Borgarráð - Fundur nr. 5150

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2011, fimmtudaginn 10. febrúar, var haldinn 5150. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 8.40. Viðstödd voru Björk Vilhelmsdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Óttarr Ólafur Proppé og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 3. febrúar. R11010011

2. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 9. febrúar. R11010028
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

3. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 4. febrúar. R11010034

4. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 12 mál. R11010185

5. Kynnt er staða endurfjármögnunar Orkuveitu Reykjavíkur. Jafnframt lagt fram bréf forstjóra Orkuveitunnar, dags. í dag, sbr. samþykkt stjórnar fyrirtækisins 4. þ.m., um tilnefningu fulltrúa í viðræðuhóp um eignasölu. R10100312

- Kl. 9.05 tekur Dagur B. Eggertsson sæti á fundinum og Hjálmar Sveinsson víkur af fundi.
- Kl. 11.05 tekur Oddný Sturludóttir sæti á fundinum og Björk Vilhelmsdóttir víkur af fundi.

Borgarráð skipar borgarlögmann, fjármálastjóra og sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs í viðræðuhóp um kaup eigna í samræmi við samþykkt stjórnar Orkuveitunnar frá 4. febrúar sl. Sömu aðilum er falið að greina helstu álitamál í þessu sambandi og gera borgarráði grein fyrir þeim.

6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra velferðarsviðs frá 4. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 3. s.m., um breytingar á tekju- og eignamörkum vegna félagslegra leiguíbúða. R11020020
Samþykkt.

7. Lagt fram bréf skrifstofustjóra velferðarsviðs frá 4. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 3. s.m., um breytingar á reglum um ferðaþjónustu fatlaðra. R11020021
Samþykkt.

8. Lagt fram bréf skrifstofustjóra velferðarsviðs frá 4. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 3. s.m., um tillögu að gjaldskrá vegna akstursþjónustu eldri borgara og ferðaþjónustu fatlaðra. R11020021
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

9. Lagt fram bréf skrifstofustjóra velferðarsviðs frá 4. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 3. s.m., um breytingar á reglum um akstursþjónustu eldri borgara. R11020021
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
Borgarráðsfulltrúar vísa til bókana fulltrúa sinna í velferðarráði.

10. Lagt fram að nýju bréf slökkviliðsstjóra frá 21. f.m. um gjaldskrá fyrir Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs. R11010168
Borgarráð staðfestir gjaldskrána fyrir sitt leyti með 4 samhljóða atkvæðum.

11. Lögð fram ályktun íþrótta- og tómstundaráðs um atvinnumál ungs fólks frá 28. f.m., sbr. bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs, dags. s.d. R11010198
Frestað.

12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. þ.m.:

1. Varið verði 150 milljónum af liðnum atvinnumál til hefðbundinna átaksverkefna, sbr. reglugerð um vinnumarkaðsaðgerðir, til verkefna í þágu ungs fólks, til virkniverkefna fyrir fólk á fjárhagsaðstoð, til fólks með takmarkaða starfsgetu (fötlun), til nýsköpunarsjóðsverkefna og til að kosta laun sérstaks verkefnisstjóra árið 2011.
2. Skipaður verði sérstakur starfshópur pólitískra fulltrúa sem geri tillögur til borgarráðs um nýtingu þessara fjármuna, en verkefnisstjóri og mannauðsstjóri sjái um útfærslu og nánari framkvæmd.
3. Verkefnisstjóri verði tengiliður borgarinnar við Vinnumálastofnun (VMST) og Atvinnuleysistryggingasjóð. Jafnframt muni hann aðstoða og taka við umsóknum frá fagsviðum um störf við átaksverkefni og taka ákvörðun með mannauðsstjóra um afgreiðslu erinda í samræmi við þau viðmið sem borgarráð setur. Verkefnisstjóri hafi milligöngu um auglýsingar og aðstoði stjórnendur við ráðningar fólks af atvinnuleysisskrá til átaksverkefna.
4. Viðhald bygginga og endurgerð gamalla húsa sem unnin eru sem sérstakt átaksverkefni verði boðin út til verktaka sem ráði til sín starfsmenn af atvinnuleysisskrá. Lögð verði áhersla á samráð við hagsmunaaðila og tiltekinn starfsmaður framkvæmda- og eignasviðs beri ábyrgð á verkefninu.

Jafnframt lögð fram greinargerð mannauðsstjóra og aðstoðarsviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs, ódags. R10060097
Frestað.

13. Lögð fram drög að svari borgarráðs við erindi umboðsmanns Alþingis frá 31. desember sl. varðandi stefnumörkun eigenda Orkuveitu Reykjavíkur, dags. í dag. R11010066
Samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna getur ekki staðið að svari borgarráðs til umboðsmanns Alþingis. Á nýju kjörtímabili hefur engin umræða átt sér stað um þá atburði sem leiddu til athugunar umboðsmanns Alþingis á stjórnsýsluháttum er varða Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og niðurstaða stýrihóps um málefni REI hefur ekki verið kynnt nýjum fulltrúum, hvorki í borgarstjórn, fagráðum né stjórn OR. Því er óljóst með öllu hvort nýir borgarfulltrúar telji sig skuldbundna af niðurstöðunni. Talsverður ágreiningur hefur átt sér stað um hlutverk og rekstur OR það sem af er kjörtímabilinu, bæði milli kjörinna fulltrúa og eins inni í stjórn fyrirtækisins, og af honum má ljóst vera að hluti borgarfulltrúa lítur ekki svo á að niðurstöður stýrihópsins séu skuldbindandi á nýju kjörtímabili. Stærstu ágreiningsmálin hafa lotið að hæfi stjórnarfólks í fyrirtækinu þar sem deilt er um hvort kjörnir fulltrúar skuli gegna stjórnarsetu eða fela umboð sitt öðrum. Ljóst er að þessi ágreiningur varðar umboð til ákvarðanatöku og stefnumótunar og lýtur að meðferð þess valds og eftirlits sem sveitarstjórnirnar fara með sem yfirstjórnir þeirra sveitarfélaga sem eru eignaraðilar að OR. Að sama skapi hefur stjórnarformaður OR látið efasemdir sínar um opinbert eignarhald á orkufyrirtækjum í ljós með afgerandi hætti í fjölmiðlum. Þær skoðanir samræmast illa stefnu meirihluta borgarstjórnar sem lögð var fram á aðalfundi OR sl. sumar þar sem skýrt var kveðið á um að OR ætti að vera í almannaeigu. Þessar efasemdir kalla á ýtarlegar umræður af hálfu eigenda um eignarhald, rekstrarform og hlutverk OR. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna telur miður að nýr meirihluti í Borgarstjórn Reykjavíkur skuli ekki enn hafa farið yfir þá atburði sem áttu sér stað á síðasta kjörtímabili og dregið af þeim lærdóma og telur einsýnt að nokkur tími muni líða áður en sameiginleg eigendastefna með skýrum ákvæðum um umboð og ákvarðanatöku verði tilbúin.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar óska bókað:
Ýtarlegar umræður um hlutverk Orkuveitu Reykjavíkur eru reglulega í gangi á vettvangi borgarstjórnar og í eigendanefnd Orkuveitu Reykjavíkur. Meirihluti borgarstjórnar hefur ítrekað lýst yfir að Orkuveita Reykjavíkur skuli vera í almannaeign.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Síendurteknar yfirlýsingar af hálfu meirihlutans um að eitthvað standi til eða ekki hafa fyrir löngu glatað trúverðugleika sínum, ekki síst þegar borgarstjóri bætir við að engin stefna sé við lýði. Eins og áður hefur komið fram lúta efasemdirnar ekki aðeins að eignarhaldi, heldur umboði og ákvarðanatöku og gildi niðurstaðna stýrihóps borgarráðs. Ekkert kemur fram þess efnis í svari meirihlutans.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Á síðasta kjörtímabili náðist ákveðin sátt í því er varðar rekstrarform OR, bæði með skýrslu starfshóps borgarráðs en einnig með einróma samþykkt stjórnar OR um stefnu fyrirtækisins. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa staðið og munu standa að þeim samþykktum. Sami skilningur kemur fram í bréfi borgarráðs til umboðsmanns Alþingis, en þar segir orðrétt: ,,Enn ríkir um það þverpólitísk samstaða að lýðræðislegt umboð skuli vera skýrt þegar teknar eru meiriháttar ákvarðanir í fyrirtækjum í almannaeigu og að ekki skipti máli þótt slíkt fyritæki starfi á sviði einkaréttar; um slíkt fyrirtæki eigi að gilda almennar reglur opinberrar stjórnsýslu. Það verði gert með skýrum ákvæðum í samþykktum fyrirtækisins þar um.“ Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins líta svo á að þessi yfirlýsing feli í sér að virða beri aðkomu kjörinna fulltúa og borgarstjórnar að málefnum fyrirtækisins.

14. Lögð fram greinargerð starfshóps um greiningu tækifæra til sameiningar eða samrekstrar verkbækistöðva garðyrkjustjóra, þjónustumiðstöðva og hverfastöðva framkvæmda- og eignasviðs, dags. 1. þ.m. R10110080
Borgarráð þakkar starfshópnum og óskar eftir nánari fjárhagslegri greiningu hans á tillögunum.

15. Lagt er til að Heiða Helgadóttir taki sæti Ágústar Más Garðarsonar í velferðarráði. Varamaður í ráðinu í stað Heiðu verði Bjarnveig Magnúsdóttir. R10060089
Vísað til borgarstjórnar.

16. Lagt er til að Brynhildur Davíðsdóttir taki sæti Helgu Jónsdóttur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. R10060008
Vísað til borgarstjórnar.

17. Samþykkt er að Sóley Tómasdóttir taki sæti Þorleifs Gunnlaugssonar í stjórnkerfisnefnd. R10060061

18. Lagt fram tölvubréf Hörpu Elísu Þórsdóttur frá 8. þ.m. þar sem hún óskar eftir leyfi frá störfum í menningar- og ferðamálaráði frá 1. mars til 15. maí nk. R10060078
Vísað til borgarstjórnar.

19. Ákveðið er að haldinn verði sameiginlegur fundur borgarráðsfulltrúa og stjórnkerfisnefndar um fyrirhugaðar stjórnkerfisbreytingar. R10090091

20. Kynnt er vinna starfshóps um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar grunnskóla, leikskóla og frístundaheimila. R11010176

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Á fundinum hafa verið kynntar ýtarlegar hugmyndir um sameiningu uppeldis- og menntastofnana annars vegar og sameiningu verkbækistöðva og hverfastöðva hins vegar. Á sama tíma hefur stjórnkerfisnefnd ekki enn komið sér saman um grunnmarkmið til að hægt sé að hefja vinnu við stjórnkerfisbreytingar hjá Reykjavíkurborg. Þessi vinnubrögð meirihlutans eru til marks um óskýra forgangsröðun og handahófskennda nálgun gagnvart viðfangsefnum borgarinnar. Fulltrúar Vinstri grænna í ráðum og nefndum borgarinnar hafa ítrekað bent á mikilvægi þess að einfalda stjórnkerfið með hagræðingu og aukna nærþjónustu að leiðarljósi enda séu slíkar breytingar forsenda fyrir öðrum ákvörðunum. Meirihlutinn hefur þrátt fyrir það kosið að setja næstum hvern einasta starfsstað borgarinnar í uppnám með tilheyrandi afleiðingum fyrir borgarbúa án þess að sýnt hafi verið fram á samhengi mögulegra breytinga við fyrirhugaðar stjórnkerfisbreytingar. Að lokum ítrekar borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna þá gagnrýni sem fram kom í menntaráði í gær, enda ljóst að vinnubrögð og nálgun meirihlutans gagnvart verkefninu eru óviðunandi með öllu. Vinstri græn munu ekki samþykkja þær hugmyndir sem hér hafa verið lagðar fram og telja þær ekki eiga að koma til umræðu fyrr en áðurnefndar stjórnkerfisbreytingar hafa komið til framkvæmda.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Á fundinum hefur verið kynnt staða vinnu vegna hugmynda sem nú liggja fyrir um sameiningu skóla, leikskóla og frístundaheimila og breytingar á skólastarfi. Ljóst virðist að eitthvað í þessari vinnu hafi farið úrskeiðis ef marka má þau miklu mótmæli sem borist hafa, jafnt frá starfsfólki skólanna, sem og foreldrum í borginni. Í þeim mótmælum er sagt að lítið samráð hafi verið um málið, upplýsingar ófullnægjandi og ónógt tillit tekið til sjónarmiða þeirra sem gleggst til þekkja. Réttmæt gagnrýni er einnig sett fram um það að samhliða svo umfangsmiklum breytingum verði að eiga sér stað samskonar hagræðing í yfirstjórn borgarinnar og almennar stjórnkerfisbreytingar skuli vera hluti af því. Borgarráðsfulltrúar ítreka mikilvægi þess að vinnubrögðin í kringum þessa vinnu séu vönduð, enda augljóst að ekki verður ráðist í slíkar breytingar í skólum borgarinnar nema með öflugri þátttöku starfsmanna og foreldra. Slíkt samráð mun ekki flækja málið, heldur tryggja farsæla lausn.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar óska bókað:
Það hefur ávallt verið leiðarljós starfshópsins að hafa samtalið um hugmyndir að endurskipulagningu sem víðtækast. Það leiðir eðlilega af sér mikið umtal og sterk viðbrögð, bæði jákvæð og neikvæð. Allar breytingar verða rökstuddar og sýnt fram á fjárhagslegan ávinning. Meginmarkmið þessa viðkvæma og vandasama verkefnis er að standa vörð um faglegt skóla- og frístundastarf en skoða allar færar leiðir til að skoða skipulag skóla- og frístundastarfs. Líklegast verða aldrei allir á eitt sáttir um aðferð til að undirbúa breytingar. Fundir í hverfum með fulltrúum foreldra og starfsfólks úr öllum skólum, bæði leik- og grunnskólum og frístundaheimila, voru ekki síst ætlaðir til upplýsingagjafar og sem kveikja að frekari umræðu. Vinnu hópsins er ekki lokið, útreikningar liggja fyrir á næstu dögum og næstu skref verða kynnt eins vel og unnt er fyrir starfsfólki og foreldrum. Mikilvægt er að árétta að 11#PR hagræðing er á miðlæga stjórnsýslu á árinu 2011 og vinna við útfærslu á þeirri hagræðingarkröfu stendur sem hæst.

Fundi slitið kl. 13.45

Dagur B. Eggertsson
Elsa Hrafnhildur Yeoman Hanna Birna Kristjánsdóttir
Júlíus Vífill Ingvarsson Oddný Sturludóttir
Óttarr Ólafur Proppé Sóley Tómasdóttir