og samgönguráði og umhverfis- og samgöngusviði að veita umsögn um hugmyndirnar til undirbúnings viðræðna ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um málið.

26. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 13. þ.m. ásamt tillögum vinnuhóps um atvinnumál ungs fólks varðandi sumarstörf. R11030004
Frestað.

27. Lagt er til að Sigurður Eggertsson taki sæti í heilbrigðisnefnd í stað Hjördísar Sjafnar Ingimundardóttur. R11010051
Vísað til borgarstjórnar.

28. Lagt fram minnisblað fjármálastjóra frá 6. þ.m. um forsendur fimm ára áætlunar.
Óskað eftir endurmati á forsendum og sviðsmyndagreiningu fyrir fjárhag borgarinnar í ljósi niðurstöðu Icesavekosninga. R10080085

29. Lagt fram bréf fjármálastjóra frá 13. þ.m. um skuldabréfaútboð í skuldabréfaflokknum RVK 09. R11010153
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

- Kl. 11.50 víkur Hanna Birna Kristjánsdóttir af fundi og Kjartan Magnússon tekur þar sæti.

30. Lagt fram svar borgarstjóra frá 5. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna um ráðningu upplýsingastjóra, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. f.m. R11030101

31. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í fjölmiðlum í dag kemur fram að borgarstjóri hafi neitað að taka á móti fulltrúum frá þýska flotanum sem m.a. er hingað kominn til að tryggja aðgang landsmanna að björgunarþyrlu. Að auki kemur fram að borgarstjóri hafi beitt sér fyrir því að umrædd skip fengju ekki að leggja að í gömlu höfninni, líkt og hefð er fyrir, heldur hafi krafist þess að þau yrðu á öðrum stað. Óskað er svara við því hvernig á þessu máli var haldið og hvaða heimildir borgarstjóri hefur til að beita sér með umræddum hætti, án þess að fara með þá ákvörðun fyrir borgarráð. Einnig er óskað eftir því að þau formlegu samskipti sem borgarstjóri hefur átt við aðila þessa máls verði lögð fram í borgarráði. R09060018

Lagt fram svar borgarstjóra við fyrirspurninni.

32. Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks óska eftir að rætt verði um kjör og starfsumhverfi borgarstarfsfólks á næsta fundi ráðsins. Sérstaklega er óskað eftir upplýsingum um hvort verið sé að skerða kjör starfsfólks með einhverjum hætti, t.a.m. með skertu starfshlutfalli og/eða enn frekari skerðingu á yfirvinnu. Ef svo er, þá óska fulltrúarnir eftir að þau störf verði listuð upp sem og ástæður og afleiðingar aðgerðanna. R11040062

33. Lögð fram skýrsla starfshóps um greiningu tækifæra til samreksturs og/eða sameiningar leikskóla, gunnskóla og frístundaheimila, dags. í febrúar, auk umsagna meirihluta menntaráðs og íþrótta- og tómstundaráðs, dags. 13. þ.m.
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. í dag:
Borgarráð samþykkir eftirfarandi tillögur um samrekstur og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og yfirstjórn skóla og frístundaheimila með vísan til fyrirliggjandi gagna, meðal annars tillagna starfshóps frá febrúar 2011 og á grundvelli úrvinnslu og umsagna menntaráðs og ÍTR:
1. Lagt er til að skoðað verði með heildrænum hætti leik- og grunnskólastarf, svo og frístunda- og félagsstarf barna og unglinga í 111 Reykjavík. Lagt er til að í umboði borgarstjóra verði skipaður starfshópur fulltrúa foreldra og fulltrúa starfsfólks leikskóla, grunnskóla og ÍTR, Þjónustumiðstöðvar Breiðholts, Leiknis, Gerðubergs og annarra hagsmunaaðila. Starfshópurinn leiti leiða til að auka samstarf í efra-Breiðholti í skóla- og frístundastarfi, til að efla félagslegan jöfnuð, árangur, vellíðan og þátttöku barna og unglinga í frístunda- og menningarstarfi. Horfið verður frá aldursskiptingu Hólabrekku- og Fellaskóla og sameiningu Hraunborgar og Aspar og Suðurborgar og Hólaborgar, a.m.k. að sinni. Starfshópurinn taki strax til starfa og skili tillögum til borgarstjóra eigi síðar en 1. apríl 2012. Verkefnið verði tengt átaksverkefninu ,,111 Reykjavík“ sem var hleypt af stokkunum í upphafi kjörtímabilsins.
2. Lagt er til að sameina grunnskólann Ártúnsskóla, leikskólann Kvarnaborg og frístundaheimilið Skólasel. Sameiningin komi til framkvæmda 1. janúar 2012 og leitað verði eftir samstarfi við menntavísindasvið Háskóla Íslands um ráðgjöf og stuðning við innleiðingu breytinganna. Horft verði til framkvæmdarinnar sem tilraunaverkefnis og af því dreginn lærdómur fyrir frekari skólaþróun á næstu árum. Við undirbúning sameiningar verði haft samráð við foreldra, nemendur og starfsfólk.
3. Lagt er til að frestað verði til ársins 2013 að sameina Fossvogsskóla, Kvistaborg og frístundaheimilið Neðstaland og litið verði til reynslu Dalskóla og samreksturs Ártúnsskóla, Kvarnaborgar og Skólasels sem fyrirmyndar.
4. Lagt er til að menntasviði verði falið að koma á samráði við stjórnendur og starfsmenn grunnskólanna í Vesturbæ auk skólaráða og foreldraráða (skólasamfélagið) og koma með tillögur að breytingum á skólastarfi í Vesturbæjar-, Mela-, Granda- og Hagaskóla. Markmiðið er að finna leiðir til að komast hjá því að byggja við þá skóla sem senn komast í húsnæðisþröng vegna nemendafjölgunar. Starfshópur taki til starfa strax og skili tillögum til borgarstjóra eigi síðar en 1. desember 2011.
5. Lagt er til að sameina yfirstjórn Korpuskóla og Víkurskóla 1. janúar 2012. Nemendur í 8.–10. bekk úr Staðahverfi sæki áfram nám í Víkurskóla. Við undirbúning breytinga verði haft samráð við foreldra, nemendur og starfsfólk.
6. Lagt er til að sameina yfirstjórn Borgaskóla og Engjaskóla 1. janúar 2012. Skólastjórnendum verði falið að vinna að auknu samstarfi og/eða sameiningu unglingadeilda skólanna. Stefnumótandi ákvörðun komi til framkvæmda fyrir upphaf skólaársins 2012-2013. Við undirbúning breytinga verði haft samráð við foreldra, nemendur og starfsfólk.
7. Lagt er til að sameina yfirstjórn Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla 1. janúar 2012. Nýjum skólastjórnendum verði falið að vinna að flutningi nemenda á unglingastigi fyrir skólaárið 2012-2013 sem gætu valið um skólavist í Réttarholtsskóla eða Álftamýrarskóla. Við undirbúning breytinga verði haft samráð við foreldra, nemendur og starfsfólk.
8. Lagt er til að Foldaskóli verði heildstæður safnskóli á unglingastigi fyrir nemendur úr Húsaskóla og Hamraskóla. Unnið verði að undirbúningi breytinganna allt næsta skólaár með þátttöku foreldra og starfsfólks og breytingin komi til framkvæmda skólaárið 2012-2013. Samhliða þessum breytingum er lagt til að rekstur Húsaskóla og Hamraskóla verði skoðaður með tilliti til betri nýtingar á húsnæði og hugsanlegrar sameiningar í stjórnun eða sameininga við leikskóla í nágrenninu.
9. Lagt er til að sameina yfirstjórn í neðangreindum leikskólum frá 1. júlí 2011. Lagt er til að þar sem þrír leikskólar verði sameinaðir undir einni stjórn verði stjórnunarhlutfall aukið svo að aðstoðarleikskólastjórar verði tveir á fyrsta starfsári sameinaðs skóla. Lögð verði áhersla á að foreldrar og starfsfólk séu virkir þátttakendur í innleiðingarferli nýrra sameinaðra leikskóla.

Drafnarborg og Dvergasteinn
Barónsborg, Lindarborg og Njálsborg
Hamraborg og Sólbakki
Hlíðaborg og Sólhlíð
Holtaborg og Sunnuborg
Hlíðarendi og Ásborg
Laugaborg og Lækjaborg
Furuborg og Skógarborg
Arnarborg og Fálkaborg
Hálsaborg og Hálsakot
Foldaborg, Foldakot og Funaborg
10. Lagt er til að haustið 2011 verði skóla- og frístundastarf 6-9 ára barna samþætt í einu þjónustuhverfi og jafnframt því undirbúin sameining yfirstjórnar skóla og frístundastarfs í borginni allri.

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. í dag:

Borgarráð samþykkir að hefja undirbúning að sameiningu leikskólasviðs og menntasviðs. Ennfremur verði þau verkefni sem nú eru á skrifstofu tómstundamála á íþrótta- og tómstundasviði hluti af sameinuðu sviði. Verkefnin eru meðal annars umsjón með frístundamiðstöðvum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum og öðru tómstundastarfi barna og ungmenna. Stofnað verði nýtt skóla- og frístundasvið. Stöður sviðsstjóra menntasviðs og leikskólasviðs verði lagðar niður og staða sviðsstjóra sameinaðs sviðs auglýst laus til umsóknar. Borgarstjóra verði falið að skila tillögu að sameiningu ásamt umsögn stjórnkerfisnefndar í byrjun maí en stefnt er að því að nýr sviðsstjóri taki til starfa eigi síðar en 1. júlí næstkomandi.

Greinargerð fylgir tillögunni. R11010176
Frestað.

Fundi slitið kl. 13.15

Dagur B. Eggertsson

Elsa Hrafnhildur Yeoman Júlíus Vífill Ingvarsson
Kjartan Magnússon Oddný Sturludóttir
Óttarr Ólafur Proppé Sóley Tómasdóttir