Borgarráð - Fundur nr. 5151

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2011, fimmtudaginn 17. febrúar, var haldinn 5151. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.34. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Kjartan Magnússon, Oddný Sturludóttir, Óttarr Ólafur Proppé og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:


1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 26. janúar. R11010010

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 5. janúar. R11010012

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis og Bústaða frá 14. febrúar. R11010014

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 31. janúar. R11010016

5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R11010185

6. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 10. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 9. s.m., um auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis vegna lóðar nr. 5 við Sporhamra. R11020041
Samþykkt.

- Kl. 9.37 tekur Hanna Birna Kristjánsdóttir sæti á fundinum.

7. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 10. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 9. s.m., um breytt deiliskipulag suður Seláss. R10120020
Samþykkt.

8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 10. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 9. s.m., um deiliskipulag vegna göngutengingar milli suður Seláss og Norðlingaholts. R10120019
Samþykkt.

9. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 10. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 9. s.m., um breytt deiliskipulag Norðlingaholts. R10120021
Samþykkt.

10. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 10. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 9. s.m., um breytt deiliskipulag Hálsahverfis vegna lóðar nr. 10 við Grjótháls. R11020042
Samþykkt.

11. Lagt fram bréf skipulagsstjóra og sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 15. þ.m. varðandi kostnað vegna hönnunarsamkeppni um Ingólfstorg. R10070075
Samþykkt.

12. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 8. þ.m., við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um stöðu Völundarverks, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. september sl. R10030022

13. Lagt fram bréf sviðsstjóra þjónustu hjá Orkuveitu Reykjavíkur um breytingar á álagningu fráveitugjalda og innheimtu fráveitu- og vatnsgjalda, dags. 3. f.m. Jafnframt lagt fram bréf sama aðila frá 24. s.m. varðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna um málið, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. s.m. R10120074

14. Lagt fram svar borgarstjóra frá 15. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna um afslátt af fráveitugjöldum elli- og örorkulífeyrisþega, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs 27. f.m., ásamt tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um málið sem vísað var til borgarráðs á fundi borgarstjórnar 15. þ.m. R10110130

Samþykkt borgarráðs:

Borgarráð samþykkir að gildandi reglur um lækkun fasteignagjalda elli- og örorkulífeyrisþega árið 2011 taki til fráveitugjalda auk fasteignaskatta, sbr. heimild þess efnis í 4. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Kostnaður vegna þessarar breytingar er talinn nema um 78 m.kr. og er tekinn af ófyrirséðu, kostnaðarstað 09205.

Greinargerð fylgir samþykkt borgarráðs.

15. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. þ.m.:

Borgarráð samþykkir þátttöku Reykjavíkurborgar í samstarfsverkefni með umboðsmanni barna og UNICEF á Íslandi um fræðslu um stjórnarskrána fyrir börn og ungmenni.

Greinargerð fylgir tillögunni. R11010094
Samþykkt.

16. Lögð fram umsögn borgarlögmanns frá 15. þ.m. varðandi umsókn um nýtt lyfsöluleyfi fyrir Laugarnesapótek vegna flutnings lyfjabúðarinnar. R11020017
Samþykkt.

17. Lagður fram úrskurður innanríkisráðuneytisins frá 7. þ.m. í stjórnsýslumáli nr. 54/2010, Arnheiður Jónsdóttir gegn Reykjavíkurborg. R10100289

18. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Spron sjóðsins ses. frá 31. f.m. varðandi stofnun Hverfissjóðs Reykjavíkurborgar og Spron sjóðsins ses. R11020003
Borgarráð samþykkir að Reykjavíkurborg taki að sér vörslu sjóðsins.

19. Lagt fram bréf fjármálastjóra, dags. í dag, varðandi útboð á skuldabréfum. R10050098
Samþykkt.

20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. þ.m.:

Borgarráð samþykkir að auka fjárheimildir menntasviðs á haustönn 2011 um 200 m.kr. Lagt er til að 135 m.kr. verði bætt við úthlutað kennslumagn, 20 m.kr. verði bætt við vegna gæslu nemenda í frímínútum og í matartíma og 45 m.kr. verði bætt við úthlutað fjármagn til forfallakennslu nemenda, eða alls 200 m.kr. Þessum útgjöldum verði mætt annars vegar með hækkun útsvars í 14,48#PR sem taki gildi 1. júlí 2011, sem áætlað er að nemi 115 m.kr. og hins vegar verði 85 m.kr. ráðstafað af liðnum ófyrirséð, kostnaðarstað 09205.

Greinargerð fylgir tillögunni. R11010129
Vísað til borgarstjórnar.

21. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. þ.m.:

Borgarráð samþykkir að álagningarhlutfall útvars árið 2011 verði hækkað úr 14,4#PR í 14,48#PR og taki breytingin gildi 1. júlí 2011. Áætlaður tekjuauki borgarsjóðs á árinu 2011 nemur um 115 m.kr.

Greinargerð fylgir tillögunni. R10110129
Vísað til borgarstjórnar.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Eftir efnahagshrun hafa sameiginlegir sjóðir borgarbúa rýrnað til muna. Við slíkar aðstæður getur valið verið erfitt, enda stendur það á milli niðurskurðar og tekjuaukningar. Fram til þessa hefur fyrri kosturinn verið valinn, sem hefur bitnað með harkalegum hætti á grunnþjónustu borgarinnar. Á undanförnum tveimur árum hefði mátt koma í veg fyrir niðurskurð upp á nærri tvo milljarða króna, hefðu útsvarsheimildir verið fullnýttar. Það er því fagnaðarefni að meirihluti Besta flokks og Samfylkingar skuli loks hafa samþykkt að fullnýta útsvarsheimild borgarinnar. Að sama skapi er það gleðilegt að draga eigi hluta niðurskurðar undanfarinna ára til baka og koma í veg fyrir hluta niðurskurðarins sem bætast átti við á árinu 2011. Það er þó afar vandræðalegt fyrir meirihlutann að breyta þurfi fjárhagsáætlun með svo umfangsmiklum hætti rétt rúmum mánuði eftir að hún tók gildi. Slíkt á sér vart fordæmi, en það sama má væntanlega segja um stefnuleysið og vinnubrögðin sem viðhöfð hafa verið það sem af er kjörtímabilinu. Fram til þessa hefur ekkert mið verið tekið af sjónarmiðum annarra, hvort sem um er að ræða minnihlutann, starfsfólk borgarinnar, stéttar- og fagfélög, foreldra eða aðra borgarbúa. Þá er rétt að minna á ítrekaðar tillögur frá fulltrúum Vinstri grænna um fullnýtingu útsvars sem var fálega tekið allt þar til í þessari viku. Það hefur leitt til þess að einungis verður hægt að innheimta fullt útsvar á síðari hluta ársins, sem kallar á 115 milljóna hagræðingu sem ella hefði verið óþörf. Slíkt fálæti er óábyrgt með öllu og vekur upp spurningar um hvort meirihlutinn sé starfi sínu vaxinn. Þær breytingar sem nú hafa verið gerðar eru góðra gjalda verðar en langt er í land, eigi fjárhagsáætlunin að teljast ásættanleg, sérstaklega fyrir börnin í borginni. Nú er lag fyrir meirihlutann að draga lærdóm af því sem á undan er gengið, hlusta á fleiri sjónarmið og taka á þeim mark. Borgarbúar eiga heimtingu á vönduðum vinnubrögðum og sanngjarnri forgangsröðun, en það mun aldrei verða ef meirihlutinn ætlar áfram að stjórna og ákveða einn síns liðs. Meðal borgarbúa er mikil þekking og reynsla, ásamt ótal skoðunum, ábendingum og ráðum. Það er kominn tími til að leggja við hlustir.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Sem fyrr eru borgarfulltrúar Sjálftæðisflokksins algjörlega andvígir hækkun útsvars á borgarbúa. Sú andstaða mun koma skýrt fram þegar borgarstjórn tekur málið til formlegrar afgreiðslu á næsta fundi borgarstjórnar.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar óska bókað:

Því er hafnað að forgangsröðun hafi verið ósanngjörn fyrir börnin í borginni í fjárhagsáætlun borgarinnar. Sem fyrr var hagrætt mest á framkvæmda- og eignasviði, umhverfis- og samgöngusviði og skipulags- og byggingarsviði. Framlög voru aukin til leikskólasviðs, staðinn vörður um kjör starfsfólks og innra starf leikskólanna, leikskólaplássum var fjölgað um 400 og dagforeldravistun tryggð fyrir 200 börn umfram það sem nú er. Nú hefur verið dregin til baka hagræðing á kennslumagni svo það er nú óbreytt frá fyrra ári, en bætt í varðandi gæslu og forföll. Þá er það mikilvægt að leikskólagjöld og margvísleg önnur gjöld sem fjölskyldufólk stendur frammi fyrir, eru hvað lægst í Reykjavík á landinu.

22. Lögð fram greinargerð borgarlögmanns frá 31. f.m. vegna fyrirspurnar borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um setningu reglna um samskipti skóla og lífsskoðunarhópa, sbr. 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. s.m. R10100305

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Borgarlögmanni eru þökkuð svör þar sem m.a. fram kemur að það sé ekki hlutverk mannréttindaráðs að setja ,,einstökum sviðum og stofnunum Reykjavíkurborgar bindandi reglur um framkvæmd einstakra verkefna eða gera tillögur til borgarráðs þar um.“ Þessi lýsing setur tillögu mannréttindaráðs um fyrirkomulag kennslu og samskipti skóla, trúfélaga og lífsskoðunarhópa í nokkuð sérstakt ljós og vegna þess óska borgarráðsfulltrúar Sjálftæðisflokkins eftir ýtarlegra svari borgarlögmanns um það hvort það hafi verið rétt og/eða eðlileg vinnubrögð af hálfu mannréttindaráðs að taka frumkvæði í umræddu máli með þeim hætti sem gert var?

23. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks frá 3. þ.m.:

Borgarráð felur borgarlögmanni að skoða ráðningarferli vegna nýs forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur og gefa álit sitt á því hvort það samrýmist góðum stjórnarháttum, sem eðlilegt er að séu viðhafðir í opinberu fyrirtæki. Æskilegt er að slíkri skoðun ljúki sem fyrst þar sem umrætt ráðningarferli stendur yfir. Umrætt mál hefur ítrekað verið til umfjöllunar á vettvangi stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og á vettvangi borgarstjórnar. Að öðru leyti er vísað til tillagna og bókana stjórnarmanns Sjálfstæðisflokksins í OR. R10100312

Frestað.

24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks sem vísað var til borgarráðs á fundi borgarstjórnar 15. þ.m., sbr. bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 16. s.m.:

Borgarstjórn leggur til við borgarráð að samráð verði stóraukið við foreldra, starfsfólk og stjórnendur í hagræðingarvinnu þeirri, sem nú á sér stað hjá Reykjavíkurborg. Í þessu skyni verði fulltrúum frá eftirtöldum aðilum boðið að taka sæti í starfshópi um tækifæri til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila til viðbótar þeim fulltrúum, sem þegar hafa verið skipaðir í hópinn: Samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, Samtök foreldrafélaga leikskólabarna í Reykjavík, Kennarafélag Reykjavíkur, starfsfólk í leikskólum, Félag stjórnenda í leikskólum, Félag skólastjórnenda í Reykjavík, starfsfólk frístundaheimila og forstöðumenn frístundamiðstöðva. R11010176

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

Frá lokum 1. málsliðar orðist tillagan svo: Í þessu skyni verði áheyrnarfulltrúar í menntaráði og forstöðumenn frístundaheimila ÍTR, auk starfsfólks frístundaheimila, upplýstir um vinnu starfshópsins og þær hugmyndir sem nú er unnið með, með reglulegum fundum. Áheyrnarfulltrúar í viðkomandi ráðum koma frá eftirtöldum samtökum: Samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, Samtök foreldrafélaga leikskólabarna í Reykjavík, Kennarafélag Reykjavíkur, starfsfólk í leikskólum, Félag stjórnenda í leikskólum, Félag skólastjórnenda í Reykjavík.

Breytingartillagan samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
Tillagan svo breytt samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Það er með hreinum ólíkindum að meirihlutinn hafi hvorki vilja né kjark til að samþykkja fyrirliggjandi tillögu Sjálfstæðisflokksins um stóraukið samráð við foreldra og starfsfólk vegna breytinga í skólastarfi. Sú breytingartillaga sem lögð var fram af meirihlutanum jafngildir því að fella tillöguna, enda um eðlisbreytingu á henni að ræða þar sem einungis er horft til þess að foreldrar og starfsfók fái upplýsingar um starfið en hafi ekki að því beina aðkomu. Að veita slíkar upplýsingar er auðvitað betra en ekkert, en miðað við stöðu málsins og þá miklu óánægju sem er til staðar meðal foreldra og starfsfólks hefði verið farsælt og sjálfsagt að treysta og bæta raunverulegt samráð um þessi stóru mál.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar óska bókað:

Starfshópurinn hefur þegar rætt ákveðið verklag um hvernig fulltrúar starfsfólks og foreldra verði tengdir inn í störf hópsins við rökstuðning tillagna um sameiningar og aðrar breytingar á skipulagi skóla- og frístundaheimila.

25. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna, sem vísað var til borgarráðs á fundi borgarstjórnar 15. þ.m., sbr. bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 16. s.m.:

Borgarstjórn samþykkir að taka til endurskoðunar þá hagræðingarkröfu sem gerð er til menntasviðs til að draga úr kennsluskerðingu í grunnskólum Reykjavíkur. R11010176

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar leggja til að tillögunni verði vísað frá.
Frávísunartillagan samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Frávísun meirihlutans á tillögu Vinstri grænna, sem legið hefur fyrir í næstum viku og lýtur að þeim breytingum sem meirihlutinn kynnti nú í vikunni, er hrein og klár valdníðsla stjórnmálafólks sem ekki getur unað pólitískum andstæðingum þess að fá góðar hugmyndir. Nútímastjórnmálafólki ætti að vera sama hvaðan gott kemur, enda hagsmunir borgarbúa það sem mestu máli skiptir og ákvarðanirnar í þeirra þágu. Meirihluta Samfylkingar og Besta flokks er þó meira umhugað um eignarhald tillagna og eigin ímynd en að ástunda hér nútímaleg og heiðarleg vinnubrögð.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar óska bókað:

Tillagan er óþörf þar sem endurskoðun, sem hefur staðið yfir frá því í byrjun janúar, er lokið. Alltaf lá ljóst fyrir að Reykjavíkurborg myndi líta til viðræðna sveitarfélaganna við ráðherra sem ekki hafa gengið eftir. Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins deilir þeim áhyggjum með foreldrum og skólafólki að of langt hafi verið gengið í hagræðingaraðgerðum innan grunnskólanna síðastliðin ár og því er brugðist við því með aukinni fjárveitingu til menntasviðs.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Það er athyglisvert að meirihlutinn upplýsi nú að fjárhagsáætlun borgarinnar hafi verið í endurskoðun frá því í byrjun janúar. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna, sem jafnframt á sæti í aðgerðahópi borgarráðs um fjármál Reykjavíkurborgar, hefur ekki verið upplýstur um þessa vinnu, sem gefur til kynna viljaleysi meirihlutans til raunverulegs samráðs og vekur upp spurningar um hlutverk og eðli aðgerðahópsins.

- Kl. 11.50 víkur Elsa Hrafnhildur Yeoman af fundi og Einar Örn Benediktsson tekur þar sæti.

26. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur til að forsvarsfólki Barnaheilla verði boðið á fund borgarráðs í næstu viku til að fara yfir niðurstöðu nýrrar skýrslu um ofbeldi gegn börnum og viðbrögð barnaverndarnefnda. R09110105
Samþykkt.

27. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir að fela sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs að endurskoða aðgangsstýringu að skrifstofum borgarinnar við Höfðatorg með það að markmiði að gera borgarbúum auðveldara að nálgast alla þá mikilvægu þjónustu sem þar er að fá.

Greinargerð fylgir tillögunni. R09040053
Frestað.

28. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: R11010176

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar eftir áliti borgarlögmanns á þeim álitaefnum sem komið hafa upp vegna sameiningaráforma meirihlutans á leik- og grunnskólum í borginni. Óskað er eftir svörum við eftirfarandi spurningum, auk ábendinga um annað það sem mögulega kann að orka tvímælis lagalega í því ferli sem nú fer senn að ljúka:
1. Í ljósi þess að grunn- og leikskólar starfa ekki eftir sömu lögum, eftir hvaða lögum ættu sameinaðir grunn- og leikskólar að starfa?
2. Hvaða reglur vinnuréttar gilda að öðru leyti um starfsmenn hverjum í annars starf?
3. Má ætla að grunnskólar uppfylli jafnan þær kröfur sem gerðar eru í reglugerð um starfsumhverfi leikskóla til leikskólastarfs? Hvaða áhrif, ef einhver, myndu ákvæði grunnskólalaga hafa á rekstur leikskóla?
4. Í greinargerð með lögum um leikskóla kemur fram: „Mikilvægt er að við ákvörðun um samrekstur, hvort sem er tveggja eða fleiri leikskóla eða leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla, ráði staðbundnar aðstæður og fagleg sem rekstrarleg sjónarmið enda er þessi breyting einkum hugsuð fyrir þau sveitarfélög sem m.a. vegna fámennis gætu betur hagað sínu skólahaldi, rekstrarlega og faglega, með samrekstrarformi. Með ákvæðinu er einnig verið að opna fyrir fjölbreytni, sveigjanleika og þróun í skólastarfi í þágu barna en ekki til samreksturs stórra fjölmennra skóla né heldur sameiningar marga skóla undir einum skólastjóra.“ Því er óskað eftir mati borgarlögmanns á því hvort fyrirhugaðar breytingar fari gegn anda laganna, þó mögulega megi túlka lagabókstafinn sjálfan í þeirra þágu.

29. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 9. þ.m., sbr. samþykkt áfrýjunarnefndar velferðarráðs 8. s.m., um afgreiðslu 27 umsókna um lækkun álagðs útsvars. R09100159
Samþykkt.


Fundi slitið kl. 12.15

Dagur B. Eggertsson

Einar Örn Benediktsson Hanna Birna Kristjánsdóttir
Kjartan Magnússon Oddný Sturludóttir
Óttarr Ólafur Proppé Sóley Tómasdóttir