Borgarráð - Fundur nr. 5134

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2010, miðvikudaginn 13. október, var haldinn 5134. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10.30. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Einar Örn Benediktsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Geir Sveinsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Oddný Sturludóttir og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:


1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 5. október. R10010010

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis og Bústaða frá 11. október. R10010013

3. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 6. október. R10010019

4. Lögð fram fundargerð stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 4. október. R10010032

5. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 28. september. R10010031

6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R10090148

7. Lögð fram að nýju tillaga og greinargerð stýrihóps um staðsetningu og opnunartíma áfengisveitingastaða, dags. 25. maí sl., ásamt bréfi skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 22. f.m., og umsögnum hagsmunaaðila. R09050008
Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi tillögu:
Með vísan til greinargerðar stýrihóps um staðsetningu og opnunartíma áfengisveitingastaða í Reykjavík er lagt til að opnunartími áfengisveitingastaða í miðborginni, þar sem heimilaður hefur verið lengri veitingatími áfengis um helgar, verði styttur um klukkustund í tveimur áföngum. Frá og með næstu áramótum verði opnunartíminn styttur um hálftíma, þ.e. til kl. 5, og að sex mánuðum liðnum aftur um hálftíma, til kl. 4.30. Í stað „kl. 05.30“ í a. lið 3. mgr. 6. gr. málsmeðferðarreglna borgarráðs um veitinga- og gististaði komi því frá og með 1. janúar 2011 „kl. 05.00“, og frá og með 1. júlí 2011 „kl. 04.30“. Að ári liðnu verði farið yfir reynsluna af breytingunni og lagt mat á áhrif hennar.

Tillaga borgarráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar er samþykkt.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna samþykkir tillöguna, en leggur þunga áherslu á að áfram verði unnið að betra sambýli veitingastaða og íbúa í miðborginni. Nauðsynlegt er að frekari vinna fari fram í tengslum við endurskoðun aðalskipulags og að borgaryfirvöld stígi fleiri skref í átt til þess að stytta skemmtanahald í miðborginni um helgar.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins óska bókað:
Besti flokkurinn óskar að bóka að það vanti áfengisstefnu í Reykjavíkurborg, og bendir á að um bann við reykingum á vínveitingastöðum ríki almenn ánægja. Liggur því við að næsta rökrétta skref verði að banna áfengi inni á þessum stöðum, þar sem áfengisneysla hefur margar og alvarlegar afleiðingar í för með sér.

8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 7. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 6. s.m., um synjun á breytingu á aðalskipulagi vegna þéttingarreits við Keilugranda. R10100157
Synjun skipulagsráðs er staðfest.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins minna á samþykkt íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur frá 11. júní sl. þar sem ráðið fór þess á leit við borgarráð að kannaðir yrðu möguleikar á að Reykjavíkurborg leysti til sín lóðina Keilugranda 1 af skipulagsástæðum með það að markmiði að hún muni í framtíðinni að hluta til eða að öllu leyti nýtast í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfs í Vesturbænum.

9. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 7. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 6. s.m., um breytingu á aðalskipulagi vegna gerðar mislægrar göngutengingar milli Seláss og Norðlingaholts yfir Breiðholtsbraut. R06070105
Samþykkt.

10. Lögð fram bréf byggingarfulltrúa frá 16. desember sl., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., og 11. þ.m., varðandi breytt götuheiti í Túnahverfi. R09120077
Samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum. Geir Sveinsson óskar bókað að hann sitji hjá við afgreiðslu málsins.

Bókun borgarráðs:
Í kjölfar samþykktarinnar vill borgarráð leita leiða til þess að gera þessum merku konum enn hærra undir höfði enda löngu tímabært að hlutur kvenna í sögu Íslands hljóti eðlilega vegsemd og virðingu.

11. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 11. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 6. s.m., um dagsektir vegna óleyfisframkvæmda við hús nr. 11 í Skeifunni. R10100202
Samþykkt.

12. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 24. júní sl. varðandi úthlutun byggingarréttar á lóð nr. 68 við Suðurlandsbraut til Skógræktarfélags Reykjavíkur. R10010085
Samþykkt.

13. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 11. þ.m. um sölu á húseigninni á lóð nr. 116-118 við Hringbraut. R10100015
Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að umrætt hús verði sem fyrst flutt af lóð Vesturbæjarskóla og þar lagður upphitaður sparkvöllur með gervigrasi eins og samþykkt var af íþrótta- og tómstundaráði 5. febrúar og 21. maí sl. Rétt er að minna á að samkvæmt úttekt knattspyrnuráðs Reykjavíkur frá febrúar 2010 er lagning sparkvallar með gervigrasi við Vesturbæjarskóla sett efst á forgangslista enda er mikill skortur á íþróttaaðstöðu og leiksvæðum fyrir börn og unglinga í gamla Vesturbænum og brýn nauðsyn að ráðist verði í úrbætur hið fyrsta.

14. Lögð fram umsókn framkvæmdastjóra félagsins Miðborgarinnar okkar um styrk vegna jólamarkaðar á Hljómalindarreit, dags. 27. f.m., ásamt umsögn forstöðumanns höfuðborgarstofu, dags. 30. s.m. R10100004
Umsókninni er synjað með vísan til ákvæða gildandi samnings um stuðning Reykjavíkurborgar við félagið.

15. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 8. þ.m. varðandi viðhorfskönnun sem gerð var meðal foreldra barna á frístundaheimilum. R10100168

16. Lögð fram drög að samstarfssamningi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vegna þjónustu við fatlaða, dags. 11. þ.m., ásamt bréfi framkvæmdastjóra Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. s.d. R09030071
Frestað.

17. Lagt fram bréf skrifstofu borgarhagfræðings frá 24. f.m. um flutning fjármagns milli atvinnuátaksverkefna. R10060097
Samþykkt.

18. Lagt fram bréf hafnarstjóra frá 20. f.m. um endurskoðaða fjárhagsáætlun Faxaflóahafna. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra, dags. 11. þ.m. R09100258
Samþykkt.

19. Lagt fram bréf fjármálastjóra varðandi forsendur 3ja og 5 ára áætlunar Reykjavíkurborgar, dags. 12. þ.m. R10080085

20. Rætt er um langtímaáætlunargerð í fjármálum borgarinnar. R10060052

21. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 12. þ.m. þar sem lagðar eru til breytingar á tímasetningum vegna framlagningar og afgreiðslu fjárhagsáætlunar. Jafnframt lagðar fram reglur um gerð fjárhagsáætlunar frá 7. ágúst 2008. R10050098
Frestað.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Samkvæmt samþykktum um stjórn Reykjavíkurborgar hefur borgarráð umsjón með undirbúningi fjárhagsáætlunar, fjallar um málið og leggur það fyrir borgarstjórn. Í samræmi við það fól borgarráð borgarstjóra að vinna skv. ákveðnu ferli og tímaáætlun fyrr í sumar. Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks telja nauðsynlegt að fyrir liggi frekari upplýsingar áður en hægt er að verða við tillögu borgarstjóra um breytingu á tímaáætluninni, enda kemur fram í greinargerð hans að sviðsstjórum hafi verið falið að vinna ákveðnar hugmyndir sem síðar eigi að mynda grunn að fjárhagsáætlunum sviðanna. Þetta vekur upp spurningar um umboð og vinnubrögð og er því óskað eftir áliti borgarlögmanns á því hvort eðlilegt sé að borgarstjóri feli sviðsstjórum að leggja grunn að fjárhagsáætlun án þess að borgarráð hafi fjallað um málið og samþykkt slíkt verklag. Jafnframt er óskað eftir áliti borgarlögmanns á upplýsingaflæði milli borgarráðs og borgarstjóra, enda hafa litlar sem engar upplýsingar verið lagðar fyrir ráðið við undirbúning fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar óska bókað:
Reglur um gerð fjárhagsáætlunar eru skýrar og kveða á um skyldu og stjórnsýslulega ábyrgð borgarstjóra á undirbúningi fjárhagsáætlunar. Það sést skýrt í meðfylgjandi reglum um gerð fjárhagsáætlunar sem lagðar eru fram borgarráðsfulltrúum til upplýsingar.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna óska bókað:
Reglur sem settar hafa verið um gerð fjárhagsáætlunar breyta ekki samþykktum Reykjavíkurborgar og geta ekki dregið úr ábyrgð borgarráðs varðandi undirbúning og gerð fjárhagsáætlunar.

22. Kynnt er dagskrá fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 14. og 15. október 2010. R06110036

23. Lagt fram svar borgarstjóra frá 12. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna varðandi innheimtuferli fasteignaskatta, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. þ.m. R10100117

24. Lagt fram svar borgarstjóra frá 12. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi fjárhagsáætlanir Strætó bs. og Sorpu bs., sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. þ.m. R09110053

25. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. f.m.:
Lagt er til að borgarráð samþykki eftirfarandi breytingar á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar í þeim tilgangi að auka skilvirkni, efla þjónustu og styrkja innviði Reykjavíkurborgar.
1. Skrifstofa borgarstjóra verði efld í því skyni að styrkja stjórnun og samhæfingu í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar. Skrifstofustjóri borgarstjóra verði æðsti embættismaður í stjórnkerfinu, að borgarstjóra undanskildum. Um tímabundna ráðstöfun er að ræða til eins árs.
2. Undir skrifstofustjóra borgarstjóra heyri sviðsstjórar framkvæmda- og eignasviðs, menningar- og ferðamálasviðs, leikskólasviðs, menntasviðs, ÍTR, skipulagssviðs, umhverfis- og samgöngusviðs og velferðarsviðs. Ennfremur borgarhagfræðingur, fjármálastjóri, forstöðumaður upplýsingatæknimiðstöðvar, innkaupastjóri, mannauðsstjóri, mannréttindastjóri og þjónustustjóri.
Jafnframt samþykki borgarráð meðfylgjandi skipurit.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Jafnframt er lögð fram umsögn stjórnkerfisnefndar um tillöguna frá 11. þ.m., sbr. bréf formanns nefndarinnar, dags. 12. s.m.
Þá er lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í stjórnkerfisnefnd, sem vísað var til borgarráðs:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórnkerfisnefnd leggja til að óskað verði umsagna þeirra embættismanna sem nú heyra beint undir borgarstjóra, um fyrirliggjandi tillögu um umfangsmikla breytingu á ábyrgðarsviði borgarstjóra og samskiptum þeirra við hann. Tillaga um að skrifstofustjóra borgarstjóra verði breytt í æðsta embættismann í stjórnkerfinu að borgarstjóra undanskildum er róttæk breyting á stjórnkerfi borgarinnar og nauðsynlegt er að nákvæm starfslýsing liggi fyrir um hina nýju stöðu. Þá er það fortakslaus krafa að hin nýja staða verði auglýst, enda um æðstu stöðuna í borgarkerfinu að ræða, að undanskildum borgarstjóra. R10090091

Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins felld með 4 atkvæðum gegn 3.
Tillaga borgarstjóra samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óska bókað:
Sú tillaga sem hér liggur fyrir felur í sér miklar breytingar á skipan æðstu embætta borgarinnar, auk þess sem hér er raunverulega um að ræða nýtt starf sem ætlað er að minnka ábyrgðarsvið borgarstjóra. Það er augljóst að auglýsa þarf umrætt starf, enda segir í tillögunni að viðkomandi embættismaður skuli verða ,,æðsti embættismaður í stjórnkerfinu, að borgarstjóra undanskildum“. Það vekur því mikla furðu að meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar skuli hafa fellt tillögu um slíkt og má telja víst að í því felst brot á samþykktum borgarinnar, auk þess sem það er brot á því loforði sem umræddir flokkar gáfu borgarbúum í samstarfsyfirlýsingu sinni, þar sem sagt var að allar stöður yrðu auglýstar. Á þeim stutta tíma sem þessir flokkar hafa verið við völd hefur hins vegar í þrígang verið ráðið í viðamiklar stjórnunarstöður án auglýsingar og alltaf með þeim sömu skýringum að hér sé um tímabundna ráðstöfun að ræða. Það er einfaldlega ekki viðunandi að við þær aðstæður sem ríkja í íslensku samfélagi, þar sem stór hópur hæfileikaríks fólks gengur um án atvinnu, skuli meirihlutinn í Reykjavík ganga fram með þessum hætti. Þessi aðgerð, sem felur í sér að mikið af ábyrgðarsviði borgarstjóra er fært yfir á annan embættismann borgarinnar, vekur einnig upp spurningar um hvort borgarstjóri sé að víkja sér undan ákveðnum skyldum og ábyrgð í sínu starfi. Borgarstjóri hefur hingað til borið ábyrgð og verið yfirmaður rúmlega 20 embættismanna. Sú tenging, sérstaklega hvað varðar rekstur málaflokka og fjármál, hefur verið talin nauðsynleg til að tryggja að borgarstjóri standi vaktina gagnvart þjónustu við íbúa og sé vel upplýstur um allt er því viðkemur. Nú fer þetta vald til þegar ráðins skrifstofustjóra í Ráðhúsinu, sem hvorki var kosinn af borgarbúum né ber sérstaka ábyrgð gagnvart þeim. Hér er því á ferðinni tillaga sem breytir starfi borgarstjóra umtalsvert og slíkt getur meirihlutinn ekki gert án ýtarlegrar lýðræðislegrar umræðu. Ekki hefur verið orðið við beiðnum minnihlutans um að leita álits aðila innan sem utan stjórnkerfisins, auk þess sem engar línur eru í tillögunni settar fram varðandi verksvið, valdsvið og umboð viðkomandi aðila né heldur hver ábyrgð hans er gagnvart borgarráði eða hver samskipti hans eiga að vera við ráðið. Það sem er verst við þessa aðgerð er að hún færir í raun valdið fjær íbúum Reykjavíkur og nær kerfinu sjálfu. Það er ekki góð þróun, hvort sem hún er skilgreind sem tímabundin eða varanleg.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar óska bókað:
Tillaga borgarstjóra um breytingu á skipuriti frá 16. september sl. um að skrifstofustjóri borgarstjóra verði æðsti embættismaður borgarinnar að borgarstjóra undanskildum felur í sér mikilvæga breytingu sem styrkir stjórnun og samhæfingu í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar. Með þessari breytingu er skrifstofustjóra tímabundið falið verkstjórnarhlutverk fyrir hönd borgarstjóra sem borgarritari fór með áður. Miðað er við að ráðningin sé til eins árs. Reykjavíkurborg þarf að fara í miklar hagræðingaraðgerðir á næsta ári og margar hugmyndir hafa komið fram sem snerta fleiri en eitt svið og því er samhæfing í stjórnkerfinu/embættismannakerfinu nauðsynleg. Núverandi skrifstofustjóri tekur á sig auknar skyldur, enda afskaplega vel til þess fallinn, hefur til að bera þekkingu, reynslu og áhuga (þornin þrjú) sem nýtist í þessu krefjandi verkefni. Mýmörg fordæmi eru fyrir slíkum tímabundnum ráðningum og/eða auknum skyldum á stjórnendur. Má þar nefna ráðningu í stöðu skrifstofustjóra borgarstjóra án auglýsingar haustið 2006 og aftur sumarið 2007 til eins árs. Skipulagsstjóri var ráðinn – án auglýsingar og gegndi starfinu í 1 1/2 ár áður en það var auglýst opinberlega. Ráðið var í stöður fjármála- og mannauðsstjóra í eitt ár án auglýsingar árið 2007. Auk þess má geta þess að fastar stöður borgarlögmanns og sviðsstjóra leikskólasviðs voru ekki auglýstar lausar til umsóknar á sínum tíma, heldur var um tilfærslu í starfi að ræða. Breyting á starfi skrifstofustjóra er tímabundin og því er ekki talin ástæða til að auglýsa stöðuna. Með auglýsingu nýs starfs væri verið að fjölga stjórnendum í efsta stjórnunarlagi borgarinnar sem kallar á aukin útgjöld borgarsjóðs. Þá vinnur stjórnkerfisnefnd að heildarendurskoðun á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar og því ekki talið æskilegt að binda hendur nefndarinnar á þessu stigi. Rétt er að geta þess að borgarstjóri leitaði ráðgjafar borgarlögmanns og mannauðsstjóra varðandi heimild til tímabundinnar ráðningar, áður en tillagan var lögð fram í borgarráði. Ennfremur hélt borgarstjóri sérstakan fund með sviðsstjórum og skrifstofustjórum til að kynna þeim málið.

Fundi slitið kl. 12.15

Dagur B. Eggertsson
Einar Örn Benediktsson Elsa Hrafnhildur Yeoman
Geir Sveinsson Júlíus Vífill Ingvarsson
Oddný Sturludóttir Sóley Tómasdóttir