Borgarráð - Fundur nr. 5147

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2011, fimmtudaginn 20. janúar, var haldinn 5147. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 8.18. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Einar Örn Benediktsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 6. janúar. R11010011

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis og Bústaða frá 10. janúar. R11010014

3. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 12. janúar. R11010020

4. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 15. desember. R10010031

5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 4 mál. R10120075

6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 13. þ.m. um sölu lóðar nr. 36 við Lindargötu. R10110005
Frestað.

7. Lagt fram bréf fræðslustjóra frá 14. þ.m., sbr. samþykkt menntaráðs 12. s.m., um að fallið verði frá því að skipa fulltrúa í skólanefnd Skóla Ísaks Jónssonar. Samþykkt. R11010115

- Kl. 8.27 tekur Oddný Sturludóttir sæti á fundinum.

8. Lagt fram bréf fræðslustjóra frá 14. þ.m., sbr. samþykkt menntaráðs 12. s.m., um sameiningu Öskjuhlíðarskóla og Safamýrarskóla í nýjum sérskóla. Samþykkt. R11010114

9. Lagt fram bréf innkaupastjóra frá 12. þ.m., sbr. samþykkt innkauparáðs s.d., þar sem mælst er til þess að innkaupareglur Reykjavíkurborgar gildi um opinber innkaup B-hlutafyrirtækja sem að fullu eru í eigu Reykjavíkurborgar. R11010062
Borgarráð tekur undir samþykkt innkauparáðs og felur fulltrúum sínum í stjórnum umræddra fyrirtækja að vinna að því að slíkar breytingar nái fram að ganga hið fyrsta.

10. Lagt fram svar borgarstjóra frá 18. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um innheimtu Landsnets, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. s.m. R11010072

11. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. þ.m.:

Borgarráð samþykkir að húseignirnar að Laugavegi 4 og 6 verði auglýstar til leigu. Gerður verði samningur með eins árs uppsagnarfresti. Sett verði sem skilyrði að í húsunum verði verslunarstarfsemi.

Greinargerð fylgir tillögunni. R11010127
Samþykkt.

12. Lögð fram umsögn borgarlögmanns frá 11. þ.m. um umsókn um lyfsöluleyfi og rekstur nýrrar lyfjabúðar í Kringlunni. R11010059
Samþykkt.

13. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 13. þ.m. varðandi skilmálabreytingu á lánssamningi Grafarvogssóknar. R10080030

14. Lögð fram umsögn borgarlögmanns frá 14. f.m. um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 139/2001 um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur o.fl. R10120012

15. Lögð fram greinargerð innri endurskoðanda frá 10. þ.m. varðandi innra eftirlit með innheimtu útsvarstekna. R11010116

16. Lögð fram greinargerð innri endurskoðanda frá 12. þ.m. um áhættumatsúttekt á mannauðsskrifstofu. R11010117

17. Samþykkt er að skipa Sigrúnu Elsu Smáradóttur í stjórn Lánatryggingarsjóðs kvenna. R09090104

18. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs vegna ársins 2011, dags. í dag. R11010071
Frestað.

19. Lagt fram bréf fjármálastjóra frá 18. þ.m. um að 10 m.kr. framlag til verkefnisins Eldfjallagarður á árinu 2011 færist af kostnaðarstað 09205.
Samþykkt. R10090067

20. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna frá 13. þ.m.:

Borgarráð samþykkir að skipa að nýju þverpólitískan starfshóp borgarfulltrúa til að halda utan um stefnu og áherslur Reykjavíkurborgar í endurskoðun eigenda á eigendasamkomulagi og stofnsamþykkt Strætó bs. R11010103

Samþykkt. Skipan í starfshópinn frestað.

21. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna frá 13. þ.m.:

Borgarráð samþykkir að framlög borgarinnar til Strætó bs. verði endurskoðuð með tilliti til þeirra sjónarmiða sem fram koma í bókunum umhverfis- og samgönguráðs frá 7. desember og 11. janúar sl. R11010103

Tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna er felld með 4 atkvæðum gegn 3.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar óska bókað:

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar fagna því að málefni Strætó séu rædd. Mjög hollt er að skoða og endurmeta gjörðir sínar með reglulegum hætti eins og gert hefur verið síðustu daga varðandi fjárhagsáætlun Strætó bs. Eftir nánari skoðun á þeirri áætlun er það niðurstaða meirihlutans í Borgarstjórn Reykjavíkur að hagræðingarkrafa til Strætó sé ekki meiri en í annarri viðkvæmri þjónustu s.s. leikskólum og grunnskólum. Því séu ekki forsendur fyrir því að draga samþykkta fjárhagsáætlun til baka. Jafnframt er stjórn Strætó bs. hvött til að leita allra leiða til að minnka þá þjónustuskerðingu sem hlýst af þessum aðgerðum eins og mögulegt er. Þá vilja borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar benda á að þessi niðurskurður er tímabundinn. Mikilvægt er að nota tímann á þessu ári til að skoða almenningssamgöngur í Reykjavík ítarlega og meta hvernig þeim verður best komið í framtíðinni. Þá er mikilvægt að viðræðum við ríkisvaldið um aðkomu þess að eflingu almenningssamgangna verði hraðað og niðurstaða fáist sem allra fyrst.

Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi tillögu:

Ekki hafa fengist nein svör við því hvar ákvörðun um hagræðingu hjá Strætó bs. var tekin. Borgarstjóri og formaður borgarráðs segjast ekki hafa komið að ákvörðuninni og henni sést hvergi staður í fundargerðum stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem hún varð að veruleika þrátt fyrir sameiginlega bókun alls umhverfis- og samgönguráðs um að ákvörðunin skyldi tekin til baka. Þar sem þetta fyrirkomulag og þessi óljósu svör samræmast í engu sjálfsagðri kröfu um gagnsæi og rekjanleika ákvarðana leggja borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks til að óskað verði eftir úttekt innri endurskoðunar á þessu afmarkaða máli sem og boðleiðum milli sveitarfélaga, fagráða og fyrirtækisins og leggi niðurstöður sínar fyrir borgarráð hið fyrsta.

Afgreiðslu tillögu borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks er frestað.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Með þessari samþykkt fer meirihluti borgarráðs algjörlega gegn meirihlutanum í umhverfis- og samgönguráði en fyrirliggjandi tillaga er fram komin vegna sameiginlegrar afstöðu umhverfis- og samgönguráðs um að taka skuli umrædda ákvörðun um þjónustuskerðingu til baka. Í umræðum um málefni Strætó í borgarstjórn sl. þriðjudag axlaði enginn borgarfulltrúi meirihlutans ábyrgð á þeirri ákvörðun að ganga til þjónustuskerðingar og gjaldskrárhækkana hjá Strætó. Í þeim umræðum lýsti borgarstjóri því hins vegar yfir að endurskoða skyldi ákvörðunina í ljósi þess að hún virtist hafa verið tekin án formlegrar aðkomu Reykjavíkur. Nú hefur þeirri afstöðu algjörlega verið snúið við með yfirlýsingum um að meirihlutinn hafi í raun tekið þessa ákvörðun, þrátt fyrir að það liggi ekki fyrir hvar hún hafi verið tekin. Þetta er með hreinum ólíkindum og vekur upp spurningar um hver og hvað ráði raunverulega för hjá núverandi meirihluta. Rétt er einnig að minna á að allt umhverfis- og samgönguráð, sem í sitja 3 fulltrúar meirihlutans, bókaði gegn umræddri skerðingu, taldi hana til koma án vitundar þeirra og krafðist þess að hún yrði tekin til baka. Það er ljóst að með þessari ákvörðun svíkur meirihlutinn enn eitt loforðið við kjósendur, fer gegn augljósum meirihluta í Borgarstjórn Reykjavíkur og staðfestir að ákvarðanir um svo mikilvæg mál eru tekin án þess að nokkur kannist við þær, hvað þá að nokkur tryggi að þær séu teknar með hliðsjón af hagsmunum Reykjavíkur.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óska bókað:

Fyrsta skref meirihluta Besta flokks og Samfylkingar í átt að eflingu almenningssamgangna er að skerða þjónustu Strætó bs. Ákvörðunin er í beinni andstöðu við stefnu umhverfis- og samgönguráðs borgarinnar sem fer með stefnumótunarhlutverk í málaflokknum og rýrir því ekki aðeins trúverðugleika flokkanna tveggja, heldur einnig stjórnkerfis borgarinnar og hlutverk fagráða. Sérstaklega veikir þessi afgreiðsla trúverðugleika borgarráðsfulltrúa Besta flokksins sem hafa látið til sín taka með róttækum hætti í aðgerðum vegna eignarhalds á auðlindum og orkufyrirtækjum en treysta sér ekki til að grípa til aðgerða þegar þeir eru í aðstæðum til að breyta. Þjónustuskerðing hjá Strætó mun hafa umtalsverð áhrif á fjárhag, umhverfi og möguleika borgarbúa til virkrar þátttöku í samfélaginu og er það miður að meirihlutinn skuli ekki hafa dug í sér til að koma í veg fyrir hana.

22. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. þ.m.:

Borgarráð samþykkir að unnið verði að sameiningu upplýsinga- og vefmála hjá Reykjavíkurborg. Gert er ráð fyrir að sameinuð upplýsinga- og vefdeild verði staðsett í Ráðhúsi. Auglýst verði eftir upplýsingastjóra sem mun leiða undirbúning að stofnun deildarinnar. Fjármagn verði flutt af þjónustuskrifstofu, kostnaðarstað 1285, til undirbúningsins. Unnið verði í góðri sátt við viðkomandi starfsmenn og stjórnendur sviða og stofnana Reykjavíkurborgar. Tillaga um endanlega útfærslu á skipulagi upplýsinga- og vefmála verði lögð fyrir borgarráð eigi síðar en 1. mars næstkomandi. Í tillögunni verði sett fram raunhæf markmið um hagræðingu samfara stofnun upplýsinga- og vefdeildar.

Greinargerð fylgir tillögunni. R11010080
Vísað til stjórnkerfisnefndar.

23. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Orkuveita Reykjavíkur hefur rekið fráveituna frá árinu 2006 en sveitarfélög hafa séð um innheimtu vatns og fráveitugjalda sem hlutfall af fasteignamati þar til á þessu ári. Gjaldið er ekki miðað við notkun heldur fermetrafjölda. Augljóslega getur slíkt viðmið verið ósanngjarnt t.d. fyrir lagerhúsnæði. Þegar hafa borgarráðsfulltrúum borist ábendingar um slíkt. Óskað er upplýsinga um verkferla Orkuveitu Reykjavíkur við innheimtu vatns og fráveitugjalds, hver kostnaður félagsins er vegna innheimtunnar og hver hlutur innheimtukostnaðar er af vatns og fráveitugjaldinu. Þá er óskað upplýsinga um verkferla félagsins ef til greiðslufalls kemur. Óskað er upplýsinga um uppbyggingu gjaldskrár og hversu mikið vatns og fráveitugjald hækkar á þessu ári á þjónustusvæði Orkuveitu Reykjavíkur. Hefur breytt viðmið gjaldsins orsakað mikla hækkun einstakra greiðenda og hugsanlega lækkun annarra? Óskað er eftir dæmum. R10120074

Fundi slitið kl. 9.55

Dagur B. Eggertsson
Einar Örn Benedilktsson Elsa Hrafnhildur Yeoman
Hanna Birna Krstjánsdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson
Oddný Sturludóttir Sóley Tómasdóttir