Borgarráð - Fundur nr. 5154

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2011, fimmtudaginn 3. mars, var haldinn 5154. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.37. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Oddný Sturludóttir, Óttarr Ólafur Proppé og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 2. mars. R11010028

2. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 3 mál. R11020099

3. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 27. f.m. þar sem hann óskar eftir lausn frá starfi frá og með 1. maí nk. R11020104
Samþykkt.

Bókun borgarráðs:

Borgarráð þakkar byggingarfulltrúanum í Reykjavík, Magnúsi Sædal Svavarssyni, farsælt samstarf undanfarin sautján ár. Magnús hefur staðið fyrir miklum umbótum í embætti byggingarfulltrúa á sínum langa starfsferli hjá Reykjavíkurborg, verið framsýnn og í fararbroddi í sínu fagi og sinnt starfi sínu af metnaði og alúð. Borgarráð óskar Magnúsi velfarnaðar um ókomna tíð.

4. Lögð fram skýrsla starfshóps um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila, dags. í febrúar 2011. Jafnframt lögð fram samantekt formanns starfshópsins á tillögum hópsins og áætluðu fjárhagslegu hagræði af þeim. R11010176
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur til að málinu verði frestað.
Tillaga um frestun er felld með 4 atkvæðum gegn 3.

Borgarfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna ítrekar andstöðu sína við sameiningaráform meirihlutans og telur með öllu óásættanlegt að meirihlutinn hafi hafnað því að fresta málinu. Tillögurnar eru afar umfangsmiklar og krefjast meiri yfirlegu en venja er. Vel má vera að einhver tækifæri séu til staðar, en þær tillögur sem hér liggja fyrir virðast vera allt of umfangsmiklar og mikið skortir á þarfagreiningu og rökstuðning. Tillögurnar eru auk þess unnar í andstöðu við fagstéttir, foreldra og minnihluta og geta því varla talist líklegar til árangurs. Nauðsynlegt er að útfæra hagræðingu á öllum öðrum sviðum borgarinnar, sem og stjórnkerfinu áður en snert er við þessari allra viðkvæmustu þjónustu borgarinnar.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

Borgarráð óskar umsagna fjármálaskrifstofu og framkvæmda- og eignasviðs um fjárhagslegt mat á hagræðingu og húsnæðiskostnaði í skýrslunni. Þá vísar borgarráð skýrslunni og tillögunum til umsagnar menntaráðs og íþrótta- og tómstundaráðs. Borgarráð felur jafnframt menntasviði og leikskólasviði að leita umsagna hverfisráða, skólaráða grunnskóla og foreldraráða leikskóla um tillögurnar eftir því sem við á og leggja fyrir menntaráð og eftir atvikum ÍTR áður en ráðin afgreiða umsagnir sínar.

Málsmeðferðartillagan er samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:

Auk sjálfsagðrar umfjöllunar í menntaráði, íþrótta- og tómstundráði og hverfisráðum borgarinnar er lagt til að tillögurnar verði sendar til umsagnar hjá menntavísindasviði HÍ, Félagi grunnskólakennara, Félagi leikskólakennara, Skólastjórafélagi Íslands, Félagi stjórnenda leikskóla, Félagi fagfólks í frítímaþjónustu, Þroskaþjálfafélagi Íslands, Jafnréttisstofu, Samfok, Þroskahjálp og Börnunum okkar. Auk þess verði óskað eftir áliti frá menntamálaráðuneytinu á lögmæti breytinganna, bæði lagabókstafnum og anda laganna. Umsagnirnar verði sendar fagráðunum tveimur og borgarráði.

Tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vísa til greinargerðar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í starfshópnum, þar sem fram kemur að skýrslan, innihald hennar og áhrif, er alfarið á ábyrgð meirihlutans. Bent er á að fjárhagslegur ávinningur af tillögunum er óljós og of lítill miðað við það rask á skólastarfi sem þær hafa í för með sér, auk þess sem faglegur ávinningur virðist enginn. Þannig virðist hagræðing af þessum miklu sameiningaráformum aðeins skila um hálfu prósenti af heildarútgjöldum þeirra þriggja sviða sem unnu að þessari skýrslu þegar tillögur eru að fullu komnar til framkvæmda. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað bent á það að eins stórtækar tillögur og þessar eiga að vinnast í nánu samstarfi við foreldra og starfsfólk. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað lagt fram tillögur um slíkt, allt frá því sl. sumar en meirihlutinn hefur ekki verið reiðubúinn í slíka vinnu sem hefði getað leitt til góðrar sáttar um mikilvæg skref í skólastarfi. Það eru þessi vinnubrögð og þetta virðingarleysi sem valda því að niðurstaðan nú er ómarkviss, tilviljanakennd og án nokkurrar faglegrar framtíðarsýnar um þróun góðs skólastarfs fyrir börnin í borginni.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óska bókað:

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar þakka starfshópi um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar skóla og frístundaheimila sérstaklega fyrir gott og mikið starf við vinnu skýrslunnar og tillagna í kjölfar hennar. Þá vilja borgarráðfulltrúarnir þakka starfsfólki íþrótta- og tómstundasviðs, leikskólaviðs og menntasviðs fyrir gríðarlega mikið og gott starf með starfshópnum. Síðast en ekki síst er foreldrum, starfsfólki grunnskóla, leikskóla og frístundaheimila þakkað fyrir þeirra framlag, ábendingar og þátttöku á hverfafundum og í rýnihópum. Það kemur glöggt í ljós að sú nálgun starfshópsins að horfa á allt lærdómsumhverfi barna óháð sviðum og stofnunum skilar miklum ávinningi fyrir skóla- og frístundastarf, betri nýtingu húsnæðis og þar með fjármuna borgarbúa.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar eftir yfirliti yfir fjölda leik- og grunnskóla og frístundaheimila fyrir og eftir breytingar, sem og kyngreindum upplýsingum um fjölda stjórnenda á sviðunum og hjá borginni í heild fyrir og eftir breytingar. Einnig er óskað eftir upplýsingum um fjölda barna í hverjum skóla, leikskóla og frístundaheimili fyrir og eftir breytingar.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur jafnframt fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í dag birtist á vef Jafnréttisstofu bréf sem sent var til borgarstjóra og formanns borgarráðs 8. febrúar 2011. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna furðar sig á að bréfið hafi ekki verið lagt fram hér í ráðinu og óskar eftir framlagningu þess hið snarasta. Jafnframt er óskað eftir greinargerð frá borgarstjóra um með hvaða hætti verði brugðist við þeim ábendingum sem þar koma fram.

5. Lögð fram drög að erindisbréfi samstarfshóps um samþætt skóla- og frístundastarf 6 til 9 ára barna í Reykjavík, ódags. R11030005
Frestað.

6. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 2. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðar Háskóla Íslands vegna Vísindagarða. Jafnframt lögð fram yfirlýsing framkvæmdastjóra Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. um útfærslu samgöngustefnu og gjaldskyldu á bílastæðum, dags. í dag. R10040002
Auglýsing tillögunnar samþykkt.

Júlíus Vífill Ingvarsson óskar bókað:

Vísindagarðar Háskóla Íslands hafa með yfirlýsingu dagsettri í dag fallist á þá leið, sem ég setti fram á fundi skipulagsráðs í vikunni, að gengið verði frá samgöngustefnu Háskóla Íslands á auglýsingatíma deiliskipulagsins. Þar mun meðal annars verða kveðið á um hvernig gjaldskyldu fyrir bílastæði verður háttað á lóð Vísindagarða. Með tilliti til stærðar Háskóla Íslands og áhrifa hans á umferðarþunga og samgöngur almennt verður Reykjavíkurborg að vera þátttakandi í gerð slíkrar samgöngustefnu enda getur hún haft mikil áhrif á það hvernig stefnan verður að endingu. Enn stendur að ekki er hægt að skilja skipulagslög svo að gjaldskylda á bílastæðum sé hluti af deiliskipulagi. Með tilliti til yfirlýsingar Vísindagarða samþykki ég að senda deiliskipulagstillöguna í auglýsingu enda reikna ég með að ákvæði um gjaldskyldu bílastæða og bráðabirgðabílastæða í tillögunni verði ónauðsynlegt og því ekki ástæða til þess að hafa það í lokaútgáfu skipulagsins.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna vísar í athugasemdir sínar á fyrri stigum málsins við ferli uppbyggingarinnar þar sem ekki er gert ráð fyrir bílakjallara fyrr en í lokaáfanga reitsins. Það mun gera að verkum að mikið bílastæðaflæmi verður til staðar á komandi árum sem mun hafa mikil áhrif á ásýnd og upplifun fólks af svæðinu. Borgarráðsfulltrúinn varar við þeirri þróun að veittur sé afsláttur af sjálfsögðum kröfum um umhverfissjónarmið vegna tímabundinna efnahagsþrenginga.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar vísa til bókana fulltrúa sinna í skipulagsráði.

7. Lagt fram svar borgarstjóra frá 1. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna um stöðu endurvinnslu á Kjalarnesi, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. febrúar, ásamt bréfi sviðsstýru umhverfis- og samgöngusviðs, dags. 28. f.m.
Frestað. R10110109

8. Lögð fram drög að samþykkt og samkomulagi um starfsemi Lánatryggingarsjóðs kvenna, dags. 23. f.m., ásamt bréfi mannréttindastjóra, dags. s.d. R09090104
Samþykkt.

- Kl. 12.35 víkur Oddný Sturludóttir af fundi Björk Vilhelmsdóttir tekur þar sæti.

9. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 28. f.m. varðandi sölu á færanlegum kennslustofum. R10080022
Samþykkt.

10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:

Borgarráð samþykkir að fela sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs að skoða aðgangsstýringu að skrifstofum borgarinnar við Höfðatorg með það að markmiði að gera borgarbúum auðveldara að nálgast alla þá mikilvægu þjónustu sem þar er að fá.

Greinargerð fylgir tillögunni. R09040053
Samþykkt.

11. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs vegna ársins 2011, dags. í dag. R11010071
Samþykkt að veita styrki sem hér segir:
Björgunarsveitir í Reykjavík, 3ja ára styrktarsamningur, 8 m.kr. á ári.
Verkefnið Grænn apríl, 200 þ.kr.
Neytendasamtökin, 500 þ.kr.
Strætókórinn, 150 þ.kr.

Fundi slitið kl. 13.37

Dagur B. Eggertsson
Björk Vilhelmsdóttir Elsa Hrafnhildur Yeoman
Hanna Birna Kristjánsdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson
Óttarr Ólafur Proppé Sóley Tómasdóttir